Erindi flutt á haustfundi Heilsuhringsins í Norræna húsinu 1997
Ágætu samkomugesti. Tildrög þess að Ævar Jóhannesson fór að vinna á Raunvísindastofnun Háskólans voru þau, að árið 1974 var Norræna eldfjallastöðin stofnuð og ýmsir starfsmenn úr jarðfræðideild Raunvísindastofnunar fluttust þangað. Einn þeirra var aðstoðarmaðurinn, Níels Óskarsson, og satt að segja hvarflaði aldrei að okkur að við fengjum nokkurn í staðinn sem jafnaðist á við hann. En það fór á annan veg, því við fengum Ævar Jóhannesson. Þeir Ævar og Sigurður Þórarinsson þekktust vel, sennilega úr Surtseyjargosinu þar sem báðir höfðu sig talsvert í frammi hvor með sínum hætti, og það mun hafa verið Sigurður sem stóð fyrir því að Ævar axlaði skinn sín hjá ljósmyndafyrirtækinu Myndiðn og gerðist opinber starfsmaður á Raunvísindastofnun. Nokkrum árum seinna varð Ævar fimmtugur, og þá skrifaði ég litla afmælisgrein um hann sem ég ætla að lesa hér upp úr, því hún lýsir því hvernig Ævar kom mér fyrir sjónir á þessum árum – satt að segja engum líkur þeim sem ég hafði áður þekkt, og tel mig þó hafa kynnzt mörgum hæfileikamönnum um dagana. Þar segir: „Mig langar til að taka ofan fyrir Ævari Jóhannessyni í tilefni fimmtugsafmælis hans 3. mars [1981].
Bæði vegna þess að Ævar er einmitt ímynd þess, sem vísinda- og tæknideildir háskóla allra landa eru að reyna að skapa úr nemendum sínum, oftast með litlum árangri sumir segja jafnvel neikvæðum en einnig til að þakka honum samvinnu og vináttu undangenginna ára. Sagt er, að þegar Dalvíkurjarðskjálftinn 1936 reið yfir Akureyri, hafi Sigurður Guðmundsson skólameistari hrópað „hvar er Gunnbjörn?“, því hann taldi að við svo voðalegum atburðum gæti enginn gert nema Gunnbjörn Egilsson. Og svipaðan sess skipar Ævar Jóhannesson í hugum margra þeirra sem þekkja hann: Ef illa gengur, ef vantar ráð eða hugmynd, er auðveldast að slá á þráðinn til Ævars. Fyrst eftir að hann fór að vinna á Raunvísindastofnun Háskólans höfðum við sama síma, og þá þótti mér ekki linna hringingum utan úr bæ: ljósmyndarar spurðu um filmur, filtra og framköllunarefni, uppvakningamenn um ráð til að vekja upp draug, og síðan aftur hvernig kveða skyldi hann niður, fátækir menn með vonda bíla um hjálp til að komast gegnum skoðun, rafeindamenn, spíritistar, nálastungumenn, fólk með sérstök vandamál í ljósmyndun.
Og yfirleitt stóð ekki á svörum hjá Ævari, því hann er hafsjór af þekkingu á fjölmörgum sviðum, bæði víð- og djúplesinn, auk þess að búa yfir mikilli eigin tilraunareynslu. Ljósmyndarar segja mér, að þau 10 ár eða svo, sem Ævar var ljósmyndari að aðalstarfi þá rak hann m.a. fyrirtækið Myndiðn ásamt Leifi Þorsteinssyni hafi hann náð undraverðum skilningi á hinum innri tæknilegu rökum ljósmyndunar, einkum efnafræðinni, og m.a. gert umtalsverðar endurbætur á framköllun litmynda, sem Kodak tók síðan upp og er aðferðin nú almennt notuð við framköllun litskyggna. Þetta er einkennandi fyrir öll störf Ævars og áhugamál: hann kryfur þau til mergjar, les sér til og gruflar í hinni fræðilegu hlið, þannig að fyrr en varir er hann orðinn jafn faginu og getur farið að gera endurbætur, skapa nýjungar. Svona ættu auðvitað allir vísindamenn að vera: síspyrjandi, forvitnir, leitandi að grundvallarskilningi, og jafnframt óbundnir þeirri skólatrú að allt það sem þeir eitt sinn lærðu hljóti að vera rétt.
Ævar veiktist raunar af berklum á unglingsaldri, eins og margir sveitungar hans í Eyjafirði, og varð þess vegna af miklu því formlega skólanámi sem ég efast ekki um að hann hefði ella aflað sér. Hann hefur því að vissu leyti haft þá sérstöðu sem skorti á langskólanámi getur fylgt, að geta stundum gert hluti sem allir vissu að ekki var hægt að gera höfðu lært það í skóla. Þannig var það t.d. með fluxgate-segulmæli, sem hann fann upp og smíðaði, og byggður var á hugmynd sem menn höfðu vitað í 40 ár að ekki gekk. Ævar var nýr á þessu sviði og ótruflaður af þeim fordómum, sem raunar byggðust á því að hinir fyrstu útvarpslampar voru of óstöðugir til að hægt væri að útfæra hugmyndina í raun. En með nútíma rafeindaþáttum dugir segulmælirinn vel. Sem háskólamanni finnst mér leiðinlegt að þurfa að viðurkenna það, en líklega er ekki hægt að kaupa vit í skrokkinn á fólki nema að litlu leyti með skólagöngu – vit er af æðri toga en svo. Rafeindafræðingar og rafmagnsverkfræðingar, sem unnið hafa með Ævari Jóhannessyni, segja mér að hugmyndir hans séu því líkastar sem „þær séu ekki af þessum heimi,“ svo snjallar, óvæntar og fullburða séu þær.
Ævar hefur eitthvert furðulegt sjötta skilningarvit í sambandi við rafeindatækni, þannig að svo virðist sem hann finni á sér hvernig hinar flóknustu rásir vinna. Hvort þessi „tilfinning“ kemur að handan, sem út af fyrir sig kæmi Ævari sjálfum ekkert á óvart, trúi ég, eða hvort hún byggist á langri reynslu í viðskiptum við rafmagn, allt frá frumdögum útvarpstækja og vindrafstöðva norður í Eyjafirði til „lógískra rása“ þessara missera, veit ég ekki. Enda skiptir það ekki miklu máli í sjálfu sér. Síðan Ævar fór að vinna á Raunvísindastofnun hefur hann í æ ríkara mæli fengist við tækjahönnun og smíði, þótt víða leggi hann gjörva hönd að verki. Tæki hans eru að sjálfsögðu mismunandi frumleg, eftir þörfum og fyrri kunnáttu á hverju sviði, en meðal nýstárlegri verka hans mun teljast „íssjá“ sú eða jöklaþykktarmælir, sem Ævar átti mikinn þátt í að þróa í samvinnu við Helga Björnsson jöklafræðing og Martein Sverrisson verkfræðing. Þykir sendirinn, sem er verk Ævars, mjög frumleg smíð, og hefur vakið eftirtekt sérfræðinga beggja vegna Atlantshafsins. Rafeindatæknin er sóknarbrandur nútíma tækniframfara, og það hefur verið mikil heppni Jarðfræðistofu Raunvísindastofnunar að njóta starfskrafta Ævars.
Hann er raunar ósérhlífnari starfsmaður en góðu hófi gegnir, og virðist sjaldan vinna skemur en 25 tíma 8 daga vikunnar. Eða hvernig væri hægt að sinna svo fjölbreyttu starfi og margbreyttum áhugamálum öðru vísi? Og þá er enn ótalið það sem mest er um vert: Eins og flestir vitrir menn er Ævar Jóhannesson drengur góður, og mannbætir þeim sem hann þekkja. Fyrir hönd starfsmanna Jarðfræðahúss Háskólans óska ég Ævari og fjölskyldu hans heilla á þessum tímamótum og þakka samvinnuna og samveruna á liðnum árum. Megi framhaldið verða engu síðra.“ Síðan þetta var skrifað, árið 1981, eru liðin 16 ár og enn vinnur Ævar myrkranna milli, á daginn að tækjasmíð, viðgerðum, ljósmyndun og ýmsum öðrum störfum á Raunvísindastofnun, og á kvöldin og nóttunni að þeim hugðarefnum sem sífellt virðast skipa hærra sess hjá honum: grasalækningum sem á síðustu árum snúast að mestu um lúpínuseyðið fræga sem hér hefur verið rætt í dag og greinaskrifum fyrir Heilsuhringinn. Þar hefur hann verið áhrifamikill, eins og viðstaddir vita, og orðið fyrstur til að kynna fyrir alþjóð hluti eins og kvöldvorrósarolíu eða næturljósaolíu, eins og hún heitir líka – og skaðsemi amalgams í tönnum, svo dæmi séu nefnd.
Á þessum árum hefur Ævar líka komizt í klærnar á læknunum allnokkrum sinnum, og sennilega hafa þau viðskipti verið til góðs þrátt fyrir allt, því enn gengur Ævar um meðal vor og það óhaltur, sem hann ekki gerði fyrir 16 árum. En Ævar er allra manna hræddastur við lækna, sem sennilega byggist á fyrstu kynnum hans af þeirri vel-meinandi en kannski getulitlu stétt, eins og hún löngum var. Eins og við er að búast um svo kunnáttusaman, ósérhlífinn og hjálpsaman mann sem Ævar er, þá leita margir hjálpar hans um margvíslega hluti og hafa jafnvel sumir hyllzt til að misnota hjálpsemina. Sú var tíð, og er kannski enn, að landbúnaðarvélar og heimilistæki sem biluðu á ýmsum bæjum á heimaslóðum Kristbjargar, konu Ævars, norður í Skagafirði, voru látin bíða þar til Ævar kæmi norður í sumarfrí og gerði við þau. Og þetta gerði hann með glöðu geði. Einu sinni gekk þó fram af honum svo ég viti, og hann neitaði: Þá hafði verið hringt að norðan hingað suður og Ævar beðinn að skutla kerlingu úr Skagafirði til Akureyrar.
Tvö tæki vil ég nefna sérstaklega sem Ævar hefur smíðað og bera frumleik hans sem uppfinningamanns vitni. Bæði voru utan starfa hans á Raunvísindastofnun og þess vegna unnin í hans ásetnu frítímum. Hið fyrra var tölvustýrð handfæravinda sem því miður komst aldrei í almenna framleiðslu vegna fjárskorts framleiðandans, og kannski vegna hremminga handfærabáta í fiskstjórnunarkerfinu. En þessi vinda var semsagt sögð vera þriðjungi fisknari en aðrir, bæði menn og vindur: Ef ég skildi það rétt, þá byrjaði hún á því að fíra færinu niður á botn, dró síðan upp nokkra faðma og dorgaði þar um stund. Ef ekki beit á innan tíðar, færði hún sig ofar og dorgaði þar, o.s.frv. þar til fiskur beit. Þá dró hún upp snarlega og skilaði fisknum og þaut síðan aftur niður á sama dýpi og fiskurinn hafði fengizt og byrjaði þar aftur. Þetta skilaði semsagt þriðjungi betri afköstum en aðrar aðferðir. En vindan hafði líka annan hæfileika: að geta lært af kunnáttumönnum. Þannig átti að vera hægt að láta margreyndan og fiskinn sæhrafn dorga með henni með hefðbundnum hætti, og tölvan í vindunni lærði handtökin í fyrstu lotu og gat leikið þau eftir.
Ævar var að sönnu ekki einn um að hanna og smíða þessa vindu, en þegar búið var að setja fyrsta eintakið saman fóru þrír með hana hér út á Sundin til að reyna hana við raunverulegar aðstæður. Skipstjóri og stýrimaður var jarðfræðingur úr okkar röðum sem átti bát, en hásetar voru rafeindamenn, nefnilega Ævar og samstarfsmaður hans. Þegar þeir félagar komu út á ytri höfnina var ofurlítil ylgja, og leið ekki á löngu unz stýrimaðurinn neyddist til að hverfa undir þiljur vegna sjóveiki, en rafeindamaðurinn varð verklaus af sömu ástæðu. Enda fór svo að Ævar varð að sigla fleyinu til hafnar með aðra skipverja sem farangur – ég man ekki hvort hann framkvæmdi áður fyrirhugaðar tilraunir á eigin spýtur.
Þessi saga er lítið og hversdagslegt dæmi um harðfylgi Ævars til allra verka. Hann fer um allt og tínir grös og grefur upp rætur í seyði sitt, og það vita þeir einir sem í hafa komizt hvílík þrekraun það er að grafa upp lúpínurót, því hún líkist einna helst rófunni í Fróðárundrum. Það reyndu börn mín tvö, þá um tvítugt, fyrir einum 10 árum þegar þau fóru við fjórða mann upp í Heiðmörk til að grafa rætur fyrir Ævar. Allan daginn glímdu þau við eina rót, og komu loks til byggða með part af henni, staðuppgefin. Sem betur fer koma margir menn og stórvirkar vélar að því að taka upp þau mörg tonn af rót sem Ævar notar nú orðið á ári hverju. Hitt tæki Ævars sem mig langar til að nefna, er aflstýring fyrir heimilisrafstöðvar og hann hefur sett upp á tugum sveitabæja um allt land á liðnum árum.
Eins og menn vita, eru nútíma heimilistæki kröfuhörð um stöðuga spennu og stöðuga tíðni – 220 volt og 50 rið á sekúndu. Þegar álagsbreytingar verða á kerfinu – eins og til dæmis þegar straumur er settur á bræðsluker í Álverinu í Staumsvík, sem samsvarar því að kveikt væri í senn á öllum eldavélum í Garðabæ þarf að bregðast snarlega við til að ekki komi slinkur á kerfið sem mundi slá út eða skemma annað hvert rafeindatæki og tölvu á Suðvesturhorninu.
Þetta er auðvitað gert sjálfvirkt með tölvustýrðum og rafknúðum gangráðum, sem t.d. breyta skurðinum á túrbínunum eða vatnsstreymi að þeim. Slíkur búnaður er bæði flókinn, dýr og tiltölulega seinvirkur, en Ævar leysti þennan vanda fyrir heimilisrafstöðvar með svo einföldum og snjöllum hætti að lausnin virðist blasa við þegar maður hefur heyrt af henni. Hún er í því fólgin að hindra álagsbreytingar – ekki með því að loka Álverinu eða banna öllum Garðbæingum að kveikja á eldavélum sínum í senn heldur með því að nota mismikinn hluta orkunnar sem framleidd er til að hita vatn: þegar „álagstoppar“ koma, fer lítil orka í vatnstankinn, þegar lítið er um að vera, fer mikil orka í vatnstankinn.
Með þessum hætti haldast spennan og tíðnin stöðug, og alltaf er til nóg heitt vatn, líka utan jarðhitasvæða. Að lokum langar mig til að koma aftur að þeirri hugsun hvað langskólanám hefði gert úr Ævari – hvort skólakerfinu hefði tekizt að slæva odd forvitni hans og sískapandi hugsunar og gera t.d. úr honum venjulegan verkfræðing eða efnafræðing. Eða hvort meiri skólaganga hefði gert hann ennþá meira skapandi, eða a.m.k. ennþá hæfari. Um þetta verður aldrei vitað nema það eitt, að þrátt fyrir allt hefði Ævar verkfræðingur talsvert hærri laun heldur en Ævar tækjafræðingur hefur nú. En slíkt er réttlæti heimsins, eins og kollegi Ævars, trésmiðurinn frá Nazaret, fékk að reyna fyrir 2000 árum.
Sigurður Steinþórsson
Flokkar:Annarra Skrif