Úr einu í annað – Vor 1999

Olífulaufa-extrakt, undralyf við sýkingum
Nýlega sagði ég frá því í þessum rabbþáttum að extrakt búinn til úr olífuviðarlaufum hefði reynst vel við ýmsum veirusýkingum og hefði jafnvel gefið vonir um að gagna við eyðni. Bæði er að nú hefur þessi extrakt verið prófaður hér á landi og að nýjar erlendar upplýsingar hafa borist. Greinarhöfundi finnst því full ástæða til að segja örlítið meira frá þessu merkilega jurtalyfi. Olífulaufaextrakt er í raun og veru alls ekkert ný uppgötvun, þó að tiltölulega skammt sé síðan hægt hefur verið að fara út í búð til að kaupa hann.

Á Ítalíu hefur um aldir verið búið til jurtalyf með því að sjóða olífuviðarlauf í vatni eða láta það liggja í víni í vissan tíma. Síðan var seyðið af laufunum eða vínið notað sem heilsubótardrykkur og til lækninga á ýmsum sjúkdómum eða kvillum. Þetta var lengi gamalt húsráð, sem ein kynslóð kenndi annarri en hefur sennilega aldrei komist í neinar lækningabækur sem kenndar eru í háskólum. Nú er olífulaufaextrakt framleiddur í verksmiðjum og seldur í hylkjum sem, auk extraktsins, innihalda oxunarvarnarefni til að varðveita ferskleika olíufulaufanna.

Efni sem nefnt er oleuropein hefur fundist í olífulaufunum og er talið valda læknisfræðilegum verkunum olífulaufaextraktsins. Mörg fleiri efni eru þó í olífulaufunum og því er engan veginn fullvíst að oleuropein eitt sér hafi allar þær fjölþættu verkanir sem komið hefur í ljós að olífulaufaextraktinn hefur. Í greininni sem birtist í Heilsuhringnum var aðeins talað um veirusýkingar en ýmsar heimildir benda til að extraktinn sé ekki síður nothæfur við aðrar sýkingar t.d. af völdum baktería og jafnvel sveppa.

Olífulaufaextrakt er því allsherjarlyf við flestum sýkingum, séu þessar upplýsingar allar réttar. Greinarhöfundur tekur þó fram að persónulega hefur hann aðeins reynslu af extraktinum við veirusýkingum og getur því ekkert fullyrt af eigin reynslu um aðrar sýkingar. Erlendu heimildirnar segja olífulaufaextraktinn frábæran við að lækna öll afbrigði herpesveira t.d. áblástur, kynfæraherpes (herpes II), ristil, Epstein- Barr-veirusýkingu, cytomegaloveirusýkingu o.s.frv.

Einnig má nota hann við að lækna venjulegt kvef og inflúensu og ýmsar sjaldgæfari veirusýkingar sem ég ætla hér ekki að nefna. Auk þess veiruhálsbólgu, veirulungnabólgu og aðrar öndunarfærabólgur sem stafa af veirum. Ég hef ekki séð hvort olífulaufaextrakt hefur verið notaður með árangri við eyrnabólgu í börnum eða ennis- eða kinnholubólgu í börnum eða fullorðnum. Í greininni í Heilsuhringnum var sagt frá að olífulaufaextraktinn hefði verið reyndur við nokkra eyðnisjúklinga með athyglisverðum árangri.

Engar nýjar fréttir af þeim vettvangi hafa borist en eigi að síður voru þær upplýsingar svo áhugaverðar að full ástæða er til að hugleiða þær fyrir fólk sem berst við þann illvíga sjúkdóm. Sú staðreynd að olífulaufaextraktinn hindrar retroveiruensímið reverse transcriptasa gefur sterka vísbendingu um að það geti gagnað við HIV-veirum og þá um leið eyðni sé litið á HIV veiruna sem höfuðorsök eyðni. Í lokin ætla ég að segja frá eigin reynslu af olífulaufaextrakti við einhverskonar hálsbólgu eða hálsbarkabólgu sem ég fékk í ágústmánuði s.l. Ég var búinn að vera með þennan kvilla í nokkrar vikur en hann vildi ekki lagast.

Að lokum fór mér að leiðast þetta og prófaði sýklalyfjakúr með engum árangri. Þar á eftir fékk ég annað sýklalyf sem heldur gagnaði ekki. Þá mundi ég eftir olífulaufaextraktinum og vissi að hann var til í Heilsubúðinni í Hafnarfirði og keypti eitt glas. Á því stóð að taka skyldi 1-3 hylki á dag. Ég tók 2 hylki á dag í nokkra daga. Strax eftir fyrsta daginn var ég töluvert betri í hálsinum og eftir 3 daga taldi ég mig alveg orðinn góðan og hætti að nota extraktinn daginn eftir. Þá kom í ljós að ég hafði ekki tekið hann nógu lengi því að nokkrum dögum seinna fékk ég hálsbólguna aftur.

Þá fór ég á nýjan leik að taka extaktinn og byrjaði á 3 hylkum og tók síðan 2 hylki á fjögurra til fimm stunda fresti næstu daga. Í þetta skipti sló mér heldur ekki aftur niður. Extraktinn verkaði svo fljótt í seinna skiptið að ég var orðinn einkennalítill eftir aðeins 4-5 klst. Af reynslu minni ráðlegg ég fólki að hætta ekki of snemma að nota extraktinn og láta ekki líða nema 4-5 klst. á milli þess að hann er tekinn á meðan fólk er með sjúkdómseinkenni og að byrja með stærri skammt, t.d. 3 belgi. E.t.v. er nóg að taka einn belg í einu eftir að byrjað er, ef aðeins líða 4-5 lst. á milli þess að tekið er. Erlendar heimildir benda til að best sé að taka extraktinn með skömmu millibili, því að hann fer fljótt úr blóðinu eftir að hann er tekinn inn. Gaman væri að frétta af öðrum sem notað hafa olífulaufaextrakt og hvernig árangurinn hefur verið.Æ. J.

Kjöt nautgripa sem lifa á heyi heilsusamlegra
Í meltingarfærum nautgripa sem fóðraðir eru á kornvöru þrífst mikið af þarmabakteríu sem nefnd er escherichia coli (E.coli). Stundum virðist þessi baktería verða fyrir stökkbreytingu sem gerir hana hættulega mönnum en annars er hún talin hluti af eðlilegri þarmaflóru í mönnum og dýrum. Þessi stökkbreytta baktería er nefnd E. coli 0157:H7. Vísindamenn hafa nú uppgötvað að þrátt fyrir stórauknar kröfur um hreinlæti hefur sýkingum í fólki af E. coli 0157:H7 stöðugt farið fjölgandi á undanförnum áratugum. Á sama tíma hefur það færst í vöxt að nautgripir séu að mestu fóðraðir á kornvöru. Vísindamennirnir fundu að 300 sinnum meira var af E. coli í mykjunni frá nautgripum sem fóðraðir voru á korni heldur en ef þeir fengu aðeins hey. Auk þess voru E. coli bakteríurnar þolnari gagnvart sýruáhrifum, en það skiptir verulegu máli, því að álitið hefur verið að magasýrurnar drepi meirihluta þeirra E.coli baktería sem kunna að leynast í fæðu sem við neytum.

Vitað er og viðurkennt, að illmögulegt er að hindra að eitthvað af þarmabakteríum berist í kjötið í sláturhúsunum og sýruþolnar E. coli bakteríur finnast fyrst og fremst í nautgripum sem lifað hafa á korni, vegna þess að nautgripi vantar ensím til að melta sterkju í korni og því berast ómeltar leifar af sterkju neðar í meltingarveginn þar sem þær gerjast og mynda fitusýrur. Í þessu súra umhverfi þróast síðan sýruþolin afbrigði af þarmabakteríum m.a. E. coli 0157:H7. Séu nautgripir aldir eingöngu á heyi fækkar þessum bakteríum mjög hratt og eftir aðeins 5 daga eru flestar sýruþolnu bakteríurnar horfnar, eftir þvi sem heimildir telja. Því ætti að fóðra nautgripi eingöngu á heyi í minnst 5 daga fyrir slátrun til að draga úr líkum á að kjötið mengist af hættulegum E. coli sýklum. Einnig er bent á að fólk með ofnæmi eða óþol fyrir hveiti eða öðru korni ætti ekki að neyta kjöts af nautgripum sem fóðraðir hafa verið á korni, því að ofnæmisvaldurinn getur borist yfir í kjötið. Þetta á alveg sérstaklega við um fólk af O blóðflokki segir greinarhöfundur að lokum. Æ. J. Heimild: Science, 11. september 1998

Hví nota svo mörg börn ritalin?
Þessi fyrirsögn er heitið á stuttri grein í Townsend Letter for Doctors and Patients í des ´98 eftir Joseph M. Mercola, lækni. Greinahöfundur segir að mörg bandarísk börn fái meginhluta þeirra vítamína sem þau neyta úr Vítamínbættu morgunkorni og ávaxtasafa. Þetta finnst honum ekki nógu gott, því að stór hluti þessara barna séu ofnæm eða hafi óþol fyrir kornvöru og ættu helst ekki að smakka korn, hvað þá heldur að hafa fyrir aðalmat. Þar að auki er ,,ávaxtasafinn” stundum lítið annað en gervidrykkir þar sem aðalefnið er sykur og vatn en lítið af raunverulegum ávaxtasafa, þó að vissulega séu til undantekningar frá því. Dr. Mercola telur að svokölluð ,,ofvirkni” í börnum sé að mestu leyti afleiðing af þessum matarvenjum og megi í flestum tilfellum laga með því að hætta að láta börnin nota kornvöru sem þau hafa óþol fyrir, ásamt sætindum og í sumum tilfellum mjólkurvörum.

Hann bendir fólki á að lesa bækurnar ,,Carbohydrate Addicted Kids” eftir Heller og ,,No more Ritalin” eftir dr. Mary Ann Block. Hann gagnrýnir að bandarískir læknar (og íslenskir sennilega líka) hafi ekki gert sér þessa staðreynd ljósa, heldur gefi börnunum lyfið ,,ritalin,” sem eins og alþjóð veit er afbrigði amfetamíns og hefur nánast sömu verkanir og fíkniefnið kókain. Á sama tíma og verið er að dæma fólk í margra ára fangelsi fyrir að smygla nokkrum grömmum af amfetamíni til landsins er hindranalítið hægt að fá efni með nánast sömu verkanir og eiginleika eftir lyfseðli (ritalin) og þetta sama efni er jafnvel gefið ungum börnum. Greinahöfundur getur ekki annað en gagnrýnt þessi vinnubrögð. Nýlega sagði kona frá því í útvarpsþættinum ,,Þjóðarsálin, 5 – 6. febr.´99,” að farið hefði verið með barnið til sérfræðings, sennilega vegna einhvers sjúkleika. Læknirinn hefði varla litið á barnið en aðeins sagt eitthvað á þessa leið:

,,Hann er áreiðanlega ofvirkur. Við gefum honum lyf við því.” Síðan skrifaði hann lyfseðil og sagði: „Takk. Verið þér sælar.“ ,,Barnið var aðeins þriggja ára” bætti konan við. Könnun sem sagt var frá í Science, sept ´97, benti ekki til að neitt langtíma gagn væri af að gefa börnum með orvirkni og athyglisbrest ritalín eða önnur lyf með líkar verkanir. Dr. Mercola óttast þær alvarlegu afleiðingar sem ríkjandi ástand hafi á börnin sem eru að vaxa upp og vill að aðstandendur þeirra geri sitt til að breyta þessu, með því að taka af matseðli barnanna þau matvæli sem nefnd hafa verið og bætir frönskum kartöflum við, sem hann segir að valdi ásamt hinum matvörunum heilaskaða hjá sumum börnum. Í greininni er vitnað í Pediatrics, okt ´98. Æ.J.

Næring og eyðni
Í grein í Townsend Letter for Doctors and Patients, febr/mars ´99 segir greinarhöfundur, Jule Klotter, frá gagnsemi margskonar fæðubótarefna sem geta hjálpað eyðnisjúklingum og vitnar í marga aðra sem skrifað hafa um eyðni og næringu. Samkvæmt greininni skiptir næringarástand eyðnisjúklinga öllu máli um hvernig þeim vegnar hvort þeir lifa eða deyja. Einn þeirra sem vitnað er í, dr. Robert Cathcart, telur að í byrjun sé árangursríkast að ,,afeitra” sjúklinginn með því að láta hann fasta, þvínæst þarf að losa hann við sníkjudýr í þörmum og candida-sveppasýkingu, sem oft hrjáir eyðnisjúklinga og hindrar að fæðan nýtist eðlilega, sem síðan veldur veikluðu ónæmiskerfi. Hann mælir með fæðu sem byggir upp líkamann, svo sem hráfæðu, grænmetissafa, fæðu auðugri af blaðgrænu og hvítlauk, ásamt fæðubótarefnum til að styrkja ónæmiskerfið t.d. selen, zink A-vítamín og það mikilvægasta af þessu öllu, C-vítamín. Hann hefur fundið að stórir skammtar af C-vítamíni hafa ótrúlega góðar verkanir á sjúklinga sem þjást af Koposi sarkmeinum. ,,Útbrot á húðinni byrja að smáhverfa fyrir augunum á þér”, segir hann.

Hversu mikið C-vítamín rétt er að nota er einstaklingsbundið og verður að ákvarða eftir því hvað sjúklingurinn getur notað mikið áður en hann fær niðurgang. Hjá heilbrigðu fólki er þetta oft 10-15 dag, tekið í 4-6 skömmtum yfir daginn. Hjá veiku fólki er þetta oft miklu meira. Ekki má hætta skyndilega að nota stóra skammta af C-vítamíni, því að þá er hætta á að sjúklingnum versni. Stórir skammtar af C-vítamíni eru líka áhrifaríkir gegn lungnabólgu sem er eyðnisjúklingum hættuleg, og það verkar með sýklalyfjum og styttir tímann sem þarf að nota sýklalyf. Einnig dregur það úr ofnæmisverkunum sumra sýklalyfja. Séu stórir skammtar af C-vítamíni notaðir er sennilega best að nota hlutlaus sölt af askorbínsýru frekar en sýruna sjálfa. Ýmsir mæla með natr.ascorbat. Einnig má sennilega nota ,,Ester – C ”, sem fæst hér á landi. Annar læknir, Robert Houston, telur að zinkskortur skipti máli við eyðni. ,,Fólk segir að bæling á T4 eitilfrumum gerist aðeins í eyðni…… Það er alls ekki rétt, það gerist einnig dæmigerðan zinkskort segir hann”.

Hann mælir með að eyðnisjúklingar noti að minnsta kosti 30 zinki á dag til viðbótar við C-vítamín. Vitað er að ýmis önnur næringarefni hvetja ónæmiskerfið t.d. flest B-vítamín, E vítamín, sumar fitusýrur, mangan, hvítlaukur og blaðgræna, auk þess að vitað er að mörg fleiri efni eru gagnleg með ýmsu öðru móti, t.d. ólífulaufaextrakt og flavonefni. Sérstaklega hefur verið talað um efni sem unnið eru úr furuberki og nefnist ,,Pycnogenol”, líkt efni sem unnið er úr vínberjakjörnum og efni úr aðalbláberjum sem nefnt er ,,Strix”. Pycnogenol, Strix og efnið úr vínberjakjörnum eru þó ekki talin ha bein áhrif á eyðniveiruna, heldur eyða stakeindum sem veiran á þátt í að mynda. Olífulaufaextraktinn hinsvegar veiruhemjandi. ÆJ

Hvernig C-vítamín er best við ofnæmi?
Lengi hefur verið vitað að C-vítamín hefur oft reynst mjög vel við ýmiskonar ofnæmi. Til að ná einhverjum umtalsverðum árangri þarf þó að nota nokkuð stóra skammta daglega af því, ekki minna en 1-2 g. Sumt fólk þolir illa að nota svo mikið C-vítamín og stundum virðist þetta ekki heldur verka á ofnæmið. Í Townsend Letter for Doctors and Patients í maí 1998 er fólki bent á að oft sé miklu betra að nota C-vítamínið sem salt, t.d. natr. ascorbat. Bæði fari „saltið“ betur í maga og eins virðist það verka betur á ofnæmið. Í greininni var sagt frá tilfellum af astma sem ekki hafði tekist að laga með neinum öðrum ráðum, en tókst gera fólk einkennalaust af með na. Ascorbat einu saman. Sennilega mætti nota Ester C með jafngóðum árangri en það yrði að prófa áður en hægt er að fullyrða neitt um það. Æ. J.

Nýtt á markaðnum
ZINAXIN engiferekstraktið er þróað af Dr. Morten Weidner, dönskum lífefnafræðingi, eftir að hann hafði rannsakað allar þær plöntutegundir, sem í gegnum tíðina hafa verið notaðar við óþægindum í liðum. Hann kannaði plöntur frá Indlandi, Kína, Evrópu, Ameríku og Afríku til að athuga hvort þær hefðu einhverja verkun. Niðurstaða hans var sú að engiferplanta, ræktuð á ákveðnu landssvæði í Kína, hefur áberandi mesta verkun. Með sérstakri vinnsluaðferð tókst Dr. Weidner að þróa ZINAXIN eftir 6 ára þrotlausar rannsóknir Rannsóknir hafa leitt í ljós að ZINAXIN hefur hemjandi áhrif bæði á prostaglandína og leukótríena í líkamanum. Prostaglandínar valda bráðum einkennum og verkjum í liðum, en leukótríenar tengjast langvinnum bólgum og viðhalda sjúkdómseinkennum.

Í þessu er annar af helstu kostum ZINAXIN fólginn, því flest önnur efni, sem notuð eru við liðverkjum, hafa eingöngu hemjandi áhrif á prostaglandína í líkamanum. Hinn aðalkosturinn er sá að engar aukaverkanir hafa verið skráðar samhliða notkun á ZINAXIN. Vinnsluaðferðin, sem Dr. Weidner þróaði, er galdurinn á bak við ZINAXIN, því með henni tókst honum að varðveita flókna efnasamsetningu virkra efna engiferrótarinnar, og tryggja að auki staðlaða framleiðslu á ZINAXIN. Verkun ZINAXIN er mun meiri en í nokkrum öðrum engifervörum og rannsóknir sýna að það þarf allt að 70 töflur af öðrum engifervörum til að ná fram sömu áhrifum og fást með einu hylki af ZINAXIN. ZINAXIN hefur á undanförnum árum verið selt víða um heim, og í mörgum löndum, t.d. Ástralíu og Finnlandi, hefur ZINAXIN fengið fádæma góðar viðtökur. Það er því mikið gleðiefni að ZINAXIN, fyrsta staðlaða engiferekstraktið í heiminum, skuli nú einnig vera fáanlegt á Íslandi.

Mjög lítil fituneysla skaðleg
Circulation, tímarit bandarísku Hjarta- og æðaverndarsamtakanna, bendir nýlega á að ekki sé ráðlegt fyrir þungaðar konur eða konur með barn á brjósti, börn, aldrað fólk, fólk með mikið af þríglyseríðum í blóði eða fólk með insúlínháða sykursýki, að lifa á mjög fitusnauðu fæði. Jafnvel geti þannig fæða aukið hættuna á hjartasjúkdómum. Þannig fæða, ásamt ýmsu fleiru eykur þríglyseríð í blóði, en þríglyseríð eru nú talin skaðleg fita fyrir hjarta og æðakerfið. Í vissum tilfellum jukust þríglyseríðin um allt að 70%. Þá minnkaði fitusnauð fæða HDL fituprótein (góða kólesterólið) í blóði fólks, án samsvarandi minnkunar á LDL fitupróteinum (slæma kólesterólið). Þetta snýr við þeim ráðleggingum sem fólki með hjarta- og æðsjúkdóma hafa áður verið gefnar, semsé að neyta sem minnstrar fitu. Nú er því talið heilsusamlegt að nota dálítið af fitu, en þó í hófi, en sleppa algerlega sætindum eða öðrum einföldum kolvetnum, ásamt gervimatvælum t.d. smjörlíki eða bökunarfeiti. Heimild: Circulation 1998.

C-vítamínskortur og ófrjósemi
Fyrir allmörgum árum sagði ég frá könnun sem staðfesti að C-vítamínskortur getur valdið ófrjósemi, að minnsta kosti hjá karlmönnum. Í Townsend Letter for Doctors and Patients, febr.´99 er stutt grein sem bendir til hins sama. Þar segir frá 40 hjónum sem verið höfðu í sambúð, án þess að konurnar hefðu orðið barnshafandi, þrátt fyrir að hafa reynt allt sem pörunum hugkvæmdist til þess. Þá var þessu fólki skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn var látinn taka eitt gramm af C-vítamíni daglega en hinn fékk óvirka lyfleysu sem leit eins út. Tilraunin stóð í tvo mánuði, þá var engin kona þeirra manna sem fengu lyfleysuna ennþá með barni en allar konurnar í hinum hópnum, sem fékk C-vítamínið, voru þá orðnar þungaðar. Hjón sem gjarnan vilja eignast börn en hefur ekki tekist, þrátt fyrir að ekki hefur fundist nein líffræðileg ástæða fyrir því, ættu að prófa að nota eitt gramm af C-vítamíni daglega í nokkra mánuði og sjá hvort þeim gengur eins vel og hjónunum 20 sem hér er sagt frá. Æ.J.

Varað við barnabólusetningu
Í Townsend Letter for Doctors and Patients, febr. mars ´99 er rætt um það að barnabólusetningar valdi að minnsta kosti stundum meiri skaða en gagni. Þar er t.d. bent á að bólusetning við lifrarbólgu B, sem sumstaðar sé gerð á mjög ungum börnum, sé sterklega grunuð um að valda aukinni tíðni sjálfsofnæmissjúkdóma t.d. liðagigt. Frá þessu var skýrt á ársfundi Bandarískra námsbrauta í gigtarfræðum (American College of Rheumatology) sem haldið var 8. – 12. nóv. ´98 í San Diego í Kaliforníu. John B. Classen, læknir, ónæmisfræðingur við Classen Immunotherapies gaf út rit þar sem bólusetningar gegn lifrarbólgu B og fleiri sjúkdómum var tengd við sykursýki I og reyndar fleiri sjálfsofnæmissjúkdóma. Heimildir úr lítilli könnun, sem bandaríska stjórnin birti styður þetta, því að tveggja mánaða börn sem voru bólusett gegn lifrarbólgu B fengu tvisvar sinnum oftar sykursýki en börn sem ekki voru bólusett.

Bent er á að illmögulegt er að sjá það gagn sem tveggja mánaða barn hefur af því að vera bólusett gegn sjúkdómi sem ekki smitast nema með sprautunálum eða hliðstæðri blóðblöndun. Sé það skoðað í því ljósi og að sykursýki I er ólæknandi, ævilangur sjúkdómur, sem bæði styttir lífslíkur og lífsgæði er varla hægt annað en fordæma þá sem standa fyrir þannig ofbeldi gagnvart ómálga börnum. Sé það einnig haft í huga að einnig liðagigt og jafnvel fleiri sjálfsofnæmissjúkdómar gætu tengst samskonar bólusetningu er málið jafnvel ennþá alvarlegra. Annað bóluefni sem orðað er við sjálfsofnæmissjúkdóma er bóluefni gegn heilahimnubólgu (HIB vaccine).

Vitanlega gleður það alla ef hægt er að hindra alvarlegan sjúkdóm í börnum, sem bóluefnið e.t.v. gerir. Þetta hefur þó sínar dökku hliðar. Börn sem eru bólusett með því er í miklu meiri hættu að fá sykursýki I og ýmsa aðra sjálfsofnæmissjúkdóma. Vegna þess að heilahimnubólga í börnum er ekki algengur sjúkdómur, og miklu fátíðari en sykursýki I í börnum sem hafa verið bólusett, verður fólk að meta hvorn kostinn það velur, annarsvegar að barnið kunni að fá heilahimnubólgu, sem reynar er ólíklegt og hinsvegar, sé það bólusett, að barnið fái sykursýki eða annan sjálfsofnæmissjúkdóm, sem er töluvert líklegra.

Fyrir nokkrum árum (H.h. vor ´96) sagði ég frá því að tímarit bandarísku læknasamtakanna, JAMA, hefði skýrt frá því að astmi væri nálægt því 6 sinnum algengari hjá börnum sem bólusett hefðu verið gegn kíghósta heldur en hjá óbólusettum börnum. Sjálfsagt væri hægt að benda á margt fleira sem hnígur í þá átt að barnabólusetningar séu alls ekki jafn æskilegar og okkur er talin trú um. Í sumum löndum eru starfandi félög sem berjast gegn, að þeirra mati, ótímabærum og stundum skaðlegum ónæmisaðgerðum. Sá er þetta ritar vill þó ekki ganga svo langt að leggja bólusetningar algerlega niður, jafnvel þó að hægt sé að benda á ótvíræðan skaða sem þær geta valdið í vissum tilfellum. Til að byrja með væri t.d. hægt að gefa eftirfarandi ráðleggingar:

1. Bólusetjið aldrei gegn sjúkdómum sem litlar eða engar líkur eru á að barnið fái, þó að það sé ekki bólusett.
2. Bólusetjið barn aldrei yngra en 1 – 1½ árs gamalt, því að yngri börn mynda tæplega neitt varanlegt ónæmi svo að bólusetningin er tilgangslaus en getur skaðað óþroskað ónæmiskerfi barnsins.
3. Bólusetjið aldrei gegn mörgum sjúkdómum í einu og látið líða góðan tíma þangað til bólusett er gegn öðrum sjúkdómi.
4. Bólusetjið barnið ekki, sé það nýstaðið upp úr kvefi, inflúensu eða öðrum sýkingum. Ónæmiskerfið þarf að vera í góðu ásigkomulagi þegar bólusett er. Sé barnið lasið verður að fresta bólusetningunni. Hugsanlegt er að nýjar aðferðir við bólusetningu, t.d. með nefúða, séu betri en þær aðferðir sem nú eru notaðar. Við sýkingu í öndunarfærum er nefúðinn vafalítið miklu betri. Þá fær ónæmiskerfi barnsins að glíma við sýkingarefnið á líkan hátt og gerist við náttúrlega sýkingu, sem trúlega minnkar hugsanlegar hliðarverkanir af ónæmisaðgerðinni. Í greininni í T.L.f.D.a.P. er gefið upp sími og faxnúmer fyrir þá sem vilja fá nánari upplýsingar: Dr. John Bert Classen, Immunotherapies, sími: +1-410-377-4549, fax: +1-410-377-8526, USA

Fita sem megrar
Í Townsend Letter for Doctors and Patients, í janúar 1999 er sagt frá afbrigði af fitusýrunni línolsýru, sem eftir ábendingu frá Guðmundi G. Haraldssyni, efnafræðiprófessor við Háskóla Íslands, er nefnd línolsýra með tengdar tvíbindingar (Conjugated Linoleic acid, CLA). Til styttingar er hún þó hér nefnd ensku skammstöfunni CLA. Þarmabakteríur sem lifa í meltingarfærum sumra dýra geta búið þessa fitusýru til úr línolsýru, ef dýrin fá rétt fóður. Kýr sem lifa á heyi geta t.d. myndað hana, en ekki ef þær lifa á annarskonar fóðri og menn eru með öllu ófærir um það. Dýratilraunir benda til að CLA örvi ónæmiskerfið, dragi úr líkum á krabbameini og hvetji vöxt magurra vöðva. Tilraunir á fólki, sem nú er verið að gera, benda til að 3g af CLA á dag auki vöðva og minnki samtímis líkamsfitu, jafnvel um allt að 46% á minna en þrem mánuðum. Enda þótt CLA virðist ekki beinlínis vera oxunarvarnarefni (eyði stakeindum), er það þó 300% áhrifaríkara við að verja frumuhimnur fyrir árásum stakeinda en E-vítamín.

Séu kýr aldar á heyi eða grasi finnst ofurlítið af CLA í mjólk þeirra og kjöti. Því má vel hugsa sér að mjólk úr íslenskum kúm, sem að miklu leyti eru aldar á heyi, sé þegar betur er að gáð, e.t.v. ágætt megrunarfæði, sérstaklega rjóminn, en allt CLA úr mjólkinni fer í rjómann þegar mjólkin er skilin. Einnig gæti rjóminn verið ágætt heilsufæði og seinkað frumuskemmdum t.d. vegna öldrunar eða skaðlegra efna í fæðu eða umhverfi. Trúlega er eitthvað af CLA í feitu íslensku dilkakjöti, svo að einnig það kann að vera ákjósanleg megrunarfæða, ef þessar upplýsingar standast dóm reynslunnar.

Argínin, sykursýki o.fl.
Þýski læknirinn dr. Hans A. Nieper, sem er nýlátinn og við höfum oft áður vitnað í, skrifar í Townsend Letter for Doctors and Patients, í nóvember 1998, bréf þar sem hann ræðir um amínósýruna argínin og kalsíum og magnesíum sölt af áðurnefndri amínósýru. Hann telur að þessi sölt, sér í lagi Ca. arginat séu afar mikilvæg fyrir hjartað, t.d. við kransæðasjúkdóma og segir að læknaskólinn í Hannover (Frölich prófessor) noti það til að styrkja hjartað. Einnig hafi Ca. arginat reynst laga bakverk á þrem vikum og bæta heyrn þeirra sem heyra illa hljóð með hárri tíðni.

Hann bendir á að e.t.v. sé það vegna þess að það bæti nýtni heyrnarfruma á þrúgusykri, en það er þó aðeins tilgáta, en hann segir að jafnvel þó að heyrnarskerðingin hafi varað í 15 ár, þá hafi ástandið lagast. Hann segir að Muecler o.fl. hafi sett fram hugmynd, þar sem argínin sameindir utan við frumuhimnuna í frumum, gípa þrúgusykurs-sameindir og flytja til aspartínsýru-sameinda innan frumunnar, sem eru súrari en argíninsameindirnar. Það efnaferli er háð insúlíni. Svo virðist sem eitthvað sé athugavert við þetta efnaferli í fólki með fullorðins-sykursýki og að verið gæti að „Tensið“ úr þvottaefnum, t.d. uppþvottalegi, eigi þátt í þessu og að lyf sem notuð eru við þessu afbrigði sykursýki hafi stundum lítil þrúgusykurs um 40% en veldur eyðileggingu lifrarinnar og hefur verið tekið úr framleiðslu.

Nieper segir að hann og fleiri hafi prófað að gefa sjúklingum með sykursýki II (fullorðins-sykursýki) 1g af Ca. arginat og 1g af Mg arginat á dag. Árangurinn er athyglisverður og trúlega mun athugun í lengri tíma staðfesta það. Hann segist hreykinn af að hafa átt þátt í að uppgötva þessa ódýru lausn á vandamálum fólks með fullorðins-sykursýki og að þessi lausn sé grundvölluð á næringu. Sykursýki II veldur miklu tjóni og styttir lífslíkur fólks heilmikið, þar sem hún eykur líkur á hjarta og æðasjúkdómum og nýrnabilun. Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 1998

Rafsegulmengun og lömunarsjúkdómar
Á síðari árum hefur fjölgað þeim röddum sem bent hafa á að svokölluð rafsegulmengun geti valdið eða átt þátt í ýmiskonar vanlíðan eða sjúkdómum. Það nýjasta í þeim efnum er að könnun frá Danmörku bendir til að samband sé á milli rafsegulmengunar og alvarlegs tauga- eða lömunarsjúkdóms sem á ensku er nefndur Amyotrophic lateral sclerosis (ALS) eða Gehrigs sjúkdómur. Þessi sjúkdómur leiðir oftast til dauða á fáum árum. Vegna þess að ég veit ekki til að neitt íslenskt nafn sé til á þessum sjúkdómi mun ég hér eftir nefna hann ensku skammstöfuninni ALS. ALS-sjúkdómur einkennist af vöðvarýrnun og eyðileggingu taugar sem bera boð frá heilanum og mænunni til hinna ýmsu vöðva.

Engin lækning er þekkt við sjúkdómnum og sama er að segja um ástæðuna fyrir að fólk fær hann. Danska könnunin sem vitnað er í bendir til að tvöfalt meiri líkur séu á að fólk sem dvelur í eða orðið hefur fyrir mikilli rafsegulmengun eða hefur orðið fyrir rafmagnslosti fái ALS heldur en annað fólk. Þetta og ýmislegt fleira ætti að hvetja fólk til að forðast sem mest ýmiskonar tæki og tól sem gefa frá sér mikið rafsegulsvið eða rafsvið. Í greininni sem þessar upplýsingar eru fengnar úr, er talað um tölvuskjái og spenna sem stungið er í samband við veggtengla, sem sérstaklega varhugaverð tæki. Áður höfum við bent á rafhitaðar ábreiður og vafalaust eru sjónvarpstæki og farsímar síst betri en tölvuskjáir. Heimild: American Journal of Epidemology, ágúst 1998

Lýsi gott við geðrænum sjúkdómum
Eins og áður hefur komið fram í þessu riti hafa fjölómettaðar fitur t.d. í lýsi og kvöldvorrósarolíu sýnt dálítinn árangur í sumum tilfellum við að lækna eða bæta vissa geðsjúkdóma (sjá grein um kvöldvorrósarolíu, vor 1997). T.d. segir dr. Andrew Stoll við Harvard læknaskólann í Boston, að rannsóknir í Massachusetts sýni að lýsi dragi úr einkennum geðbrigðasýki (manic depressive disorder). Höfundur greinarstúfsins sem þessar upplýsingar eru fengnar úr, Jóseph M. Mercola, leggur á það þunga áherslu að jafnvægi á milli omega 3 og omega 6 fitusýra sé í fæðunni og telur að best séð hlutfallið sé 1:4, þ.e. að einn hluti omega-3, sem einkum fæst úr lýsi og fiskmeti, sé á móti 4 hlutum af omega-6 fitum, sem einkum fást úr jurtaolíum og kjötvörum. Kvöldvorrósarolía og nokkrar aðrar fágætar jurtaolíur eru þó einu omega-6 gjafarnir sem öruggt er að allir geti nýtt sér. Því geta þessar olíur stundum bætt kvilla eða sjúkdóma sem aðrar jurtaolíur bæta ekki. Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 1998

Ómissandi fitusýrur
mikilvægar fyrir smábörn Talið er nú sannað að langar fitusýrukeðjur sem t.d. finnast í lýsi, séu ómissandi til að heilinn í smábörnum nái fullum þroska. Ungbarnamjólk (formula milk) inniheldur sjaldan þessar fitusýrur (EPA, DHA, GLA) og því er mikilvægt að hvítvoðungurinn fái móðurmjólkina fyrstu mánuðina, sé það mögulegt. Áður var álitið að líkami barnsins gæti myndað þessar fitusýrur úr styttri og minna ómettuðum fitusýrum úr fæðunni. Því væri óþarfi að barnið fengi þær í pelamjólkinni. Nú er talið sannað að barnið þurfi að fá þessar fitusýrur úr fæðunni fyrstu mánuðina. Að öðrum kosti getur það heft eðlilegan þroska heilans, því að hann þarf mikið af þeim til að þroskast eðlilega.

Ástæða þess að framleiðendur ungbarnamjólkur hafa ekki látið þessar fitusýrur í hana er trúlega sú, að þær eru mjög fljótar að þrána og geymast því illa. Best er því að láta þær ekki saman við mjólkina fyrr en rétt áður en fara á að nota hana. Sé það gert er mælt með að bæta daglega 1300mg af kvöldvorrósarolíu (2-3 500mg belgir) og ½ lýsisbelg saman við pelamjólkina. Best er þó að barnið fái brjóstamjólk frá fæðingu, en jafnvel þó að barnið fái móðurmjólkina getur verið æskilegt að það fái aukaskammt af áðurnefndum fitusýrum til að örva þroska heilans. Í sömu grein er varað við „ungbarna mjólk“ sem búin er til úr sojabaunum, því að hún innihaldi mikið af jurta-östrogen-efnum, sem óheppilegt sé að gefa smábörnum. Heimid: Townsend Letter for Doctors and Patients og tilvitnun í The Lancet, 29. ágúst 1998

Glútenóþol getur skaðað heilann.
Lengi hefur verið vitað að glútenóþol eða ofnæmi getur valdið alvarlegum meltingarsjúkdómi, celiac-sjúkdómi. Nú hefur verið sýnt fram á að glútenóþol getur einnig valdið alvarlegri og jafnvel óbætanlegri heilarýrnun, jafnvel þó að ekki sé um dæmigerðan celiac-sjúkdóm að ræða. Frá þessu var sagt í The Lancet, 14. nóv. ´98. Þar segir að sé sjúkdómurinn ekki uppgötvaður og meðhöndlaður haldi einkennin áfram að versna þannig að þau gangi ekki tilbaka þó að orsökin sé leiðrétt. Sumir náðu sér þó fullkomlega ef þeir fengu algerlega glútenlaust fæði. Hætt er við að oft uppgötvist þannig glútenóþol ekki fyrr en óbætanlegur skaði hefur orðið, sérstaklega ef litlar meltingartruflanir fylgja. Fólk af O blóðflokki er í sérlega mikilli hættu og sá er skrifar um þetta, Joseph M. Mercola, ráðleggur því fólki að nota kornvörur, sem innihalda glúten sem allra minnst og helst ekkert. Hveiti, rúgur, bygg, og hafrar eru korntegundir sem innihalda glúten en sennilega getur þetta fólk notað hrísgrjón, hirsi, bókhveiti og e.t.v.maís, en nú er kominn á markaðinn erfðabreyttur maís sem inniheldur glúten, svo að ekki er lengur hægt að treysta honum.

Trefjar sem drekka í sig fitu
Í Townsend Letter for Doctors and Patients, desember 1998 er sagt frá trefjaefni sem nefnt er „chitosan“, sem búið er þeim eiginlegeikum að sjúga í sig mikið magn af fitu en er sjálft ómeltanlegt. Bent er á að þurfi fólk af einhverjum ástæðum að borða meira af fitu en æskilegt er, t.d. á stórhátíðum eða í veislum, eigi að borða dálítið af chitosan samtímis, þá nýti líkaminn kannski ekki nema 30-40% af fitunni. Afganginn sýgur trefjaefnið í sig. Talið er að chitosan geti drukkið í sig 12 sinnum þyngd sína af fitu. Líklegt er talið að chitosan minnki kólesterol í blóði, eins og raunar flestar trefjar gera, og getur þannig gagnast fólki sem þarf að lækka hjá sér blóðfitu. Þá er talið að langtíma notkun efnisins kunni að hafa heilsusamleg áhrif á hjarta og æðakerfið og geti auk þess hjálpað of þungu fólki til að ná kjörþyngd. Ekki er sagt neitt um það hvar hægt sé að fá þetta efni, en sennilega fáum við að sjá það í auglýsingum, ef það kemur á markaðinn hér á Íslandi.

Eru náttúrulyf eins áhrifarík og Viagra?
Nú, þegar allir tala um Viagra, undralyfið sem á að leysa flest kynlífsvandamál hjá öldruðum og jafnvel ungum líka, er ekki úr vegi að athuga hvort náttúrulyf, sem verið hafa fáanleg á til þess að gera hagstæðu verði, gætu kannski gert sama gagn en verið laus við ókosti Viagra, auk þess að vera ódýrari. Ég hef hér einkum í huga tvö jurtalyf, sem mikið hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu, þó að sennilega séu miklu fleiri jurtalyf gagnleg að þessu leyti. Þetta eru ginseng og musteristré. Í blaði frá Kóreu sem gefið er út á ensku og nefnist The Korea Herald Tribune, er löng grein þann 22. september 1998 um ginseng í sambandi við stóra ráðstefnu sem haldin var um ginseng í Kóreu haustið 1997. Þar segir frá ýmsum áhugaverðum rannsóknum á ginsengi t.d. í sambandi við krabbamein, ónæmisvirkni og margt fleira. Hér verður þó ekki fjölyrt um neitt af því, þó að það sé vissulega áhugavert, heldur sagt ofurlítið frá læknisfræðilegri könnun sem gerð var við Yansey læknisfræðiháskólann í Kóreu.

Könnunin miðaði fyrst og fremst að því að meta stinningu getnaðarlimsins og lagfæra eða bæta stinningarvandamál. Tuttugu og þrír menn fengu rautt ginseng og tíu platlyf (lyfleysu) daglega meðan á könnuninni stóð. Sjúklingarnir þjáðust flestir af ýmsum öðrum sjúkdómum auk getuleysis, svo sem; sykursýki, háþrýstingi, of miklu kólesteroli eða of litlu testósteroni í blóði. Þegar niðurstöður voru athugaðar kom í ljós að allir sjúklingarnir sem fengu ginseng, bornir saman við viðmiðunarhópinn, höfðu fengið einhvern bata, að meðaltali 72% að eigin mati en 66,7% að mati þeirra sem könnunina gerðu. Niðurstaðan var sú að mati rannsóknarmannanna, að ginsengið bætti stinningarvandamál með lágmarks hliðarverkunum.

Í opinni könnun sem sagt er frá í Townsend Letter for Doctors and Patients, desember 1998, var extrakt úr musteristré prófaður á 33 konum og 30 karlmönnum sem þjáðust af kynlífsvandamálum sem oft fylgja því að nota þunglyndislyf. Þessi vandamál voru m.a. skert kynlöngun (libido) 76%, stinningarvandamál 19% og erfiðleikar við að fá fullnægingu 54%. Öll ráð til að bæta úr þessu höfðu brugðist, þar á meðal að minnka að nota þunglyndislyf. Sjúklingarnir voru þá látnir taka inn 80-120 mg af extrakt úr musteristré á dag og sagt að auka skammtinn smám saman. Meðaltal varð 207 mg á dag. Eftir mánaðartíma var svo ástand sjúklinganna metið. Þá kom í ljós að extraktinn var 84% virkur í að lagfæra kynlífsvandamál sem fylgja því að nota þunglyndislyf.

Hjá konum var þetta 91% árangur, en hjá körlum 76%. Einnig kom í ljós að extraktinn var sambærilegur við þunglyndislyf við að draga úr þunglyndi, auk þess að gera fólk betur vakandi, skýrara í hugsun, bæta minnið og auka orku. Þunglyndislyf valda oft kynlífsvandamálum sem erfiðlega hefur gengið að ráða bót á. Samkvæmt þessum upplýsingum ætti extrakt úr laufum musteristrésins oft að geta hjálpað í þeim efnum. Einnig hefur verið bent á að jurtalyfið Jónsmessurunni (St. John´s Wort), sem reynst hefur frábærlega við vægu þunglyndi og depurð, hefur ekki þá vankanta að valda kynlífsvandamálum. Því gæti fólk prófað að nota hann og/eða musteristré í stað þunglyndislyfjanna. Einnig gæti fólk íhugað alvarlega hvort jurtalyfin séu kannski alveg eins áhrifarík til að lagfæra stinningarvandamál eins og Viagra og þau eru örugglega miklu ódýrari. Sennilega eru þau þó ekki jafn fljótvirk en trúlega gefa þau varanlegri lækningu og eru laus við skaðlegar hliðarverkanir, sem sagt hefur verið að fylgi því stundum að nota Viagra. Heimildir eru í greininni.

Hindrar efni úr indverskri jurt æðakölkun?
Guggulsteron er aðal virka efnið í guggulípið sem er fituefni sem fengið er úr indverskri jurt sem komið hefur í ljós að minnkar blóðfitu. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu efni sýna að aðeins þarf örlítið af því til að hindra oxun og stakeindavirkni í ýmsum efnum. T.d. hindrar það myndun fitu-peroxíða og að efni sem nefnist malon-dialdehyd myndist. Einnig kom það í veg fyrir að hydroxyl stakeindir mynduðust í tilraunaglösum. Oxun á lágþéttni lípópróteinum í blóði (LDLkólesteróli) er sennilega stærsti áhættuþátturinn í hjarta- og æðasjúkdómum, eins og reyndar oft hefur verið bent á m.a. í þessu riti, þó að sennilega sé ennþá ekki þekkt í öllum smáatriðum hvernig oxað LDL kólesteról eyðileggur æðakerfið.

Guggulsteron hefur áhrif á fituefni (lípíð) í blóði með því að minnka LDL-kólesterol án þess að minnka samtímis HDL-kólesterol (góða kólestolið). Ennfremur hindrar það að kólesterol myndist í lifrinni, samtímis og það eykur gallframleiðslu. Þessar upplýsingar eru fengnar úr dýratilraunum en líklegt er að sama eigi við um fólk. Annað indverkst jurtalyf, Maharishi Amrit Kalash (MAK) sem sagt var frá hér í þessu riti nýlega er sennilega öflugasta efnið sem vitað er um til að fanga og eyða stakeindum. Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 1998.

Kóensím Q-10 og heilablæðing
Frá því að kóensím Q-10 kom á markaðinn hafa alltaf öðru hvoru verið að koma fréttir um ýmislegt nýtt gagn sem hægt er að hafa af þessu mikilvæga fæðubótarefni. Eitt það síðasta eru nýjar upplýsingar um að efnið hafi reynst betur en nokkuð annað sem reynt hefur verið til að koma í veg fyrir skaðleg eftirköst af blæðingu inn á heilann. Áður hafði verið bent á að gagnsemi þess við blóðtappa í heila, sem oft er ruglað saman við heilablæðingu, vegna þess að einkennin eru stundum lík. Skammtur sá sem notaður er til lækninga er í flestum tilfellum mun stærri en venjulega er notaður, eða frá 100 mg á dag upp í 400 mg. Þetta er álíka skammtur og mælt hefur verið með að nota við krabbameinslækningar sem ég hef áður sagt frá í Heilsuhringnum.

Best hefur reynst ef Q-10 hefur verið gefið bæði á undan og eftir blæðingunni en það þýðir að allir sem eru í hættu af að fá heilablæðingu ættu að nota Q-10 reglulega. Sennilega getur Q-10 einnig dregið úr líkum á að fá heilablæðingu því að kannanir sýna að það hefur lækkandi áhrif á háan blóðþrýsting, sem er stærsti áhættuþátturinn í að fá heilablæðingu. Fjöldi dýratilrauna bendir til að fækka mætti heilablæðingartilfellum töluvert og auk þess draga stórlega úr skaðlegum áhrifum þeirra með því að nota Q-10. Bent er á að mikilvægt er að sjúklingarnir fái Q-10 í stórum skömmtum sem fyrst eftir að þeir fá heilablæðinguna. Sama á einnig við um hjartaáföll, en Q-10 dregur töluvert úr skemmdum á hjartavöðvanum eftir hjartaáfall, sé það gefið strax á eftir í stórum skömmtum (100-400mg).

Höfundur greinarinnar sem þessi fróðleikur er fenginn úr, segir að auk þessa hafi Q-10 reynst eyðnisjúklingum vel og eins gegn ýmiskonar ellihrörnun, en eins og kom fram í langri grein í Heilsuhringnum fyrir nokkrum árum, dregur úr eigin framleiðslu á Q-10 þegar aldur færist yfir fólk, svo að um áttrætt er Q-10 í heila aðeins um helmingur þess sem var um fertugt, sem þá er þó ekki nema hluti þess sem var um tvítugt. Tilraunadýr sem fengu Q-10 lifðu 56% lengur að meðaltali en samanburðahópur dýra sem ekki fengu Q-10. Ýmislegt bendir til að bæta mætti heilsufar eldra fólks og draga umtalsvert úr kostnaði við heilsugæslu þess ef allir sem komnir eru yfir miðjan aldur tækju reglulega Q-10. Hversu mikið er ekki gott að fullyrða um en 30-60mg á dag er sennilega nægilegt fyrir heilbrigt fólk en við alvarleg veikindi þarf trúlega meira.

Heimild: Journal of Orthomolecular Medicine, nr. 2, 1998

Höfundur Ævar Johannesson vor 1999Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: