Wayne Martin segir í bréfi til Townsend Lette for Doctors and Patients í maí 2000 frá því að lyfið Dipyridamole geti sennilega fækkað þeim sem deyja úr krabbameini umtalsvert og hindrað meinvörp. Þetta lyf er notað til að draga úr líkum á að blóðflögur límist saman og myndi blóðtappa sem loka æðum og valda t.d. hjarta- og heilaáföllum. Aspirín hefur verið notað í sama tilgangi með takmörkuðum árangri.
Í The Lancet, 12. des. 1987 kom skýrsla frá European Stroke Prevention Study. Þar var rætt um að ófullnægjandi árangur væri af asperíni einu sér fyrir fólk sem fengið hefði aðkenningu af heilaáfalli. Í könnun sem skýrt var frá, var 300 mg af dipyridamole daglega bætt við aspirínið sem fólkið fékk. Árangurinn var frábær. Á tveggja ára tímabili fækkaði heilaáföllum um 50% (helming), hjartaáföllum um 38% og dauðsföllum úr krabbameini um 25%.
Eigi krabbameinsfrumur að geta borist með blóðrásinni til fjarlægra líffæra og valdið meinvörpum, verða meinfrumurnar að geta límt sig fastar við innra borð æðanna og fjölgað sér þar og orðið upphaf nýs æxlis. Svo virðist sem dipyridamole hindri þetta með því að varna blóðflögum að límast saman. Þannig hindrar það samtímis að blóðtappar verði til og að meinvörp nái að myndast. Vel má vera að krabbameinshindrandi verkanir dipyridamole megi allar skýra með þessu en fleira gæti þó komið til.
Eva Bestida o.fl. við Háskólann í Barcelona sögðu í skýrslu í Cancer Research í september 1985, frá krabbameinshindrandi verkunum dipyridamole. Efnið hindraði viss efnasambönd (ademosin, thymidin og uridin), sem eru krabbameinsfrumum nauðsynleg, um meira en 80%. Þetta gæti bent til að dipyridamole vinni gegn krabbameini á fleiri en einn veg.
Árið 1958 samdi P.A.Q. O´Meara, prófessor við Trinity College í Dublin á Írlandi skýrslu um blóðkekkjun og krabbamein, sem birtist í Irish Journal of Medical Science. Þar taldi hann að kekkjunarefni (clotting factor), sem krabbameinsfrumur gefa frá sér, valdi því að þær séu húðaðar með fibrini, sem er prótein-efni. Hann taldi að þessi fibrin húð verji þær fyrir árás ónæmisfruma sem annars mundu tortíma þeim (sjá Hh. vor 2000).
Tilhneiging krabbameinsfruma til að gefa frá sér blóðkekkjunarefni veldur því að krabbameinssjúklingar eru í miklu meiri hættu að fá blóðtappa í æðar en annað fólk, t.d. hjarta- eða heilaáföll. Í tímaritinu The Lancet 1964 var skýrsla eftir L. Michaels um sjúklinga sem fengu læknismeðferð til að hindra blóðkekkjun í æðum. Á þessum tíma voru næstum allir sem höfðu fengið blóðtappa í kransæðar eða heila látnir fá lyfið Warfarin, sem leysir upp fibrin. Michaels gerði könnun á fjölda sjúklinga. Aðeins einn hafði dáið úr krabbameini, lungnakrabba sem átt hafði upptök í lunganu.
Samkvæmt líkindareikningi hefðu átta átt að vera dánir úr krabbameini. Um 1970 var hætt að nota Warfarin, vegna þess að sýnt þótti að það lengdi ekki líf sjúklinga og að höfuðorsök blóðtappa í æðum var samloðun blóðflaga en ekki blóðkekkir úr fibrin. Þá var farið að nota asperín, því að það hindrar að vissu marki myndun thromboxan A-2, sem er efni skylt prostaglandinum og eykur samloðun blóðflaga.
Síðan þá hafa verið gerðar þrjár stórar kannanir í Englandi og tvær í Bandaríkjunum, hvort gagn sé af að nota asperín til að hindra blóðtappa í æðum. Aðeins ein þeirra sýndi jákvæðar niðurstöður. Hinar virtust benda til að ekkert gagn væri af að nota asperín til að hindra blóðtappa. Í einu könnuninni, sem sýndi að gagn væri af aspiríninu, var asperínið blandað magnesíum (bufferin). Þannig asperín er kallað magnyl á Íslandi.
Ýmsir draga þá ályktun af þessu að það hafi verið fyrst og fremst vegna magnesíumsins í töflunum sem þær gögnuðust. Wayne Martin segir að það séu fleiri ástæður fyrir því að nota dipyridamole heldur en þær sem hér hafa verið nefndar. Í mars 1999 birti Cancer Research skýrslu frá B. Nieswandt o.fl. við Regenburg Háskólann í Þýskalandi, um kekkjun blóðflaga og krabbamein. Prófaðar voru þrjár mismunandi ,,frumulínur“ á músum.
Þar var sýnt fram á að æxlisfrumur geta sett af stað kekkjun í blóðflögum og að kekkjaðar blóðflögur gera óvirkar NK-drápsfrumur (sjá grein í Hh. vor 2000) sem líkaminn notar sérstaklega sem vörn gegn krabbameini. Dipyridamole er að áliti Wayne Martin skaðlaust meðal sem getur í 300mg skömmtum á dag fækkað bæði hjarta- og heilaáföllum umtalsvert eða allt að 50%. Auk þess telur hann, þó að ennþá hafi hann ekki handbærar viðurkenndar kannanir nema við sortuæxli, að efnið sé ekki síður áhugavert við aðrar tegundir æxla og gæti þá hindrað myndun meinvarpa. Meinvörp eru líka oft, eins og vitað er, erfiðari viðfangs en sjálft móðuræxlið.
Heimild: Wayne Martin, Townsend Letter for Doctors and Patients, maí 2000
Flokkar:Úr einu í annað