Áhrif frá rafmagni- nýjar rannsóknir

Hætta! Farsímar
Nýleg frétt um skaðsemi farsíma hefur vakið þessa umræðu frá værum svefni. Áður hefur verið fjallað um hugsanlega skaðsemi farsíma í Heilsuhringnum og enn hefur ekki verið afsannað að þeir geti verið hættulegir. Það vekur alltaf nokkra undrun þegar heilsufar og almenningsheill er annarsvegar að almenningur skuli ekki fá að njóta vafans um hollustu notkunar tækja sem farsímans. Þeir eru til sem vilja bera ábyrgð á eigin heilsu og fara því varlega í notkun tækja af þessum toga. Við vitum að heilsuskaði sem orðinn er verður seint bættur.

Nýleg rannsókn þýsks vísindamanns, Michael Klieisen, er mjög athyglisverð. Með mælingum á heilabylgjum tveggja barna, ellefu ára gamals drengs og þrettán ára stúlku, hefur hann sýnt fram á að starfsemi heilans dofnar við tveggja mínútna samtal í farsíma. Þetta snýst um alfa og þeta bylgjur sem mælanlegar eru frá heilanum og endurspegla starfsemi hans.

Áhrif tveggja mínútna samtals í farsíma vara i klukkustund. Þetta er uggvekjandi í ljós þess hve mörg börn nota farsíma að staðaldri. Börn hafa ennfremur lítinn þroska til að skilja aðvaranir vísindamanna og nota farsímann sinn jafnvel óhóflega. Þessar rannsóknir voru unnar á Spáni við Neuro Diagnostic Research í Marbella. Rannsóknin var gerð með skanna sem fylgdist með heilabylgjum barnanna á meðan þau töluðu í síma og eftir samtal. Michael Klieisen segir að í ljósi þessara rannsókna eigi börn ekki að nota farsíma, það sé ljóst. „Við vitum ekki hvort þessi áhrif eru hættuleg eða ekki en heili barna er í vexti og mun viðkvæmari en heili fullorðinna.

Það er ekki bara raffræðileg starfsemi heilans sem verður fyrir áhrifum heldur lífefnafræðileg ferli“. Kjell Hanson Mild hjá vinnueftirliti Svía í Umeå og meðlimur í alþjóðlegu rannsóknarteymi sérfræðinga sem rannsakar áhrif farsímageislunar á fólk, segir að niðurstöður þessarar rannsóknar komi honum ekki á óvart. „Þetta er í fyrsta skipti sem sýnt hefur verið fram á áhrif farsímans á heila barna. Hvort þetta þýði að áhrif farsímans séu hættuleg vitum við ekki en það er ljóst að við erum að gera tilraunir með okkar eigin heilsu“. En hvað segja farsímafyrirtækin.

Markaðsstjóri Nokia Skandinavia segir að upplýsingar um geislun frá farsímum sé að finna í leiðbeiningabæklingi sem fylgi símanum. Þeir hafi hinsvegar ekki hugsað sér að setja aðvaranir á símana. (Aftenposten.no 7. og 8. feb. 02) Fyrir nokkru var grein hér í Heilsuhringnum sem fjallaði um áhrif farsímageislunar.

Þar kom m.a. fram að hugsanlegt er að DNA sameindir skaddist eftir tveggja tíma geislun og önnur rannsókn sýndi mikla aukningu krabbameins hjá tilraunamúsum eftir geislun. Það eru fleiri rannsóknir í vinnslu á áhrifum farsímageislunar. Hópur vísindamanna við Háskólann í Essen Þýskalandi fundu svörun á milli krabbameins í augum og mikilar notkunar farsíma. 118 sjúklingar voru rannsakaðir. Þeir þjáðust af krabbameini sem myndast í lithimnu og sjónhimnu augans (uveal melanoma). Þeir báru niðurstöður saman við 475 manna hóp og voru niðurstöður sláandi. Þeir sem nota farsíma eiga þrefaldar (3,3) líkur á að fá krabbamein í augu.

Dr. Andreas Stang og Professor Karl-Heinz Jöckel sem leiddu rannsóknarteymið, bentu á að í ljósi þess hve hópurinn var lítill sem var rannsakaður þurfi að skoða þetta á víðari grundvelli. (Epidemiology. Jan. 2002) Dönsk rannsókn sem birt var nýlega sýnir hinsvegar enga svörun milli krabbameins og notkunar farsíma. Þar var gerð könnun á 420 þúsund farsímanotendum frá árinu 1990 og heilsuskýrslur skoðaðar gagnvart krabbameini í augum. Rannsóknin sýndi enga slíka samsvörun. (British Cancer Journal). Á það hefur verið bent að 93% Dana hefur einungis átt farsíma í 3 ár en þróun krabbameins getur tekið mun lengri tíma. Eldri farsímakerfi voru bílasímar með loftneti utaná bílnum og því mun minni geislun frá þeim tækjum.

Fyrir nokkru birti Háskólinn í Madrid rannsóknarniðurstöður sem sýndu að við geislun frá farsíma jókst styrkur rafsviðs innan veggja heilafrumna. Hvað þetta þýðir er erfitt að ráða í en rafsvið innan veggja heilafrumna er hluti að efnabúskap frumna. Í desemberhefti 2001 The Lancet skrifar Breskur vísindamaður, Dr. Gerard Hyland um farsímageislun og áhrif hennar á börn. Börn eru stærsti áhættuhópurinn gagnvart farsímageislun þar sem slík geislun hefur áhrif á margskonar heilastarfsemi. Haft er eftir dr. Hyland lífeðlisfræðingi í vefritinu NewScientist.com að hann telji að ef náttúrlegt rafsvið líkamans verði fyrir truflunum geti það valdið alvarlegum heilsubresti. „Áhrif utanaðkomandi geislunar frá farsímum er háð genabyggingu og rafgeislun hvers og eins“.

Hér er Dr. Hyland að vitna í heilabylgjur. Hann segir ennfremur: „Heilsuvandamál koma upp þegar utanaðkomandi rafgeislun hittir líkamann og er á svipuðu tíðnisviði og heilinn vinnur sjálfur með. Lífefnafræðilegt jafnvægi heilans raskast og truflar losun melatonins sem eykst á nóttu. Þessar bylgjur hafa jafnframt áhrif á REM svefn og trufla blóðþröskuld heilans. (Blood brain barrier). Svipað og gerist ef við erum ölvuð“. Dr. Tonmoy Sharma ráðgjafi og geðlæknir frá the Institute of Psychiatry í London, vinnur við að mæla heilann með svokallaðri fMRI skönnun.

Hann og hans teymi glíma við að kortleggja heilann með það fyrir augum að sjúkdómsgreina einstaklinga áður en sjúkdómar koma fram. Þetta er gert með því að skilgreina rafboð frá heilanum. Dr. Sharma telur að hægt verið að greina sjúkdóma eins og þunglyndi og Alzheimer á frumstigi. Löngu áður en þeir koma fram í líkamanum.

Af sendiloftnetum
Í fréttablaðinu Guardian laugardaginn 12. Janúar er frétt um óvenju mörg krabbameinstilfelli í grunnskóla í Valladolid, mið Spáni. Þar hafa fjögur börn á aldrinum 5 – 10 ára veikst af krabbameini (hvítblæði) undanfarin tvö ár. Árið 2000 voru sett upp farsímaloftnet rétt við skólalóðina. Þegar foreldrar settu uppsetningu loftnetana í samband við mikla fjölgun krabbameinstilfella í skólanum þá neituðu þeir að senda börnin í skólann fyrr en búið væri að slökkva á loftnetunum. Héraðsdómur studdi kröfur foreldra og setti farsímafyrirtækinu að fjarlægja loftnetin innan þriggja mánaða.

Þessi loftnet voru í 50 metra fjarlægð frá leikvelli skólans. Fjórir nemendur af 450 er mun hærra hlutfall af krabbameini en getur talist eðlilegt. Meðaltal krabbameinstilfella á Spáni er 14 á hverja 100 þúsund íbúa. Haft er eftir einu foreldri, Luis Martin sem einnig er læknir, að aldrei í sögu skólans hafi komið upp krabbameinstilfelli meðal barna en síðan loftnetin voru sett upp eru komin fjögur tilfelli sagði Luis Martin. „Við trúum því ekki að þetta sé tilviljun“ bætti hann við. Vísindamenn eru ekki á eitt sáttir með þessa kenningu og benda á að ef þetta er tilfellið þá ætti krabbameinstilfelli á Spáni að vera mun fleiri en raunin er.

Áhrif lægri tíðnisviða
Það er ekki bara verið að rannsaka farsímageislun. Rafsegulgeislun spannar vítt svið og er víða til staðar. Lágtíðni rafsegulsvið frá orkuveitulínum í jörðu gefa frá sér rafsegulsvið sem getur teygt sig víða og orðið ákaflega sterkt, jafnvel inni í svefnherbergi okkar. En hvaða máli skiptir það? Jú það er ýmislegt sem bendir til að þessi svið séu ekki æskileg. Fyrir allmörgum árum fóru fram rannsóknir á áhrifum rafmagnshitateppa á ófrískar konur. Spurningin var hvort notkun rafmagnshitateppa geti valdið aukningu á tíðni fósturláta. Rannsóknin sýndi að fylgni var þar á milli og að fósturlátum fjölgaði eftir því sem meðalhitastig á ársgrundvelli lækkaði. Sem þýddi meiri hita á teppin og meira rafsegulsvið. Þessi rannsókn var umdeild.

Nú hafa aðrar rannsóknir komið fram sem sýna sömu niðurstöður. Það eru hópar vísindamanna í Californiu sem hafa sýnt fram á samspil milli fósturláts hjá ófrískum konum og viðveru í rafsegulsviði. Einni rannsókn var stjórnað af Dr. De-Kun Li, faraldsfræðingi hjá Kaiser Foundation Research Institute í Oakland Kaliforníu. Í þessari rannsókn voru 1063 konur, sem voru ófrískar, fengnar til að bera rafsegulmæli í einn dag sem skráði stöðugt gildi rafsegulsviðs sem viðkomandi var í. Mælingin var framkvæmd á fyrstu tíu vikum meðgöngu. Niðurstaðan var sú að konur sem mældust með toppgildi 1,6µT rafsegulsvið eða meir virtust tvöfalt líklegri til að missa fóstur en aðrar þar sem rafsegulsviðsstyrkurinn var lægri. Mælieiningin µT er micro Tesla eða milljónasti hluti úr Tesla.

Algengt umhverfissvið á heimilum hérlendis er um 50 nanóTesla eða 0,05µT. Þessi styrkur getur þó verið mun meiri og fer það eftir afstöðu til raflagna og sérstaklega afstöðu til rafmagnsinntaks. Ekki er óalgengt að finna 1 – 2 míkróTesla nálægt slíkum lögnum. Það sem vekur athygli við þessa rannsókn er að ekki var verið að leita eftir meðalgildi heldur hámarksgildi sem kom fram á meðan á mælingu stóð, sem þýðir að þær konur sem mældust með hæsta gildi bjuggu ekki endilega við hátt gildi rafsegulsviðs heldur hafa þær átt leið um svæði þar sem sterkt rafsegulsvið var til staðar.

Einnig er mögulegt að slík gildi komi upp þar sem rafmagnslagnir eru þó meðalgildi séu mun lægri. Rannsóknin sýndi jafnframt að áhættan var mun meiri hjá konum á fertugsaldri heldur en konum á þrítugsaldri. (NewScientist.com 02.01.02 með tilv. Í Epidemiology vol 13, bl. 1,9 og 21). Þessi styrkur sem þarna kemur fram er langt undir viðurkenndum hættumörkum og því eru vísindamenn efins um gildi þessarar rannsóknar. Það hefur verið bent á að þær konur sem mældust með sterkara svið séu líklegri til að vera mikið á ferðinni og því sé áhætta aukin. Vísindamenn skilja ekki hvaða orsakasamhengi geti verið á milli rafsegulsviðs og t.d. krabbameins en faraldsfræðingar kæra sig kollóta um það enda sönnuðu slíkar rannsóknir gildi sitt þegar menn var farið að gruna að tóbaksreykingar væru hættulegar.

Hvernig á að bregðast við geislun?
Hvað snertir farsíma þá er líklega besta reglan að nota þá lítið sem ekkert. Þetta er ekki hægt að segja hverjum sem er. En ef það er ekki hægt að takmarka notkun þá er næst besti kosturinn að nota handfrjálsan búnað. Það er staðreynd að áreyti geislunar er mun meira við símann sjálfan heldur en frá eyrnatappa handfrjálsa búnaðarins. Einnig er ágætt að nota farsímaverjur. Sala á farsímaverjum er mun meira feimnismál heldur en sala á smokkum. Sölumenn sem beðnir eru um farsímaverju fara allajafna hjá sér og líta laumulega í kring um sig áður en þeir draga slíkan búnað undan afgreiðsluborðinu rjóðir í framann.

MicroShield farsímaverjurnar hafa fengið mikla viðurkenningu og fást þær hér á landi. Þegar heim er komið er ágæt regla að slökkva á símanum og frávísa öllum símtölum í heimasímann. Hvað snertir rafsegulsvið frá heimilisrafmagni þá er góð regla að kanna hvað er hinumegin við veggi svefnherbergja. Ef tengigrind hitaveitu liggur þar þá þarf að skoða málið aðeins því á slíkum stöðum getur rafsegulsvið orðið allhátt. Ofangreind 1,6µT gæti mælst á slíkum stað. Flytja þarf svefnaðstöðu frá slíkum svæðum. Einnig er hægt að láta fagmann mæla og meta síðan hvað á að gera. Ýmislegt er hægt að gera en það þurfa fagmenn að sjá um.

Góð regla er að vera ekki með nein rafmagnstæki inni í svefnherbergi og ef slík tæki eru þá taka þau úr sambandi á nóttunni. Útvarpsvekjarar hafa lengi verið grunaðir um að geta valdið óþægindum ýmisskonar og er ekki vitlaust að gera tilraun sem felst í því að fjarlægja slík tæki alveg um tíma og fylgjast með eigin líðan á morgnana. Góð heilsa er gulli betri.
VGV tók saman.Flokkar:Rafmagn, Umhverfið

%d bloggers like this: