Úr einu í annað – Vor 2000

Hér fara á eftir 19 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:

 • Bláber draga úr ellihrörnun
 • Má komast hjá að fá brjóstakrabbamein?
 • Grænmeti hollt fyrir beinin
 • Fitusýra í lýsi nauðsynleg þroska heilans
 • Er fitusprengd nýmjólk skaðleg ?
 •  Læknar gamalt lyf æðakölkun?  – Frétt frá 1968
 • Getur fæðuóþol valdið einhverfu?
 • Mongólismi (Down-Syndrome) og fólinsýruskortur
 • Flúor eykur uppsöfnun áls í heilanum
 • NADH – síþreyta og Alzheimersjúkdómur
 • Fólínsýruskortur og krabbamein
 • Flúor eykur uppsöfnun áls í heilanum
 • Hómócystein er hættulegt
 • Karótínefni læknar blindu gamals fólks
 • Jurtalyf við astma o.fl.
 • Létt vatn og krabbamein
 • Jurtalyf eins áhrifarík og Prozac
 • Hormónar og brjóstaaðgerðir
 • Sýklalyf og liðagigt 

Bláber draga úr ellihrörnun
Aldraðar rottur fengu í fóðrinu bláber sem jafngiltu því að maður hefði fengið einn bolla af bláberjum daglega. Ekki var aðeins að þær virtust verða skynsamari við þetta, heldur sýndust þær einnig átta sig betur á umhverfinu en aðrar rottur á líkum aldri. Rannsóknarmennirnir fundu út að rottur sem gefið var spínat og jarðarber voru fljótari að læra en rottur sem aldar voru á stöðluðu rottufóðri. Síðan var bláberjum bætt í fóðrið. Rotturnar sem fengu bláberin voru ekki aðeins fljótari að læra en aðrar rottur, heldur jókst hreyfigeta þeirra fram yfir aðrar jafngamlar rottur. Talið hafði verið að ekkert gæti bætt skerta hreyfigetu sem fylgir öldrun, en það gera þó bláberin. Sennilega stafar þetta af oxunarvarnareiginleika sem pro-anthocyanidin og skyld efnasambönd í bláberjum og fleiri berjum hafa. Þar eru aðalbláber sennilega fremst í flokki en einnig eru blá eða rauð vínber mjög góð, ásamt rauðvíni sem gert er úr þannig vínberjum. Lík efni finnast í berki furu sem grær við Miðjarðarhafið. Það efni nefnist ,,pycnogenol“ og er selt í pillum í heilsufæðubúðum. Hliðstæðar pillur úr aðalbláberjaextrakt eru seldar undir nafninu ,,Strix“ í heilsufæðubúðum og einnig pillur búnar til úr þrúgukjarnaextrakt.  ÆJ: Heimild er m.a. Journal of Neuroscience, september 1999.

Lesandi skrifar Townsend Letter for Doctors and Patients í október 1999 um brjóstakrabbamein. Hann telur að auðvelt væri að komast hjá meiri hluta brjóstakrabbameina á einfaldan hátt, aðeins með því að konur hættu að ganga með brjóstahaldara. Sérstaklega telur hann að skaðlegt sé að sofa með brjóstahaldara og segir að brjóstakrabbamein sé 125 sinnum algengara hjá konum sem nota brjóstahaldara allan sólarhringinn heldur en hjá konum sem aldrei nota brjóstahaldara. Hann vitnar þar í könnun frá Sydney í Ástralíu, sem gerð var af Ross Singer og Soma Grismajer og náði til 4700 kvenna. Sú könnun benti til að brjóstakrabbamein væri álíka sjaldgæft hjá konum sem aldrei nota brjóstahaldara eins og hjá karlmönnum, því að karlmenn fá stöku sinnum brjóstakrabbamein, þó að það sé fátítt. Einnig skiptir máli hversu lengi konur nota brjóstahaldara daglega. Konur sem nota þá 12 tíma á dag, eða hálfan sólarhringinn, eru í 21 sinnum meiri hættu en konur sem aldrei nota brjóstahaldara, segir bréfritari eftir rannsóknarmönnunum áðurnefndu.

Ástæðan fyrir þessu segir hann að sé sú, að bjóstahaldararnir trufli rennsli vökvans í sogæðakerfinu. Því geti t.d. hvítar blóðfrumur (lymfósýtur), sem m.a. hafa það hlutverk að leita uppi afbrigðilegar frumur, ekki sinnt hlutverki sínu nema að hluta. Bréfritari segir að sannanir fyrir þessu séu miklu sterkari en t.d. sannanir fyrir að reykingar valdi lungnakrabbameini og enda þótt ekki séu þekktir allir þættir í sambandi við orsakasamband brjóstakrabbameins og brjóstahaldara, þá séu sannanirnar meira en nægar. Hann er mjög andvígur því að konur noti tamoxyfen til að verjast brjóstakrabbameini og segir að það auki líkur á krabbameini í móðurlífi tvöfalt og þrefaldi líkur á blóðtöppum í æðum. Auk þess eykur það einnig líkur á brjóstakrabbameini, sé það notað lengur en 3-5 ár, samkv. öðrum heimildum og getur valdið starblindu (cataracts). Bréfritari nefnir ekki hugmyndir sem komið hafa upp um að málmspennur, sem stundum eru notaðar í brjóstahaldara, geti valdið brjóstakrabbameini með því að í þeim geti spannast upp skaðlegar örbylgjur. Hann beinir því til fólks að lesa bók Singers og Gismajers, Dressed to kill; The Link between Breast Cancer and Bras.    ÆJ

Má komast hjá að fá brjóstakrabbamein?
Lesandi skrifar Townsend Letter for Doctors and Patients í október 1999 um brjóstakrabbamein. Hann telur að auðvelt væri að komast hjá meiri hluta brjóstakrabbameina á einfaldan hátt, aðeins  með því að konur hættu að ganga með brjóstahaldara. Sérstaklega telur hann að skaðlegt sé að sofa með brjóstahaldara og segir að brjóstakrabbamein sé 125 sinnum algengara hjá konum sem nota brjóstahaldara allan sólarhringinn heldur en hjá konum sem aldrei nota brjóstahaldara. Hann vitnar þar í könnun frá Sydney í Ástralíu, sem gerð var af Ross Singer og Soma Grismajer og náði til 4700 kvenna. Sú könnun benti til að brjóstakrabbamein væri álíka sjaldgæft hjá konum sem aldrei nota brjóstahaldara eins og hjá karlmönnum, því að karlmenn fá stöku sinnum brjóstakrabbamein, þó að það sé fátítt. Einnig skiptir máli hversu lengi konur nota brjóstahaldara daglega. Konur sem nota þá 12 tíma á dag, eða hálfan sólarhringinn, eru í 21 sinnum meiri hættu en konur sem aldrei nota brjóstahaldara, segir bréfritari eftir rannsóknarmönnunum áðurnefndu. Ástæðan fyrir þessu segir hann að sé sú, að bjóstahaldararnir trufli rennsli vökvans í sogæðakerfinu.

Því geti t.d. hvítar blóðfrumur (lymfósýtur), sem m.a. hafa það hlutverk að leita uppi afbrigðilegar frumur, ekki sinnt hlutverki sínu nema að hluta. Bréfritari segir að sannanir fyrir þessu séu miklu sterkari en t.d. sannanir fyrir að reykingar valdi lungnakrabbameini og enda þótt ekki séu þekktir allir þættir í sambandi við orsakasamband brjóstakrabbameins og brjóstahaldara, þá séu sannanirnar meira en nægar. Hann er mjög andvígur því að konur noti tamoxyfen til að verjast brjóstakrabbameini og segir að það auki líkur á krabbameini í móðurlífi tvöfalt og þrefaldi líkur á blóðtöppum í æðum. Auk þess eykur það einnig líkur á brjóstakrabbameini, sé það notað lengur en 3-5 ár, samkv. öðrum heimildum og getur valdið starblindu (cataracts). Bréfritari nefnir ekki hugmyndir sem komið hafa upp um að málmspennur, sem stundum eru notaða í brjóstahaldara, geti valdið brjóstakrabbameini með því að í þeim geti spannast upp skaðlegar örbylgjur. Hann beinir því til fólks að lesa bók Singers og Gismajers, Dressed to kill; The Link between Breast Cancer and Bras. ÆJ

Grænmeti hollt fyrir beinin
Rottur sem fengu jurtir og grænmeti t.d. tómata gúrkur, lauk, hvítlauk, péturselju o.m.fl. töpuðu miklu síður beinmassa en aðrar rottur á hefðbundnu rottufóðri. Undrun vakti að sojabaunir og þurrmjólkurduft fæða sem talið var að væri gagnleg til að hindra beinþynningu virtist gagnlaus til að vernda beinin. Þetta bendir til að besta ráðið til að hindra beinþynningu, eins og reyndar ýmsir hafa áður haldið fram, sé að nota rétt valið grænmeti sem sé heppilegasta fæðan fyrir sterk bein. ÆJ Heimild: Nature, 29. september 1999

Fitusýra í lýsi nauðsynleg þroska heilans
Eins og oft hefur komið fram í þessu riti eru ómissandi fitusýrur, sem finnast í lýsi, afar mikilvægar fyrir þroska heilans í ungbörnum. Sérstaklega er mikilvægt að börn sem ekki fá brjóstamjólk fái þessar ómissandi fitusýrur í þeirri pelamjólk sem þau fá. Vegna þess að þær eru mjög sjaldan settar í „gervimjólk“, sem börnum er ætlað að nota í stað móðurmjólkurinnar, er nauðsynlegt að bæta ofurlitlu (nokkrum dropum) af lýsi saman við mjólkina í pelanum og hrista samanvið áður en barnið drekkur hana. Einkum er það fitusýran docosahexaen-sýra (DHA), sem barnið þarf lífsnauðsynlega að fá, þó að einnig sé mikilvægt að það fái eicosapentaensýru (EPA), sem einnig fæst úr lýsi og gammalinolensýru (GLA), sem fæst úr kvöldvorrósarolíu.

Kannanir benda til þess að fái ungbörn ekki þessar fitusýrur strax frá fæðingu, komi það fram í skertu andlegu atgervi síðar á ævinni, sem reyndar er ekki undarlegt, því að 60% af þunga heilans er fita og þar af eru 25% DHA. Sá sem þessar upplýsingar eru fengnar frá, Joseph M. Mercola, læknir, finnst allt að því glæpsamlegt, að þessar fitusýrur séu ekki settar saman við alla mjólk sem ætluð er ungbörnum. Eins og ég hef einhversstaðar áður sagt í þessu riti, er það trúlega af því að þessar fitusýrur þrána mjög auðveldlega og verða þá óhæfar til neyslu. Því er miklu betra að blanda þeim í pelamjólkina um leið og hún er látin í pelann. Við Íslendingar höfum sennilega heimsins besta lýsi og þvi ættu öll ungbörn sem nota pela að geta fengið nokkra dropa af því saman við mjólkina. Jafnvel þó að börn fái brjóstamjólk er gott að gefa þeim nokkra dropa af lýsi. Einnig er gott að móðirin taki lýsi, því að það eykur hlutfall ómissandi fitusýra í móðurmjólkinni.  ÆJ Heimild m.a. úr Townsend Letter for Doctors and Patients¸ nóvember 1999

Er fitusprengd nýmjólk skaðleg ?
Oft hefur verið gagnrýnt að gerilsneyða nýmjólkáður en hún er seld neytendum. Þó að greinarhöfundur dragi ekki í efa að gerilsneyðing rýrir næringargildi og hollustu mjólkurvara, samanborið við ógerilsneydda mjólk úr heilbrigðum kúm, er því ekki að leyna, að við núverandi aðstæður er varla hægt að hafa á markaði mjólk sem ekki hefur verið gerilsneydd. T.d. getur mjólk úr einni kú með júgurbólgu sýkt mjólk úr heilum mjólkurflutningabíl, þegar allri mjólk er blandað saman úr heilli sveit. Til að hægt sé að vera með ógerilsneydda mjólk á markaðinum þyrftu allar kýr og þeir sem koma nálægt mjólkinni að vera undir mjög ströngu lækniseftirliti hvern einasta dag og ekki mætti blanda saman mjólk frá mörgum framleiðendum eins og nú er gert. Að mati ýmissa er þó annað sem sennilega er til muna verra og skaðar hollustu mjólkurinnar meira en gerilsneyðingin ein sér gerir. Það er fitusprengingin.

Til að hindra að rjóminn setjist ofan á mjólkina eru fitukúlurnar í henni sprengdar, svo að þær verða miklu smærri en í ófitusprengdri mjólk. Við það sest rjóminn miklu síður ofan á í ílátinu sem mjólkin er geymd í, t.d. mjólkurfernum. Þetta veldur því m.a. að ekki er hægt að búa til smjör úr fitusprengdum rjóma eða þeyta hann. Sumir halda því fram að fitukúlurnar séu svo litlar að hluti þeirra komist ómeltar úr þörmunum inn í blóðrásina og að ekki sé víst að æskilegt sé að vera með ómeltan rjóma í blóðinu. Sannanir eru fyrir að fitusprengd mjólk veldur miklu oftar ofnæmi en ófitusprengd, sennilega vegna þess að yfirborð t.d. próteinagna eða annarra agna breytist við þessa harkalegu meðferð. Eitt er enn sem kannski er þó alvarlegast. Í mjólk er ensím sem nefnt er xanþín-oxidasi. Þetta ensím er í mjólkinni lokað inni í smá blöðrum eða belgjum, þannig að það blandast ekki mjólkinni. Við fitusprenginguna springa þessar blöðrum og ensímið blandast mjólkinni. Xanþín-oxidasi hvetur oxun, eins og nafnið bendir til, og við það að blandast mjólkinni fær það tækifæri til að oxa efni í henni t.d. kolesterol.

Einnig eru nú taldar sannanir fyrir því að xanþín-oxidasi úr fitusprengdri mjólk komist beint úr meltingarfærunum inn í blóðrásina og geti þar m.a. oxað kólesterol, en nú er almennt viðurkennt að aðeins oxað kólesterol setjist innan í æðar og valdi þar hrörnun æðakerfisins, t.d. kransæðasjúkdómum. Bent hefur verið á að kransæðasjúkdómar fóru þá fyrst að verða alvarlegt heilbrigðisvandamál víðast hvar, 10-15 árum eftir að fitusprenging mjólkur hófst. Sjálfsagt er fitusprenging mjólkur ekki eina ástæða þess að kólesterol oxast, eins og raunar oft hefur verið bent á í þessu riti. Samt má ekki gera of lítið úr hugsanlegum þætti hennar í aukningu sjúkdóma í æðakerfinu á seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Þá gæti þetta skýrt það að sumar kannanir benda til, að það sé fyrst og fremst mjólk en ekki t.d. feitir ostar eða smjör sem hugsanlega tengjast kransæðasjúkdómum. Feitir ostar og smjör innihalda meiri mjólkurfitu en nýmjólk en í þær vörur er ekki notuð fitusprengd mjólk.   ÆJ Heimild: m.a. A.R. Gaby læknir. Townsend Letter for Doctors and Patients, nóv.1998.

Læknar gamalt lyf æðakölkun?  – Frétt frá 1968
Læknarnir dr. Ray Evaers og dr. Paul Williamson, sem starfa við einkastofnun sögðu nýlega í viðtali, að innan fárra ára verði æðakölkun sjúkdómur sem tilheyri fortíðinni. Þeir sögðust hafa meðhöndlað 200 sjúklinga með staðbundna æðakölkun með lyfinu natríum edetat með 90% árangri, en þetta lyf var fundið upp fyrir 25 árum til að lækna allt annan sjúkdóm. Unnið er að því að endurbæta lyfið, þannig að taka megi það inn í töflum en nú verður að gefa það sem sprautulyf í æð. Dr. Williamson, sem er að hluta lamaður eftir heilaáfall, leiðir einkarannsóknarhóp við Columbia Foundation of Andalusia, stofnun eða félagsskap sem stofnsettur var árið 1943 af dr. Evaers til að standa fyrir rannsóknum og reka einkasjúkrahús. Þessir tveir læknar segja að yfir helmingur Bandaríkjamanna (54%) deyi úr hjarta og æðasjúkdómum (frá árinu 1968). Þar til nú, segja þeir, hefur ekki verið hægt að ráða við þessa sjúkdóma. Williamson segir að ennþá /hafi þeir ekki notað þetta lyf við æðakölkun í öllum líkamanum, heldur aðeins í einstökum æðum eða líffærum. „Mikið er því ennþá ógert í þessum efnum“ segir hann. Þeir 200 sjúklingar, sem fengu efnið voru frá 45-85 ára gamlir. Þetta fólk hefur fengið reglulega sprautu með natríum editat án neinna alvarlegra hliðarverkana. ÆJ

Getur fæðuóþol valdið einhverfu?
Heimild er fengin úr Townsend Letter for Doctors and Patients, júní 1999, en er tekin úr Tri-City Herald, 3. nóv. 1968. Giskað er á að eitt af hverjum þúsund börnum á Vesturlöndum þjáist af einhverfu. Einhverfa einkennist af því að barnið virðist missa allt samband við umhverfið, talar ekki eða sýnir umhverfi sínu nokkurn áhuga. Í slæmum tilfellum verður barnið þannig það sem eftir er ævinnar. Stundum virðast einhverf börn hafa verið eðlileg við fæðingu og jafnvel fyrsta árið en svo hefur eitthvað gerst sem veldur þessari alvarlegu breytingu. Ýmsar kenningar og hugmyndir hafa komið fram um það hvað valdi þessu. Til dæmis hefur barnabólusetningum verið kennt um og væri ástæða til að athuga það í fullri alvöru. Í tímaritunu New Scientist var nýlega fjallað um þetta.

Þar er sagt að aukinn fjöldi vísindamanna sé nú á þeirri skoðun að ofnæmi fyrir efnum í matvælum t.d. kaseini í mjólkurvörum og glúten í hveiti og fleiri kornvörum sé e.t.v. aðal ástæðan fyrir einhverfu. Þeir segja að sum börn eigi í erfiðleikum með að melta viss prótein, sér í lagi kasein og glúten. Í stað þess að brjóta þau niður í amínósýrur í meltingarfærunum eru þau að hluta til aðeins brotin niður í peptíð (peptíð eru bútar úr próteinum og innihalda oft aðeins fáar amínósýrur). Sum þessi peptíð líkjast hormónum og taugaboðefnum að uppbyggingu. Í börnum með einhverfu virðast þessi efni leka út í gegnum þarmaveggina og komast inn í blóðrásina. Stundum vegna þess að barninu hafa verið gefnir stórir skammtar af sýklalyfjum sem síðan hafa valdið offjölgun gersveppa, t.d. candida í þörmunum. Þetta hefur síðan orsakað það að þarmarnir fóru að „leka“ peptíðum úr þarmainnihaldinu inn í blóðrásina, sem síðan ber þessi efni til heilans með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Finnskum sérfræðingi í næringarrannsóknum, Reuvo Tantala, tókst að stöðva þróun á einhverfu hjá tveggja ára syni sínum með því að setja hann á algerlega kasein- og glútenlaust fæði. Lífefnafræðingurinn Paul Shatlock trúir einnig staðfastlega á þessa „peptíð“ kenningu, þó að hann væri því miður of seinn til að geta bjargað syni sínum sem kominn var með fullþróaða einhverfu. Hann og Halle Reichelt við Ungbarnarannsóknarstofnunina í Osló hafa gert miklar rannsóknir á einhverfum börnum og hafa fundið að 90% þessara barna hafa óeðlilega mikið af vissum peptíðum í blóðinu. Þar á meðal er beta-kaso-morfín, niðurbrotsefni úr kúamjólk, sem rætt er um annarsstaðar í blaðinu.    ÆJ Heimild: New Scientist, 20. júní 1998

Mongólismi (Down-Syndrome) og fólinsýruskortur
Komið hefur í ljós að samband virðist á milli skorts á fólinsýru og tíðni fæðingargalla sem nefndur hefur verið „mongolismi“ eða „Downsyndrome.“ Mæður með erfðagalla sem lýsir sér í því að þær nýta vítamínið fólinsýru ekki á réttan hátt eru 2,6 sinnum líklegri til að eignast barn með Downsyndrome heldur en aðrar konur. Fjöldi kvenna er með þennan erfðagalla og þurfi þessar konur af einhverjum ástæðum að lifa á fólinsýrusnauðu fæði margfaldast hættan á að eignast barn með þennan fæðingargalla sem hjá eðlilegum konum er aðeins ein af hverjum 600 fæðingum. Grunur er um að fleiri fæðingargallar tengist of lítilli fólinsýru í fæðu verðandi mæðra fyrsta hluta meðgöngunnar og nokkur ár eru síðan fullar sannanir fengust fyrir að „klofinn hryggur“ í börnum stafar af fólínsýruskorti móðurinnar. Grunurinn hefur nú sannast með Downsyndrome (mongólisma).

Fólinsýra fæst einkum úr fersku grænmeti en hún eyðileggst auðveldlega við geymslu og matreiðslu, svo að þeir sem lítið nota ferskt eða lítið soðið grænmeti mega búast við að skorta þetta vítamín. Því ættu konur á barneignaaldri að nota daglega þessi matvæli og gjarnan bæta þau upp með fólinsýru í pillum, sem nú er hægt að fá án lyfseðils. Þó að ég hafi oftsinnis bent á það áður eru fólinsýra, ásamt B6 og B12 vítamíni lífsnauðsynleg bætiefni til að hindra oxun á kólesteróli, en aðeins oxað kólesteról er nú talið að setjist innan í æðar, m.a. kransæðar hjartans. Því er fólinsýra (ásamt hinum vítamínunum) ekki síður mikilvæg fyrir aldrað fólk og karlmenn en verðandi mæður. Þetta á alveg sérstaklega við ef fólk neytir mikils af kjötvörum sem innihalda töluvert af amínósýrunni meþionin, sem myndar amínósýruna hómócystein ef áðurnefnd vítamín skortir, en hómócystein oxar kólesterol. Heimild: American Journal of Clinical Nutrition, október 1999.

Flúor eykur uppsöfnun áls í heilanum
Í viðurkenndu læknatímariti Brain Research birtist árið 1998 grein um skaða vegna uppsöfnuna á áli í heila, sama eðlis og verður vegna Alzheimerssjúkdóms í fólki. Breytingarnar urðu ef rottur fengu smáa skammta af fluor, sambærilega og þeir sem nota fluorblandað drykkjarvatn fá daglega við að nota kranavatn eða fæðu sem blönduð er flúorbættu drykkjarvatni. Rotturnar fengu vatn með 2.1 ppm (hluta af milljón) af natríum flúoríð sem jafngildir tæpu 1ppm af hreinu fluor, sem þeir sem vilja fluorblanda drykkjarvatn telja æskilegasta magnið drykkjarvatni. Svo virðist að þetta litla magn af fluor stórauki upptöku áls í meltingarfærunum og/eða auki það magn af áli sem kemst yfir blóð/heila þröskuldinn, sem ver heilann fyrir mörgum skaðlegum efnum. Þessi könnun staðfestir niðurstöður kínverskra vísindamanna, sem birtar voru 1996, um að fluor hafi ar á hegðunarferli rotta, sem fengu smáskammta af flúor, benda í sömu átt. Vegna þess að ál kemur hér einnig við sögu er því trúlega best að reyna að forðast sem mest að neyta þess og sjóða t.d. ekki súran mat, í álpottum eða taka magasýrulækkandi lyf sem innihalda ál. Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, nóv. 98.

NADH – síþreyta og Alzheimersjúkdómur
Í tímaritinu Nutrition and Mental Health, sem kemur út ársfjórðungslega í Kanada, birtust nýlega tvær stuttar greinar um kóensímið NADH, sem við sögðum dálítið frá hér í blaðinu fyrir nokkrum árum. Eins og þar var útskýrt er NADH afbrigði af B3- vítamíni, kóensímið sem B3 myndar í líkamanum, nicotinamid-adenin-dinucleotid. Þetta kóensím er til bæði í oxuðu og redúseruðu formi. Sennilega getur líkaminn aðeins notfært sér redúseraða form þess og verður að redusera oxaða form þess sem nefnist NADH áður en það gagnast sem kóensím. Svo virðist að sumir einstaklingar eigi í erfiðleikum með að mynda NADH, enda þótt þeir fái nóg B3 vítamín (nikótínamíð). Það veldur orkuskorti í frumum líkamans því að NADH er lykilefni í orkuvinnslu frumanna og án þess geta frumurnar ekki myndað orkuríku sameindina ATP (adenosín þrífosfat), sem sér frumunum fyrir nánast allri orku sem þær nota. Síþreyta einkennist af þáttum sem benda til orkuskorts hjá frumum líkamans.

Þessvegna ákváðu vísindamenn við Georgetown háskólasjúkrahúsið í Washington DC að reyna hvort NADH gæti e.t.v. dregið úr einhverjum þeirra einkenna sem fylgja þessum dularfulla sjúkdómi. Einnig væri hugsanlegt að þessi tilraun gæti varpað ljósi á orsök sjúkdómsins. Þeir völdu 26 sjúklinga sem allir þjáðust af síþreytu. 31% þeirra, sem allir tóku 10 mg daglega af NADH, sýndu færri einkenni eins og þreytu, skort á að geta einbeitt sér, vöðva og beinverki og svefntruflanir. Þetta var fjórum sinnum betra en hjá samanburðarhópi sem fékk lyfleysu. Vísindamenn sem stóðu að könnuninni töldu þetta athyglisvert, því að það „sýndi eitthvað sem ekkert annað hafði getað.“ Þessi könnun bendir til að skortur á ATP sé að minnsta kosti stundum hluti af vandamálinu og að þar geti NADH komið inn í myndina. Spennandi væri að sjá hvort önnur efni sem hjálpa til við að mynda ATP geta einnig orðið að liði. Þar á ég einkum við kóensím Q-10 og ríbóflavín (B2). Einnig hefur fitusýran gamma-línólensýra sem m.a. fæst úr kvöldvorrósarolíu sýnt áhugaverðan árangur. Eins og kom fram í greininni í Heilsuhringnum fyrir nokkrum árum hefur NADH verið reynt gegn Alzheimerssjúkdómi með áhugaverðum árangri.

Í kanadíska blaðinu áðurnefnda er sagt frá 17 sjúklingum með Alzheimersjúkdóm sem tóku þátt í opinni könnun. Hjá öllum þeirra varð breyting til batnaðar. Svokallað ,,Minimental“ próf gaf breytingu til bata að lágmarki 6 punkta en mest 14 punkta, að meðaltali 8,35 punkta. Batinn, mældur á svokölluðum „,,deterioration scale“, var að lágmarki 1 punktur en mest 2 punktar, meðaltal 1,82 punktar. Tíminn sem könnunin stóð var 8-12 vikur. Engra aukaverkana varð vart, enda þótt nokkrir einstaklingarnir hefðu notað efnið í meira en ár. Ráðgert er að hefja fljótlega nýja könnun sem þá yrði tvíblind víxlprófun. Heimild: Nutrition and Mental Health, nr. 2, 1999.

Fólínsýruskortur og krabbamein
Á undanförnum árum hefur ýmislegt komið fram um að skortur á fólínsýru, sem er eitt af Bvítamínunum, auki líkur á að fá viss krabbamein. Þá hafa verið nefnd lungna-, ristil-, legháls- og heilaæxli og sennilega fleiri. Nú hefur verið sýnt fram á að fólínsýruskortur, auk margs annars, getur valdið stökkbreytingu í p53 erfðavísinum eða próteininu, sem hindrar óeðlilega frumuskiptingu og nokkrum sinnum hefur verið rætt um í Heilsuhringnum. Þannig breyting hefur fundist í meira en helmingi allra krabbameina í fólki. Áður hefur verið sýnt fram á að sé p53 próteinið óvirkt að meira eða minna leyti, er sá einstaklingur óvarinn fyrir illkynja frumubreytingum sem geta leitt til krabbameins. Þetta bætir enn einu mikilsverðu atriði við það sem áður var vitað um fólinsýru og sagt hefur verið frá hér í þessu riti, en sannað er að fólinsýruskortur getur valdið fæðingargöllum og aukið líkur að að kolesterol oxist, sem svo aftur getur valdið hjarta- og æðasjúkdómum. Fólinsýra finnst helst í fersku eða litið soðnu grænmeti og skortir oft í fæðu þeirra sem lítið nota þannig mat, andstætt við það sem einhverjir hafa látið hafa eftir sér, að fólinsýruskortur sé mjög fátíður. Einnig er nú vitað að erfðagalli veldur því að sumir einstaklingar nýta fólinsýru í mat mjög illa og þurfa því að fá meira af henni í fæðu sinni en aðrir. Heimild m.a. úr Townsend Letter for Doctors and Patients febr.-mars ´99, og vitnað í Am.J. f. Clin. Nutr. (American Journal for Clinical Nutrition) 1997.

Er hormóninn DHEA nothæfur við getuleysi?
Fjörtíu menn með stinningarvandamál, að meðalaldri 56,5 ára tóku þátt í tvíblindri könnun á hvort hormóninn DHEA (dehydro-epi-androsteron) væri gagnlegur við að lagfæra stinningarerfiðleika sem þeir allir þjáðust af. Þeim var skipt í tvo jafnstóra hópa og fékk annar hópurinn 50 mg DHEA daglega í einum skammti en hinn lyfleysu í sex mánuði. Sautján þátttakenda úr DHEA hópnum og þrettán sem fengu lyfleysu luku við könnunina. Flestir þeirra sem ekki luku við könnunina hættu vegna þess að þeim fannst árangurinn lítill eða enginn. Þeir sem notuðu DHEA fengu til muna fleiri stig í svokölluðu IIEF-prófi, sem mælir stinningu getnaðarlimsins, fullnægingu, kynlöngun og ánægju við samfarirnar. Engin merkjanleg breyting varð á neinum þessara atriða hjá þeim sem notuðu lyfleysuna. Þá urðu engar breytingar á PSA (prostate specific antigen) eða karlhormóninum testósteron, sem myndast úr DHEA. Þetta bendir ekki til að árangurinn af að nota DHEA hafi stafað af því að hafi breyst í testósteron. Lítilshátar minnkun á blöðruhálskirtlinum varð hjá DHEA hópnum en lítilsháttar stækkun hjá samanburðarhópnum. Hópurinn sem tók þátt í könnuninni er þó of lítill til að draga megi of miklar ályktanir af því, nema að augljóst er að DHEA veldur ekki stækkun blöruhálskirtilsins og lagar sennilega stinningarvandamál í sumum tilfellum. Heimild: Allan Gaby: DHEA treatment of erectile disfunction. Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 1999

Hómócystein er hættulegt
Amínósýran hómócystein eykur ekki aðeins líkur á kransæðasjúkdómum, heldur einnig á heilaáföllum. Frá þessu var skýrt í „Stroke“ í ágúst 1999. Þar var sagt að konur með mesta hómócysteinmagnið í blóði væru í meira en tvöfaldri hættu á fá heilaáföll, bornar saman við þær konur sem höfðu minnst hómócystein í blóði. Aukningin hliðstæð þeirri aukningu sem verður við að reykja pakka af sígarettum á dag. Þessar upplýsingar eru enn ein hvatning til fólks um að vanda fæðuval sitt, því að hómócystein blóði má að miklu leyti stjórna með mataræðinu. Að nota mikið af kjötvörum en lítið af grænmeti talið að auki hómócystein í blóði hjá flestum. Þetta þýðir þó ekki að aldrei megi borða kjöt, heldur nota það í hófi og gleyma því ekki að jafn mikilvægt er að nota mikið af grænmeti, helst lítið soðnu. Einnig skipta oxunarvarnarefni í matnum máli t.d. C og E vítamín og fjöldi annarra andoxunarefna, auk B6, B12 og fólinsýru. Nýlegar upplýsingar benda til að skortur skjaldkirtilshormóni geti aukið hómócystein blóði. Við það að bæta úr þeim skorti með því gefa hormóninn thyroxin minnkaði hómócysteinið. Það gæti skýrt hversvegna fólk með vanvirkan skjaldkritil fær oft æðakölkun. Þetta breytir því ekki, að mataræðið er oftast höfuðástæðan fyrir auknu hómócysteini í blóði, þó að bæta megi vanvirkum skjaldkirtli við aðra áhættuþætti.

Karótínefni læknar blindu gamals fólks
Lesandi sem skrifar Townsend Letter for Doctors and Patients í júlí 1999 segir að hann hafi læknað sjálfan sig af alvarlegum augnsjúkdómi með karótínefninu Lútein. Lesandinn sem er áttræður og heitir H.L. Zussman var orðinn mjög sjóndapur af sjúkdómi sem mjög oft hrjáir gamalt fólk og lýsir sér í því að sjónfrumurnar í miðju sjónsviðsins tapa ljósnæmi sínu, eða verða jafnvel gagnslausar. Hann fór á gamals aldri að nota ýmis bætiefni með góðum árangri fyrir heilsu hans almennt en sjónin vildi þó ekki koma aftur. Þá heyrði hann um könnun á karótínefnum í sambandi við sjónina. Hann fór þá að nota karótínefnin lycopen, zeaxanthin og lútein í stórum skömmtum. Hann varð því bæði glaður og jafnframt forviða að á þriðja degi var sjón hans orðin eðlileg.

Hann hélt áfram að nota efnin en fyrir klaufaskap kláraði hann það sem hann átti og trassaði að fá sér nýjar birgðir. Ekki leið á löngu þangað til hann var illilega minntur á það því að sjón hans fór dagversnandi. Hann var þá fljótur að kaupa ný efni og lofaði sjálfum sér því að taka ekki þá áhættu aftur. Síðar fann hann út að það var fyrst og fremst lútein sem bætti sjónina og tvöfaldaði það sem hann notaði af því. Hann hefur reynt að segja augnsérfræðingum frá þessu en þeir vilja ekki hlusta á hann, enda þótt þeir viðurkenni að sjón hans sé í fullkomnu lagi, þó að hann væri áður næstum því blindur. Sama er að segja um aðra sérfræðinga sem hann hefur átt tal við. Að lokum er hann óhress yfir að næring skuli ekki vera hluta af námi sérfræðinga í læknisfræði og finnst að hún sé svo mikilvæg góðri heilsu, að það jaðri við að vera glæpsamlegt að sleppa henni úr náminu.

Jurtalyf við astma o.fl.
Efni úr jurtinni Boxwellia serrata, oftast aðeins nefnd „boswellia“ og í indverskum Ayurvediskum lækningum nefnd „salai guggal“ hefur reynst mjög vel við ýmsum langvarandi bólgusjúkdómum, t.d. astma, liðagigt og bólgum í meltingarfærum. Þessi jurt inniheldur efni sem nefnt er boswell-sýra. Boswell-sýra hindrar myndun á efnum sem nefnd eru leukotrien- efni og koma við sögu í flestum langvarandi bólgusjúkdómum. Leukotrien-efni eru efnafræðilega skyld öðrum efnaflokki sem nefndur er prostaglandin og koma einnig við sögu í gigtarog bólgusjúkdómum. Við höfum sagt dálítið áður frá þessum efnum í nokkrum greinum í Heilsuhringnum og því ekki þörf á að endurtaka það. Síðast kom grein um leukotrien-efni og prostaglandin vor og haustblöðum Hh árið1997. Flest gigtar- og bólguhemjandi lyf hindra aðeins prostaglandin en ekki leukotrien- efnin. Því geta sum þessi lyf jafnvel gert vissa sjúkdóma, sem stafa af leukotrien-efnum, verri en annars mundi vera, vegna þess að bæði prostaglandin af 2. röðinni og leukotrienefni myndast úr sömu fitusýrunni, arakidonsýru.

Séu prostaglandin hindruð í að myndast verður meira handbært af óbundinni arakidonsýru, sem þá getur myndað leukotrienefni. Því getur t.d. asperín eða indómetasin gert astma verri, en asperín og indómetasin hindra að prostaglandin myndist að hluta, en leukotríen-efni koma við sögu í astma. Rannsóknir sýna að boswell-sýra hindrar ensímið 5-lípoxygenasa sem nauðsynlegt er til að leukotríen- efni geti myndast úr arakidonsýru, sem er dálítið óvanalegt, því að flest önnur náttúrleg efni sem talin eru hindra 5-lípoxígenasa gera það með því að hindra oxun á arakidonsýru, sem verður þegar laukotrienefni myndast. Þessi eiginleiki boswell-sýru, sem virðist vera næstum einstæður, gerir líklegt að þetta jurtalyf geti verið öflugt lyf við fjölda sjúkdóma, þar sem leukotrien koma við sögu. Sérstaklega hafa verið nefndir bólgusjúkdómar eins og t.d. Chrohns-sjúkdómur, ristilbólga, astmi, liðagigt og psoriasis. Bent hefur verið á að jurtalyf séu með flóknar efnafræðilegar verkanir og því sé enganveginn öruggt að verkanir boswell-sýru séu einu verkanirnar sem jurtalyfið sem heild hafi t.d. á astma. Heimild: Kerry Bone – Townsend Letter for Doctors and Patients, júli 1999.

Létt vatn og krabbamein
Wayne Martin skrifar Townsend Letter for Doctors and Patients í júlí 1999 um læknandi áhrif af léttu vatni á krabbamein. Létt vatn er vatn með litlu af þungu vatni (deuterium). Í venjulegu vatni er þungavatnshlutfallið ca. 15:100.000 eða 150ppm. Við framleiðslu á þungu vatni sem m.a. er notað við kjarnorkuvinnslu fæst vatn með minna af þungu vatni. Wayne Martin segir frá sýrslu sem birtist í Journal of Oncology frá 1998 eftir G. Zomlyai í Budapest (Tímaritið heitir á frummálinu Z. Onkol). Þar segir frá and-krabbameinsvirkni í vatni með lágu þungavatnsinnihaldi. Ungverjarnir nota vatn með þungavatnsinnihald nálægt 90ppm. Þeir hafa sýnt fram á and-krabbameinsvirkni þessa vatns á krabbameinsfrumur í ræktun, á lítil dýr sem krabbameinsfrumur  voru græddar í og á hunda og ketti. Einnig er bent á árangur af tilraun árið 1995, þar sem krabbameinssjúklingar voru meðhöndlaðir með léttu vatni. Notaðir voru um 2 lítrar af því á dag. Létt vatn er mjög gott vatn, e.t.v. það besta sem fáanlegt er í heiminum segir Wayne Martin. Hann segir að ungversku vísindamennirnir telji að e.t.v. sé létt vatn nýtt tæki sem menn hafi í baráttunni við krabbamein. Hann segir að lokum að sá dagur muni koma að allt vatn sem krabbameinssjúklingar noti verði létt vatn og að þessi skýrsla sé einstaklega áhugaverð og spennandi.

Jurtalyf eins áhrifarík og Prozac
Þunglyndislyfið Prozac (Fontex) hefur verið mjög mikið notað á vesturlöndum á undanförnum árum. Sumum finnst þó að þetta lyf sé miklu meira notað heldur en raunveruleg þörf sé á og að aðrar æskilegri lausnir gætu oft komið að gagni. Talið hefur verið að slæmar hliðarverkanir fylgi því að nota það langtímum saman, t.d. getuleysi og einnig er það dýrara en bæði eldri þunglyndislyf og náttúrulyf, þó að sjúkrasamlagið greiði að vísu hluta kostnaðar við það. Alan Gaby, læknir, segir í Townsend Letter for Doctors and Patients í janúar árið 2000, frá könnun sem gerð var til að bera saman áhrifamátt Prozac samanborið við jurtalyfið jónsmessurunna (St. John´s wort) við að lækna þunglyndi hjá eldra fólki. 149 sjúklingar, 60-80 ára gamlir sem þjáðust af léttu eða meðallagi erfiðu þunglyndi var skipt tilviljanakennt í tvo hópa. Annar hópurinn fékk 800mg á dag af jónsmessurunna-extrakti (Lonyp-57) en hinn 20mg af fluoextine (prozac) í sex vikur. Árangurinn var metinn á svokölluðum Hamilton skala.

Hjá þeim sem notuðu jurtalyfið lækkaði meðaltalið úr 16,6 niður í 7,9 punkta en hjá þeim sem fengu prozac lækkaði meðaltalð úr 17,2 niður í 8,1 punkt. Bæði efnin verkuðu jafnvel, hvort sem þunglyndið var létt eða í meðallagi þungt. Sex sjúklingar hættu meðan á könnunni stóð úr hópi þeirra sem notuðu jurtalyfið og átta úr hópnum sem notaði prozac, vegna hliðarverkana. Könnunin var tvíblind, sem þýðir að hvorki sjúklingarnir eða læknarnir vissu meðan á könnuninni stóð, hvor hópurinn fékk hvað. Niðurstaðan af þessari könnun var að jónsmessurunni er að minnsta kosti eins góður við vægu og meðallagi erfiðu þunglyndi eins og prozac og hefur samkvæmt þessu heldur minni aukaverkanir, þó að tíminn sem könnunin stóð sé að vísu of stuttur til að draga af víðtækar ályktanir hvað langtímaverkanir.

Hormónar og brjóstaaðgerðir
Könnun sem sagt var frá í tímaritinu ,,Cancer“, bendir til að konum sem þurfa að fara í brjóstaskurðaðgerð vegna krabbameins vegni mun verr ef aðgerðin er gerð fyrstu 10 dagana í mánaðarlegum tíðahring konunnar, heldur en ef aðgerðin er gerð síðar í tíðahringnum. Þetta er þó alls ekki alveg ný uppgötvun, því að á árunum eftir 1980 höfðu nokkrir vísindamenn komist að líkri niðurstöðu. Ekki hafði þó tekist að sanna þetta og ýmsir skurðlæknar töldu þetta ósennilega tilgátu. Hvernig gat tíminn sem brjóstaaðgerð var gerð á skipt neinu máli fyrir langtímalífslíkur kvenna með brjóstakrabbamein? Þetta er þó ekki eins fráleitt og það gæti virst við fyrstu sýn. Tíðahring kvenna má skipta í tvo hluta. Fyrri hlutanum, sem hefst með mánaðarlegum blæðingum, er að mestu stjórnað af hormóninum östrógen en þeim síðari af hormóninum prógesterón.

Sé brjóstaaðgerð framkvæmd á meðan östrógen er allsráðandi er miklu meiri hætta á að meinfrumur, sem kunna að sleppa út í umhverfið við aðgerðina, geti farið að vaxa á nýjum stað og orðið að nýju æxli, því að östrógen örvar vöxt brjóstkrabbameinsfruma, eins og reyndar hefur lengi verið vitað. Sé aðgerðin hinsvegar gerð þegar prógesteron er ráðandi hormón er miklu líklegra að þessar meinfrumur deyi og verði aldrei að krabbameinsæxli, því að prógesteron vinnur gegn óeðlilegri frumuskiptingu og getur jafvel hjálpað til við að eyða æxlisfrumum (sjá Heilsuhringinn, vor 1999, bls. 17). Samkvæmt þessu ætti aldrei að gera skurðaðgerðir við brjóstakrabbameini, móðurlífi og eggjastokkakrabbameini eða neinu öðru östrógen-jákvæðu  krabbameini, nema síðari hluta tíðahringsins. Einnig mætti nota náttúrlegt prógesteron (ekki prógestin) sem fæst í Bandaríkjunum án lyfseðils sem krem, sem borið er á húðina 1/3-1/2 g á dag. Þetta krem geta karlmenn einnig notað og það er talið vinna gegn krabbameini í blöðruhálskirtli og smáfrumukrabbameini í lungum. Þá er og talið að náttúrlegt prógesteron kunni að hindra beinþynningu hjá konum eftir breytingaskeiðið og draga meira úr vanlíðan sem fylgir breytingarskeiðinu en östrogenhormónar, sem margar konur fá, þrátt fyrir að vitað sé að það eykur líkur á krabbameini umtalsvert. Heimild að mestu fengin úr Townsend Letter for Doctors and Patients, janúar 2000

Sýklalyf og liðagigt
Ýmsir liðagigtarsjúklingar hafa tekið eftir því að ástand þeirra batnaði verulega á meðan þeir notuðu sýklalyf sem þeir fengu við einhverri sýkingu. Fáir gigtarsérfræðingar tóku þó mark á þessum  frásögnum og töldu þær vera ímyndun eða óskhyggju. Nú hefur þó sannast að þetta hefur við rök að styðjast og að oft má bæta ástand liðagigtarsjúklinga heilmikið með því að gefa þeim sýklalyf. Einkum eru það lyf af tetracyclin-ættinni sem notuð hafa verið, þó að fleiri lyf virðist stundum koma að gagni. Best hefur lyfið minocyclin reynst, en það er töluvert dýrara en tetracyclin. Það hefur þó þann kost framyfir flest önnur sýklalyf, að það virðist hafa sveppahindrandi eiginleika og veldur því miklu síður ofvexti sveppagróðurs í þörmum og leggöngum en t.d. tetracyclin. Svo virðist að nota megi með fullum árangri minocyclin árum og jafnvel áratugum saman, enda er það notað í smærri skömmtum en oftast er gert við sýkingar. Ekki eru menn á eitt sáttir hvað það er sem veldur því að sýklalyf bæta ástand liðagigtarsjúklinga. Einhverjir telja að örvera sem nefnd er microplasma og minnir dálítið bæði á bakteríur og veirur kunni að valda eða eiga þátt í liðagigt og skyldum sjúkdómum og að lyfin drepi hana.

Aðrir telja að sýklalyfin geri ensím sem nefnt er metallopróteinasi óvirkt, en þetta ensím brýtur niður og eyðileggur liðbrjóskið. Sé það rétt mætti sennilega búa til lyf sem aðeins gerði ensímið óvirkt en hefði ekki samtímis sýkladrepandi verkanir. Að lokum langar greinarhöfund til að segja frá liðagigtarsjúklingi, konu sem hann þekkir vel og uppgötvaði fyrir nokkrum árum að liðagigt, sem hún hafði þjáðst af áratugum saman, lagaðist mikið á meðan hún notaði sýklalyfið erithromycin, sem hún fékk við sýkingu. Hún sagði gigtarlækni sínum frá þessu og hann hefur síðan látið hana fá þetta sýklalyf nokkrum sinnum og henni hefur alltaf batnað mikið á meðan hún hefur notað það en versnað fljótlega eftir að hún hætti því. Þetta er nákvæmlega það sem erlendu kannanirnar benda til. Sýklalyfin lækna ekki liðagigt en halda ýmsum einkennum hennar niðri. Erlendar kannanir benda til að nota megi sýklalyf til að bæta fleiri gigtarsjúkdóma en liðagigt, t.d. rauða úlfa (lupus), slitgigt og scleroderma (húðsjúkdómur). Vel má vera að ég eigi síðar eftir að segja nánar frá þessu, sem vissulega er áhugavert, en að sinni læt ég hér staðar numið.

Höfundur: Ævar Jóhannesson vor 2000Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: