Nýjar leiðir í krabbameinslækningum haust 1999

Óhefðbundnar hugmyndir
Í þessum greinarstúf mun ég ræða um hugmyndir við krabbameinslækningar sem lítið hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu. Sennilega er réttara að tala um hugmyndir heldur en kenningar, því að þó að þær séu sumar í aðalatriðum meira en hálfrar aldar gamlar, hefur þeim lítið verið sinnt og eru því raunverulega aðeins hugmyndir enn sem komið er. Það sem sagt verður hér á eftir er að mestu leyti fengið úr langri grein úr Townsend Letter for Doctors and Patients í maí 1997, eftir E.J Hoffman og með henni fylgir langur listi af tilvitnunum og heimildum. Einnig er sagt frá hugmyndum úr annarri grein í sama tímariti um að nota insúlín sem krabbameinslyf og spennandi upplýsingar um ensím
.
Öðruvísi efnaskipti
Í frumum líkamans fara stöðugt fram efnaskipti þar sem orkugefandi efni, oftast í forminu þrúgusykur eða glúkósi, breytast í koldíoxíð og vatn. Þetta fer fram í svokölluðum mítókondríum eða orkukornum, hvatberum inni í frumunum og gerist í mörgum þrepum með aðstoð ensíma. Til hægðarauka má flokka þessi efnaskipti í tvennt. Efnaskipti sem þarfnast lofts eða súrefnis og efnaskipti sem hvorugs þarfnast. Í þeim fyrrnefndu myndast koldíoxíð (kolsýra) og vatn en í hinum síðari er efnið sem að lokum myndast ekki vatn og koldíoxíð, heldur mjólkursýra eða sölt af mjólkursýru. Til þess að þau efnaskipti geti orðið þarf ensím sem nefnt er „Lactat dehydrogenasi“.

Hér verður ekki farið í smáatriðum út í hvernig þessi efnaskipti ganga fyrir sig, því að það eitt væri efni í heila grein. Aðalatriðið er að til þess að efnaskipti sem ekki þarfnast súrefnis gangi fyrir sig þarf m.a. ensímið lactat dehydrogenasa, en við efnaskipti með súrefni þarf þetta ensím ekki. Þýski lífefnafræðingurinn og síðar Nóbelsverðlaunahafinn Otto Warburg uppgötvaði árið 1926, að krabbameinsfrumur fá meginhluta þeirra orku sem þær nota með efnaskiptum sem ekki þarfnast súrefnis (anaerobic glycolysis). Þetta er sennilega höfuðmunurinn á efnaskiptum hjá krabbameinsfrumum og heilbrigðum frumum, sem fá meginhluta þeirrar orku sem þær nota með efnaskiptum sem þarfnast súrefnis (aerobic glycolysis).

Ensímið Lactat dehydrogenasi
Bent hefur verið á að með því að hindra eða gera óvirkt ensímið lactat dehydrogenasa mætti svelta flestar krabbameinsfrumur til dauðs. Þetta veltur þó á því að krabbameinsfrumur geti ekki nýtt sér að neinu gagni efnaskipti sem þarfnast súrefnis til orkuöflunar. Um þetta hafa verið nokkuð skiptar skoðanir en heimildir sem vitnað er í m.a. E. Eigenbrodt, P. Fister og M. Reinacher í greininni „New Perspectives on Carbohydrate Metabolism in Tumor Cells“ í tímaritinu „Regulation of Carbohydrate Metabolism“, Vol II, Rivka Beitner Ed., CRC Press, Boca Raton FL, 1985.

Tilraunir á rottum benda einnig til þess að efnaskipti til orkuöflunar sem ekki þarfnast súrefnis gangi 20 sinnum hraðar í krabbameinsæxlum en efnaskipti sem þarfnast súrefnis (Robert A. Harris, Textbook of Biochemistry, bls. 353). Sýnt hefur verið fram á að þó að ensímið lactat dehydrogenasi væri algerlega hindrað hefur það lítil sem engin áhrif á heilbrigðar frumur og skeður ekki nema við sérlega mikla áreynslu og þá venjulega í skamman tíma vegna mjólkursýrunnar sem myndast þá í vöðvunum sem fyrir áreynslunni verða.

Sumar jurtir hindra ensímið
Vitað er um ýmis efni, þ.á.m. jurtir, sem hindra ensímið lactat dehydrogenasa. Athyglisvert er að sumar þessar jurtir og efni eru þekkt sem náttúrulyf við krabbameini. Þar má t.d. nefna jurtir af súruættinni, t.d. njóla, rabarbara og hundasúru. Allar þessar jurtir hafa verið notaðar í jurtalyf við krabbameini  Einnig spínat, hvítlauk, efni úr ölgeri og efnið urea og EDTA (ethylen diamin tetraediksýra) sem sagt er að finnist m.a. í ölgeri. Til er nýleg grein frá 1994 um áhrif urea á lactat dehydrogenasa í vöðvum í svínum og skötum.

Hvað hvítlauk áhrærir er nauðsynlegt að nota hann ferskan vegna þess að efnið allicin sem talið er að sé virka efnið í hvítlauk myndast fyrir áhrif ensímsins allinasa, sem losnar þegar hvítlaukur er marinn eða tugginn. Allicin er óstöðugt efni sem eyðist á nokkrum klukkustundum og breytist í önnur efnasambönd. C-vítamín hefur verið nefnt og fullsannað er að C-vítamín ásamt kopar hindrar lactat dehydrogenasa. Einnig benda líkur á að C-vítamín hindri nýæðamyndun í æxlum (sbr. Angiostatin og Endostatin, Heilsuh., haust 1998), svo að e.t.v. verkar C-vítamín á margan hátt gegn krabbameini. Líkt má segja um A og D vítamín sem m.a. hindra nýæðamyndun (John Boik, Cancer and Natural Medicine: Textbook of Basic Science and Clinical Research, Oregon Medical Press, Princeton, MN, 1995). Svo virðist sem sama efnið hindri oft bæði lactat dehydrogenasa og jafnframt nýæðamyndun.

Er þetta tilviljun eða er sameiginleg ástæða fyrir þessu? Fjöldamörg fleiri efni eru þekkt sem gætu hugsanlega haft áhrif á margumtalað ensím. Ennþá vantar þó vísindalegar sannanir fyrir því en ákveðnar vísbendingar eru þó til sem gætu hvatt vísindamenn til að rannsaka þær. Þar má nefna efni í jurtum eins og flavonefni, tannin, saponin, alkalóíða, glycósíða og jafnvel amínósýrur. Til dæmis er flavonefnið kversetin þekktur ensímhindrari og einnig talið verka gegn krabbameini. Cyanoglycósíð, þar sem umdeilda krabbameinslyfið laetrile er sennilega þekktast, má einnig telja með efnum sem full ástæða er til að skoða í fullri alvöru en ekki bara hrópa „úlfur, úlfur“ eins og hefðbundin krabbameins-læknisfræði hefur lengst af gert.

Fjöldamargir alkalóíðar eru þekktir og nokkrir þeirra notaðir sem lyf, t.d. morfín sem unnið er úr valmúategund. Alkalóíðar eru líffræðilega virkustu efnin sem vitað er um, t.d. eru flest sterkustu eiturefni sem þekkjast alkalóíðar. Lítill vafi er á að margir alkalóíðar hindra lactat dehydrogenasa en ýmsir þeirra kunna einnig að hafa áhrif á önnur mikilvæg ensím og því haft óæskilegar aukaverkanir eða eiturverkanir. Rétt er að benda á, að þó að eitthvert efni sé talið hindra lactat dehydrogenasa er ekki víst að það hindri ensímið fullkomlega í því magni sem efnið eða lækningajurtin er venjulega notuð. Stundum mætti jafnvel ná miklu betri árangri með því að nota efnið í stærri skömmtum, en í öðrum tilfellum gætu miklu stærri skammtar valdið alvarlegum aukaverkunum.

Einnig er ekki ólíklegt að oft sé betra að nota samtímis fleira en eitt efni eða jurt með hindrandi eiginleika, heldur en að nota meira af einu efni eða jurt. Bæði er að mikið magn af einu efni auka líkur á óæskilegum aukaverkunum og einnig gæti samvirkni (synergism) fleiri efna, þar sem heildarverkunin er meiri heldur en summan af efnunum raunverulega ætti að vera, skipt verulega máli um læknisfræðilega eiginleika jurta eða blöndu af jurtum.

Að nota insúlín sem krabbameinslyf
Vegna þess að krabbameinsfrumur nýta þrúgusykur miklu lakar en heilbrigðar frumur þurfa þær hlutfallslega mikið af honum til að þrífast og fjölga sér og miklu meira en heilbrigðar frumur. Á þeirri hugmynd byggir krabbameinslækning sem Waine Martin segir frá í Townsend Letter for Doctors and Patients, desember 1998. Hann byrjar á því að segja frá skýrslu frá S. Korlojow í New Brunswich í New Jersey sem birtist í Psychiatric Quarterly í apríl 1962. Korlojow vitnar í Otto Warburg sem sagt var frá í upphafi þessarar greinar, en hann uppgötvaði að krabbameinsfrumur fá meiri hluta orku sinnar með því að umbreyta þrúgusykri í mjólkursýru.

Warburg hafði sýnt fram á að krabbameinsfrumur sem ræktaðar voru í næringarvökva uxu hraðar ef dregið var úr súrefni til þeirra og öfugt. Væri súrefni til þeirra aukið dóu þær eða mjög dró úr vexti þeirra. Mikið súrefni verkaði þannig sem eitur á þau ensím sem krabbameinsfrumur þurftu til að viðhalda og fjölga sér. Við lágan blóðsykur vex hlutþrýstingur súrefnis og sé hægt að halda honum nægilega lengi nógu lágum deyja krabbameinsfrumurnar. Einnig verður blóðið og líkamsvessarnir meira basiskir (hærra pH) svo aða ensím sem krabbameinsfrumur nota verða óvirk og frumurnar svelta í hel. Korlojow segir í skýrslu sinni frá tveimur krabbameinssjúklingum sem einnig þjáðust af geðbilun.

 Á þeim árum var viss geðbilun oft meðhöndluð með insúlínsprautum í æð. Við það minnkaði þrúgusykur í blóði mjög mikið svo að oft missti fólk meðvitund. Þetta var kallað „insúlínlost“. Það var oft endurtekið margsinnis, eða þangað til að dró úr geðveikieinkennunum. Annar sjúklinganna var kona sem þjáðist af krabbameini í leghálsi, sem búið var að skera en í ljós kom að meinvörp voru svo útbreidd að ekkert var frekar hægt að gera. Hún hafði lést úr 150 pundum (u.þ.b. 68 kg) í 126 pund (56 kg). Fyrst fékk hún sprautu með 20 einingum af insúlíni.

Henni var síðan stöðugt gefið meira og meira insúlín og eftir hálfan mánuð var daglegur skammtur kominn up í 180 ein. Hún hafði ekki ennþá fallið í ómegin en geðveikieinkennin höfðu stöðugt farið minnkandi. Við lok fimmtu vikunnar virtist geðbilunin vera algerlega horfin. Hún hafði enga verki og hafði þyngst um 6 pund (um 2,5 kg). Í byrjun sjöttu vikunnar var insúlínið aukið þangað til hún missti meðvitund og var henni haldið þannig í hálfa klukkustund. Þetta var svo gert í hálfan þriðja mánuð, fimm daga vikunnar, með minnsta blóðsykur 22mg/100ml (1,2mmol).

Þá voru geðveikieinkennin fyrir löngu horfin. Læknar fundu þá engan vott um krabbamein og hún var útskrifuð alheil. Einu og hálfu ári síðar, var hún ennþá við bestu heilsu. Hitt tilfellið sem sagt var frá var um konu með sortuæxli með fjölda meinvarpa. Hún fékk þunglyndi, sennilega vegna þess hvað ástand hennar sýndist vonlaust. Annar fótur hennar var illa bólginn. Fyrstu þrjár vikurnar fékk hún insúlín, fimm daga vikunnar, án þess að falla í ómegin. Þetta virtist ekkert hjálpa, hvorki krabbameininu né depurðinni. Í byrjun fjórðu vikunnar var hún látin missa meðvitund í tíu mínútur. Þá lagaðist þunglyndið. Í næstu fimm vikur var hún látin vera meðvitundarlaus, sennilega daglega, í einhvern tíma.

Í lok þess tíma var bólgan í fótleggnum algerlega horfin og hún hafði þyngst um 17,5 pund (u.þ.b. 8 kg). Ári síðar, þegar Korlojow hafði síðast samband við hana, var hún við góða heilsu. Wayne Martin segist vona að þessar skýrslur hvetji einhverja lækna, sem ekki séu of njörvaðir niður í „læknisfræðilegan rétttrúnað“ til að prófa insúlínmeðferð á „ólæknandi“ krabbameinssjúklingum með því að halda blóðsykrinum í 22mg/100ml í dálítinn tíma. Eðlilegur blóðsykur er í kringum 100mg/100ml. Hvort einhverjir íslenskir læknar vildu taka þá áhættu vil ég ekki segja neitt um, enda erfitt að gera það nema á sjúkrahúsi við bestu aðstæður.

Greininni fylgir smá viðbót eða umsögn frá Elizabeth Letitia Beard, lækni sem er prófessor í almennri lífeðlisfræði (General Physiology) við líffræðideild Loyola háskólans í New Orleans, Bandaríkjunum. Hún er mjög hrifin af þessari grein og alveg sérstaklega að greinarhöfundur skuli hafa gefið sér tíma til að fara ofan í gamlar heimildir sem læknisvísindunum virðist hafa sést yfir eða ekki tekið mark á. Hún þakkar Wayne Martin fyrir þetta og fleiri hliðstæðar greinar sem hann hafi notað tíma sinn og fjármuni til að draga fram í dagsljósið. „Hvílík gjöf ert þú ekki fyrir mannkynið“ segir hún svo að lokum.

Spennandi upplýsingar um hormóna og krabbamein
Höfundur greinar, sem kom í Townsend Letter for Doctors and Patients í desember 1998, Joseph M. Mercola, læknir, segist hafa verið á málþingi í sept. sl. hjá dr. John Lee í Santa Barbara, þar sem ýmsar athyglisverðar upplýsingar voru dregnar fram í dagsljósið. Það sem honum fannst einna mest spennandi var hæfileiki hormónsins prógesteron til að hindra og jafnvel snúa við þróun ýmissa krabbameina. Þessar nýju rannsóknir sýndu að östrógenhormónar og alveg sérstaklega östradíol, ekki aðeins auka hættuna á brjóstakrabbameini, heldur geta beinlínis valdið því. „Ekki er neinn vafi á þessu. Allar meiri háttar rannsóknir styðja það“, segir dr. Mercola.

Nýtt er að prógesteron virðist einnig geta komið í veg fyrir og jafnvel mega nota við lækningu á blöðruhálskirtilskrabbameini. Mercola segir að einnig í karlmönnum myndist östrogen, þó að það sé að vísu minna en hjá konum. Karlhormóninn testósteron vinnur gegn östradíol. Testósteron hindrar östradíol í að valda krabbameini í blöðruhálskirtlinum með því að eyðileggja frumur í honum sem östradíol hefur örvað. Testósteron veldur ekki krabbameini í blöðruhálskirtlinum. Væri það rétt mundu 19-20 ára karlmenn einkum fá þannig krabbamein, því að á þeim aldri mynda þeir einna mest af testósteron. Þetta er einmitt öfugt og ungir menn fá sjaldan blöðruhálskirtilskrabbamein. Prógesteron myndast einnig hjá karlmönnum, þó að þessi hormón sé oft kallaður „kvenhormón“ og um það bil tvöfalt meira myndist í konum en körlum. Prógesteron hindrar að testósteron breytist í dí-hydrotestósteron með því að hindra ensímið 5 alfa reductasa.

Talið er að lyfið „Proscar“ og einnig jurtalyfið „Freyspálmi“ (saw palmetto) hindri þetta ensím, en prógesteron hindrar það þó miklu betur. Þegar fólk eldist dregur úr myndun prógesterons, bæði hjá konum og körlum. Hjá konum verður það um 35 ára aldur en hjá körlum um 10 árum seinna. Þegar prógesteron hjá körlum minnkar breytist testósteron því í di-hydró testósteron, sem er gagnslaust til að eyða þeim meinfrumum sem myndast hafa fyrir áhrif östradíols. Einnig hvetur östradíol blöðruhálskirtilinn til að stækka, þó að það þurfi ekki alltaf að vera illkynja stækkun.

Blöðruhálskirtillinn er á fósturskeiði hliðstætt eða sama líffæri og móðurlífið verður síðar hjá konum. Á málþinginu skýrði dr. John Lee, sem flutti þar erindi, frá fjölda tilfella af krabbameini í blöðruhálskirtli sem löguðust eða hurfu við að nota prógesteron. Hann segir að nokkrar vísindalegar kannanir verði bráðlega birtar um þetta m.a. dýratilraunir. Allar frumur, að undanskildum tauga- og vöðvafrumum, skipta sér stöðugt. Genin (gen=arfberi) sem stjórna frumuskiptingu eru p53 og bc12. Sé bc12 genið allsráðandi verður frumuvöxturinn hömlulaus og úr verður krabbamein.

Sé hinsvegar p53 genið ráðandi er stjórn á frumuskiptingunni og krabbamein myndast ekki. Til gamans má geta þess að sumar veirur af herpes-ættinni eru taldar geta gert p53 genið óvirkt, að minnsta kosti um stundarsakir, t.d. cytomegaloveirur (sjá Heilsuhringinn, vor 1997). Kannski væri besta ráðið til að lækna krabbamein að finna hvernig hægt er að gera bc12 genið óvirkt en auka virkni p53 gensins. Þetta er nákvæmlega það sem nýjustu rannsóknirnar benda til. Prógesteron „kveikir á“ p53 geninu sem einmitt hindrar krabbamein en östradiol gerir aftur á móti bc12 genið virkt, sem stuðlar að hömlulausum frumuvexti.

Brjóstkrabbameinsfrumur fjölga sér ekki þegar konur nota prógesteron. Þessi hormón virkar einnig á krabbamein í móðurlífi og eggjastokkum og smáfrumukrabbamein í lungum, sem mjög erfitt er að lækna með núverandi læknisaðferðum. Sennilega verkar þetta einnig á krabbamein í blöðruhálskirtli, þó að höfundur geti þess ekki sérstaklega en annarsstaðar í greininni kemur fram að hann mælir með að nota prógesteron við lækningu á blöðruhálskirtilskrabbameini. Höfundur þessara upplýsinga, Joseph M. Mercola, mælir með að karlmenn sem komnir eru yfir fertugt eða jafnvel yngri, ef blöðruhálskirtilskrabbamein er í ættinni, taki inn prógesteron.

Hæfilegt er að nota 10-12 mg á dag af náttúrlegu prógesteron (ekki er víst að gerviprógesteron t.d. prógestín verki eins). Konur eiga að nota 20 mg frá 12.-26. dags tíðahringsins en ekkert hina dagana. Rétt er fyrir þær að taka dagskammtinn í tvennu lagi, 2×10 mg. Það sem af þessu má læra er það að nota aldrei östrogenhormóna, t.d. til að auðvelda konum að komast gegnum breytingaskeiðið, en nota í þess stað náttúrlegt prógesteron (ef nokkur staðar er hægt að fá það). Einnig geta þessar upplýsingar gefið vísbendingu um að sú mikla aukning sumra krabbameina, t.d. í brjóstum og blöðruhálskirtli, sem virðist hafa orðið á síðustu áratugum, gæti tengst gerviefnum sem sum hver hafa östrógenvirkni. Svo mikið hefur borist af þannig efnum út í náttúruna að vissum dýrategundum er talin stórhætta búin af þeim sökum, t.d. ameríska krókódílnum.

Ekki er ólíklegt að eitthvað af þannig mengun hafi getað fundið sér leið inn í fæðukeðjuna og að við séum öll daglega að taka inn östrogenefni, án þess að hafa hugmynd um það. Samkvæmt upplýsingunum í þessari grein er sennilega besta ráðið, fyrir utan að draga úr menguninni, að nota daglega prógesteron til að hindra að skaðleg áhrif östrógenefnanna geti t.d. valdið krabbameini. Heimildir í greininni sem birt var í Townsend Letter fo Doctors and Patients eru m.a. sagðar fengnar úr JAMA (tímariti bandarísku læknasamtakanna), 28. janúar 1998.

Höfundur: Ævar Jóhannesson haust 1999

 

 

 

 Flokkar:Krabbamein

%d bloggers like this: