Kattarkló; undrajurt úr regnskógunum

Merkileg jurt sem dregin hefur verið fram í dagsljósið nú á síðari árum er Kattarkló (Uncaria tomentosa). Kattarkló er upprunnin í Amasonsvæði Perú og er nú orðin þekkt um allan heim fyrir ótrúlegan lækninga- eiginleika sinn. Þó að mikið af frásögnum um lækningar með kattarkló séu ekki strangvísindalega sannaðar með tvíblindum víxlprófunum á stórum hópi fólks eru þó staðfestar frásagnir nægilega áhugaverðar til að gefa sannfærandi ástæðu til bjartsýni.

Grundvallað á frásögnum og skýrslum virðast vera sannanir fyrir því að kattarkló getur, að minnsta kosti í sumum tilfellum, hjálpað fólki með svo ólíka sjúkdóma eins og æxlis-vöxt, liðagigt og fjölda annarra gigtarsjúkdóma, astma, heymæði, fjölþætta ofnæmissjúkdóma, efnaóþol/ ofnæmi, heila og mænusigg, herpessýkingar, síþreytu og þunglyndi/depurð, candidasýkingar, sýkingar af sníkjudýrum, Crohnssjúkdóm og ristilbólgu, magabólgu og gyllinæð. Auk þess bólgur eða stækkun á blöðruhálskirtli, tíðavandamál kvenna, blóðsykurvandamál (hypoglycemia), vandamál frá æðakerfinu og sýkingar af völdum veira eða baktería, þ.m.t. sýkingar sem eyðnisjúklingar fá oft.

Þar að auki er kattar-kló talin draga úr hliðaverkunum af geisla- og lyfjameðferð sem fylgja krabbameinsmeðferð. Kemur allt þetta til með að standast vísindalega gagnrýni? Sá sem skrifar um þetta heldur það og að tíminn muni brátt leiða það í ljós. Auk þess virðist kattarkló vera algerlega óeitruð, jafnvel þó að notuð séu allt að 20 grömm á dag í nokkra mánuði, sem er miklu meira en venjulega er notað. Í Perú er innri börkur eða rót runnans sem lyfið fæst úr soðinn í lítra af vatni í 30 mínútur og seyðið drukkið yfir daginn. Minni háttar veikindi lagast oft af 2-3g á dag í hylkjum sem fást í Bandaríkjunum.

Sá sem þetta skrifar, Phillip N. Steinberg, CNC, segist hafa notað eitt gramm af kattarkló þrisvar sinnum á dag sl. þrjú ár án neinna aukaverkana. Hann segist hafa orðið vitni að því að ýmiskonar sýkingar t.d. hálsbólga, eyrnabólga og bólga í nef- og ennisholum hafi lagast algerlega á 2-3 sólarhringum, án þess að neitt annað hafi verið notað. Einnig læknar það tásveppi með því að duft úr þurrkaðri jurtinni er sett á milli tánna.

En hvað er það sem gerir kattarkló svona merkilega lækningajurt? Svarið liggur í einstæðu efnainnihaldi hennar. Í kattarkló finnast að minnsta kosti fimm mismunandi flokkar efna með lækningaeiginleika.Þetta eru: Alkalóíðar, fjölfenol (polyphenols) og proanthocyanidin, þríterpín, glycosið og jurtasterol. Rannsóknarstofur í Austurríki, Þýskalandi, Ungverjalandi, Englandi og Perú hafa sýnt fram á að þessi efnasambönd hafa ónæmishvetjandi eiginleika, verka gegn örverum og æxlum, eyða bólgum og ofnæmisviðbrögðum, græða sár, hindra skaðlega oxun (antioxidant) og hjálpa til við aðlögun að streitu.

Vegna þess að kattarkló er oxunarvörn og streituvörn er hún vel fallin til að vera notuð daglega hjá þeim sem þarfnast hámarksviðnáms gegn margs háttar streituvöldum nútíma lífshátta. Þó er ekki mælt með að fólk sem hefur fengið líffæri úr öðrum noti kattarkló eða fólk sem notar magasárslyf eða hefur verið gefið framandi prótein í lækningaskyni. Einnig getur kattarkló valdið samdrætti í móðurlífinu og því er þunguðum konum eða konum sem vilja verða þungaðar ekki ráðlagt að nota kattarkló. Hliðarverkanir af kattarkló eru fátíðar og koma oftast á fyrstu vikunni sem jurtin er notuð.

Örfáir fá hægðatregðu eða niðurgang. Í einstaka tilfellum hefur verið sagt frá að gömul einkenni komi aftur tímabundið, samtímis og sjúkdómurinn er rekinn út úr líkamanum. Þetta er vel þekkt fyrirbæri, sérstaklega úr hómópatalækningum. Venjulega lagast þannig einkenni á einum til tveimur vikum. Komi einhver þannig einkenni fram má minnka daglegan skammt tímabundið meðan einkennin ganga yfir. Í örfáum tilfellum hafa komið fram húðútbrot sem sennilega stafa af ofnæmi. Því er oft gott að byrja með frekar lítinn skammt af kattarkló og auka síðan, því að ofnæmisviðbrögð koma oftast fljótt, ef þau koma á annað borð.

Rétt er að geta þess í lokin að þessi hliðaráhrif eru mjög fátíð og meiri hluti fólks fær engar aukaverkanir af að nota kattarkló. Nú eru á markaðinum margskonar heilsuvörur búnar til úr kattarkló í hylkjum, töflum, tei, vökva eða dufti. Flest þessi efni eru framleidd úr innri berki runnans sem kattarkló er unnin úr. Þó hefur heyrst um að komin sé á markaðinn vara sem unnin er úr rótinni og innri berkinum. Sagt er að rótin innihaldi meira af alkalóíðum en börkurinn. Einnig er til í Austurríki og Þýskalandi sérstaklega gerður extrakt úr rótinni, sem einkum er ætlaður til að lækna krabbamein og eyðni. Þessi extrakt sem þróaður var hjá lyfjafyrirtæki fæst sennilega ekki annarsstaðar enn sem komið er og

er rúlega lyfseðilsskyldur. Einnig er nú framleitt í Bandaríkjunum jurtalyf sem er blanda af krabbameinsjurtaseyðinu Essiac og kattarkló. Ég sagði frá Essiac í Heilsuhringnum fyrir nokkrum árum, en það er gert úr fjórum jurtum. Ein þeirra er hundasúra. Höfundur greinarinnar um kattarkló segir að ekki megi sjóða hundasúruna, heldur aðeins hita upp í u.þ.b. 80°C. Hinar jurtirnar á að sjóða og blanda saman við hundasúruextraktinn að suðu lokinni. Kattarkló er svo blandað í allt saman. Að sögn greinarhöfundar er þetta jurtalyf frábært við öllu mögulegu og hann segir, að gallinn á því Essiac sem fengist hefur sé að hundasúran sé eyðilögð með því að sjóða hana. Því er Essiac ekki eins gott krabbameinslyf og það var á meðan hjúkrunarkonan Rene Caisse bjó það til. Með því að blanda það með kattarkló er það þó ennþá betra.

Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, október 1998 úr grein í Herald Store News, október/nóvember 1996.

Höfundur: Ævar Jóhannesson



Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: