Blóðflokkar- Hafa þeir áhrif á heilsu okkar?

Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um blóðflokkamataræðið hér á landi eða allt frá því fyrsta bók náttúrulæknisins, dr. Peter D’Adamos kom út á íslensku árið 1999. Bókin heitir Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk og í kjölfarið fylgdu Rétt matreiðsla fyrir þinn blóðflokk og nú síðast árið 2001 Rétt líferni fyrir þinn blóðflokk. Hver og ein þessara bóka fjallar um blóðflokkamataræðið, en á mismunandi hátt. Í bókinni Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk kynnir D’Adamo þær kenningar sem faðir hans dr. James D’Adamo setti fyrst fram upp úr 1958 en þegar D’Adamo yngri hóf nám sem náttúrulæknir einsetti hann sér að rökstyðja með vísindalegum rannsóknum þær kenningar sem faðir hans hafði sett fram.

Ótal rannsóknir styðja kenningarnar
Í ljós kom að ótal rannsóknir höfðu farið fram á tengslum milli blóðflokka fólks og mataræðis og heilsu þess. Hins vegar hafði enginn haft fyrir því að safna þeim saman eins og dr. Peter D’Adamo gerði, né að setja fram í tengslum við þessar rannsóknir kenningar um að ákveðið mataræði hentaði hverjum blóðflokki best, svo hver einstaklingur næði að hámarka heilsu sína og öðlast um leið líkamlegt og tilfinningalegt jafnvægi. Á vefsíðunni http://www.dadamo.com má finna yfir 1500 rannsóknir sem D’Adamo vitnar í kenningum sínum til stuðnings.

Í næstu bók á eftir Rétt matreiðsla fyrir þinn blóðflokk var D’Adamo að sinna þeirri þörf sem óneitanlega kom upp þegar fólk tók þá ákvörðun að breyta yfir í blóðflokkamataræðið. Margir sátu þá uppi með spurninguna: Hvað á ég þá að borða? Og hvað ef það eru margir blóðflokkar í minni fjölskyldu? Í bókinni er grunnkynning á blóðflokkakenningunni og síðan er þar að finna heildarfæðulista fyrir alla blóðflokka, svo auðvelt er að sjá í einni línu hvað hentar hverjum blóðflokki þegar verið er að gera innkaup fyrir blandaðar fjölskyldur. Í bókinni er einnig ógrynni uppskrifta og eru þær allar merktar blóðflokkunum, eftir því hvort þær eru mjög hollar, hlutlausar eða viðkomandi blóðflokkar eiga að forðast þær.

Í þriðju bókinni birtast niðurstöður áframhaldandi rannsókna D’Adamos og einnig svörun og reynslusögur frá öllum þeim fjölda sem hefur reynt mataræðið og náð árangri með því. Segja má að Rétt líferni fyrir þinn blóðflokk sé nokkurs konar uppfærsla á fyrstu bókinni. Fæðu- og bætiefnalistarnir eru ýtarlegri, ýmsar niðurstöður úr áframhaldandi rannsóknum hans eru birtar, meira er fjallað um tengsl milli ákveðinna sjúkdóma og blóðflokkanna og fjallað er um áhættuþætti hvers blóðflokks. Lögð er mikil áhersla á þann þátt sem streita hefur við myndun sjúkdóma og kenndar aðferðir til slökunar og eins fjallar hann ýtarlega um það hvaða líkamsrækt hentar hverjum blóðflokki fyrir sig best. D’Adamo fjallar einnig nokkuð um blóðflokkapersónuleikann, en hann telur að ákveðin persónuleikaeinkenni tengist hverjum blóðflokki fyrir sig og bendir m.a. á að í Japan hafi enn lengi verið ráðnir til starfa eftir því í hvaða blóðflokki þeir eru.

Eru það ABO flokkarnir sem ráða öllu?
Í fyrstu bók sinni fjallaði D’Adamo um blóðflokkana frá helstu skilgreiningu þeirra, þ.e. hvort viðkomandi aðili flokkaðist í O, A, B eða AB blóðflokk og sagði að ekki skipti máli hvort fólk flokkaðist í Rhesus plús eða mínus. Sama mataræði væri ráðlagt í báðum tilvikum. Í þriðju bók hans vinnur hann áfram samkvæmt þessari kenningum, en frekari rannsóknir hans og reynslan sem fengist hefur á þeim fjórum árum síðan fyrsta bókin kom út, sýna að mataræðið hefur hentað 9 af hverjum 10 sem hafa reynt það. Þær niðurstöður gefa til kynna að undirflokkun blóðflokkanna skiptir líka máli hjá ákveðnum hópi fólks. Sú undirflokkun sem D’Adamo hefur mest unnið með er hvort fólk flokkast sem seytar eða ekki seytar. Flestir spyrja hvað það þýði? Í stuttu máli þýðir það að þeir sem eru seytar (um 80% fólks fyllir þann flokk) seyta blóðvökva sínum í aðra líkamsvökva í líkamanum. Þeir sem eru ekki-seytar gera það ekki og rýrir það ónæmisvarnir þeirra mjög. Til að skýra mismuninn nánar skulum við skoða kafla úr bókinni Rétt líferni fyrir þinn blóðflokk sem fjallar um seytistöðuna.

Seytir eða ekki-seytir
,,Þar sem mótefnavaki blóðflokks er lykillinn að ónæmisvörnum, hvaða afleiðingar hefur það þá í för með sér að vera ófær um að seyta honum í líkamsvökva sína? Samkvæmt mjög mörgum vísindalegum rannsóknum er það verulega afdrifaríkt. Almennt eru ekki-seytar mun líklegri til að vera haldnir ónæmissjúkdómum en seytar, sérstaklega þegar smitandi lífvera veldur þeim. Af erfðafræðilegum ástæðum eiga ekki-seytar einnig í erfiðleikum með að fjarlægja samsett ónæmisefnasambönd úr vefjum sínum en það eykur hættuna á því að ónæmiskerfi þeirra ráðist á vef sem inniheldur þau. Með öðrum orðum eru meiri líkur á að ekki-seytar líti á eigin vef sem óvinsamlegan. Ekki-seytar eru næstum alltaf í meirihluta þegar um ónæmiskvilla er að ræða. Ekki-seytar fá frekar bólgur um allan líkamann en seytar.

• Ekki-seytar fá frekar sykursýki en seytar, bæði týpu I og týpu II.
• Ekki-seytar með sykursýki týpu I, eiga við mun þrálátari vandamál af völdum Candida albicans sveppsins að stríða, sérstaklega í munni og efri meltingarvegi.
• Áttatíu prósent allra þeirra sem þjást af vefjagigt (fibromyalgia) eru ekki-seytar, óháð blóðflokkum.
• Ekki-seytar hafa aukna tíðni ýmissa sjálfnæmisjúkdóma þar á meðal hryggikt (ankylosing spondylitis), liðbólgu tengda sýkingu (reactive arthritis), liðskemmdir af völdum sóríasis, Sjögren heilkenni, heila- og mænusigg (MS) og Graves-sjúkdóm.
• Ekki-seytar eru í mikilli hættu á endurteknum þvagfærasýkingum og komið hefur í ljós að milli 55-60% ekki-seyta mynda örvef í nýrum þrátt fyrir fúkkalyfjameðferð við þvagfærasýkingum.
• Ekki-seytar eru 20% fólksfjöldans en 80% þeirra sem læknar flokka sem „flókna“ sjúklinga. Erfitt er að sjúkdómsgreina þá rétt og bati er hægfara. Nú skilur þú hvers vegna það er nauðsynlegt að seytistaða þín sé könnuð. Ef þú ert einn af þeim 20% sem eru ekki-seytar muntu þurfa að taka tillit til þess í áætlun þinni. Hér er dæmi um mikilvægi þess: Fólk í B blóðflokki er í mikilli hættu á að fá þvagfærasýkingar. Ef þú er ekki-seytir í B flokki eru meira en tvöfaldar líkur á að þú fáir langvinnar þvagfærasýkingar. Besta ráðið er langtíma forvarnarprógram til að forðast bakteríusýkingar. Á hinn bóginn eru þeir sem eru í A flokki í tiltölulega lítilli hættu á þvagfærasýkingum. En hættan eykst um 25%, sem er ekki lítið, ef þú ert ekki-seytir í A flokki.“

Ekki-seytir í A flokki
Sjálf á ég að baki langa sjúkdómasögu og gerði mér fyrir u.þ.b. sautján árum síðan grein fyrir því að veikindi mín tengdust að miklu leyti mataræði mínu. Hófst þá löng leit að því hvaða fæðutegundir hefðu skaðleg áhrif á mig og hverjar væru uppbyggilegar. Ég hafði því fylgt ótal mataræðiskenningum, oft farið í ofnæmispróf og fylgt niðurstöðum þeirra en ekki fengið bata, þegar ég heyrði fyrst um blóðflokkamataræðið. Fyrstu viðbrögð mín gagnvart því voru að ég ætlaði ekki að prófa eitt mataræðið enn. Nú væri nóg komið! En svo kviknaði áhugi minn eftir að ég las greinar um efni bókarinnar og ég hellti mér út í lestur þeirrar fyrstu -og í framhaldi af því út í það að prófa mataræðið. Það reyndist svo vel að ég og maðurinn minn ákváðum að gefa bókina út.

Bráðaliðbólga á háu stigi
Dr. D’Adamo ráðleggur einstaklingi í A flokki að borða að mestu grænmetisfæði og það hafði verið uppistaðan í mataræði mínu. Ég þurfti ekki að breyta miklu, en þó einhverju. Einnig tók ég fljótlega upp nokkrar fæðutegundir sem ég hafði ekki borðað mikið af, m.a. kornflex og poppkorn, hvorutveggja maísafurðir. Eftir nokkra mánuði kom í ljós að mataræðið virtist ekki virka eins vel á mig og aðra í kringum mig því bráðaliðbólgutilfellum hjá mér fjölgaði sem leiddu stundum til þess að ég gat hvorki burstað í mér tennurnar, klætt mig almennilega né skorið í mig matinn, en bólgan lagðist aðallega á hendur og handleggi.

Samt hafði ég ekki í önnur hús að venda, því blóðflokkamataræðið var enn það besta sem ég hafði prófað. Þegar ég hafði fylgt mataræðinu í tæp tvö ár varð sífellt styttra á milli þessara bólgutilfella og eftir blóðrannsókn kom í ljós að sjálfnæmiþáttur minn hafði hækkað verulega svo og gigtarþátturinn. Læknirinn bauð mér upp á gigtarlyf sem ég prófaði í eina viku, en þau linuðu hvorki þjáningar né drógu úr bólgunni. Ég þrjóskaðist við, reyndi að afbera kvalirnar og taldi að hægt væri að finna „náttúrulega“ leið til að ná bata. Hún fannst þegar ég komst að raun um að ég væri ekki-seytir.

Tvær fæðutegundir ollu helsta skaðanum
„Af litlu má mikið marka“ segir málshátturinn og það átti svo sannarlega við í mínu tilviki. Um leið og ég fékk að vita að ég væri ekki-seytir, skoðaði ég fæðulistann í nýjustu bók Dr. D’Adamos og komst að raun um að það væru tvær fæðutegundir sem ég þyrfti að taka út hjá mér. Önnur var maís og hin sykur – og ég sem hafði gert það að vana mínum allt síðasta árið að borða eina og stundum tvær skálar af kornflexi á dag. Þremur dögum eftir að ég tók þessar fæðutegundir út hvarf öll bólga út höndunum á mér. Frá því um miðjan október á síðasta ári hef ég einungis fengið eitt bráðaliðbólgutilfelli og það var vegna þess að ég freistaðist til að borða 3 smákökur hjá tengdadóttur minni rétt fyrir jólin. Í þeim var sykur og í annarri einnig hveiti. Tveimur stundum síðar komu fyrstu bólgueinkennin fram og þremur stundum síðar var hægri höndin orðin svo bólgin að hún var ónothæf.

Eflist og styrkist með hverjum deginum
Mér finnst eins og ég hafi fengið líf mitt aftur til baka og Guð hefur svo sannarlega bænheyrt mig því ég bað þess heitt og innilega allt síðasta ár að ég fyndi náttúrulega lausn á veikindunum. Ég hef eflst og styrkst dag frá degi og í huga mér er ekki nokkur vafi á því að blóðflokkamataræðið og ráðleggingar dr. D’Adamos eiga þar stærstan hlut að máli. Auk þess að fylgja mataræðinu hef ég tekið inn mörg þeirra bætiefna sem hann ráðleggur fyrir minn blóðflokk og finn að þau hafa hjálpað mér að styrkja ónæmiskerfið og byggja aftur upp kraft og þrek. Við erum það sem við borðum og blóðið er lífsvökvi okkar. Reynslan hefur kennt mér og heilbrigð skynsemi sagt mér að það sé mikilvægt að fæðan sem ég borða falli að blóðinu (þ.e. blóðflokki mínum).

Margir hafa sömu sögu að segja
Ég veit að ég er ekki sú eina sem hefur náð árangri í að bæta heilsuna með blóðflokkamataræðinu. Ótal aðilar hafa haft samband við mig og sagt mér sögu sína eins og t.d. einn ungur maður í A flokki sem sagði: …ég tók út mjólkurvörurnar fyrir 3 vikum og hef ekki fengið höfuðverk síðan. Og ung kona í O flokki sem sagði: …ég hef alveg losnað við astma eftir að ég byrjaði á blóðflokkamataræðinu og er hætt með öll þau lyf sem ég áður tók við honum… Fjöldinn annar hefur bætt hina daglegu líðan sína sem er jú ekki svo lítið mál, því margir þjást af ýmsum krankleikaeinkennum daglega án þess að telja sig beint veika.

Vefsíða með upplýsingum
Fyrr á þessu ári leitaði morgunþáttur Stöðvar 2, ÍSLAND Í BÝTIÐ, eftir því við mig að gerð yrði prufa á því á óháðum einstaklingum hvort blóðflokkamataræðið virkaði í raun og veru. Þrír einstaklingar, þau Berglind Viðarsdóttir (A), Birna Lind Björnsdóttir (O) og Þorlákur Pétursson (B), gerðust sjálfboðaliðar og á fimm vikum breyttist dagleg líðan þeirra ótrúlega mikið og öll misstu þau jafnframt fleiri kíló af yfirvigt. Nánari upplýsingar um árangur þeirra, svo og aðrar upplýsingar um blóðflokkamataræðið er að finna á vefsíðunni: http://www.blodflokkar.is Þar er einnig að finna LISTA sem greinir frá ótal heilsufarseinkennum og með hann við höndina er hægt að gera ágætis heilsumat á sjálfum sér.

Höfundur Guðrún BergmannFlokkar:Annað, Kynningar

%d bloggers like this: