Lítið kólesteról í blóði veldur depurð

Hollenskir rannsóknarmenn hafa fundið auknar sannanir fyrir því að lítið kólesteról í blóði er fylgifiskur þunglyndis og depurðar. Þeir mældu kólesteról í blóði 30 þúsund karlmanna og báru saman við ýmis einkenni sem fylgja depurð og þunglyndi hjá sömu mönnum. Í ljós kom að menn með óeðlilega lítið kólesteról í blóði voru kerfisbundið í meiri hættu að þjást af ýmsum þunglyndiseinkennum. Talið er að kólesteról hafi áhrif á efnaskipti boðefnisins serótonins, sem álitið er að stjórni skapgerð. Komið hefur í ljós að lítið kólesteról í blóði veldur því að serótonin er einnig lítið. Spurningin er þá:

Hvað á kólesteról í blóði að vera mikið? Dr. Mercola svarar því þannig að kólesteról sé í sjálfu sér ekki slæmt. Sennilega er ekki gott að það sé minna en 160mg/100ml og trúlega,heldur ekki æskilegt að það sé meira en 200mg/100ml. Kólesteról er forefni fyrir alla sterahormóna t.d. pregnenolons, kortisons, DHEA (dehydro-piandrosterons), prógesterons, testósterons og östrógens, sem allt eru mjög mikilvægir hormónar. Mjög lítið kólesteról í blóði getur hæglega komið fram sem truflun á myndun þessara hormóna, sem gæti lýst sér sem þunglyndiseinkenni í viðkvæmum einstaklingum.

Höfundur Ævar Jóhannesson árið 2000



Flokkar:Úr einu í annað

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: