Tengsl vöðvaafls og heilbrigðis ,, Applied Kinesiology“

Applied Kinesiology eða AK á upphaf sitt í Bandaríkjunum í byrjun sjötta áratugarins. AK er einstök aðferð til að meta starfsemi líkamans. Notuð eru s.k. vöðvapróf. Með þeim er unnt að meta afl hinna fjölmörgu vöðva líkamans, hvort sem um er að ræða hina öflugu vöðva í kringum mjaðmaliðina eða þá fíngerðu vöðva, sem stjórna hreyfingum þumlanna. AK notar vöðvaprófin til að meta viðbrögð líkamans við mismunandi áreiti, auk annarra greiningaraðferða. Upphafsmaður AK er bandaríski kírópraktorinn George Goodheart.

Rúmum áratug áður höfðu tveir sjúkraþjálfarar þróað vöðvaprófin til að meta bæklun lömunarveikisjúklinga. Goodheart sá möguleika á að nýta sér vöðvaprófin í starfi sínu sem kírópraktor og smám saman þróaðist aðferð til að greina röskun í byggingu, efnafræði og hinu tilfinningarlega jafnvægi einstaklingsins. Ekki er ætlast til að AK sé notuð ein og sér til greiningar. Nákvæm sjúkrasaga og skoðun, röntgenmyndir og önnur próf eru mikilvæg til að skapa heildarmynd af heilsu sjúklingsins áður en meðhöndlun hefst. Meðhöndlunin miðast við einstaklinginn. Hún er ólík öðrum vöðvaprófunaraðferðum sem þróast hafa í seinni tíð að því leyti að það er ekki notast við vöðvahópa, heldur er hver vöðvi metinn fyrir sig. AK metur heilsuna út frá þremur hliðum. Hliðarnar mynda hinn s.k. heilsuþríhyrning (Triad of Health), sem sameinar byggingarþáttinn, efnafræðiþáttinn og tilfinningaþáttinn í heilsu einstaklingsins.

Bygging: Heilbrigði hryggsúlunnar, mjaðmagrindarinnar, höfuðkúpunnar, kjálkaliðanna og allra liða útlimanna flokkast undir byggingarhliðina. Þetta er sú hlið sem kírópraktorar, osteópatar, tannlæknar, bæklunarlæknar og sjúkraþjálfarar sjá að jafnaði um að meðhöndla.

Efnafræði: Ójafnvægi í innkirtlum, líffærum og líffærakerfum flokkast undir þessa hlið. Um hana sjá yfirleitt læknar, hómeópatar og næringarráðgjafar.

Tilfinningar: Um andlega vanheilsu sjá yfirleitt sálfræðingar og geðlæknar.

Hliðarnar þrjár eru ótvírætt tengdar. Það sést best á því að magavandamál geta stafað af streitu (efnafræði/tilfinningar), að slæma líkamsstöðu má stundum rekja til þunglyndis (bygging/ tilfinningar), að liðabólgur eru oft tengdar fæðuóþoli (bygging/efnafræði). Þar sem AK vinnur að bættri heilsu, þá er mikilvægt að stuðla að því að allar hliðarnar starfi sem best. Líkamsstaðan segir ótal margt um heilsufar sjúklingsins. Þess vegna er eitt fyrsta verk þeirra sem starfa með AK að athuga hvernig sjúklingurinn ber sig. Hvar höfuðið er miðað við axlirnar, hvort axlirnar eru í sömu hæð og beinar, hvort báðir handleggir snúa jafnmikið inn, hvort mjaðmirnar eru í sömu hæð, fæturnir beinir o.s.frv. Ef vöðvar stoðkerfisins starfa ekki rétt, leiðir það til ójafnvægis og rangrar líkamsstöðu, aukins álags á liði og með tímanum bólgu og verkja. Ein ástæða þess að afl vöðvanna er ekki sem skildi, er sambandið á milli vissra vöðva og líffæra/kirtla.

Má þar nefna að langvarandi streita veldur óeðlilegu álagi á nýrnahetturnar, sem vinna að framleiðslu streituhormóna. Samband er á milli nýrnahettanna og vöðva sem liggur framan á lærinu og festist á innanvert hnéið. Þessi vöðvi veitir stuðning við mjaðmagrindina og hnéið. Langvarandi streita, hefur neikvæð áhrif á afl vöðvans, og minnkaður stuðningur við hné og mjaðmagrind veldur álagseinkennum í þessum liðum. Sjálf meðhöndlunin miðar að því að fá sem besta starfsemi í hryggsúluna, mjaðmagrindina og aðra liði líkamans auk þess að jafna höfuðkúpu og spjaldhrygg. Beitt er þrýstinuddi á viðbragðasvæði (neurolymphatic points og neurovascular points) og nálastungupunkta. Gefin eru ráð um mataræði og líkamsæfingar og notkun blómadropa. Einnig er unnið að bættri starfsemi hinna mismunandi líffærakerfa með jurtum, vítamínum og steinefnum. Með auknu jafnvægi er unnið að „fínstillingu“ líkamans.

Vöðvaprófin gera það að verkum að auðvelt er að meta bætt ástand strax eftir meðhöndlun og þegar sjúklingurinn kemur inn næst. Á þennan hátt tekur sjúklingurinn virkan þátt í meðhöndluninni og batanum sem henni fylgir. AK er útbreidd um allan heim.

Þær stéttir sem standa að samtökunum International College of Applied Kinesiologi (ICAK) eru kírópraktorar, osteópatar, læknar, sjúkraþjálfarar og tannlæknar. Haldnar eru árlegar ráðstefnur víðsvegar um heiminn auk þess sem reglulega eru haldin fjölsótt námskeið, þar sem löggiltir AK kennarar miðla af fróðleik sínum til byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir.

Höfundur: Oddný Óskarsdóttir lauk fjögurra ára námi frá Anglo-European College of Chiropractic í Englandi 1990 og hefur undanfarinn áratug unnið í Englandi og í Svíþjóð sem löggiltur kírópraktor. Hún rekur eigin stofu og stendur að námskeiðahaldi í Applied Kinesiology.  Þeir sem óska nánari upplýsinga er bent á síma: 661 5985

 Flokkar:Meðferðir

%d bloggers like this: