Syngjandi sæll og glaður

Rætt við Esther Helgu Guðmundsdóttur söngkennara árið 1999
Fyrir tveimur áratugum fóru eyru mín að nema fullyrðingar um mátt hljómlistar til að fyrirbyggja og lækna sjúkdóma. Sagt var að mest um vert væri að framkvæma tónlistina sjálfur, annað hvort með söng eða hljóðfæraslætti, best væri ef hvoru tveggja væri. Dæmi í kringum mig töluðu sínu máli, fjölskylda sem ég þekkti til og öll lék á einhver hljóðfæri hafði ekki orðið veik né fengið flensu árum saman.

Spurnir bárust af því að einn landi okkar héldi lífi með því að iðka tónlist þrátt fyrir banvænan sjúkdóm. Og fleira var upptalið. Mér fannst þetta afar athyglivert ef satt væri, en flosnaði nú samt upp úr gítarnáminu að einum vetri loknum, þó ég hefði fullan vilja til að láta á það reyna hvort sannindi leyndust í þessum orðrómi. Það var svo fyrir sjö eða átta árum að ég sá auglýsingu í blaði um námskeið í söng fyrir laglausa. Mér fannst að þarna væri mitt tækifæri komið.

Ég klippti út auglýsinguna og hengdi upp á töflu. Þar hékk hún enn fjórum árum seinna er ég aftur sá svona auglýsingu í blaði, þá öðlaðist ég kjark til að skrá mig á námskeið. Og viti menn mér opnaðist ný vídd í tilverunni. Söngkennarinn á námskeiðinu var Esther Helga Guðmundsdóttir, sem byrjaði ung að læra söng í Söngskólanum í Reykjavík og lauk þaðan 8. stigs prófi. Fór síðan í fjögurra ára söngnám í háskólanum í Indiana, í Bandaríkjunum þar sem hún útskrifaðist sem einsöngvari, einnig sem söng- og tónlistarkennari.

Þegar hún kom heim frá námi varð hún vör við hve marga langaði til að syngja en töldu sig vera laglausa og fannst af þeim sökum þeir ekki mega gefa frá sér hljóð. Hún ákvað að koma þessu fólki til hjálpar og gefa því tækifæri til að læra að syngja og stofnaði söngskólann Söngsmiðjuna, sem hún rak í átta ár. Nú rekur hún „Gaia sound center“ í Bolholti 6, þar er hún með einkatíma í raddþjálfun og hljómheilun. Einnig heldur hún námskeið í söng fyrir unga sem aldna, laglausa sem lagvísa.

Esther Helga komst fljótt að því í sínu starfi að fólk þurfti margs konar leiðbeiningar og stundum hjálp vegna rangrar raddbeitingar. Af því leiddi að hún lagði áherslu á þjálfun einstaklinga með raddvandamál og ekki síður lagði hún rækt við að byggja upp fólk með niðurbrotið sjálfstraust og vantrú á eigin sönghæfileika. Hún segir „þeir sem geta talað geta sungið og aldrei er of seint að byrja að þjálfa röddina“. Esther Helga hélt aftur út í heim nú til að læra hljómheilun, hún féllst góðfúslega á að segja lesendum um hvað slíkt snýst. Ég gef henni orðið.

Hljómheilun
Í starfi mínu komst ég fljótt að því hve söngurinn breytti líðan fólks til góðs bæði andlega og líkamlega. Sjálf hef ég notað röddina til að greiða úr ýmsum tilfinningavandamálum og fundið hve gott er að nota hana til sjálfsheilunar. Ég kynntist líka bókum Laurel Elísabeth Keyes, en hún er sú kona sem hefur orðið þekktust á þessari öld fyrir skrif sín um hljómheilun. Hún er einnig þekkt fyrir það að hún stofnaði samtök andlega sinnaðra kvenna sem tónuðu til heilunar fyrir veikt fólk og ótrúleg kraftaverk gerðust á heilsu margra sem þær tónuðu fyrir. L. E. Keyes er nú látin. Það má segja að þetta samanlagt hafi vakið áhuga minn á orkuvísindum, sem draga nú að sér æ meiri athygli í heiminum og sífellt fleiri læknar gera sér grein fyrir áhrifum þeirra á heilsu fólks.

Læknar og vísindamenn hafa rannsakað áhrif orkunnar á heilsu mannsins, meðal þess efnis sem skrifað hefur verið um orku og bylgju-sveiflulækningar er merkilegt rit, sem ber nafnið Vibrational Medicine, eftir bandaríska lækninn Richard Gerber M. D.. Leit mín að færum kennurum í orkulækningum endaði á Hawaii. Þar var mér bent á fólk sem skarar framúr á þessu sviði. Ég fór á tvö námskeið annað hjá Joy Garner sem starfar og kennir sveiflutíðniheilun (vibrational healing).

Hún leggur áherslu á vinnu með röddina, orkusteina og ýmsa sjálfssefjunartækni. Hitt námskeiðið var hjá Benjamin Howard, sem kennir og vinnur við það sem kallað er andleg formfræði, auk vinnu er lýtur að sveiflu- bylgjutíðni sem tengist röddinni og huganum. Bæði Joy og Benjamin lögðu áherslu á mátt jákvæðs hugarfars, því að sveiflu- og bylgjuheilun tengist hugsanabylgjunum. Þannig að ef fólk hugsar jákvæðar hugsanir virkar það jákvætt á umhverfið og framkallar jákvæða hluti í lífi manns. Ef fólk hinsvegar gefur frá sér neikvæðar hugsanabylgjur ákallar það neikvæða hluti í lífinu. Þannig hefur maður sjálfur val.

Líkaminn hefur rödd
Þegar ég áttaði mig á því að líkaminn hefði rödd opnaðist fyrir mér nýr heimur, því að þó að ég væri að nota röddina sem söngvari var það ekki á þessum forsendum. Ég komst að því að hægt er að gefa sársaukanum rödd. Röddin er notuð til að fá útrás, hún er miðill tilfinninganna, ef tilfinningar okkar fá ekki útrás festast þær einhverstaðar í líkamanum. Innilokaðar og niðurbældar neikvæðar tilfinningar geta orsakað ýmsa líkamlega kvilla.

Fólk hefur kynnst því hve líkamleg hreyfing losar um og veitir vellíðan. Í sama tilgangi má nota röddina til að losa um tilfinningar og vanlíðan, bæði andlega og líkamlega. Því fylgir góð tilfinning fyrir sjálfum sér og innri ró. Við sársauka, hræðslu eða reiði gefur fólk ósjálfrátt frá sér hljóð, ef hljóðin eru bæld niður við slíkar aðstæður er hættara við verkjum eða veikindum eftir á. Þegar við lokum inni andleg áföll og fáum ekki útrás eyðum við orkunni okkar í að halda þeim inni og höfum ekki afgangsorku til að lifa lífinu. Afleiðingarnar verða veikindi, sem hægt er að koma í veg fyrir með því að nota röddina til að losa um orkuna þannig að andlegt- og líkamlegt orkustreymi verði heilsteypt og geti flætt eðlilega.

Hingað til hefur það talist best í okkar samfélagi að bera harm sinn í hljóði og er gott útaf fyrir sig. En það er nú samt þannig að fólk þarf útrás fyrir sorg sína. Hjá sumum þjóðfélögum er röddin notuð á skipulagðan hátt til að mæta þessari þörf. Má nefna grátkonurnar sem veina og gráta og fá þannig útrás fyrir alla fjölskylduna. Kaþólska trúarsamfélagið tekur á þessu með skriftunum. Þar er talið notað til að ná þessari nauðsynlegu útrás, því að oft má losa um vandamál sín með því að orða þau.

Söngurinn er besta meðalið
Gott er að byrja á því á morgnana um leið og komið er fram úr rúminu að teygja vel úr sér á alla vegu, síðan bara standa eða sitja meðan slakað er á í líkamanum með því að fylgjast með önduninni og muna eftir að slaka á hökunni. Leyfa svo þeim hljóðum sem vilja koma, að koma. Það geta verið stunur og andvörp eða geispi. Og endilega að muna að láta hljóð fylgja geispanum. Ekki er þörf á að hljóðin séu há eða að þeim fylgi lag, en gott er að tóna frá sér löngum tónum t.d. sérhljóðanum a. Við langa tóna finnur fólk að öndunin dýpkar. Eftir löngu tónana þarf að draga djúpt að sér andann, sem eykur súrefnisflæðið í líkamanum.

Þess vegna eru þessar æfingar mjög góðar fyrir eldra fólk og þá sem fá litla hreyfingu. Munið því að hvort sem legið er, setið eða staðið við æfingarnar er áhrifaríkast að tóna frá sér löngum tónum, þeir örva orkuflæðið. Oft er fólk hrætt við að láta aðra heyra til sín, því má nú oft bjarga með því að hafa útvarpið á. Enda er oft nóg að raula látt og þarf ekki mikinn hávaða. Einfaldar raddæfingar geta losað um, það eru andvörp og ýmsir hljómar. Til dæmis ef þú færð verk einhverstaðar þá geturðu leyft líkamanum að gefa frá sér hljóð. Ef þú hugsar um verkinn og gefur honum rödd, hleypir hljóðinu út, þá koma ýmis mismunandi hljóð jafnvel vein og stunur, en slík hljóð sem hleypt er út geta linað líkamlegar og andlegar þjáningar.

Að lokum sagðist Esther Helga vilja hvetja fólk til að nota öll tækifæri til að syngja og bæta þannig andlegan og líkamlega heilsu.

Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði 1999



Flokkar:Reynslusögur

%d bloggers like this: