Vex villt í mörgum heimshlutum s.s. Grænlandi, Íslandi, norður um alla Skandinavíu, Evrópu og vestur Asíu. Hér á Íslandi vex tegundin thymus praecox, fjölær, u.þ.b. 10 cm á hæð, skriðul og hefur sterkan, sætan, kryddaðan ilm, blóm eru bleik til fjólublá. Kjörlendi hennar eru þurr grýtt melabörð og mólendi.
Tegundir eru margar innan ættarinnar, ýmist villtar eða ræktaðar og mismunandi eftir heimshlutum. Flestar þeirra finnast í Miðjarðarhafslöndunum og eru þar allt upp í að vera litlir runnar á hæð. Einnig er blóðberg ræktað til olíugerðar á Spáni, Frakklandi, í Þýskalandi og víðar. Til forna notuðu Egyptar blóðbergsolíu til að smyrja með lík sem áttu að varðveitast um langan tíma. Grikkir og Rómverjar gerðu reykelsi úr blóð-bergi og brenndu við helgiathafnir í hofunum til að sótthreinsa loftið og minnka með því smithættu í fjöl-menni, einnig átti reykurinn og ilmanin af blóðberginu að fæla frá eiturslöngur og önnur hættuleg skriðdýr.
Það var trú manna að með því að drekka rótsterkt seyði af blóðbergi kæmust menn í djúpt andlegt ástand, sem gerði þeim mögulegt að komast í samband við huldar vættir. Vegna bakteríudrepandi áhrifa sinna voru jurtablöndur úr blóðbergi og rósmarín notaðar til inntöku og innöndunar til að styrkja ónæmiskerfið og komast hjá ýmsum pestum eins og blóðkreppusótt. Einnig var blóðbergsolía notuð sem sótthreinsandi lyf fyrir aðgerðir og uppskurði. Í sögu jurtalækninga er blóðbergið mjög áberandi jurt og í dag er hún viður-kennd sem áhrifarík lækningajurt, bæði til innvortis notkunar fyrir öndunarfæri og meltingarveg og ekki síður til notkunar útvortis sem verkjastillandi á vöðva og gigtarverki. Áhrif hennar gegn bakteríu- og sveppasýkingum og styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið eru ekki síður þekkt svo og bólgueyðandi og græðandi áhrif á útbrot og sár sem gróa seint og illa.
Seyði af blóðbergi er gott í munnskol við sárum og bólgum í munni og hálsi og losar það slím úr öndunarfærum sé það soðið í vatni og gufunni andað að sér. Sé seyðið drukkið er það gott fyrir meltingarfærin, örvar og bætir meltinguna og dregur úr vindverkjum og bólgu í þörmum. Við gigtar- og vöðvaverkjum er gott að setja nokkra dropa af blóðbergsolíu út í baðvatnið eða nudda gigtarstaðinn með áburði eða nuddolíu úr blóðbergi. Sem kryddjurt til matar hefur blóðbergið löng-um þótt ómissandi þegar vanda á til matargerðar. Það er vinsælt í pottrétti og til marineringar bæði fyrir kjöt og fisk og er þá blandað saman blóðbergi, ólívuolíu, rósmarín og sítrónusneiðum.
Hér í lokin kemur svo tillaga að marineringu fyrir 4-6 fiskflök.
6 piparkorn
4 lárviðarlauf
1 lítill laukur
1 tsk. saxað rósmarín
2-3 sneiðar sítróna
1-2 msk. saxað blóðberg
1 dl mysa
2-3 strá graslaukur
ólívuolía eftir þörfum.
Fiskflökin látin liggja í 2-4 klst. í blöndunni, síðan allt látið malla stutta stund við hægan hita eða þar til fiskurinn er orðinn meyr. Borðað með nýjum kartöflum.
Höfundur: Gígja Kjartansdóttir
Flokkar:Jurtir