Neytendasíða – Bygg og grænmeti til betra lífs

Trefjaefni og bætt starfsemi ristils
Nú er orðið ljóst að trefjaefni gegna mikilvægu hlutverki í mataræði til að varðveita góða heilsu. Trefjaefni eru flokkuð í vatnsleysanleg og óleysanleg. Óleysanleg trefja-efni eru nauðsynleg til að viðhalda eðlilegri starfsemi ristilsins. Áhugi á vatns-leysanlegum trefjaefnum hefur aukist mikið þar sem þau eru talin lækka kólesteról í lifur og blóði. Í norrænum næringarráðleggingum er lagt til að fullorðnir neyti 25 til 30 gramma af trefjaefnum á dag. Niðurstöður neyslukönnunar sýna, að þorri Íslendinga er undir þeim mörkum og helmingur fólks fær innan við 16 grömm af trefjaefnum á dag. Ástæðan er fyrst og fremst lítil neysla á kornmat og grænmeti. Þessir fæðuflokkar ásamt ávöxtum og berjum veita svo að segja öll trefjaefni fæðunnar. Margir aðhyllast þá kenningu að okkur sé hollast að neyta fæðu sem vex á sömu slóðum og við sjálf, þannig sé okkur Íslendingum t.d. hollara að fá C-vítamín úr rófum í stað appelsína (sem líka eru kælandi) og að bygg sé betra fyrir líkama okkar en hrísgrjón sem vaxa á mjög suðlægum slóðum.

Byggmjöl og Bankabygg
Bygg er sú korntegund sem best gengur að rækta á Íslandi. Það inniheldur hátt hlutfall Betaglúkana sem taldir eru lækka magn kólesteróls í blóði. Bygg er hreinsandi, bólgueyðandi og mýkjandi. Það er því gott fyrir þá sem hafa viðkvæma meltingu. Þó bygg sé trefja-ríkt og hollt er ekki hefð fyrir að það sé notað til baksturs hér á landi. Helsta ástæðan er líklega sú að lítið glúten er í byggi og lyftigetan lítil. Til að brauð lyfti sér vel er gott að nota 25-30% af byggi á móti öðru mjöli, þó geta snjallir bakarar náð góðum árangri með hærra hlutfalli. Bæta má byggmjöli í flestar uppskriftir og auka með því ferskleika og hollustu brauðanna. Einnig er gott að nota byggmjöl í stað rasps við steikingu á fiski og alla aðra matargerð þar sem notað er mjöl. Gott er að bæta starfsemi ristilsins með því að taka inn 1-3 matskeiðar af möluðu byggi með morgunmatnum.

Bankabygg (hin íslensku hrísgrjón)
Bankabygg (heilt bygg) þarf að sjóða í u.þ.b. 45-50 mín, í hlutföllunum 1 dl bygg á móti 3 dl af vatni. Suðutímann má stytta verulega með því að leggja byggið í bleyti, t.d. yfir nótt. Eftir suðu verður 1 dl af Bankabyggi u.þ.b. 2 1/2 dl. Soðið Bankabygg má nota m.a. í brauð, súpur, grauta, sósur, salöt og pottrétti og eitt sér með mat í stað hrísgrjóna. Handhægt er að eiga soðið Bankabygg í ísskápnum til að nota í bakstur og aðra matargerð. Tilvalið er að sjóða Bankabygg í kjötsúpu og það þykir einkar gott með fiski. Bygg-grautur með kanel, eplum og rúsínum er lostæti. Næringargildi í 100 g af byggi er u.þ.b. Orka 1280 kJ / 302 kkal. Prótein 9 gr. Kolvetni 62 gr. Fita 2 gr. Trefjaefni 12 gr.

Spírun Bankabyggs
Ávinningur þess að láta korn, fræ og baunir spíra er sá að þau „vakna“ úr dvala. Við þessa vakningu lifna ýmis góð og nærandi efni eins og ensím. Spírun brýtur einnig kolvetnið niður í einfalda sykrunga og breytir fitu í fitusýrur. Því meiri og betri ensím sem við fáum í kroppinn því auðveldara eigum við með að brjóta niður fæðuna og nýta næringuna úr henni. Aðferð: Kornið eða fræið er þvegið og látið liggja í bleyti í u.þ.b. 8-10 klst. Þá er vatninu hellt af og kornið skolað. Það er síðan fært í spírunarbakka eða annað ílát t.d. krukku, og vatnið látið síga af því í gegnum klæði sem ekki heldur í sér raka en sígur vel í gegnum t.d. tjull“ efni. Skolið kornið kvölds og morgna, til að hvorki mygli né rotni. Spírurnar eru tilbúnar á u.þ.b. fjórum dögum. Spírað kornið geymist best í ísskáp í loftþéttu íláti. Gott er að skola það með fersku vatni annan hvern dag. Best er að borða spírurnar ferskar t.d. í köldum réttum, salötum eða sem morgunkorn.

Safi úr bygggrasi
Næsti valkostur er að láta kornið vaxa áfram, rækta bygggras og pressa úr því safa. Til að rækta bygggras þarf fyrst að láta heila byggkornið spíra eins og lýst er hér að ofan. Þegar spírurnar eru orðnar jafnlangar og kornið sjálft eru þær tilbúnar til sáningar. Spíruðu bygginu er sáð frekar þétt í moldarbakka og vökvað. Til að örva rótarmyndun er gott að hylja bakkann með götuðu svörtu plasti. Eftir ca. þrjá daga er plastið fjarlægt. Þá er bakkinn færður á sólríkan stað eða undir gróðurljós. Þegar grasið er orðið u.þ.b. 12-15 cm hátt er það tilbúið til notkunar. Grasið er klippt niður ca. hálfan cm frá rótinni og sett í grasapressu (t.d handsnúna safapressu). Drykkinn er best að drekka strax því næringin byrjar að minnka eftir 15-20 mínútur. Hæfilegur skammtur er u.þ.b. 1/2 dl 1-2 sinnum á dag. Safi úr bygggrasi er af sérfræðingum talinn ein fullkomnasta fæða sem völ er á. Hann inniheldur m.a. 18 aminósýrur, þ.á.m. þær 8 sem líkaminn getur ekki myndað sjálfur en verður að fá úr fæðunni og fjölda annarra næringarefna sem líkaminn þarf á að halda. Jurtalæknar mæla með notkun drykkjarins, m.a. til að hreinsa blóðið og lifrina, mýkja og draga úr bólgum í maga, meltingarvegi og þvagrásarkerfi. Þeir telja hann auka varnir líkamans, vinna gegn krabbameini og hægja á öldrun. Drykkurinn er sérstaklega ensímríkur, fullur af súrefni sem fæst úr græna litnum, sem er langbesta andoxunarefnið sem völ er á. Hann er basískur og þ.a.l. afar styrkjandi fyrir ónæmiskerfið, stútfullur af A-vítamíni og próteinríkur. Einnig hafa verið gerðar viðamiklar rannsóknir í Japan sem sýna að bygg-gras inniheldur B-12 vítamín. Í bygggrasi er mikið af chlorophyll, járni og C-vítamíni og ellefu sinnum meira kalk en í mjólk. Sjá nánari upplýsingar á Netinu á slóð: http://www.naturaltechniques.com/index.htm og leitið að barley grass.“

Grænkál
Grænkál má nota á marga vegu, í salöt, súpur, pottrétti, pikkles og flest það er hugurinn girnist. Grænkál er auðugt af járni og kalki sem og öðrum vítamínum og steinefnum og er því einkar gott fyrir blóðbúskapinn. Við suðu eða hitun tapast alltaf einhver næringarefni og því er ráðlegt að sjóða grænkál og annað grænmeti aldrei meira en svo að það verði meyrt. Best er að gufusjóða allt græn-meti til að varðveita bæði kraft og bragð. Ekki fæst ferskt íslenskt græn-kál á veturna og því er ráðlegt að sjóða það niður á haustin og frysta til vetrarins. Það er þá gufusoðið í 2 mín síðan eru fjarlægðir grófustu stönglarnir, kálið kælt vel og látið síga af því vatnið, maukað og síðan fryst í litlum skömmtum. Þannig er það tilbúið til notkunar t.d beint í pottrétti, súpur og jafninga. Athugið að grænkálið minnkar um helming þegar það er hitað vegna vökvataps. Stöngulinn má nota í pottrétti og súpur eða jafnvel gufusjóða hann og borða með smjöri.

Rófur
Lífrænt ræktaðar rófur eru bæði sætar og safaríkar. Rófur eru auðugar af C-vítamíni og eru stundum kallaðar appelsínur norðursins. Þær eru góðar bæði hráar og soðnar. Vinsælt er hjá börnum að naga hráar rófur og tilvalið er að ólífuolíu og anísfræum eru sætar og mjög ljúffengar.

Að rista hnetur og fræ
Hnetur og fræ eru afar nærandi og full af próteini, kalki og öðrum næringarefnum. Hvort tveggja er gott að nota í hina ýmsu rétti, bæði heita og kalda. Til að auka fjölbreytnina er hægt að þurrrista þessa fínu næringu, við það umbreytist bragðið og nær að verða því sem næst himneskt. Þurr-ristun á hnetum og fræjum dregur úr fitumagni og þær verða auðmeltari. Þegar hnetur og fræ eru ristuð er annars vegar gott að þurrrista á pönnu þar til gullið og hins vegar að þurrrista í ofni við 200°C í ca. 5 mín.



Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: