Ný hugmynd um orsök Riðuveiki

Komið hafa fram, sérstaklega í Englandi, hugmyndir um að riðuveiki eigi sér orsök, sem er allt önnur en sú sem almennt hefur fengið hljómgrunn á undanförnum árum. Almennt er talið að dularfullt efni sem nefnt hefur verið „afbrigðilegt príon“ sé orsakavaldur riðuveiki. Margar greinar hafa verið skrifaðar um þessar nýju hugmyndir m.a. þessi grein eftir George Monbiot, sem upphaflega birtist í The Guardian Weekly. Sá er þetta ritar ætlar ekki að leggja neinn dóm á hvort þessi hugmynd eða tilgáta um riðuveikina sé rétt eða ekki, heldur að leyfa lesendum H.h. að velta henni fyrir sér og draga sínar eigin ályktanir. Einnig er vitað að þessar hugmyndir hafa náð til íslenskra fjölmiðla og íslenskur vísindamaður, Kristín Vala Ragnarsdóttir, sem er prófessor við háskóla í Englandi, sagði aðeins frá þeim í sjónvarpsviðtali ekki alls fyrir löngu (þýðandi).

Höfundur greinarinnar í The Guardian byrjar á að benda á að erfitt er að skýra hvernig riðuveiki í nautpeningi, sem oft er nefnd kúariða, getur og hefur breiðst út. Notkun á kjöt- og beinamjöli úr sýktum nautgripum getur vafalaust skýrt hluta útbreiðslu kúariðu í Englandi en varla allan þann fjölda nautgripa sem sýkst hafa eftir að hætt var að nota fóðurvörur búnar til úr líffærum úr sýktum nautgripum eða riðuveiku sauðfé. Einnig hefur ekki tekist að finna tengsl á milli þess afbrigðis riðuveiki sem nefnt er Creutzfeldt-Jakob sjúkdómur og talið er að sýki fólk, við neyslu kjöts eða annarra afurða af riðuveikum nautgripum.

Vel mætti hugsa sér, að fyrst kenningin um orsök riðuveikinnar virðist passa illa við staðreyndir, að breska ríkisstjórnin hefði áhuga á að kynna sér og prófa aðrar hugmyndir. Svo er þó ekki og enn sem komið er hefur hún aðeins virst hafa áhuga á að ráðast á aðrar hugmyndir og kenningar, sem virðast þó falla betur að staðreyndum. Síðan 1988 hefur bóndi frá Sommerset, Mark Purdey, haldið því fram að vísindamenn hafi litið fram hjá grundvallarástæðunni fyrir kúariðu. Sjálfmenntaður og kostaður af eigin fé hefur hann sett sig inn í flókna efnafræðilega ferla í heilanum og árið 2001 gaf hann út tímamótaritgerð um riðuveiki, sem birt var í virtu læknatímariti. Þeirri ritgerð hefur verið mótmælt harðlega, hún misskilin og nefnd ýmsum ónefnum.

Afbrigðileg príon, en príon eru próteinefni heilans, sýnast vera orsakavaldar allrar riðuveiki. Líkaminn notar príon til að verja heilann fyrir oxunaráhrifum, sem m.a. stafa frá útfjólubláum geislum o.m.fl. Þessu er Purdey sammála. En hann telur að þegar príon-prótein verður fyrir áhrifum frá skorti á kopar eða of miklu af mangan, þá taki mangan-atómið sætið þar sem kopar á að vera og príonið binst þá við mangan í stað kopars. Þannig verður til afbrigðilegt eða gallað príon, sem ekki gegnir rétt hlutverki sínu.

Kúariða kom upp á Bretlandseyjum á árunum milli 1980-90, vegna þess, segir Purdey, að landbúnaðarráðuneytið (í Englandi) neyddi nautgripabændur til að meðhöndla alla nautgripi sína með eiturefni (pesticide) sem inniheldur lífrænt fosfat sem nefnt er phosmet í miklu stærri skömmtum en notaðir eru annars staðar í heiminum. Þessu eiturefni þurfti að hella eftir endilöngum hryggnum á dýrunum. Purdey hefur sýnt fram á að phosmet tekur í sig kopar. Samtímis var hænsnaskít blandað saman við fóðrið. Hænurnar voru fóðraðar með mangan, sem bætt var í fóðrið, svo að þær verptu betur. Príon-próteinið í heila nautgripanna skorti bæði kopar og var með ofgnótt af mangan. Í Frakklandi var fyrst lögboðið að nota phosmet á Bretagne-skaganum.

Fyrstu 20 kúariðutilfellin af 28 urðu einmitt þar. Eftir því sem kúariðan breiddist út endurspeglaði útbreiðslusvæðið notkunarsvæði phosmet, segir Purdey. Á líkan hátt endurspeglar eiturnotkun í landbúnaði Creutzfeldt-Jakob sjúkdóminn, eða hið mannlega afbrigði riðuveiki. Þau tvö svæði sem sjúkdómurinn hefur einkum herjað á eru Kent í miðju ávaxtaræktarsvæði, þar sem mikið af lífrænum fosfötum og eiturefnum með mangan eru notuð. Hitt svæðið er Queniborogh í Leicestershire, en þar voru verksmiðjur sem þar til fyrir skömmu framleiddu mikið af litarefnum. Þar var hellt heilmiklu af fjölmörgum úrgangsefnum í frárennsliskerfið.

Frárennslið var síðan notað til að sprauta yfir akrana í nágrenninu. Við litarefnaframleiðsla eru notuð ókjör af mangan, segir Purdey. Purdey hefur prófað og staðfest kenningu sína í mörgum löndum, þar sem riðuveiki hefur fundist, þ.á.m. Íslandi, Bandaríkjunum, Slóvakíu og Sardiníu. Hann telur sig hafa fundið að dýrin (og stundum fólk) höfðu búið við koparskort en ofgnótt af mangan.  Flest þessi svæði eru fjöllótt, með miklu útfjólubláu ljósi. Þó eru áhrifaríkustu sannanirnar fyrir kenningu Purdeys komnar úr riti sem gefið var út af hópi lífefnafræðinga við Cambridge háskóla á árinu 2001. Þeir fundu að væri mangan sett í staðinn fyrir kopar í príon-prótein, hagaði príonið sér nákvæmlega eins og sýkingarefnið í riðuveiki.

Hafi Pudey rétt fyrir sér ætti hann skilið að fá nóbelsverðlaun í læknisfræði. Þess í stað hefur verið skotið á hann, símalínurnar hjá honum hafa verið skornar sundur og húsið hans brennt. Landbúnaðarráðuneytið sem í 50 ár hefur verið í hættulega nánum tengslum við stóriðnaðinn sem framleiðir efni til landbúnaðarnota, hefur ítrekað gert tilraun til að gera verk hans tortryggileg. Skyndilega hefur þó tónninn í þeim breyst og því hefur verið lofað að fara að styrkja rannsóknir hans. Fjölskyldur franskra fórnarlamba Creutzfeldt-Jakob sjúkdómsins ætla nefnilega að reyna að fara í mál við Bresku ríkisstjórnina og hún þarfnast sárlega nýrrar kenningar um útbreiðslu riðuveiki. Með fjárstyrk og nýjum sönnunum sem mánaðarlega hlaðast upp er nú sjálfmenntaður kúabóndi í þann veginn að kollvarpa heilli grein vísindarannsókna, eitt mesta hneyksli vorra daga varðandi heilbrigði almennings.

Þýtt úr Townsend Letter forDoctors and Patients, apríl 2001

Höfundur: Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar

%d