Hér fara á eftir 7 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru eftirfarndi:
- Fleiri áhugaverð efni í rauðvíni
- Mauraensím – silkiormaensím – beingisnun o.fl.
- Q-10 við krabbameini
- Sojabaunir vernda hjartað
- Glútenóþol og beingisnun
Enn um fólin sýru og klofinn hrygg - Nýtt sætuefni
Fleiri áhugaverð efni í rauðvíni
Í nokkur ár hefur verið vitað að í rauðvíni eru áhugaverð efni sem m.a. eru talin vernda æðakerfið og draga úr hjarta- og æðasjúkdómum. Oftast hefur „flavon“- efnum verið þakkað þetta og vafalaust eiga þau sinn þátt í hollustu rauðvíns og safa úr bláum vínberjum. Nú hefur fundist efni sem ekki er flavon-efni en er ekki síður áhugavert. Þetta efni heitir „resveratol“ og tilheyrir efnaflokki sem nefndur er polyfenol. Þetta efni hindrar ensím sem nefnt er cyclooxygenasi (sjá grein í Heilsuhringnum um kvöldvorrósarolíu. Haust 1996) en það ensím hvetur myndun thromboxanefna og prostaglandina af 2. röðinni sem sum hver eru bólguhvetjandi og stuðla að myndun blóðtappa í æðum. Resveratol minnkar því líkur á blóðtöppum, bæði í slagæðum og bláæðum, auk þess að draga úr margskonar bólgum, m.a. vegna gigtarsjúkdóma. Þá er talið að resveratol dragi úr eða hindri oxun á kólesteróli, sem nú er talið sannað að sé sú eina gerð kólesteróls sem sest innan í æðar. Sumar kannanir benda til að resveratol geti einnig minnkað líkur á krabbameini. Bent er á að sennilega eigi ennþá fleiri jákvæð atriði eftir að koma í ljós. Til að ná marktækum árangri þarf að nota 100-200 ml af rauðvíni eða safa úr bláum vínberjum á dag. Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients ,ág.-sept. 1997.
Mauraensím – silkiormaensím – beingisnun o.fl.
Dr. Hans A. Nieper, læknir við Paracelcus Silbersee sjúkrahúsið í Hannover í Þýskalandi, skrifar Townsend Letter for Doctors and Patients í október1997 langt bréf. Bréfið er fullt af fróðleik og gaman væri að birta það allt en rúmsins vegna verður þó að stytta það verulega. Við höfum áður birt hluta úr bréfum frá dr. Nieper svo að ekki er þörf á að kynna hann sérstaklega en hann var m.a. lengi formaður stærsta krabbameinsfélags Þýskalands (German Society of Oncology). Dr. Nieper byrjar á að segja frá ensími sem hægt er að vinna úr maurum (ants). Þetta ensím sem nefnt er „iridodial“ segir dr. Nieper að hafi alveg einstaka eiginleika. Hann telur að það hindri ýmiskonar sýkla (bakteríur, veirur og sveppi) frá því að drepa maurana, en þeir hafa ekkert ónæmiskerfi sem hægt er að bera saman við ónæmiskerfi æðri dýrategunda. Auk þess verkar það gegn krabbameinsæxlum, en vegna þess hversu lítið var til af því til að prófa á krabbameinssjúklingum var ekki hægt að rannsaka það nægilega vel, en þær prófanir sem hægt var að gera lofa þó mjög góðu.
Hann telur að rétt væri að skoða hvaða þátt herpesveirur eiga í illkynja sjúkdómum og að við könnun sem gerð var hafi ekki fundist eitt einasta tilfelli af illkynja sjúkdómum, þar sem ekki var um að ræða aukið mótefni í blóði sjúklinganna gegn herpes II, cytomegloveirum eða EB-IGG-CBR. Hann leggur fram þá tilgátu að áðurnefndar veirur séu nokkurskonar „lyklar“, sem opni illkynja sjúkdómum leið og að iridodial loki þessum dyrum. Þá ræðir dr. Nieper um serrapeptasa, ensím sem unnið er úr bakteríum sem lifa í silkiormum. Þetta ensím hreinsar innan úr æðakerfinu kólesteról og önnur efni sem smá loka æðum og geta valdið hjarta- eða heilaáföllum. Hreinsunin getur tekið um það bil 18 mánuði. Dr. Nieper segir að hann og samstarfsmenn hans hafi nú meðhöndlað hvern kransæðasjúklinginn eftir annan með þessu ensími með fullkomnum árangri. Einnig talar hann um magnesium argínat, næringaefni sem hann segir að fáist í Þýskalandi. Magnesíum argínat, og einnig aminósýran arginín, segir hann að sé frábært við kransæðasjúkdóma. Þetta efni hjálpar til við að flytja þrúgusykur til fruma sem eru í þörf fyrir hann. Það verkar gegn sykursýki II og eykur verkanir aminósýrunnar carnitins hjá hjartasjúklingum.
Þar næst fer hann að tala um beinþynningu. Hann segir að augljóslega sé núverandi meðferð við beinþyningu, sem er einkum að taka kalk og flúortöflur og bífosfónöt, t.d. Fosamex, sé ekki nógu árangursrík. Hann segir að í Þýskalandi sé búið að nota calcíum EAP (Ca, AEP, sjá grein í Hh,vor 1996) sem lyf við M.S. sjúkdómi í meira en 30 ár (3.500 sjúklingar frá árinu 1964). Eftir að fólkið hafði notað efnið í u.þ.b. 2 mánuði minnkaði hættan á beinbrotum mjög, jafnvel þótt beinþéttleiki hefði þá ennþá ekki aukist umtalsvert. Á þessum tíma hafa aðeins orðið 8 beinbrot svo vitað sé hjá þessu fólki. Ennfremur sýna skýrslur frá sex mismunandi skurðlækningamiðstöðvum, að bein þeirra sjúklinga sem fara þurftu í aðgerð á liðamótum voru alveg sérstaklega sterk. Þessir sjúklingar höfðu allir notað Ca.EAP í fjögur ár eða lengur og einnig calcíum og magnesíum orotat
Að lokum fer dr. Nieper að ræða hugmyndir franska vísindamannsins dr. Kervran´s sem Úlfur Ragnarsson sagði frá í vorblaði H.h. 1995. Dr. Kervran taldi að lifandi verur gætu við réttar aðstæður umbreytt einu frumefni í annað. Hann benti t.d. á að í kjúklingum er 5- 6 sinnum meira kalk en þeir fá í fóðrinu og að í kjúklingi sem er nýskriðinn úr eggi er 4-5 sinnum meira kalk en í egginu sem hann skríður úr áður en því var ungað út. Jafnmikið kalk er í skurninni í báðum tilfellum. Flestir vísindamenn hrista höfuðið sé þeim sagt þetta en dr. Nieper segir að stöðugt fleiri þeirra séu nú að skipta um skoðun hvað það varðar, enda auðvelt að gera tilraunir sem sanna eða afsanna, t.d. kenninguna með kjúklingana. Sé kenning dr. Kervran´s rétt er besta ráðið við beinþynningu að nota kísil, t.d. unninn úr elftingu, eða magnsesíum. Hvað sem öllum kenningum líður virðist þetta bera árangur og sennilega má bæta Ca.EAP við efni sem hindra beinþynningu. Töflur úr elftingu hafa fengist í Heilsuhúsinu undir nafninu Kervrans Silica
.
Q-10 við krabbameini
Frá því að kóensím Q-10 kom á markaðinn hefur töluvert verið skrifað um gagnsemi þess við ýmsum sjúkdómum, sérstaklega í æðakerfinu. Einnig hefur verið bent á að sennilega geti það komið að gagni við sumum krabbameinum, sérstaklega sem fyrirbyggjandi meðferð. Í Townsend Letter for Doctors and Patients ág.-sept. 1996 er grein um þetta efni eftir Joan Haynes. Hún byrjar á að fræða lesendur á hvað kóensím Q-10 sé, en vegna þess að skammt er síðan það var gert í langri grein hér í blaðinu er ekki ástæða til að endurtaka það. Hún segir að rannsóknir við Texas at Austin háskólann í Bandaríkjunum hafi sýnt skort á Q-10 í blóði fólks með ýmiskonar krabbamein. Þessi skortur getur átt margar orsakir, t.d. vöntun nokkurra algengra vítamína t.d. C, B2, B3, B6, B12, fólinsýru og pantóþensýru (B5), sem allra er þörf til að mynda Q-10, auk fleiri efna t.d. tetra-hydro-biobterins. Skortur þessara efna, sem eru þau sömu og þarf við að mynda DNA erfðaefnið, getur svo að mati dr. Karls Austin við Læknisfræðilegu líffræðistofnunina (Institute for Biomedicar Research) við Texas at Austin háskólann, valdið því að mistök verði við að mynda DNA erfðaefnið, þegar fruma skiptir sér. Þetta getur orðið upphaf illkynja frumubreytinga og síðar krabbameins.
Hann heldur áfram rannsóknum á því hvort skortur á Q-10 og nokkrum bætiefnum geti verið hin raunverulega ástæða stökkbreytinga sem leitt geta til að krabbamein fari að myndast. Danskir og bandarískir vísindamenn, undir forustu Folkers og Lockwood, hafa að undanförnu verið að rannsaka Q-10 með það í huga að nota það sem krabbameinslyf. Árið 1994 voru 32 konur með brjóstakrabbamein meðhöndlaðar á hefðbundinn hátt og fengu auk þess 90 mg af Q-10 og nokkrum öðrum fæðubótarefnum daglega. Allar konurnar lifðu í tvö ár eða lengur. Búist var við að sex þeirra mundu deyja innan tveggja ára ef aðeins hefðbundin meðferð væri notuð. Tvær þeirra fengu síðar stærri skammta, 300-400 mg af Q-10 á dag. Þessar konur læknuðust fullkomlega. Til viðbótar við Q-10 fengu þær daglega 2,85g C-vítamín, 2500 ein. E-vítamín, 32,5 mg betakarótín, 387 mcg selen, 1,2 g gamma-línolensýru (úr kvöldvorrósarolíu), 3,5 g omega-3 fitusýrur (úr lýsi) og smáskammta af fjölvítamínum. Auk þess skýrir Folkers o.fl. frá könnun þar sem konur fengu daglega 390 mg Q-10 í 3-5 ár. Í einum sjúklingnum hvarf fjöldi meinvarpa í lifur á 11 mánuðum. Þó að ýmsar mikilvægar upplýsingar vanti í þær skýrslur sem vitnað er í eru þó upplýsingarnar í þeim mjög forvitnilegar og þarfnast alvarlegar íhugunar, hvort ekki væri rétt að allar konur með brjóstkrabbamein ættu kost á að fá Q-10 til viðbótar við hefðbundna meðferð. Japanskar rannsóknir á Q-10 sýna að efnið verkar hvetjandi á ónæmiskerfið.
Hlutfall T4 : T8 eitilfruma hjá ellefu einstaklingum sem ekki var vitað til að hefðu krabbamein, hækkaði á tveimur mánuðum eftir að farið var að nota Q-10. Hjá þessum sömu einstaklingum jókst einnig IgG í blóði á hálfu ári þegar þeir fóru að nota Q-10. Þessi ónæmisvirkni gæti hugsanlega skýrt, að hluta að minnsta kosti, verkanir Q-10 á krabbamein. Adriamycin er mikið notað krabbameinslyf gegn fjölda mismunandi krabbameina. Stærsti gallinn á því er, að sé það notað í stórum skömmtum getur það valdið skemmdum á hjartavöðvanum, sem jafnvel getur orsakað dauða. Sýnt hefur verið fram á að Q-10 dregur mjög úr hættu á þannig skemmdum. Sennilega er gott að nota fleiri oxunarvarnarefni, t.d. C og E-vítamín og flavon-efni, því að skemmdirnar frá adriamycin stafa af eitruðum stakeindum sem efnið myndar í hjartavöðvanum. Því væri sennilega rétt að allir sem nota adriamycin notuðu einnig Q-10 og áðurnefnd bætiefni. Engar aukaverkanir hafa fundist af Q-10, jafnvel þó að það sé notað í mjög stórum skömmtum. Eini gallinn er að það er nokkuð dýrt, sé það notað þannig, en vísindamenn sem rannsakað hafa það telja að eigi að nota það sem krabbameinslyf verði að nota nokkuð stóra skammta, frá 100 mg up í hálft gramm á dag.
Sojabaunir vernda hjartað
Efni sem nefnd eru ísóflavonefni finnast m.a. í sojabaunum í til þess að gera miklu magni. Einkum eru það efnin genistein og daidzein og efni sem myndast úr þeim efnum sem verið hafa í sviðsljósinu að undanförnu. Þessi efni hindra oxun á fitupróteinum t.d. lágþéttni kólesteróli sem nú er talin ein höfuðorsök kransæðaþrengsla og annarra æðaþrengsla í heila eða útlimum. Bent er á að sojamjólk og jafnvel sojalesitín séu samkvæmt þessu sérlega æskileg til að minnka líkur á að oxuð fituefni geti skaðað æðakerfið. Þetta eru að vísu engin ný sannindi en staðfesta það sem áður var álit margra, að sojabauna afurðir væru sérlega heilsusamlegar, sérstaklega fyrir æðakerfið.
Glútenóþol og beingisnun
Fjórtán sjúklingar sem nýlega höfðu verið greindir með glútenóþol (celiac-sjúkdóm) og ellefu þeirra höfðu einnig beingisnun, voru valdir tilviljanakennt til að neyta annars vegar eingöngu glúteinlauss fæðis og hins vegar glúteinlauss fæðis og að taka einnig einnig inn 1000mg kalk daglega og 32.000 ein. af D-vítamíni á viku. Eftir 12 mánuði á glútenlausu fæði var að jafnaði orðin 5% aukning í beinþéttni hjá sjúklingunum. Það sem vakti undrun var að næstum tvöfalt meiri aukning varð í beinþéttni þeirra sem ekki fengu kalk og D-vítamín en hinna sem fengu hvorttveggja. Bent er á að annað fæðuofnæmi en fyrir glúten geti valdið fjölþættum efnaskorti t.d. á fólinsýru, B-12 vítamíni, járni eða zinki og að oft fylgir glútenóþoli ýmiskonar annað fæðuofnæmi eða -óþol. Vitað er að glútenóþol veldur lélegri upptöku fjölda efna í meltingarveginum en ekki aðeins kalks. Þá er bent á að mikið kalk geti truflað upptöku annarra næringarefna, t.d. magnesíums, zinks og mangans sem skort hafi, jafnvel meira en kalk og því geti kalk aukið skort annarra efna sem nauðsynleg séu fyrir heilbrigða beinmyndun og því verkað öfugt við það sem ætlast sé til. Einnig gæti hugsast að kenningar dr. Kervrans séu réttar (sjá grein eftir Úlf Ragnarsson í H.h. vor 1995) og að gagnslaust sé að nota kalk við beingisnun en að nota eigi kísil og magnesíum. Þá gætu stórir skammtar af kalki einu sér hindrað upptöku t.d. magnesíums og beinlínis valdið beingisnun. Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, okt. 97.
Enn um fólin sýru og klofinn hrygg
Sextán konur sem tvisvar höfðu eignast barn með klofinn hrygg og sextán konur til viðmiðunar sem aldrei höfðu eignast barn með þann fæðingargalla fóru í sérstaka könnun. Spurningar sýndu m.a. að fólin sýruneysla beggja hópanna var eðlileg. Eftir að báðir hóparnir voru látnir taka inn fólin sýru (í appelsínusafa) kom í ljós að fólín sýrumagnið í blóði kvennanna sem áttu börnin með klofna hrygginn jókst minna en í hinum hópnum. Þetta virðist staðfesta að upptaka fólin sýru hjá þeim hópi var afbrigðilega lág og að það er sennilega ástæðan fyrir því að þær ólu börn með áðurnefndan fæðingargalla en ekki að þær hafi fengið minni fólin sýru í fæðunni en eðlilegt má telja. Vegna þess að þessi fæðingargalli er talinn stafa af fólín sýruskorti á fyrsta hluta meðgöngunnar er niðurstaða þessarar könnunar sú, að allar konur á barneignaaldri eigi að taka inn fólín sýru, því að mjög erfitt er að vita fyrirfram hvort konur nýta fólín sýru fæðunnar vel eða illa og of seint er að „byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í“. Engar hliðarverkanir fylgja því að nota fólínsýru og kannanir benda til að það geti einnig dregið úr líkum á að kólesteról setjist innan í mikilvægar æðar og valdi m.a. hjartaeða heilaáföllum. Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, okt. 97
Nýtt sætuefni
Í Townsend Letter for Doctors and Patients, nóv. 97 er sagt frá sætuefni sem unnið er úr laufum stevia rebaudiana bertoni sem vex í Paraguay. Stevia, eins og efnið er venjulega kallað, er 150-400 sinnum sætara en sykur og inniheldur aðeins fáar hitaeiningar og er auk þess, að sögn tímaritsins, einnig heilsusamlegt að öðru leyti. Í Paraguay hefur efnið verið notað við sykursýki og til að stjórna blóðsykri hjá fólki. Það er frábært til að hjálpa fólki með candida sveppasýkingu og einnig til að draga úr tannskemmdum. Japanir hafa rannsakað stevia heilmikið og komin er löng reynsla á að það er fullkomlega öruggt til neyslu. Þrátt fyrir það hefur Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA), ekki ennþá gefið grænt ljós á að nota stevia sem íbætiefni í matvæli í stað annarra sætuefna t.d. Nutra-Sweet. Þó má selja stevia sem fæðubótarefni sé sætueiginleika þess ekki getið á umbúðunum. FDA flokkar stevia sem aukefni (íbætiefni) sem verði að gangast undir mjög strangar og kostnaðarsamar prófanir, sem framleiðendur efnisins hafa ekki ennþá talið sig hafa efni á, áður en leyft verði að nota það í almenn matvæli. Fyrirtækið Body Ecology hefur sett á markaðinn bók með mataruppskriftum þar sem stevia er notað í stað sykurs, 4 dropar í stað matskeiðar af sykri. Einnig hefur sama fyrirtæki stevia-vörur á boðstólnum (seldar sem fæðubótarefni), fyrir fólk sem ekki má eða vill nota sykur. Verði stevia á boðstólnum hérlendis getur fólk notað það t.d. í stað aspartam (Nutra- Sweet) eða sakkaríns. Sennilega er stevia miklu heilsusamlegra heldur en áðurnefndar vörur eða önnur hliðstæð gervisætuefni.
Höfundur: Ævar Jóhannesson vor 1998
Flokkar:Úr einu í annað