Ungbarnanudd

Ungbarnanudd er sérstaklega lagað að þörfum ungbarna, þ.e.a.s. barna á aldrinum 1-10 mánaða. Það er samsett úr indverskum, kínverskum og sænskum nuddstrokum. Indversku og sænsku nuddstrokurnar virka vel saman. Í indverska nuddinu er strokið í átt að útlínum líkamans. Það virkar spennulosandi og slakandi, meðan sænsku nuddstrokurnar örva blóðrásina til hjartans. Fótanuddið kemur frá kínverskri svæðameðferðartækni, sem byggir á þeirri kenningu að á fætinum séu öll svæði líkamans kortlögð og hægt sé að hafa jákvæð áhrif á þau með markvissu nuddi. Á tánum er t.d. svæði höfuðs, ennis- og kinnhola, augna og eyrna. Ungbarnanuddið byggist m.a. á þéttum taktföstum strokum, sem allar eiga sín nöfn. Þær indversku eru nefndar: Opin bók, fiðrildið, indverskar mjaltir, skrúfan, rúllan, vatnshjólið, þumalslétta, bakstrokur, rennibrautin, andlitsstrokur og teygju- og samhæfingaræfingar.

download

Sænsku strokurnar eru nefndar: Sænskar mjaltir, sól og máni, greiðan og ,,I love you“. Þá er sérstök nuddtækni notuð við kveisu- og vindverkjum ungbarna, sem bandaríski ungbarnanuddkennarinn, rithöfundurinn og yogakennarinn VimalaMcClure hannaði, eftir að hafa kynnt sér ítarlega m.a. yogafræði og ungbarnanudd í nokkur ár á Indlandi, þar sem hún starfaði árið 1973, á heimili fyrir munaðarlaus börn. Hún lærði fyrst nudd af eldri börnunum, sem nudduðu yngri börnin á heimilinu og fór að elska börnin við þau nánu tengsl sem nuddið gaf.

Hún reyndi sjálf undraáhrif nuddsins á eigin sál og líkama eftir að hún veiktist alvarlega af malaríu og var nær dauða en lífi. Allar nágrannakonur hennar skiptust á að annast hana og nudduðu og sungu fyrir hana daglega, þar til hitinn lækkaði. Hún segist aldrei gleyma kærleiks-ríkri snertingu handa þeirra. Skömmu eftir komu hennar heim til Ameríku árið 1977, eignaðist hún sjálf barn og hóf þá að kynna ungbarnanudd með fyrirlestrum og námskeiðum, auk stofnunar skóla og alþjóðasamtaka, sem m.a. mennta kennara um gjörvöll Bandaríkin og Evrópu.

Vesturlöndum. Á Indlandi er aldagömul hefð fyrir ungbarnanuddi
Vimala Schneider McClure valdi saman nuddstrokur frá hinum ýmsu heimshlutum á heildrænan hátt og á hún mestan þátt í útbreiðslu ungbarnanudds á Franskur fæðingarlæknir, sem einnig hafði dvalið á Indlandi um skeið, dr. Frederik Leboyer var fyrstur til að kynna ungbarnanudd á Vesturlöndum. Það sem heillaði hann mest, var að þrátt fyrir aumustu aðstæður og vesæld, héldu indversku mæðurnar fátækrahverfum Kalkútta áfram að veita börnum sínum af þessari kærleiksríku hefð. Laboyer gaf út bókina „Shantala – un art traditionnel, le massage des infants“ eða „Loving hands“ á ensku. Bók þessi kom út árið 1976 og hefur verið þýdd á fjölda tungumála og er prýdd fallegum myndum af indverskri móður sem situr á strámottu og er að nudda barnið sitt. Þar er líka að finna fallegan ljóðrænan texta, sem gerir nuddinu góð skil.

Ungbarnanudd eykur nána tengslamyndun
Húðin er háþróað skynfæri. Hjá 8 vikna gömlu fóstri má greina að það skynjar snertingu. Í móðurkviði verður húð barnsins fyrir örvun við taktbundinn samdrátt og slökun legsins. Sjálfa fæðinguna í gegnum fæðingarveginn má líta á sem kröftugt nudd og er mikil umbreyting fyrir barnið að koma úr hlýju og öruggu umhverfi móðurkviðs, þar sem haldið er þétt utan um það og „út í heiminn“. Ungbarnanudd og sú líkamlega nálægð við móðurina sem í nuddinu felst, veitir barninu öryggiskennd ásamt þeirri vellíðan og slökun sem strokurnar skapa. Ungbarnanudd má líta á sem aðgerð til að milda áhrif þeirrar umbreytingar sem fæðingin er, með því, fyrst og fremst, að veita barninu áframhaldandi nána líkamlega snertingu.

Rannsóknir við læknaháskóla og aðrar kannanir
Læknaháskólinn í Miami gerði rannsókn á yfir 20 fyrirburum og léttburum, sem fengu nudd daglega. Greinilegur munur var á þeim börnum sem voru nudduð og börnum sem ekkert nudd fengu. Börnin sem nudduð voru tóku mun örari framförum og þyngdust hraðar. Sálfræðingurinn Ruth Rice í Dallas, bar saman tvo hópa fyrirbura sem voru nýkomnir heim af vökudeild. Mæðrum annars hópsins var falið að sjá og hugsa um ungabörnin á hefðbundinn hátt, en mæðurnar í samaburðarhópnum áttu þar að auki að nudda börn sín daglega. Að fjórum mánuðum liðnum höfðu þau börn sem fengu nudd daglega tekið mun örari framförum og þyngst hraðar.Ungbarnaleiðbeinendur í Svíþjóð, sem hafa sérhæft sig í ungbarnanuddi fyrir fötluð börn, hafa séð ótrúlegar framfarir á ,,þeirra börnum“ samaborið við önnur álíka fötluð börn á sama aldri, sem ekki hafa fengið nudd.

Við sem kennum ungbarnanudd hér á landi höfum allar þá reynslu, að það gagnist mjög mörgum börnum með svokallaða ungbarnakveisu og loft í þörmum. Foreldrar hafa tjáð okkur að börnin hafi oftar hægðir, sofi betur, séu værari og ánægðari. Nuddið er mikilvæg hjálp þar sem aðskilnaður hefur orðið á milli móður og barns, einkum ef hann á sér stað strax eftir fæðinguna. Fyrir börn sem þurfa sérstaka umönnun, eru fötluð að einhverju leyti, er ungbarnanudd mjög gott. Það hjálpar bæði barninu og foreldrum þess. Hafa ber í huga að þessi börn eru meira lík öðrum börnum en ólík og hafa sömu þarfir og þau. Konur sem þjást af þunglyndi eftir fæðingu, geta haft mikið gagn af nuddinu.

Sjálfstraust foreldra eykst við umönnun þessarar nýkomnu og oft ókunnu veru. Framleiðsla p,,rolactin“ hormóns eykst við nuddið. Það gerist bæði hjá konum og körlum, en þetta hormón örvar brjóstamjólkina og ,,umhyggju-tilfinninguna“. Nuddið er og gagnlegt fyrir feðurna og eldri systkin, sem oft finnst þau vera útundan. Það er líka gott að geta gefið barninu sínu nudd, þegar mamma er ekki til staðar. Á námskeiðunum sem standa yfir í 4 vikur, kennum við foreldrum einnig að gera teygju- og samhæfingaræfingar fyrir vinstra og hægra heilahvel. Þau börn sem aldrei skríða, sem er orðið æ algengara, síðan parketgólfin urðu vinsæl, missa af þessari samhæfingu, sem er svo mikilvæg fyrir eðlilegan þroska barna.

Snerting
Jákvæð snerting er ekki eingöngu ánægjuleg örvun. Hún er líffræðilega nauðsynleg fyrir eðlilegan þroska, eykur öryggistilfinningu, vellíðan og kærleiksríka tengslamyndun. Rannsóknir á dýrum, sem hafa alist upp án snertingar, sýna að þeim hættir til að draga sig út úr hópnum. Þau geta orðið árásargjörn og hafa tilhneigingu til að misþyrma og vanrækja eigin afkvæmi. Kannanir á móðurlegri hegðun ýmissa dýrategunda sýna, að örvun eins og að sleikja kviðinn á meðgöngutímanum, geti haft gagnleg áhrif bæði á móður og afkvæmi. Þegar farið var að nota hólka um háls ýmissa dýra, til að hindra að þau gætu sleikt sig, kom í ljós að þau þroskuðu ekki með sér þá móðurlegu hegðun, sem er nauðsynleg undirstaða fyrir líf afkvæma þeirra.

 

Könnun gerð í hjúkrunarháskólum í Kaliforníu og Los Angeles, leiddi í ljós mjög gagnleg áhrif þess að foreldrar nudduðu magann og töluðu við fóstrið á meðgöngutímanum. Í þessari könnun voru foreldrar beðnir um að nudda maga móðurinnar og tala við fóstrið fjórum sinnum á dag. Fóstrið svaraði með því að hreyfa útlimi og höfuð. Eftir fæðingu, þegar barnið fékk svipaða örvun, svaraði það á sama hátt og það hafði gert í móðurkviði.

Kynni mín af ungbarnanuddi
Árin 1977 og 1982 ferðaðist ég um Indland og þar kynntist ég fyrst ungbarnanuddi. Ég tók eftir því að börnin þar voru mörg svo brosmild og ánægð og sá mæður, alsælar á svip, sitja fyrir utan moldarkofa eða í yfirfullum lestar-klefa, nudda börnin sín. Þeirri sjón gleymi ég aldrei. Ég tók strax ákvörðun í minni fyrstu ferð, að ætti ég eftir að eignast barn, myndi ég gefa því þetta undursamlega nudd. Tveim árum seinna, í Dublin á Írlandi, eignaðist ég tvíbura, nærri þrem mánuðum fyrir tímann. Stúlku, sem vóg aðeins 900 grömm og dreng sem var helmingi þyngri. Við foreldrarnir vorum afar áhugasöm um heilbrigt líferni, yoga, mataræði og óhefðbundnar lækningar. Meðan börnin voru í móðurkviði töluðum við oft við þau, strukum magann og sungum fyrir þau.

Við vorum búin að undirbúa heimafæðingu með nuddi og viðeigandi tónlist. Ég hafði stundað nám í Ljósmæðraskóla Íslands og þóttist hafa þetta allt á hreinu. En þetta fór nú samt öðruvísi en ætlað var. Við vorum í jólafríi á Írlandi, þegar börnin komu í heiminn, tæplega þrem mánuðum á undan áætlun. Okkur var sagt að stúlkan myndi ekki lifa lengur en þrjá daga í mesta lagi, en svo, að þeim liðnum mættum við búast við að hún yrði bæði blind og fjölfötluð. Strax á vökudeildinni þegar þau voru í hitakössum, fórum við að halda þétt utan um þau, tímunum saman og stappa í hana stálinu. Hvísla að henni að hún væri fullkomin og við gætum ekki lifað án hennar. Við strukum líka áruna þeirra.

Ég fór einnig daglega í kapelluna á sjúkrahúsinu, hugleiddi og bað fyrir börnunum mínum. Írska amman og afinn fóru líka stöðugt með bænir. Seinna nudduðum við börnin daglega með ólífuolíu og sungum róandi tóna og vögguvísur á meðan. Við fundum að þetta hafði þau áhrif, að afar sterk tengsl mynduðust á milli okkar og þau tóku fljótt að þyngjast og styrkjast. Starfsfólk sjúkrahússins fór að kalla þau „litlu kraftaverkabörnin“.

Reyndar fengu þau að fara heim miklu fyrr en áætlað hafði verið. Þeim hefur alla tíð síðan heilsast vel og engin fötlun heft för þeirra, Guði sé lof. Nokkrum árum síðar fluttum við til Kaupmannahafnar, þar sem ég lærði og fékk kennsluréttindi í ungbarnanuddi árið 1988. Kennari minn, sænskur hjúkrunarfræðingur og ungbarnanuddkennari frá Bandaríkjunum, var sú fyrsta sem hafði kennararéttindi í Evrópu í þessu nuddi. Við störfuðum síðan saman um tíma í Kaupmannahöfn, þar sem við höfðum saman stofu.

Ég hef haldið fjölda námskeiða í ungbarnanuddi, fyrir foreldra og aðra umsjáendur ungbarna, auk fyrirlestra fyrir áhugahópa, bæði í Danmörku og hér á Íslandi. Vinsældir ungbarnanuddsins hafa vaxið jafnt og þétt á Vesturlöndum og hér á Íslandi eru námskeið í gangi vikulega. Ég nýt þess að kenna foreldrum að nudda börnin sín og taka þátt í að útbreiða nánari tengsl með heildrænni snertingu og kærleika. Nuddið gefur foreldrunum og börnum þeirra dýrmætt tækifæri að eiga rólega og notalega samverustund.  Mannfræðingurinn Ashly Monatague, höfundur bókarinnar „Snerting“, fullyrðir að náið samband barns við foreldra þess, sé undirstaða sjálfsvirðingar þess og sjálfstrausts.

Heimildir: Infant Massage Instructor’s manual by Vimala Schneider.

Höfundur: Þórgunna Þórinsdóttir grinin skrifuð árið 2000



Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d bloggers like this: