Sandra Ósk var myndar hnáta er hún fæddist 13. september 1990, vóg 3660 g og mældist 52 cm á lengd. Hún var fimmta barn Hólmfríðar Sigurðardóttur, móðirin var því enginn viðvaningur í umönnun hvítvoðunga. Stúlkan sótti fast eftir næringu sinni og var í alla staði heilbrigt og eðlilegt barn, en vegna sára á geirvörtum neyddist Hólmfríður til að taka hana af brjósti tæplega sex vikna. Þegar hún hætti að fá brjóstið var henni gefin MAN þurrmjólk, sem hún þoldi ekki og var þá skipt yfir í SMA þurrmjólk, það fór á sama veg. Eftir það var reynt að gefa henni sojamjólk, síðan kúamjólk, bæði nýmjólk og léttmjólk, sem var blönduð með vatni eins og venja er. Allt kom fyrir ekki barnið hélt engu niðri og léttist sífellt. Barnaeftirlitið og læknar kunnu engin ráð.
Hólmfríður féllst á að segja lesendum frá því hvað varð dóttur hennar til bjargar og gefum við henni nú orðið. Barnið var orðið svo veikburða tveimur vikum eftir að hún hætti á brjósti, að hún bara svaf, opnaði ekki augun og hreyfði sig ekki og hafði ekki mátt til að sjúga pela. Um þetta leyti kynntist ég Selmu Júlíusdóttur miðli, sem ráðlagði mér að byrja á því fyrstu vikuna að gefa henni í fyrstu gjöf að morgni 3 dropa af hreinni jógúrt ( án bragðefna) síðan 50 millilítra af soðnu vatni með hálfri teskeið af þrúgusykri útí. Láta svo líða 10 mínútur áður en hún fengi blöndu úr undanrennu og vatni (blandað til helminga og soðið). Í hvern lítinn barnapela var bætt 1/2 teskeið af maltextrakt og einni matskeið af rjóma. Í stóran pela voru hlutföllin 1 tsk af maltextrakt og 2 msk af rjóma. Aðeins átti að gefa þrúusykursvatnið á undan fyrstu gjöf á morgnana, en 3 jógúrtdropa fyrir hverja gjöf af undanrennublöndunni.
Einnig ráðlagði Selma Júlíusdóttir mér að nudda gætilega á henni kviðarholið með til þess gerðri olíu, sem var blönduð úr 100 millilítrum af laxerolíu og 5 dropum af kamillu kjarnaolíu (camomile). Selma sagði það líka gott ráð ef að kornabörn væru með hægðatregðu að nudda kviðin með laxerolíu og væri þá strokið eftir legu ristilsins, byrjað niður undir nára hægramegin og strokið upp kviðinn, síðan þvert yfir og niður vinstra megin. Hún lagði ríka áherslu á að kjarnaolíur væru vandmeðfarnar og kamilluolía væri sú eina sem mætti bera á börn innan 6 mánaða aldurs. Um það leyti sem ég komst í samband við Selmu var barnið orðið of máttfarin til að sjúga pela og ekkert virtist geta bjargað lífi þess nema kraftaverk. Og kraftaverkið skeði, aðeins tveimur dögum eftir að umrædd meðferð hófst fór Sandra Ósk að taka við sér og halda niðri því sem ofaní hana fór.
Eftir viku mátti ég hætta að gefa henni jógúrtið og þrúgusykursvatnið. Þaðan í frá fékk hún aðeins undanrennublönduna með rjóma og maltextrakt. Fjórum vikum seinna hafði hún þyngst um 800 g. Til sex mánaða aldurs fékk hún enga aðra næringu en þessa undanrennublöndu með rjóma og maltextrakt. Hún þyngdist um 250 til 300 g á viku, sem barnaeftirlitinu fannst full mikið, þá minnkaði ég rjómann í eina matskeið í stóran pela í stað tveggja msk. áður. Þegar ég byrjaði að gefa henni mat með blöndunni var það miðað við þarfir þriggja mánaða barns. Það tók hana ekki nema nokkrar vikur eftir að hún fékk þessa umræddu undanrennublöndu að ná upp sinni eðlilegu þyngd. Á þessu ári verður hún níu ára gömul, hún er hraust og stendur jafnöldrum sínum fyllilega jafnfætis hvað líkamlegt og andlegt atgervi snertir.
Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir skrifað árið 1999
Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar