Ólafur Þór Jóhannesson kennari ræðir við David Calvillo jurta- og næringarráðgjafa
Á undanförnum árum hefur töluvert verið rætt og ritað um ofvirkni barna. Heilsuhringurinn hefur m.a. á liðnum árum birt ýmislegt athyglisvert um þetta efni. Nú síðast var um að ræða grein eftir Þorstein Hjaltason, lögmann á Akureyri. Sú grein hafði áður birst í Morgunblaðinu. Þar gagnrýnir Þorsteinn bæði greininguna á ofvirkni, en þó einkum meðferðina, sem hér á landi eins og víðast annars staðar byggir í langflestum tilvikum á lyfjameðferð, einkum þá notkun lyfsins ritalíns, sem er amfetamínskylt lyf og hefur af þeim sökum verið gagnrýnt víða um heim sem vafasamt meðferðarúrræði, einkum þar sem börn eiga í hlut.
Læknar hafa hins vegar bent á árangur lyfsins hvað varðar jákvæð áhrif á hegðun barnanna. Methýlfenídat HC1 er hið virka efni í lyfinu og samkvæmt grein úr tímaritinu Archives of General Psychiatry segir að bæði kókaín og ritalín noti sömu viðtaka í heilanum og virknin sé sú saman, gefi sömu vímuna. Af þessu ástæðum eru bæði efnin notuð jöfnum höndum í læknisfræðilegum rannsóknum þar sem um sams konar verkum er að ræða. Í kjölfarið á grein Þorsteins spratt upp nokkur umræða, a.m.k. á síðum Morgunblaðsins. Meðal þeirra sem fjölluðu um málið var Dóra Ósk Halldórsdóttir.
Í samtali við Einar Magnússon hjá Heilbrigðis-og tryggingaráðuneytinu fékk hún þær upplýsingar að sala amfetamínskyldra lyfja (þ.m.t. ritalíns) hafi fimmfaldast á árunum 1991-96. Hér virðist því vera um svipaða þróun að ræða og til dæmis í Bandaríkjunum þar sem notkun ritalins hefur eins og Þorsteinn bendir á í grein sinni, sexfaldast á síðustu árum og að Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hafi varað við mikilli notkun lyfsins. Hvað skyldu mörg börn nota lyfið? Þorsteinn Hjaltason vitnar í skýrslu FDA þar sem segir að í sumum skólum séu um 20% barna að nota það. Í umfjöllun sinni í Mbl. ræðir Dóra Ósk við Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlækni, sem segir að á 14 mánaða tímabili á árunum 1996-97 hafi um 300 börn notað ritalín.
Stærsti hópurinn er á aldrinum 6-12 ára og mikill meirihluti drengir, en eins og Matthías bendir á eru bæði misþroski og ofvirkni mun algengari meðal drengja en stúlkna. Aðspurður um aukninguna á notkun rítalíns segir Matthías að megi rekja til betri greiningar á ofvirkni. Þá segir Matthías orðrétt í umræddri grein: ,,Það er mjög slæmt ef verið er að hræða fólk með þessu lyfi, því þetta er ágætis lyf og hefur gefið mjög góða raun“. Þá bætir hann við að hann hafi enga trú á því að farið sé að gefa lyfið of fljótt þar sem þeir sem ávísi lyfinu séu góðir og vel menntaðir barnalæknar og sérfræðingar.
Í annarri grein í Mbl. (frá 19. júní á sl. Ári 1998) skrifa 6 læknar/sérfræðingar um ofvirkni og segja þar um lyfjagjöf: ,,…lyf eru umtalsverður hluti meðferðarinnar og oft forsenda þess að hægt sé að beita öðrum meðferðaraðferðum. Algengast er að nota örvandi lyf svo sem ritalín, en önnur lyf koma einnig til um, stangast á við inntak umfjöllunar Þorsteins Hjaltasonar, sem bendir á ýmsa aðra möguleika sem erlendir læknar og aðrir sérfræðingar hafa reynt og gefið hafa góða raun. Af þeim ástæðum á ritalín að vera algjör ,,þrautalending“, eftir að allir aðrir kostir hafi verið skoðaðir, segir Þorsteinn í grein sinni. Ég tek undir með Þorsteini hvað þetta varðar og finnst rétt að skoða nánar alla þá kosti sem hafa gefið góða raun og fela enga áhættu í för með sér fyrir barnið.
Aðrar leiðir: En hverjir eru ,,hinir kostirnir“ í stöðunni. Flestir eru sammála að beita eigi fleiri nálgunum en eingöngu líffræðilegum, svo sem fræðslu, atferlismótun, leiðbeiningum með uppeldi o.s.frv. Um það er ekki deilt. Hér ætla ég ekki að fara út í þá umræðu, heldur halda mig við líffræðilega þáttinn, sem er oft ,,forsenda“ þess að hægt sé að taka á hinum þáttunum. Ýmislegt hefur verið að gerast erlendis í þessum málum og eru kenningar læknisins Ben Feingold sennilega þekktastar í þeim efnum. Ýmislegt hefur þó verið að gerast síðan hann setti fram kenningar sínar og eru sérfræðingar starfandi í dag sem vilja fara aðrar leiðir en hinar ,,hefðbundnu“, þar sem lyfjagjöfin er höfð í fyrirrúmi hvað varðar líffræðilega meðhöndlun ofvirkninnar. Hérlendis eru í dag starfandi einstaklingar sem beita vilja náttúrlegum aðferðum við að bæta heilsu fólks. Einn þeirra er David Calvillo, sem lengi hefur fengist við jurtalækningar og næringarráðgjöf. (Má í því sambandi meðal annars vísa í viðtal við David sem birtist í vorblaði Heilsuhringsins árið 1990).
Mataræðið er grunnurinn. Aðspurður um hverja hann telji vera áhrifaríkustu meðferðina við ofvikni í dag segir David að skoða þurfi heildarmyndina. Um geti verið að ræða of lágan blóðsykur (hypoglycemia), ofnæmi, eða hvort tveggja. Það er með ofvirknina eins og flest, að þetta tengist ónæmiskerfinu, næringarástandi, fjölskylduþáttum, erfðaþáttum o.fl. Mataræði og aðrir þættir sem tengjast lífsstíl fólks, geta komið fram í annarri og þriðju kynslóð. Streita getur líka aukið líkurnar á ofvirkni. Þetta má oft rekja til meðgöngu, en næring móður á meðgöngu hefur meðal annars áhrif á heilann og taugakerfið og ýtir undir ákveðna áhættu.
Að sögn Davids er mikilvægt að efla fræðslu til verðandi foreldra um næringu og mataræði á meðgöngu. Einnig er næring, t.d. á leikskólum, mikilvæg hvað varðar forvarnir, þ.e. að minnka áhættuna á aukinni ofvirkni meðal barna. Það er t.d. jákvætt og skref í rétta átt að nú er kominn leikskóli í Kópavogi sem leggur meiri áherslu á heilsusamlegra mataræði, en verið hefur á leikskólum hérlendis hingað til. Hins vegar vantar að veitt sé nægu fjármagni til að fræða foreldra ofvirkra barna um næringu og þess háttar, t.d. hvernig fólk nærir sig til að byggja upp blóðrásarkerfið og taugakerfið. Lykilatriðið sem ég legg áherslu á við það fólk sem er að takast á við þetta vandamál er nr. 1 mataræði, þ.e. glútenlaust mataræði, sykurlaust mataræði og í sumum tilvikum að allt kjöt sé líka tekið út.
Mikilvægt er að sneiða hjá öllum mat sem inniheldur gerviefni, aukefni og tilbúin litar- og bragðefni. Þá er í sumum tilvikum mikilvægt að draga úr neyslu á matvælum sem innihalda salisílsýru, sem er efni sem bætt er í vissar fæðutegundir. Sú fæða sem inniheldur salisílsýru, eru m.a. möndlur, epli, apríkósur, öll ber, ferskjur, plómur, sveskjur, tómatar, gúrkur og appelsínur. Mikilvægt að draga úr neyslu þessara fæðutegunda. Magnið er þó misjafnlega mikið í tilteknum fæðutegundum, t.d. eru gúrkur ekki með mikið af salisílsýru, en appelsínur og t.d. möndlur hafa meira magn. Þá hafa appelsínur einnig áhrif á meltinguna vegna hás sýrustigs þeirra. Þær eru einnig oft mikil ofnæmisvaldur. Þá getur algeng fæða eins og kartöflur og venjulegt brauð verið ofnæmisvaldar. Ólíkt því sem tíðkast orðið víða erlendis er hér á landi, lítið gert af því að reyna að markaðssetja hveiti- og glútenlaus brauð. Allir þessir þættir hafa áhrif á meltinguna og því mikilvægt að skoða þá vel í þessu sambandi.
Um ofnæmi og fíkn. Börn eru gjarnan mjög sólgin í ákveðnar fæðutegundir sem þau eru viðkvæm fyrir og hefur mikil áhrif á þau. Hér er oft um að ræða algengan mat sem fjölskyldan borðar, t.d. mjólk. Ef börn eru vanin of snemma á kúamjólk eru þau líklegri til að þróa með sér ofnæmi fyrir henni. Þar sem ofnæmi tengist ofvirkni geta mikil ofnæmiseinkenni vegna mjólkurneyslu eins og neyslu annarra algengra ofnæmisvaldandi fæðutegunda aukið líkurnar á ofvirkni.
Hér er oft um ákveðna þróun að ræða þar sem eitt magnar upp annað og getur allt þetta ofnæmi og fæðuóþol leitt til alls kyns annars konar einkenna, þ.m.t. einkenna ofvirkni. Mjólkin, sem svo mikil áhersla er lögð á fyrstu árin getur í raun átt sinn þátt í því að veikja ónæmiskerfið. Jógúrt er t.d. betri kostur þar sem auðveldara er fyrir líkamann að takast á við þessháttar fæðu, en ég mæli samt ekki með neyslu þess nema að takmörkuðu leyti. Í þessu sambandi má mæla með bók eftir Paaro Airola sem heitir The Mothers Book, þar sem hann útskýrir þetta mjög vel. Hann bendir m.a. á það að ofnæmi þróast vegna þess að börnum voru gefin stórir skammtar af ákveðnum efnum á fyrstu árum ævi sinnar, sem líkaminn náði ekki að melta nógu vel.
Brjóstamjólkin er best, en sumir leggja áherslu á t.d. möndlumjólk, sojamjólk o.fl., en slíka fæðu ætti aðeins að gefa ungum börnum í takmörkuðu magni. Læknar og hjúkrunarfræðingar ráðleggja foreldrum oft að fara fljótlega að gefa börnum kúamjólk og svo undrar fólk sig á að börnin séu komin með stíflur í sogæðakerfið, sem hefur síðan áhrif á eyrnabólgur o.þ.h. kvilla sem geysa hér eins og faraldur. Mikilvægt er að hafa í huga að kúamjólkin er bæði slímmyndandi og mjög erfið fyrir meltinguna á fyrstu æviárum barnsins, sérstaklega fyrstu 2 – 2 ½ árin. Mikilvægt er fyrir fólk að vera meðvitað um þessa þætti og vera ekki sífellt að eltast við ,,normið“ í samfélaginu, sem er ekki alltaf það besta.
Fólk þarf því að afla sér upplýsinga um þessi mál og fá ákveðna fræðslu. Fjölmiðlar miða ekki alltaf stefnu sína út frá hag neytanda eða heilsuverndarsjónarmiði, heldur fyrst og fremst út frá peningum. Hér fá börn t.d. oft kók þegar þau eru mjög ung og eru stundum orðin fíklar um tveggja og hálfs árs aldurinn. Þróunin hér á landi gerðist mjög hratt eftir að landið opnaðist fyrir umheiminum eftir seinna stríð og amerísku vörurnar og ,,góðgætið“ flæddi hér yfir.
En það sem gerðist úti í heimi, var að fólkið sem var að framleiða alla óhollustuna varð veikt líka, og með tímanum snerist þróunin við, fólk varð meðvitaðra. Í Bandaríkjunum hefur áherslan t.d. breyst hvað varðar áherslu á fæðuflokkana. Áður voru kjöt og mjólk nr. 1 og 2, en núna eru ávextir og grænmeti nr. 1 og 2 hvað varðar þessa áherslu. Þar er því farið að skoða þessa þætti meira heildrænt. Þetta er því spurning um áherslur til lengri tíma litið, langtímaáhrif þeirra neysluvenja sem við temjum okkur. Allt er þetta spurning um heildarsýn og jafnvægi.
Ritalin eitt og sér leysir engan vanda þar sem það er gefið án tillits til annarra þátta. Kerfið takmarkar læknana, þar sem menntun þeirra og bakgrunnur mótar þá og því er oft um ákveðinn misskilning að ræða af þeirra hálfu þegar um er að ræða heildræna nálgun og næringu annars vegar og lyfjameðferð og aukaverkanir af lyfjum hins vegar.
Góð næring sem hefur jákvæð áhrif á meltinguna, taugakerfið og heilann er algjört lykilatriði í sambandi við meðhöndlun á ofvirkni. Stundum þarf einnig til viðbótar þessu meira B vítamín, amínósýrur, jurtir o.s.frv. En alltaf er byrjað á mataræðinu, það er grunnurinn. Sé grunnurinn ekki góður hafa allar vítamíngjafir, lyfjagjafir og annað takmörkuð áhrif. Þó svo um sé að ræða sérhæft vandamál eins og ofvirkni, er mikilvægt að skoða alla þessa þætti í samhengi. Ávinningurinn er einnig sá að annað það sem hefur verið að hrjá barnið lagast líka og uppskeran verður betri heilsa og vellíðan.
Alltaf verður að vega og meta einstaka þætti mataræðisins, t.d. hvað varðar ofnæmi og óþol gagnvart einstaka fæðutegundum og svo hvernig þetta þróast síðan til lengri tíma litið. Sumir einstaklingar gætu t.d. seinna meir farið að þola betur ákveðnar fæðutegundir, eins og t.d. mjólk. Aðrir þættir sem mikilvægt er að hafa í huga er t.d. tannkrem barnanna, en ýmsar tegundir innihelda ál sem hefur eitrunaráhrif á heilann (málmeitrun). Í heilsubúðunum er selt náttúrlegra og betra tannkrem, án allra málma og aukaefna. Stundum þarf einnig að takmarka aðra þætti líka, m.t.t. til ákveðinn einstaklinga sem um er að ræða. Þá er stundum mikilvægt að skoða fleiri þætti í umhverfinu, eins og rafsegulsvið og rafmagnsmengun, t.d. frá tölvum. Amínósýrurnar tryptófan, taurine og GABA.
Einnig er mikilvægt að skoða ,,tryptófan“ sem er amínósýra sem hjálpar til við að viðhalda eðlilegu serótín magni í heilanum. Tryptófan hefur þau áhrif að róa heilann. Það er því oft mikilvægt að auka tryptófanríka fæðu, sem er fiskur, kalkúnn, hveitikím, jógúrt og egg. Alltaf er þó mikilvægt að taka hugsanlega ofnæmisþætti með í reikninginn. Ofvirk börn hafa gjarnan of lítið magn af amínósýrunni ,,taurine“, en þessi amínósýra getur verið í fjórum sinnum meira magni í heilum barna en fullorðinna. Taurine hefur verndandi áhrif á heilann. Skortur á taurine hefur einnig verið tengdur við flogaveiki. Það er því oft mikilvægt að auka neyslu þeirra fæðutegunda sem innihalda taurine. Hér er um að ræða egg, fisk, kjöt og mjólk, en taurine finnst ekki í grænmetispróteini. Eins og áður er mikilvægt að huga að mögulegum ofnæmisvöldum.
Sink hefur þau áhrif að taurine virkar betur. Þá er mikilvægt er að halda sykurneyslu í skefjum. Hérlendis er mjög mikil sykurneysla og oft er um hreina ofneyslu að ræða. Þau börn sem er alin eru upp á heilbrigðan hátt m.t.t. mataræðis, eru ekki eins sólgin í sykur og þau sem eru vanin á hann snemma. Hér á landi er lítil áhersla á sykurlausar fæðutegundir, eins og sykurlaust jógúrt og þess háttar sem fæst víða erlendis, en er þó til í einhverjum heilsubúðunum hérlendis. Einnig er mikilvægt að skoða aukna neyslu B vítamína, sérstaklega B6 sem hefur áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu. Sérstaklega er mikilvægt að auka neyslu grænmetis, en grænmetisneysla þeirra ofvirku barna sem ég hef séð hérlendis, er mjög lítil og einnig er vatnsdrykkja þeirra af skornum skammti. Hér er besta vatn í heimi og mikilvægt að nýta sér það vel.
Svo þú ert að segja að rangt neyslumynstur valdi aukinni ofvirkni. Lífsstíll fólks, ásamt hinum ýmsu félagslegu og efnahagslegu þáttum sem eru ríkjandi í því samfélagi sem þú býrð í, eru mjög mótandi. Ólíkt því sem maður á að venjast hér á landi er í Bandaríkjunum alltaf verið að minna fólk á heilsuna. Hér er þetta frekar stutt komið. Eitt þeirra lykilnæringarefna sem einnig er mælt með í þessu sambandi er GABA (Gamma aminó smjörsýra) sem einnig er ákveðin tegund af amínósýru. GABA hjálpar til við að draga úr þeirri streitu sem heilinn verður fyrir. GABA hefur mjög fljótvirk áhrif á heilann og virkar vel í sambandi við kvíða, streitu o.þ.h. og einnig ofvirkni. GABA virkar eins og róandi lyf en er náttúrulegt og ekki á nokkurn hátt vanabindandi. Það virkar fljótar með því að blanda það með níasíni (B3). GABA hefur góð áhrif á ofvirkni þar sem það kemur í veg fyrir þau sterku viðbrögð sem verða í miðtaugakerfinu, sem afleiðing ofvirkninnar (ofvirkniviðbrögðin) þar sem það fyllir tauganemana í heilanum. GABA hefur því þau áhrif á heilann að hindra og/eða dempa streitu- og ofvirkniviðbrögð einstaklingsins, bæði tilfinningaleg og líkamleg.
Aðrir þættir sem hjálpa. Svo er einnig fleira sem getur hjálpað, eins og hómópatía og er þá gefið nokkuð sem heitir Argenticum nit. og Arsenicum. Mikilvægt er að skoða þetta í samhengi, m.t.t. næringarefna sem hafa góð áhrif á heilann og taugakerfið. Þá er einnig um að ræða efni eins og duft úr amínósýrunni ,,glycin“, og lithium sem virkar vel á miðtaugakerfið. Lithium hefur verið þó nokkuð reynt, sérstaklega með erfiðari tilfellin. Þá má einnig nefna fitusýruna gammalinolensýru, sem unnin er úr kvöldvorrósarolíu. Einnig má nefna hörfræolíu eða línolín sem inniheldur mesta magn af omega – 3 fitusýrum sem um getur í einni fæðutegund. Þetta virkar vel á heilkenni sem tengjast heilanum. Þá má nefna magnesíum, kalk (calcium) og fæðu sem hefur jákvæð áhrif á blóðsykurinn, róandi jurtir o.fl. Oft er mikilvægt að nota sambland af öllu þessu. Nú eru komnar nýjar næringarvörur á markaðinn erlendis sem innihalda blöndur ýmissa efna og eru því sérmiðaðar m.t.t. ýmissa heilsufarslegra vandkvæða.
Getur þú nefnt ákveðið dæmi þar sem þú beittir þessum aðferðum? Hann var líklega 8-10 ára þegar þetta var. Ég byrjaði að athuga með hugsanlegt fæðuóþol og ofnæmi (food allergies) og almennar leiðréttingar á mataræði. Þetta virtist hjálpa og virtist hann halda sér í nokkuð góðu jafnvægi næstu árin, svo framarlega sem prógrammið var haldið. Einnig get ég nefnt nýrri tilvik, sum mun alvarlegri sem oft tengjast fleiri þáttum og öðrum heilkennum og kvillum. Í sumum tilvikum hefur skort á þolinmæði fólks í þessu sambandi. Fólk hefur oft viljað sjá fljótlegri árangur af meðferðinni og því snúið sér til lækna. Mikilvægt er að hafa í huga að hvert barn hefur sértækar þarfir m.t.t. ákveðinna grundvallarþroskaþátta.
Því þarf að skoða þetta heildrænt. Ekki er því til nein ,,töfrakúla“ (magic bullet) sem læknar allt á svipstundu. Það er ómögulegt. Foreldrar og aðstandendur þessara barna verða alltaf að hugsa um gæðin, þ.e. heilsu barnsins í heildarsamhengi og til lengri tíma litið. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að lyf næra ekki heilann, en ýmis fæða og fæðubótarefni næra heilann. Það er ekki verið að mæla með því að leggja alveg niður alla lyfjagjöf, en hún er bara hluti af myndinni, vegna þeirra takmarkana sem hún hefur. Ef við skoðum þróunina sum staðar erlendis, lofar þetta góðu. Í dag eru t.d. ákveðnar heilsustofnanir í San Franscisco sem eru farnar að draga úr lyfjagjöf og komnar meira út í heildræna nálgun.
Hvað með þær rannsóknir sem styðja fremur áframhaldandi lyfjagjöf heldur en næringarmeðferð? Hafa verið gerðar nægilegar rannsóknir á þeim næringarefnum sem hafa gefið hvað besta raun? Hefur það verið skoðað áður en farið er að draga almennar ályktanir af þessum niðurstöðum rannsóknanna m.t.t. hagnýts gildis þeirra? Nei, sumar stofnanir og fyrirtæki hafa gert það en önnur ekki. Þetta veltur mikið á því að hverju verið er að leita í raun og veru, hvers konar upplýsingar vilja menn fá og hvað vilja menn sjá sem hinar almennu viðurkenndu upplýsingar. Þó að þetta hafi ekki verið gert hérlendis hefur ýmislegt verið gert erlendis, t.d. bæði í Bandaríkjunum og Englandi og fleiri stöðum.
Fyrst er alltaf skoðað hvað er til staðar og hvað sérfræðingarnir mæla með og því er oft leitað beint til læknanna sem leggja til lyfjameðferð sem virðist vera nærtækasta úrræðið. Svo er það hins vegar þetta með áhrif lyfjanna, aukaverkanir, langtímaáhrif og þess háttar. Læknar segja fólki almennt séð ekki frá því. Flest lyf hafa aukaverkanir, bara mismiklar. Meira að segja Aspirin hefur aukaverkanir. Til dæmis lyf sem hafa áhrif á blóðsykurinn og hafa einnig áhrif á svefnmynstur og fleira því tengt. Nú er lögð meiri áhersla á rannsóknir á aukaverkunum lyfja, t.d. ritalín; að það hefur áhrif á vöxt, og allt sem getur haft áhrif á vöxt hefur einnig áhrif á aðra líkamshluta.
Við verðum því að skoða þetta í samhengi. Með lyfjagjöf af því tagi sem hér ræðir um er verið að hafa áhrif á efnafræði líkamans og því getur þetta komið niður annars staðar í líkamanum. Engu máli skiptir hvort sem um er að ræða skammtíma eða langtíma aukaverkanir. Allt sem þú gerir til lengri tíma litið, þ.m.t. langtímameðferð af einhverju tagi ætti ekki að hafa neinar slíkar aukaverkanir. Allar aukaverkanir hafa áhrif á þroska barnsins. Ég myndi, ef ég stæði í sporum þessara foreldra, a.m.k. reyna að halda lyfjagjöf í lágmarki og velja þau lyf sem hafa hvað minnstar aukaverkanir, helst engar, eins og er með fæðu og bætiefni og vikið er að hér að framan.
Því við verðum að hafa í huga að þetta hefur allt áhrif hvað á annað m.t.t. þroska barnsins, t.d. ef um svefntruflanir er að ræða er mikilvægt að muna að miðtaugakerfið verður fyrir áhrifum af svefninum o.s.fv. Burtséð frá því hvernig þetta virkar, hvort um skammtíma eða langtíma verkanir er að ræða, eru aukaverkanir alltaf aukaverkanir og þetta getur allt komið niður á ónæmiskerfinu, haft neikvæð og bælandi áhrif á ónæmiskerfið og kallað fram ýmsa sjúkdóma og kvilla út frá því.
Læknar vilja oft ekki gangast við því að þarna sé um tengingu að ræða. Það er eðlilegt að fólk vilji sjá skyndilega breytingu til batnaðar á ákveðnu ástandi, en alltaf verður að skoða þetta í stærra samhengi og til lengri tíma litið. Það sem ég er að reyna að benda á í samanburði á heildrænni nálgun (holistic) annars vegar og hefðbundinni nálgun (orthodox) hins vegar, er að við getum gefið verkjastillandi lyf til að taka sársaukann í burtu, en við vitum að það leysir ekki vandann. Við þurfum að fara að rótum vandans, byrja þar. Ein samlíking við lyfjameðferð sem ég nota stundum er eftirfarandi. Sjáðu fyrir þér að þú sért að reyna að vinna á eldsvoða með því að reyna að stoppa reykskynjarann. Ertu þá að reyna að vinna á hinum raunverulega vanda þar sem sjálfur eldurinn er, eða ertu aðeins að reyna að losna við einkennin. Hvar á eldurinn upptök sín? Það er því þannig með lyfjameðferð, svo góð sem hún nú er í sumum tilvikum, að hún nær ekki að rótum vandans.
Nú segja læknar gjarnan að þær rannsóknir sem rannsakað hafa tengsl fæðu og ofvirkni standist ekki þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru til slíkra rannsókna? Til er listi frá Feingold stofnuninni og fleiri stofnunum, t.d. í San Francisco, þar sem er birt er það nýjasta í hágæða rannsóknum á ofvirkni hjá börnum, ekki aðeins út frá ofvirkninni sjálfri, heldur einnig m.t.t. þroskaskeiða barnanna, áhrifa á taugakerfið og fleira og hvernig það tengist þessu vandamáli. Í dag eru til margar stofnanir og rannsóknarmiðstöðvar sem hafa gert nægar marktækar rannsóknir til stuðnings þeim hugmyndum sem ég hef fjallað um hér. Sumsstaðar í heiminum hefur ekki verið lögð mikil áhersla á þessa þætti, þar sem þetta er ekki stór þáttur í námi lækna og á sér ekki neina samsvörun eða hefð m.t.t. þess bakgrunns sem þeir hafa, þ.e.a.s. að skoðaðir séu aðrir þættir en lyf og lyfjameðferð í tengslum við heilsu.
Megin áherslan er því á lyfjameðferð og lífeðlisfræði og nám læknanna miðast við það. Í dag eru hins vegar starfræktar ýmsar óháðar rannsóknarmiðstöðvar sem eru styrktar af samtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni (nonprofit organizations), þ.e. samtökum sem eru ekki innan þess ramma, sem gildir um rannsóknir sem birtar eru í virtum læknatímaritum. Niðurstöður þessara óháðu rannsóknarmiðstöðva sýna fram á sterk tengsl milli fæðu og ofvirkni. Búið er að sýna fram á nægilega sterk tengsl þarna á milli svo marktækt sé. Ekki er gert mikið úr þessu vegna þess ,,norms“ sem gildir í samfélaginu og hins sterka lyfjaiðnaðar. Þetta hefur síðan áhrif á og viðheldur áherslu á lyfjameðferð. Það mikilvægasta í þessu er að barnið er einstaklingur sem er á sinni braut hvað varðar þroska og lærdóm og við viljum ekki trufla þau eðlislægu og náttúrulegu ferli sem eru hluti af þeirri þroskabraut. Burtséð frá því hvað öll vísindi segja erum við að trufla þessa þróun og þennan þroska með því að grípa stöðugt inn í með lyfjameðferð og þvíumlíku.
Lokaorð
Markmið þessarar greinar er fyrst og fremst að koma áleiðis upplýsingum um ákveðna möguleika og leiðir sem eru til staðar. Undanfarna tvo áratugi hefur Heilsuhringurinn lagt sig fram um að koma slíkum upplýsingum áleiðis og að öll slík umfjöllun sé vönduð. Við eigum öll rétt á að fá upplýsingar, en það er síðan okkar að velja hvaða leið við viljum fara. Við berum hvert og eitt ábyrgð á okkar heilsu. Þar sem börn eiga í hlut, er ábyrgðin að sjálfsögðu fyrst og fremst foreldranna. Allt það sem sett er fram í þessari grein er stutt vísindalegum niðurstöðum og mikilli reynslu lækna og annarra sem vinna að þessum málum. Þeim sem vilja kynna sér þessi mál frekar er bent á meðfylgjandi lista yfir samtök og rannsóknarstofnanir sem allar hafa töluverðar upplýsingar um þessi mál. Ljóst er af samtalinu við David, að víða erlendis er mikið að gerast í þessum efnum, þó svo að mörgum þeim sem aðhyllast náttúrulegar leiðir til bættrar heilsu, finnist eflaust ýmislegt ganga heldur seint.
Ofvirkni meðal barna er erfitt vandamál þar sem það hefur gjarnan svo mikil og víðtæk áhrif á bæði barnið, fjölskyldu þess og nánasta samfélag. Eins og David bendir á er mikilvægt að skoða þetta meira heildrænt en oft er gert og eðlilegt að leitað sé fyrst þeirra náttúrulegu leiða sem bjóðast og eru til staðar í umhverfinu, áður en gripið er til lyfja og annarra ráða sem í mörgum tilvikum geta haft ýmis konar varhugaverð áhrif, ekki síst til lengri tíma litið. Væri óskandi að læknar og aðrir þeir sem hafa með þessi mál að gera, leggðu sig fram um að skilja þá viðleitni fólks til að leita annarra leiða sem eru meira í samræmi við þau náttúrlegu ferli sem eru hluti af okkur sem lífverum og í meiri samhljóm við okkur sem manneskjur.
Með tímanum fara heilbrigðisstéttir hérlendis, líkt og er að byrja að gerast víða erlendis, að skoða þessa þætti á heildrænni hátt en gert hefur verið hingað til. Fordæmin eru víða til fyrir því erlendis, þar sem bilið á milli heildrænnar og hefðbundinnar nálgunar er stöðugt að minnka. Með tímanum verður hugsanlega farið að veita auknu fjármagni í rannsóknir á tengslum næringar og ofvirkni, sem og einnig á tengslum næringar við aðra þá sjúkdóma og kvilla, sem flestir ef ekki allir á einn eða annan hátt tengjast næringu og lífsstíl.
Listi yfir samtök og rannsóknarstofnanir.
*Attention Deficit Disorder Association (ADDA) PO Box 972 Mentor, OH 44061 800-487-2282
*Children With Attention-Deficit Disorder (CHADD) 499 Northwest 70th Avenue
Suite 101 Plantation, FL 33317 305-587-3700
*Learning Disabilities Association of America (LDA) 4156 Library Road Pittsburgh, PA 15234 412-341-1515
*American Academy of Child and Adolescent Psychology 3615 Wisconsin Avenue NW Washington, DC 20016 202-966-7300
*American Academy of Allergy and Immunology 611 Wells Street Milwaukee, WI 53202 800-822 ASMA
*Feingold Association of the United States of America PO Box 6550 Alexandra, VA 22306 703-768-3287 Food Allergy Network 4744 Holly Avenue Fairfax, VA 22030-5647 703-691-3179
Skrifað árið 1999.
Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar