Hér birtast 8 stuttar greinar fyrirsagnir Þeirra eru:
- Áhrif segla á blóðið.
- Getur bólusetning valdið ofnæmi?.
- Heitt te með sítrónu – vörn gegn húðkrabbameini.
- Hómópatalyf og krabbameinsmeðferð.
- Eru fjöldamyndatökur af brjóstum gagnlegar?.
- Kólin mikilvægt fyrir þungaðar konur.
- Ber hindra krabbamein.
- Fjandmaður fólksins.
Áhrif segla á blóðið
Oft hefur verið rætt um að segulsvið og/eða fastir seglar límdir á líkamann hafi áhrif, t.d. til að lina verki. Nýlega rakst ég á stutta grein í Townsend Letter for Doctors and Patients, nóv. 2001 um þetta efni. Þar segir frá grein eftir Walter Rawls, lækni, sem segir að yfir 200 læknisfræðilegar athuganir sýni, að norðurpóll seguls hafi áhrif á allar tegundir kólesterols á innra borð æðanna, hvort sem um er að ræða slagæðar eða bláæðar og hjálpi til við að leysa upp kólesterol útfellingar sem setjast oft innan í æðarnar. Suðurpóllinn, aftur á móti, eykur líkur á því að fituefni hlaðist innan í æðakerfið. Áhrifin á blóðið eru á hinn bóginn þau, að sé segull settur yfir æð , þá eykur norðurpóllinn ónæmisvirkni en suðurpóllinn eykur hæfileika blóðsins til að flytja súrefni. Rawls leggur á það áherslu, hversu mikilvægt er að réttur segulpóll sé notaður. Vegna þess að suðurpóllinn hvetur vöxt hjá öllum lífverum, þar með töldum örverum, ætti alls ekki að nota hann við sýkingar. Norðurpóllinn, á hinn bóginn, hvetur lækningu og heilbrigði frekar en vöxt. Nánari upplýsingar fást á vefsíðunni http://www.gobiomag.com
Getur bólusetning valdið ofnæmi?
Í Bandaríkjunum fór fram könnun á hugsanlegu sambandi á bólusetningu barna og unglinga og aukinnar tíðni ofnæmis og ofnæmistengdra sjúkdóma. 13.944 börn og unglingar frá tveggja mánaða aldri upp í sextán ára tóku þátt í henni (Third National Health and Nutrition Exammation Survey). Athugað var hvort börn sem bólusett voru gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta fengju frekar ofnæmistengda sjúkdóma, heldur en börn sem ekki voru bólusett gegn þessum sjúkdómum. Hlutfallslega tvisvar sinnum fleiri börn sem bólusett voru fengu astma heldur en óbólusett og 63% fleiri höfðu fengið ofnæmistengd vandamál frá öndunarfærunum á síðasta ári heldur en börn sem ekki höfðu verið bólusett.
Vitað er að 50-100% aukning hefur orðið á ofnæmissjúkdómum (í U.S.A) á síðustu tveim áratugum. Þó að aukin mengun og fleiri aukefni í mat kunni að skýra eitthvað af þessari aukningu, kann þó allt eins vel að mega skýra stóran hluta þessarar aukningar með fjölgun á bólusetningum. Athuganir bæði á mönnum og dýrum sýna að bólusetningar gegn áðurnefndum sjúkdómum og stífkrampa einum, valda ofnæmissvörun. Meðan ekki eru þó til fullkomnar sannanir fyrir að bólusetningar valdi ofnæmi, verður fólk þó að vega og meta hvort það telur áhættuna við að bólusetja gegn áðurnefndum sjúkdómum vega meira eða minna en hugsanlegt gagn af henni.
Aðrar heimildir benda á að mikilvægt sé að gefa börnum (og fullorðnum) C-vítamín, bæði fyrir og eftir bólusetningu og að sennilega megi komast hjá flestum óæskilegum aukaverkunum af þeim, aðeins með því að fylgja þeirri einföldu varúðarráðstöfun. Heimild: Alan R. Gaby, læknir, Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 2001
Heitt te með sítrónu – vörn gegn húðkrabbameini
Ein leið til að nota fæðuna til að verjast krabbameinum er að drekka heitt te með sítrónu. Nýleg könnun sýnir að fólk sem drekkur daglega heitt te með sneiðum af sítrónuberki fái miklu sjaldnar krabbamein í þekjufrumur (squamous cell carcinoma) heldur en þeir sem ekki drekka það. Vísindamenn við háskóla Arizona ríkis í Bandaríkjunum uppgötvuðu, að fólk sem reglulega drakk heitt te sítrónubarkar út í, fékk 40% sjaldnar þessa gerð af húðkrabbameini, sem er algengasta afbrigði þess. En þeir sem bættu dálitlu af sítrónuberki út í tebollann voru með 7O% færri húðkrabbamein en sem ekkert te drukku. Einnig fengu þeir álíka sjaldnar alvarlegan sólbruna, sem oft er talinn meginorsök húðkrabbameina (Cancer Epidemiol. Biomarkers Prev. 2001;10:667-78).
Vísindamennirnir fundu ekkert sérstakt gagn, hvað þetta varðar, af að nota sítrus ávexti sítrónusafa – aðeins börkurinn kom að gagni til að hindra húðkrabbamein. Börkur af sítrus ávöxtum inniheldur mikið af d-limonen, sem er efnið sem virðist verja húðina fyrir húðkrabbameini. En hversvegna að nota heitt te en ekki með ís? Ástæðan virðist helst vera sú að ís-te sé of mikið blandað vatni til að gagna mikið. Dr. Moss mælir með að búa til te í tekatli og láta það standa dálítinn tíma, svo það verði sterkara. Síðan lætur hann sítrónubörkinn, sem áður hefur verið rifinn niður, og drekkur ilmandi sítrónute. Heimild: Ralph W. Moss. Ph.D. Preseription for Healthy Skin: Hot Tea with a Twist. Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 2001
Hómópatalyf og krabbameinsmeðferð
Í fyrsta sinn í sögunni hefur tímaritið Cancer, sem gefið er út af bandaríska Krabbameinsfélaginu The American Cancer Society, birt grein sem er jákvæð í garð hómópatalækninga. Þar segir frá tvíblindri könnun á hómópatalyfinu Traumel S. Sjúklingarnir voru börn sem voru á erfiðri lyfjameðferð við krabbameini í tengslum við beinmergsskipti. Af 30 sjúklingum fengu 15 sykurpillur (placebo) en aðrir 15 Traumel S. Fimm sjúklinganna (33%) í þeim hópi, sem fékk hómópatalyfið, fengu ekki bólgur og sár í munn, samanborið við aðeins einn (7%) í þeim hópi sem fékk sykurpillurnar. Þar að auki versnaði bólgan og sárin í munni 93% þeirra sem fengu sykurpillurnar en aðeins í 47% þeirra sem fengu hómópatalyfið.
Þetta var tölfræðilega marktækur munur. Höfundur greinarinnar í Cancer töldu ,,að hómópatalyfið dragi marktækt úr alvarlegum aukaverkunum og tímalengd, sem bólgur og sár í munni standi yfir, hjá börnum sem fái lyfjameðferð í tengslum við beinmergsskipti“. ,,Ég veit ekki“, segir dr. Moss, ,,hvort heldur skiptir meira máli, það að fundin hefur verið að lokum áhrifarík læknismeðferð við bólgum og sárum í munni fólks í erfiðri lyfjameðferð – eða að sagt skuli vera frá því í Cancer – tímariti bandaríska Krabbameinsfélagsins“. (2001;92:684-90) Fróðlegt er að sjá hvernig talsmenn hómópatalækna bregðast við þessu.
Heimild: Ralph W. Moss PhD., Traumel S. and Somatitis, Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 2001.
Eru fjöldamyndatökur af brjóstum gagnlegar?
Þeir sem lesið hafa Heilsuhringinn í nokkur ár muna e.t.v. eftir að sá er þetta ritar skrifaði grein um fjöldamyndatökur af brjóstum undir nafninu „Hrollvekjandi niðurstöður“. Þetta var árið 1996 og greinin sagði raunverulega frá hrollvekjandi niðurstöðum af Kanadísku brjóstaskoðunar könnuninni, sem þá var fyrir nokkrum árum búið að birta niðurstöðu úr, en enginn annar fjölmiðill á Íslandi hafði viljað eða þorað að segja frá, enda þótt töluvert hefði verið skrifað um þessar niðurstöður í nágrannalöndunum. Nú hafa enn á ný hafist umræður um hliðstæð málefni í tilefni þess að danskir vísindamenn, Ole Olsen og Peter C. Gøtzsche, við Norrænu Cochrane Collaboration í Kaupmannahöfn hafa upp á eigin spýtur rannsakað heimildir sem haldið hefur verið fram að styðji þá kenningu að röntgenmyndatökur af brjóstum, teknar með reglulegu millibili fækki dauðsföllum.
Þeir komast að þeirri niðurstöðu að raunverulega séu alls engar sannanir fyrir að þetta sé rétt (Lancet 2001;358:1340-1342). Þeir segja að brjóstamyndatökurnar valdi því að konurnar fari yfirleitt í kröftugri læknismeðferð, öfugt við það sem haldið hefur verið fram, að með því að finna æxlið snemma megi komast af með mildari læknismeðferð. Og þeir segjast ekki geta fundið fækkun dauðsfalla, sérstaklega í þeim könnunum sem talið er að séu best unnar. Eftir að hafa farið gaumgæfilega ofan í sjö kannanir sem gerðar hafa verið, flokkuðu þeir þær í þrjá hópa: Mjög vel unnar kannanir, viðunandi unnar kannanir og slæmar eða illa unnar kannanir.
Enga könnunina töldu þeir falla undir efsta flokkinn, tvær þeirra vera viðunandi vel unnar (þær frá Málmey og Kanada, sem sagt var frá í Heilsuhringnum), þrjár voru af lélegum gæðum og tvær af óviðunandi gæðum (New York og Edinborg). Eitt af því sem þeir bentu á var, að ef kona dó úr viðmiðunarhópnum (af óþekktri ástæðu) var allt eins líklegt að hún væri talin hafa dáið úr krabbameini, en kona úr hinum hópnum aftur á móti ekki. Þetta m.a. olli því að konur sem ekki voru röntgenmyndaðar voru miklu oftar taldar hafa dáið úr brjóstakrabbameini, heldur en raunverulega var. Þeir bentu einnig á að konur sem reglulega fóru í brjóstamyndatökur fengu miklu oftar geislameðferð, heldur en hinar konurnar. ,,Geislameðferð“, segja þeir, ,,fjölgar dauðsföllum, vegna þess að geislameðferðin eykur líkur á að deyja úr hjartabilun“.
Þetta er ekki tekið með í útreikningana, þegar kostir og gallar brjóstamyndatökunnar eru metnir. Með öðrum orðum: Sé kona röntgenmynduð eru meiri líkur á að hún greinist með brjóstakrabbamein. Það eykur líkur á að hún fái geislameðferð, ásamt skurðaðgerð. Það eykur svo síðar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum (Lancet 2000;355:1757-70). Kannanirnar fjalla aðeins um líkurnar á að deyja úr brjóstakrabbameini. Danirnir segja að réttara, eða skynsamlegra væri að miða við dauða af öllum orsökum. Í þeirri könnun sem var best unnin, að mati höfunda, kom enginn munur fram á fjölda dauðsfalla, hjá þeim sem fóru reglulega í brjóstamyndatökur og þeirra sem ekki fóru í þær. Olsen og Gøtzsche drógu þá ályktun af þessu „að engar traustar sannanir bendi til að fjölda-röntgenmyndatökur af brjóstum dragi neitt úr dauðsföllum kvenna úr brjóstakrabbameini“.
Danirnir spyrja hvernig sé þá hægt að réttlæta fjöldamyndatökur af brjóstum, þegar bestu kannanir á gagnsemi þeirra sýni alls ekkert gagn. Fleiri spyrja líkra spurninga en margir krabbameinsfræðingar eru á allt annarri skoðun og fullyrða að aðrar kannanir, sem þeim gengur reyndar oft illa að benda á, sýni að margsannað sé að þær geri mikið heimildir og fái þannig rangar niðurstöður. Einnig kann að vera, þó að danirnir nefni það ekki, að mörgum krabbameinsfræðingum sé það erfið raun að viðurkenna, að áratuga viðleitni til að reyna að sigrast á krabbameini með fjöldaskoðunum sé e.t.v. unnin fyrir gíg og sé jafnvel verri en engin.
Þeir reyna því að láta líta svo út sem fjöldakannanirnar séu til gagns, þó að þeir viti raunar að þær séu gagnslausar. Danirnir halda því fram að fjöldaskoðanirnar leiði af sér kröftugari læknismeðhöndlun, t.d. fjölgi þær aðgerðum á brjóstum um allt að 30%. Þeir benda á, að með því móti finnist stundum æxlismyndun eða óeðlilegur vöxtur í brjóstavef sem sé meðhöndlaður sem krabbamein, enda þótt hann myndi aldrei hafa orðið að raunverulegu krabbameini, þó að konan hefði lifað til hárrar elli. Með öðrum orðum leiðir þetta stundum til óþarfrar læknismeðferðar eða þarflausrar „ofmeðferðar“ eins og þeir kalla það. „Ekki er hægt að komast hjá þessu vandamáli“, bæti þeir við.
Eins og við er að búast hefur afhjúpun dananna skapað heilmiklar deilur og margir krabbameinsfræðingar, jafnvel við Cohrane Collaboration, hafa gagnrýnt þá og telja sig stundum geta hrakið sumt að niðurstöðum þeirra. Þessar deilur standa ennþá og verða vafalaust ekki leystar á næstunni, enda snúast þær orðið frekar um aðferðafræði, heldur en hvort kannanirnar komi krabbameinssjúklingum að gagni eða ekki.
Þeir sem lásu grein um sama efni í Heilsuhringnum 1996 minnast þess e.t.v. að fyrstu niðurstöður úr ,,Kanadísku brjóstaskoðunarkönnuninni“ sýndu til muna lakari niðurstöðu af hópskoðun með röntgenmyndatöku, heldur en nú er verið að ræða um. Sennilega liggur munurinn í að konum þeim sem tóku þátt í könnuninni hefur nú verið fylgt eftir í meira en áratug, eftir að könnuninni raunverulega var lokið. Þá hefur sennilega komið í ljós, að konur, sem reglulega koma í brjóstamyndatökur voru ekki í tvisvar sinnum meiri hættu að deyja úr brjóstakrabbameini, heldur var hættan nær því að vera sú sama og hjá konum sem ekki fóru í neina brjóstamyndatöku. Þetta er þó sagt án þess að greinarhöfundur hafi raunar neinar sannanir fyrir að þetta sé hin raunverulega ástæða.
Krabbameinsfræðingurinn dr. Ralph W. Moss, sem skrifar reglulega greinar um krabbamein í Townsend Letter for Doctors and Patients, segir um rannsóknarniðurstöður Olsens og Gøtzsche: ,,Þýðir þetta að engin kona ætti að fara í brjóstamyndatöku? Nei, alls ekki. Hvert einstakt tilfelli þarf að meta á eigin forsendum. En það bendir einmitt á þann veikleika, sem fylgir því að taka stóran hóp kvenna og láta þær allar fá sömu meðferð. Brýn nauðsyn er að finna nýja aðferð, aðferð sem ekki fylgir sársauki eða skaðar brjóstið. Svo þarf að gera nýjar kannanir og nota alla bestu tækni sem þekkt er til að sjá hvort hægt er með því að fækka dauðsföllum, ekki aðeins úr krabbameini, heldur einnig af öðrum ástæðum“. Heimild: Ralph W. Moss, Ph.D, Townsend Letter for Doctors and Patients, janúar 2002
Kólin mikilvægt fyrir þungaðar konur
Eins og áður hefur komið fram í þessu riti, er efnið kólin mjög mikilvægt efni fyrir heilastarfsemina. Árið 1998 var kólin flokkað af bandarísku vísinda-akademíunni (National Academy of Science) sem nauðsynlegt eða ómissandi næringarefni fyrir fólk. Ráðlagt er að nota 425mg á dag fyrir fullorðnar konur og 550mg fyrir karlmenn og konur með barn á brjósti, vegna þess að mikið af kólin er í brjóstamjólk. Sjö sinnum meira kólin er í blóðvökva nýbura og ófæddra barna hlutfallslega, heldur en í blóðvökva fullorðinna. Hjá tilraunadýrum eru tvö tímabil sem einkanlega ákvarða þróun heilans. Annað er á fósturstigi en hitt eftir fæðingu.
Heilinn þarfnast aukins magns af kólin á þessum tímabilum. Sé kólin þá bætt í fæðuna kemur það fram sem betra minni, sem endist alla ævi. Vísindamennirnir halda að þetta stafi af breytingum sem verða á minnissvæði heilans, sem nefnt er „hippocampus“. Einnig er vitað að taugaboðefni sem heitir „acetyl-kólin“ myndast úr kólin, en þetta boðefni er talið mikilvægt í sambandi við minni. Kólin fæst m.a. úr heilkorni, hveitiklíði, baunum og eggjum, en sennilega er lesitín þó auðugra af kólin en nokkur önnur matvara, enda stundum kallað „heilanæring“. Heimild: Alan R. Gaby, læknir. Townsend Letter for Doctors and Patients, janúar 2002
Ber hindra krabbamein
Ralph W. Moss sem er sérfræðingur í krabbameinslækningum, segir frá tilraun sem gerð var ríkisháskólann í Ohioríki í Bandaríkjunum. Væri tilraunarottum gefinn hindber saman við fóðrið fækkaði krabbameinum í vélinda hjá þeim um meira en helming. Krabbamein í vélinda er eitt af algengari krabbameinum í fólki og er erfitt viðureignar. Það er algengara hjá karlmönnum en konum og hefur oft verið tengt við reykingar og áfengisneyslu. Fólk sem reykir og drekkur mikið er í 100 sinnum meiri hættu að fá þessa tegund krabbameins en það sem hvorugt gerir. Mataræðið skiptir einnig máli við vélindiskrabbamein og vísindamennirnir við Ohio háskólann gerðu tilraunina með rotturnar til sjá hvort fæða rík af oxunarvarnarefnum, sem flest ber eru, gæti haft áhrif á þessa tegund krabbameins. Fjöldi krabbameins-verjandi efna er í svörtum hindberjum, þarmeð talið kalk, vítamín, fenol sterol.
Í niðurstöðum sem vísindamennirnir birtu eftir rottutilraunina, sögðu þeir að hindberin bæði hindruðu að krabbamein yrði til og einnig að það stækkaði. Dr. Moss bendir á að ýmsir láti sér detta í hug að eitthvert sérstakt efni í hindberjum komi í veg fyrir eða hindri krabbamein. Það er þó líklega ekki, heldur samvirkni margra efna sem gerir allan ávöxtinn miklu áhrifaríkari en eitthvert eitt efni í honum (jafnvel þótt meira væri notað af því) getur orðið. Vísindamennirnir sögðu: „Allt hindberið“. Sami hópur vísindamanna fékk álíka niðurstöðu af að nota jarðarber og trúlega eru bláber og alveg sérstaklega aðalbláber ekki síðri, en aðrir vísindamenn hafa fundið mikið af andoxunarefnum í þeim. Heimild: Ralph W. Moss. The War on Cancer. Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 2001
Fjandmaður fólksins
Í vetur sem leið sýndi Leikfélag Reykjavíkur leik eftir Henrik Ibsen með þessu nafni. Við höfum að öðru jöfnu ekki rætt um leiksýningar í Heilsuhringnum en að þessu sinni ætla ég þó að gera þá undantekningu að segja örlítið frá þessari sýningu, vegna þess að ýmislegt í henni snart mig ónotalega og fellur ótrúlega vel að ýmsu sem er að gerast nú, enda þótt liðið sé á aðra öld síðan leikritið var samið. Ungur læknir, Tómas Stokkmann er ráðinn við heilsulindir, sem nýlega hafa verið uppgötvaðar nálægt þorpi í Suður-Noregi.
Allir eru mjög spenntir og sjá með peningaglýgju í augunum, hvernig þorpið þeirra verður frægur heilsubær, læknirinn verður dáður og allir ríkir og hamingjusamir (höfum við kannski séð eitthvað þessu líkt hér á Íslandi?). En það er bara einn galli á þessu öllu saman. Stokkmann læknir fær bréf frá höfuðborginni. Í því stendur að heilsulindirnar séu mengaðar af eitruðu frárennsli frá verksmiðju í nágrenninu, sem reyndar er í eigu tengdaföður Stokkmanns læknis. Þær eru því ekki heilsulindir, heldur eiturvilpa, sem gerir fólk veikt.
Þarna er strax lögð sú freisting fyrir Stokkmann að láta engan sjá bréfið og láta sem ekkert sé og baða sig í frægðinni og voninni um auðæfi. En Stokkmann stenst freistinguna og segir öllum frá efni bréfsins og heldur í einfeldni sinni, barnaskap og heiðarleika að allir verði glaðir af að heyra sannleikann og geta þannig hindrað að fólk kunni að veikjast eða deyja af að nota eitraða vatnið. En þarna hefst raunverulega ógæfa Stokkmanns læknis. Bróðir hans er bæjarstjóri í þorpinu og hann sér að tekjur sveitarfélagsins muni hrapa niður úr öllu valdi og allir draumar um auðæfi og frægð þessa heilsubæjar muni að engu verða.
Í hans augum skiptir litlu máli, hvort einhverjir kunni að veikjast eða deyja, vegna eitursins í heilsulindunum, bara ef bæjarfélagið getur grætt og enginn veit að eitrinu er um að kenna (höfum við sem stöndum að Heilsuhringnum kannski einhvern tíma orðið vitni að hliðstæðu?). Stokkmann læknir hefur allt aðra skoðun á þessu og heldur að fólkið muni standa með sér, því að hann veit að sannleikurinn er hans megin og hann trúir því að fólk velji frekar sannleikann heldur en lygina og blekkinguna. Annað á þó eftir að koma í ljós.
Í fyrstu lítur út fyrir að bæjarblaðið ætli að standa með honum en bæjarstjórinn útskýrir fyrir ritstjóranum að bréfið með upplýsingum um eitrið í heilsulindunum sé aðeins hugarórar sjúks manns, þ.e. Stokkmanns læknis og stafi af hatri hans á framförum. Bæjarstjórinn telur ritstjóranum trú um að framtíðarheill bæjarfélagins hvíli á því að þessar upplýsingar séu ekki birtar. Gagnvart þannig rökum verður sannleikurinn að víkja til hliðar, að mati ritstjórans.
Að lokum er svo Stokkmann lækni boðið starf við heilsulindirnar og ,,uppreisn æru“, en þó því aðeins, að hann gleymi bréfinu frá rannsóknarstofunni og hegði sér eins og það hafi aldrei verið skrifað og sé þægur og góður og geri það sem „honum sjálfum sé fyrir bestu“. Að öðrum kosti sé hann „fjandmaður fólksins“ og verði meðhöndlaður samkvæmt því. Hvort Stokkmann gekk að þessu tilboði verður hver og einn að eiga við sína eigin samvisku. Hvort sannleikurinn fær að koma fram og njóta sín getur oft oltið á því hvort hann kemur við pyngju einhvers eða einhverra. Þá skiptir oft minna máli, þó að aðrir sem minna mega sín en eru sannleikans megin, verði að lúta í lægra haldi.
Þetta sýnist mér vera boðskapurinn í leikriti Ibsens. Þá eru notuð öll meðul, hvort sem þau eru heiðarleg eða ekki. Auðvelt er með áróðri og múgsefjun að láta meirihlutann styðja rangar ákvarðanir. ,,Meirihlutinn hefur aldrei rétt fyrir sér, fyrr en hann breytir rétt“, segir Stokkmann einhversstaðar í leiknum. Ibsen telur að blekkingarleikur sem valdamenn stunda valdi þessu.
Hann fordæmir þá valdbeitingu, skammtímasjónarmið og hræðsluáróður sem einkennir oft stjórnunarathafnir og gagnrýnir kjarkleysi og heimsku fjölmiðla. Þetta var allt skrifað fyrir hundrað og tuttugu árum en margt er þó í fullu gildi jafnt nú og þá. Við í Heilsuhringnum höfum nú í fjórðung úr öld reynt að boða rödd sannleikans, eftir því sem við höfum vit og þekkingu til, jafnvel þó að stundum hafi fáir staðið við hlið okkar. En við trúum því að Þorsteinn Erlingsson hafi haft rétt fyrir sér þegar hann sagði: Ég trúi því sannleiki að sigurinn þinn að síðustu vegina jafni.
Höfundur Ævar Jóhannesson árið 2002
Flokkar:Úr einu í annað, Skrif Ævars Jóhannessonar