Fæðingaráverkar- Afleiðingar samþjöppunar höfuðkúpu

Ef höfuðkúpa okkar verður fyrir einhvers konar hindrun í fæðingu er líklegt að það hafi áhrif á okkur öll að einhverju leyti. Álitið er að í alvarlegum tilvikum geti slík hindrun leitt til heilaskaða, heilalömunar (krampalömunar) eða einhverfu, eða geti átt þátt í vöggudauða.  Í vægari tilvikum getur það leitt til lesblindu, námserfiðleika, ofvirkni, flogaveiki, þráhyggju, persónuleikatruflana og ýmiss konar þroska-vandamála.

En í okkur öllum (sem teljumst vera ,,eðlilegir“ einstaklingar) getur slík hindrun, þó hún sé minni háttar, átt mikilvægan þátt í að ákvarða andlega hæfileika okkar, persónuleika, almennt heilbrigði, líkamsbyggingu, og jafnframt næmleika okkar gagnvart ofnæmi, astma, mígreni, rangeygð og fjölmörgum öðrum kvillum. Einnig getur hún haft áhrif á þroska allra kerfa líkamans (taugakerfisins, meltingarkerfisins, ónæmiskerfisins o.s.frv.) og þannig haft áhrif á allt okkar líf. Lítum á hvernig fæðing gengur fyrir sig.

Barninu er þrýst niður mjög þröng göng með höfuðið á undan. Höfðinu er þrýst saman og það þvingað niður þessi þröngu göng á löngum tíma, oftast á nokkrum klukkustundum, en ferlið getur tekið sólarhring eða meira. Skoðum líka höfuðkúpu nýfædds barns. Hún er ekki samsett úr hörðum beinum (því þá myndi hún ekki komast í gegnum fæðingarveginn), heldur fíngerðri himnublöðru. Kúpuhvelfingin samanstendur af mjúkum ófullgerðum beinplötum sem tengdar eru saman með himnu, og kúpubotninn er úr hálfmynduðum beinum sem tengjast hvert öðru með sveigjanlegu vaxtarbrjóski.

Mikill þrýstingur á þessa viðkvæmu vefi í margar klukkustundir (eins og er í flestum fæðingum ) ýtir kúpubeinunum upp á við, hvert að öðru og aflagar höfuðið verulega. Þetta er eðlilegt og óhjákvæmilegt; en ef höfuðkúpubeinin halda áfram að vera í þessari stöðu, eða ef þau ná ekki að losna fullkomlega, þá geta þessar afmyndanir hindrað rétta mótun höfuðkúpunnar og á þann hátt takmarkað þroska heilans. Sem betur fer hefur líkaminn yfir kröftugum meðfæddum aðferðum að ráða sem gerir honum kleift að lækna sjálfan sig og laga það sem aflaga hefur farið. Þegar höfuðið er komið í gegnum fæðingarveginn taka slíkir lagfæringarkraftar til við að koma höfðinu í það horf sem því er ætlað að vera. Samt sem áður tekst þessi meðfædda lagfæring sjaldan fullkomlega.

Hversu vel hindranir og samþjappani losna af sjálfu sér er mjög breytilegt frá einum einstaklingi til annars og er fyrst og fremst háð því hvernig fæðingin gengur fyrir sig. Fyrir flest okkar eru afleiðingar slíkra hindrana á höfuðkúpu okkar og heilaþroska tiltölulega litlar. En þegar um erfiða eða langdregna fæðingu hefur verið að ræða, þar sem þrýstingurinn á höfuð barnsins er mikill í langan tíma og jafnvel enn meiri vegna rangrar fæðingarstöðu eða misbeitingar fæðingartanga, þá geta höfuðbeinin pressast svo fast saman eða afmyndast svo mikið að meðfæddir lækningakraftar geta ekki leyst úr mishverfunni.

Það er þá sem búast má við þeim alvarlegu einkennum sem áður var talað um, en það fer þó alveg eftir því hversu mikil afmyndunin hefur orðið. Bein höfuðkúpunnar ættu, í eðlilegu heilbrigðu ástandi, að geta hreyfst frjálst hvert gagnvart öðru um saumana þar sem beinin mætast. Þessi hreyfing er sérstaklega óþvinguð í höfuðkúpu nýburans og hún heldur áfram að vera það þó í minna mæli langt fram á fullorðins ár því að beinin renna smátt og smátt saman.

Allir hlutar höfuðkúpunnar, bæði utanvert og djúpt innan hennar, geta færst úr stað, og allir saumarnir á milli beinanna geta orðið fyrir hreyfihindrun vegna slíkrar þjöppunar. Hindranir hvar sem er í höfðinu geta hindrað þroska heilans og áhrifin eru breytileg eftir því hvar hindrunin er staðsett. Takmörkuð hreyfing, hvar sem er í höfuðkúpunni, er líkleg til að hafa áhrif á hana í heild sinni og getur þannig truflað þroska heilans á marga og ólíka vegu.

Hnakkabeinið er af tveim ástæðum sérstaklega viðkvæmt fyrir skaða. Í fyrsta lagi er það vegna legu sinnar neðst á höfuðkúpunni líklegt til að verða fyrir miklu álagi og þar af leiðandi truflun. Í öðru lagi umlykja hinir fjórir hlutar hnakkabeinsins mænugatið. Ef staðsetning þeirra raskast er líklegt að óeðlilegur þrýstingur komi á mænuna eða heilastofninn, ef til vill með skaðlegum afleiðingum. Þar sem hnakkabeinið er enn í fjórum hlutum, sem tengdir eru saman með brjóski, við fæðingu, raskast afstaða beinhlutanna gagnvart hvert öðru innbyrðis.

Brjósk-svæðin geta þjappast saman og valdið truflun á áframhaldandi vexti hnakkabeinsins og það síðan aflagast í samræmi við þetta ósamhverfa mynstur. Þetta getur síðan haft áhrif á alla höfuðkúpuna. Í mildari tilvikum ósamhverfu, sem hefur áhrif á okkur öll að einhverju leyti, koma hin fjölbreytilegu einkenni hindrana í höfuðkúpu smám saman fram eftir því sem tíminn líður. Í slíkum tilvikum er líklegt að einkennin séu ekki greind rétt, heldur flokkuð sem „eðlilegt“ heilsuleysi, „eðlilega“ takmarkaðir hæfileikar eða einfaldlega sem persónuleg sérkenni. Jafnvel í tiltölulega alvarlegum tilvikum koma einkenni, eins og námserfiðleikar eða vandamál í sambandi við samhæfingu hreyfinga, ekki skýrt fram fyrr en eftir mörg ár.

Skýringin er að hluta til sú að afmyndað höfuð hefur ef til vill engin truflandi áhrif á þroska heilans fyrst í stað. Það er ekki fyrr en heilinn leitast við að stækka og þroskast fullkomlega að afleiðingar beinahindrananna fara að segja til sín og hindra þroskann. Hins vegar koma meiriháttar hegðunartruflanir hjá börnum ef til vill ekki fram fyrr en barnið er komið á þann aldur að farið er að búast við flóknari hegðunarmynstrum hjá því. Í þeim tilvikum eru afleiðingar eins og námserfiðleikar taldar stafa af hæfileikaskorti, arfgengum þáttum, geðtruflunum eða margvíslegum óþekktum orsökum.

Í alvarlegustu tilfellunum geta einkennin verið augljós strax við fæðingu, t.d. greinileg krampalömun (spasticity), öndunarerfiðleikar eða afmyndun  á höfði. Þá í allra alvarlegustu tilvikunum, eins og t.d. þegar um heilalömun (cerebral palsy) er að ræða, er líklegast að hefðbundnir læknar greini einkennin jafnvel sem heilaskaða, þegar orsökin er líklegast sú að þroski heilans og starf hans er einungis hindrað og takmarkað vegna alvarlegrar afmyndun höfuðkúpunnar. Þetta kemur skýrt fram í eftirfarandi sjúkrasögu sem Beryl Arbuckle sagði frá: „Mig langar til að segja sögu eins nýbura.

Móðirin var búin að vera tólf klukkustundir í fæðingu með höfuð barnsins í andlitsstöðu. Þegar hér var komið sögu var gerður keisaraskurður en barnið hafði þegar orðið fyrir skaða. Einkennin voru blámi, veikur grátur, skjálfti og sprengiuppköst. Einstakir hlutar hnakkabeinsins voru ranglega staðsettir umhverfis mænugatið, en auk þess voru stiklishyrnurnar á gagnaugabeinunum dældaðar báðum megin, fremri höfuðmótin horfin, ennisbeinin gersamlega flöt, og mót ennisbeina og nefbeina (nasion) dregin svo langt niður að hornið virtist næstum vera hvasst.

Áður en beðið var um höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fyrir þetta barn, hafði foreldrunum verið sagt að heili barnsins hefði skaddast. Við skulum minnast þess að við fæðingu er miðtaugakerfið það kerfi líkamans sem er minnst þroskað og heilinn er þess vegna, á þessu skeiði lífsins, langt frá því að vera fullþroskaður. Sprengiuppköstin hættu eftir fyrstu HS-meðferðina og bláminn hvarf smám saman. Áframhaldandi súrefnisgjöf var því óþörf. Eftir aðra meðferð gat barnið sogið og kyngt og þannig tekið til sín nauðsynlega fæðu. Næstu tvo dagana var barnið látið ótruflað og fékk ekki meðferð. Klínisk einkenni hurfu, ennið varð kúpt, fremri höfuðmótin urðu greinileg og hin fimm voru einnig finnanleg, en það var enn óeðlilega hvasst horn á mótum ennis og nefbeina.

Það var síðan auðveldlega lagfært með því að setja vísifingurinn upp í munn barnsins og láta það sjúga hann kröftuglega. Þetta barn, sem nú er á öðru ári, er fullkomlega eðlilegt, sem við teljum vera því að þakka að það átti kost á höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð.“ Staðan er því sú, að hvers eðlis eða hversu alvarleg sem einkenni barnsins eru, er ólíklegt að hefðbundnir læknar dragi þá ályktun að þau geti átt rætur að rekja til höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfisins eða fæðingarinnar, þannig að tækifærið til að gefa skjóta meðferð er líklegt til að fara forgörðum. Það er mjög mikilvægt að gefa meðferð eins fljótt og mögulegt er til að tryggja fullkomna úrlausn og bata.

Einstakir hlutar gagnaugabeinsins og fleygbeinsins renna saman á fyrsta árinu; fjórir hlutar hnakkabeinsins renna saman á aldrinum þriggja til sex ára. Ef afmyndað vaxtarmynstur hefur náð að festast í höfuðkúpunni á þessum tíma, hefur það áhrif á allan frekari vöxt að einhverju leyti. En þrátt fyrir það er höfuðkúpan áfram sveigjanleg og það er hægt að laga hana til að vissu marki eftir þennan aldur, jafnvel langt fram á fullorðins ár. En því lengur sem afmyndað mynstur hefur verið til staðar í höfuðkúpunni, því lengri tíma tekur að meðhöndla það og því minni líkur eru á fullkomnum árangri.

Hér kemur önnur saga frá Beryl Arbuckle sem dæmi um þá möguleika sem geta verið fyrir hendi: „Ellefu ára gömul stúlka gekk í sérstakan skóla af því að talið var að hún hefði mjög lága greindarvísitölu. Hún gekk á snjóþrúgum daglega til að fætur hennar héldust í sundur. Hendur hennar sýndu hæg viðbrögð og samhæfing þeirra var léleg. Eftir að hún hafði fengið höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð í um það bil ár hafði líkamlegt ástand hennar batnað svo mikið að hún var farin að geta gengið í almennan skóla, og á fyrstu sex mánuðunum voru tvær sögur eftir hana prentaðar í skólablaðinu.

Hafði hún einhvern tíma lága greindarvísitölu? Núna er hún fjórtán ára gömul og er bæði skörp og skýr í hugsun, spilar ágætlega á píanó, hefur þægilega rödd, og eina bæklun hennar er rýr fótur þar sem sinar höfðu verið skornar í sundur; hinn fóturinn þroskaðist eðlilega. Núna er fóturinn máttlaus, ekki eins og þegar um krampalömun er að ræða, heldur eins og sést hjá þeim sem fengið hafa mænuveiki.“ Það eru að sjálfsögðu ýmis önnur vandamál (önnur en samþjöppun á höfði) sem tengjast fæðingu, meðgöngu og tímabilinu strax að fæðingu lokinni. Þau vandamál geta verið alvarleg eða létt, grófgerð eða fíngerð, líkamleg eða andleg/ tilfinningaleg. Öll þessi vandamál koma fram í höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfinu, og mörg þeirra er hægt að laga með því að gefa varfærnislega alhliða höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð.

Hvað er höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð?
Þeir sem stunda höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð telja að kunnátta þeirra geti á áhrifaríkan hátt komið að gagni við nánast hvaða ástandi sem er – allt frá líkamlegum skaða og starfrænum truflunum (t.d. í tengslum við meltingu, tíðahring, taugaspennu) til tilfinningalegra truflana og viðvarandi einkenna af óþekktum orsökum. Það hefur líka komið í ljós að meðferðin gagnast mjög vel til að bæta almenna heilsu, auka orku, jafnvægi og samhæfingu hjá einstaklingnum í heild sinni, og efla heilsu og styrk í kjölfar slysa, veikinda eða annarra áfalla.

Meðferðin hefur marga sérstaka kosti. Þar sem hún er mjög mild og varfærnisleg, er hægt að nota hana við bráðar aðstæður og aðstæður þar sem þörf er á mikilli nærfærni og tillitssemi. Einnig kemur hún að góðu gagni í sambandi við ungbörn, smábörn og aldraða. Hún virkar á mjög djúp og fíngerð svæði, hefur áhrif á miðtaugakerfið og nær að komast að orsökum sem eiga sér djúpar rætur. Höfuðbeina og spjaldhryggjarmeðferð eins og þegar hefur komið fram er áhrifarík í sambandi við margs konar heilsufarsleg vandamál, sem eiga rætur að rekja til höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfisins og ekki er hægt að meðhöndla með öðru móti. Vandamálin geta verið afleiðingar samþjöppunar höfuðkúpu barns í fæðingu, eins og t.d. námserfiðleikar, flogaveiki, ofvirkni og ýmis þroskavandamál. En einnig getur verið um óljósar truflanir að ræða í kjölfar höfuðskaða eða skaða annars staðar í líkamanum.

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfið
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfið er sett saman af beinum höfuðkúpunnar, spjaldbeininu, heila og mænuhimnunum, sem umlykja heilann og mænuna ásamt heila- og mænuvökvanum, og fellinu sem umvefur sérhvert líffæri, alla vöðva, allar taugar og æðar víðs vegar um líkamann. Það er hægt að finna höfuðbeina- og spjaldhryggjartaktinn slá í öllu þessu kerfi sem eina heild, líkt og um öndun sé að ræða, af tíðninni sex til tólf slög á mínútu. Í heilbrigðum líkama og við bestu hugsanlegu aðstæður er þessi hreyfing fullkomlega taktföst og algjörlega samhæfð.

En hversu mörg okkar geta státað af heilum líkama? Í raun verður sérhver líkami að sjálfsögðu fyrir ótal mörgum áhrifum – frá meðgöngu, við erfiða fæðingu, til prófrauna og mótlætis daglegs lífs – að niðurstaðan er höfuðbeina- og spjaldhryggskerfi sem reynir að hreyfa sig taktfast og á sem samhæfðast. Það endurspeglar hins vegar ávallt, nákvæmlega, sérhvert smávægilegt frávik frá „fullkomnu“ jafnvægi, heilbrigði með merkjanlegum truflunum á takti og samhæfingu. Þar af leiðandi er hægt að lesa og meta sérhvern afbrigðileika á ástandi skjólstæðingsins, alla streitu, allt álag, allt tog og alla hindrun, allan skaða, nýlegan eða langvinnan, og síðast en ekki síst sérhverja eiginleikabreytingu af hvaða toga sem er, af hvaða orsök sem er hvar sem er í líkamanum.

Allar jafnvægistruflanir eða álag innan höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfisins geta auk þess valdið truflun annars staðar í líkamanum og viðhaldið þeim. Þess vegna er hægt að nota höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð bæði til að greina starfrænar truflanir hvar sem er í líkamanum og meðhöndla þær. Það er gert með því að finna upphaf þeirrar hreyfingar sem er brengluð og koma síðan á frjálsri óhindraðri og samhæfðri hreyfingu í öllu kerfinu. Til þess að geta gert alhliða greiningu á ástandinu, þarf meðferðaraðilinn að þróa með sér næmi fyrir því hvernig vefir líkamans toga í ýmsar áttir og gera sér grein fyrir þörfum hans í því sambandi. Ætli meðferðaraðili að leiðrétta starfræna truflun, fylgir hann einfaldlega eftir viðleitni líkamans og leyfir honum, og hvetur hann varfærnislega, til að losa sig út úr flóknu spennumynstri og hindrunum sem sitja fastar í vefjunum í kjölfar skaða eða sjúkdóms.

Losun
Þessari losunaraðferð má líkja við það þegar verið er að opna hlið með klinku. Þegar hliðið er lokað, getur klinkan verið stíf vegna þess að lokað hliðið þrýstir á hana. Með því að ýta fastar á hliðið losnar nægilega mikið um klinkuna til að hægt sé að lyfta henni og opna hliðið. Svipað á sér stað þegar meðferðaraðili fylgir líkamlegu mynstri eftir inn í hindrun, en þá gerir hann líkamanum oft kleift að taka læsinguna af, þ.e.a.s. að losa hindrunina sem var föst og opna þannig vefinn og greiða fyrir frjálsri og hindrunarlausri hreyfingu. Á þennan hátt getur slík ofurvarfærnisleg meðferð sem felst einfaldlega í því að fylgja eftir því sem líkaminn vill gera náð fram djúpstæðum losunum í vefjunum.

Það gerir líkamanum síðan kleift að ná aftur betra jafnvægi og meiri hreyfanleika þar sem orkuflæðið, vökvaflæðið, blóðflæðið og vefjastarfsemin getur allt starfað betur og á samstilltari hátt. Af þessum sökum finnur fólk gjarnan fyrir aukinni orku og hita í kjölfar höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðar ásamt tilfinningu um mun betri almenna heilsu en áður. Skýringin er sú að öllum vefjum líkamans hefur verið gert kleift að starfa betur og á fullkomnari hátt en áður.

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er aldrei þröngvað upp á líkamann. Hún vinnur með líkamanum og örvar eðlislæga sjálfslækningarkrafta hans. Jafnvel þótt færa megi rök fyrir því að hafa megi gagn af meðferðinni við hvaða aðstæður sem er, þá eru vissar aðstæður þar sem meðferðin gagnast einstaklega vel. Þær eru m.a. áverkar á höfuðkúpu og höfuðskaðar, skaðar af völdum hálshnykks, námserfiðleikar, lesblinda, ofvirkni, flogaveiki, heilalömun og ýmis önnur þroskavandamál, heilahimnubólga, settaugarverkur og bakverkir, vandamál vegna örmyndunar og samgróninga eftir aðgerð, og einnig við úrvinnslu tilfinningalegra áfalla. Eftir:Thomas Attlee. Íslensk þýðing: Margrét Árnadóttir, hjúkrunarfræðingur og höfuðbeina-og spjaldhryggjarjafnari.

Höfundur: Thomas Attlee  greinin skrifuð árið 2000



Flokkar:Meðferðir

%d bloggers like this: