Rætt við Guðjón Sigmundsson (Gauja litla) um ráð gegn offitu
Það þarf varla að kynna Gauja litla. Hann varð þjóðþekktur með þátttöku sinni í sjónvarpsþáttunum veturinn 1996, þar sem fylgst var með þegar af honum runnu aukakílóin í stríðum straumum. Frá því í júní það ár hefur hann staðið fyrir námskeiðum fyrir fullorðna, sem eiga við of mikla þyngd að stríða og vilja grenna sig. Við fréttum að nú legði hann einnig mikla áherslu á að hjálpa börnum í sama vanda og við báðum hann að segja lesendum blaðsins frá starfi sínu. Við gefum honum orðið.
Fyrir þremur árum byrjaði ég með námskeið fyrir börn en lagði þau niður um tíma vegna þess að ég sá að til þess að þau gæfu nógu góðan árangur vantaði þátt foreldranna. Ég byrjaði aftur fyrir rúmu ári með námskeið fyrir börn 7 til 12 ára og unglinga 13 til 16 ára. Þá var ég búinn að fá Manneldisráð til að útbúa með mér kennslugögn og kennsluaðferðir. Það er mjög vandasamt að vinna með börn og unglinga því að það er mjög þunnur þráður á milli eðlilegrar megrunar og þess að einstaklingurinn verði að aneraksíu eða búlimíu sjúklingi. Offita er að færast í aukana meðal íslenskra skólabarna, Afleiðingar offitu hjá börnum eru eins og hjá fullorðnum hækkaður blóðþrýstingur, hækkað kólesteról og blóðfitur, fituútfellingar í æðum, hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki, sjúkdómar í beinum og liðum, svefntruflanir og kæfisvefn. Hjá börnum bætist við skaðleg áhrif á beinvöxt og þroska.
Börn sem verða of feit eru líklegri til að eiga við offitu að stríða á fullorðinsárum. Aðalmarkmið er að koma mataræði barnanna í eðlilegt horf, gera hreyfingu að eðlilegum þætti í daglegu lífi og koma þannig í veg fyrir löng hreyfingarlaus tímabil, auka sjálfsöryggi og bæta sjálfmat. Við höfum komist að því að það þarf að venja börnin á nýtt lífsmynstur og hjálpa þeim að halda því, fá þau til að greina á milli hungurs og matarlystar. Í upphafi námskeiðs fá foreldrarnir næringarráðgjöf og á miðju tímabilinu fá þeir aðra fræðslu. Börn og foreldrar fá aðskilin gögn því að tilgangurinn með námskeiðunum er fjölskyldufræðsla, ekki sá að einstaklingurinn sem er á námskeiðinu sé í meðferð. Enda eru það foreldrarnir sem kaupa inn og elda og hafa frumkvæði að hreyfingunni innan fjölskyldunnar.
Börnunum er kennt að velja hollara fæði, draga úr neyslu sælgætis, sætabrauðs og fleiri matvæla sem veita orku en lítið af bætiefnum. Ávinningur af góðu námskeiði og námsefni fyrir of feit börn felst í betri líðan þátttakenda, auknu sjálfstrausti og bættri heilsu. Enn fremur er um að ræða mikilvægt forvarnarstarf fyrir fullorðinsárin því heilsufarsvandamál fullorðinna of feitra einstaklinga eru fjölmörg eins og áður sagði, en þau má koma í veg fyrir ef hægt er að stöðva eða koma í veg fyrir offitu á unga aldri. Í rannsóknum sem við gerðum að loknum námskeiðum bæði árið 2000 og 2001 kom fram að með þessu fyrirkomulagi hefur náðst góður árangur.
Eru börnin sem koma á námskeiðin orðin mikið feit?
Það er nú allur gangur á því. Oft eru þetta einstaklingar sem eru byrjaðir að fitna og verða fyrir aðkasti í skólum, eru jafnvel farnir að loka sig af og eru með minnkandi námsárangur. Starfið hjá okkur byggist á hreyfingu eins og: sundi, skautum, keilu, boltaleikjum og öðru sem við getum gert í sal. Það er unnið á móti einelti með því að styrkja sjálfstraustið og sjálfsmyndina. Holdafar er misjafnt í fjölskyldum stundum eru báðir foreldrarnir feitir, en í öðrum fjölskyldum er bara annað foreldrið feitt. Nú svo koma fjölskyldur þar sem bara einn einstaklingur í fjölskyldunni er feitur.
Trúlega má stundum kenna erfðum um, en í mjög mörgum tilfellum fitnar fólk vegna rangrar fæðu. Skyndibitar eru allsráðandi nú til dags, fólk eldar sjaldan og í mörgum skólunum er boðið upp á sæta drykki og sæta mjólkurvöru, ásamt fleiru sætmeti. Í mörg ár hefur feitt fólk fengið röng skilaboð um aðferðir við megrun og breyttan lífsstíl, fólk heldur að ekki sé um annað að velja en að borða eingöngu grænmeti og ávexti, ekki megi láta neitt eftir sér það sem eftir er ævinnar. Þessari hugsun þarf að snúa yfir í það að fólk borði oftar og reglulega yfir daginn, hollan mat, ekki mikið á kvöldin og ekki fyrir svefninn og muni eftir að borða morgunmat. Forvarnir eru það eina sem gagnar í baráttunni gegn þessum vávaldi, sem offita og matarfíkn er.
Í sjónvarpsþáttunum reyndir þú margar aðferðir, gerðu þær ekki gagn?
Já, það voru 36 þættir með mismunandi aðferðum og ekkert af þeim virkar. Það er engin skyndilausn til hvorki í pillu- eða duftformi sem kemur þér út úr þessum vanda. Ekkert breytir þessu nema þú sjálf/ur með breyttum lífsháttum. Ástæða þess að fólk gerir eitthvað er að það er óánægt og ósátt við útlit sitt. Það þarf að byrja á að breyta mataræðinu og gera það með jákvæðu hugarfari, það er hægt að pína sig í einhvern ákveðinn tíma og vera óánægður allan tímann. Með slíku hugarfari næst enginn árangur. Ef einstaklingur á námskeiðunum hjá mér finnur sig ekki í því sem hann er að gera endurgreiði ég honum og sendi hann í burtu.
Ef hann finnur sig ekki hjá mér er hann ekki tilbúinn að taka á sínum málum og getur verið að bulla einhverstaðar annars staðar. Ég vil ekki óánægða einstaklinga á námskeiðin, sem segja svo að þau virki ekki. Því að þau virka ef þú gerir það sem ætlast er til af þér. Þetta er leiðinlega einfalt mál. Ég hef frjálsan vilja til að velja og hafna því hvort ég geri jákvæða eða neikvæða hluti. Ég get valið á milli eplis og Prins pólós, ég er vanur að velja Prins póló þó að ég viti að það sé rangt og að epli sé hollara. Það er þessu sem ég verð að snúa við, því að ég uppsker eins og ég sái. Það neikvæða sem ég set ofan í mig hefur neikvæð áhrif en það jákvæða sem ég set ofan í mig hefur jákvæð áhrif. Það sem meira er ég verð að gera það með réttu hugarfari. Námsskeiðin hjá mér eru ekki megrunarnámskeið ég er ekki að grenna einn eða neinn ég á alveg nóg með mig.
Hinsvegar get ég leitt fólk inn á þær brautir sem ég tel vera réttar og þessar eru réttar þó svo að þær séu erfiðar, þær eru einfaldar en fjandanum erfiðari. Málið er, að það er enginn vandi að missa þrjátíu- til fimmtíu kíló, en það er stór mál og vandi að standa í stað. Sá einstaklingur sem er orðinn illa feitur og ákveður að fara í megrun í ákveðinn tíma, snýr öllu við og hálfsveltir sig í tvo mánuði eða þrjá eða hvað svo sem miðað er við, en bíður eftir því allan tímann að þessu ljúki þannig að hann geti farið að borða aftur. Þannig að hann tekur ekki á rót vandans í upphafi. Með námskeiðunum erum við að kenna fólki að taka á rót vandans í upphafi.
Margir einstaklingar sem koma á námskeiðin til mín eru fastir í þessu gamla fari og eru að prufa. ,,Ég ætla að láta reyna á þetta hvort það dugar, ég veit að þetta mistekst, en ég ætla samt að láta reyna á það því að það er eitt af því sem er í boði“. Málið er að við erum alltaf svo full af sektarkennd yfir að gera ranga hluti og það er alltaf verið að minna okkur á að við erum að gera rangt. Því breytum við. Ég nota smjörva á brauð en rjóma í kaffi. En ég vel gott kaffi sem ég mala sjálfur og drekk lítið af því. Ég náði góðum árangri í sjónvarpinu en síðan hefur það verið barátta að halda þeirri þyngd sem ég náði þá. Ég hef bæði þyngst og lést síðan en það er alveg öruggt að ef ég hefði ekki haft það aðhald sem starfið veitir mér væri ég aftur orðinn 180 kg. Það eru til alls konar megrunarkúrar sem virka um stundarsakir en það virkar ekki til lengdar því að fáir hafa úthald, gefast upp og falla í sama farið. Þess vegna þurfum við alltaf að vera að minna okkur á.
Hvernig fara námskeiðin fram?
Ég er með lokuð aðhaldsnámskeið í World Class í Fellsmúla 24, sem meðal annars felast í því sem ég kalla jógaspuna. Það er sambland af Hathajóga-æfingum, öndun og venjulegum hjólaæfingum, þetta fer fram í dempaðri birtu, við kertaljós og reykelsi, í lokuðum sal þar sem dregið er fyrir spegla. Það er hjólað eftir sérstöku lagavali. Þessi námskeið hafa skilað góðum árangri og eru vel sótt. Í Heilsugarðinum í Brautarholti 8, erum við með barnastarfið, börn frá 7 til 12 ára, einnig hef ég verið með námskeið þar annars vegar fyrir konur sem við köllum Valkyrjur í vígahug og hinsvegar fyrir karla sem við nefnum Vígamenn í vináttu.
Í þeim hópum er fólk sem treystir sér ekki inn á líkamsræktarstöðvar. Hóparnir hittast einu sinni í viku þar sem við erum með sérstaka fræðslu, svo er skipulögð ganga tvisvar í viku. Fólkið í þessum hópum er að skila sama árangri í megrun og hóparnir sem eru í líkamsþjálfun inni í World Class. Það bendir til þess að fólk þurfi ekki líkamsræktarstöð og bleikan bol til að stunda heilbrigt líferni. Er notuð einhver sérstök hugartækni? Nei, nei, en við tölum tungum feitra, næringin er tekin föstum tökum og einingin er góð í hópunum, ekki eru fleiri en 15 í hverjum hópi. Þannig næ ég vel til hvers og eins. Við fitjuðum upp á þeirri nýbreytni í vetur að vera með hópa fyrir ellilífeyrisþega, öryrkja, barnshafandi konur, konur eftir barnsburð og heimavinnandi konur.
Kristalmeðferð
Electro-Crystal Therapist. Guðjón Sigmundsson (Gaui litli) er menntaður í meðhöndlun með kristöllum frá Bretlandi og vinnur með kristalla í ýmsu formi, eins og þeir koma úr náttúrunni, í áruvefurum, í vörjum og með tækni sem kallast Electro-Crystal Therapy. Frá ómuna tíð hafa kristallar verið notaðir til heilunar. Í kristallaheilun er tíðni orkustöðvanna samstillt, hver við aðra og í samspili við flæði náttúrunnar. Orka berst um líkamann eftir orkubrautum (meridians).
Orkuröskun getur komið út í líkamlegri eða andlegri vanlíðan og eða veikindum. Electro-Crystal Therapy er nútímalegt form á óhefðbundum lækningum. Notuð eru tæki sem gefa frá sér tíðni sem er leidd í gegnum kristalla. Tíðnin er ýmist til að róa, koma á jafnvægi eða örva viðkomandi svæði, allt eftir hvað þarf. Einnig vinnur Gaui litli með heilun innra barns. Meðferðirnar hafa reynst fólki vel sem tekst á við streitu, þreytu, kvíða og ýmsa aðra andlega líkamlega kvilla. Þær henta börnum jafnt sem fullorðnum. Manneskjunni líður betur, hún er í jafnvægi og getur tekist á við lífið á jákvæðan og uppbyggjandi hátt.
I.S.