Betri fætur – betri líðan

Lækka mætti útgjöld ríkisins til heilbrigðismála ef almenn fótafræðsla væri betri í landinu.
Heilbrigðisþing fyrir heilbrigðisstéttir var haldið í Tónlistarhúsi Kópavogs 25. mars sl. Heilbrigðisráðherra Ingibjörg Pálmadóttir setti þingið. Drög að nýrri heilbrigðisstefnu til ársins 2005 var kynnt. Í skýrsluna vantaði marga samverkandi þætti sem óhjákvæmilega stuðla að heildrænu heilbrigði. Samþykkt var að allar heilbrigðisstéttir fengju skýrsluna til endurskoðunar áður en hún verður endanlega samþykkt. Það sem mörgum þótti vanta í nýju reglugerðina voru t.d. félagsmál, manneldismál, iðju- og sjúkraþjálfun, tannvernd og fótavernd.

Mikilvægt er að heilbrigðisstéttir vinni saman að reglugerðinni. Sem fótaaðgerðafræðingur langar mig að fjalla um fætur. Almenningur í landinu á rétt á að fá fræðslu um hvernig hægt er að fyrirbyggja hin ýmsu fótamein, sem hrjá því miður allt of marga, valda sársauka og draga úr daglegu þreki viðkomandi. Alvarlegast er þegar aflima þarf tær eða fætur vegna blóðrennslistruflana og taugaboðabilana.

Hverskonar þrýstingur getur leitt til sáramyndunar, sem erfitt er að græða. Fólk með sykursýki þarf að huga vel að fótum sínum en það er í meiri áhættu en aðrir. Mikilvægt er að ganga í skóm sem þrengja ekki að fótum, og támjóir og háhælaðir skór eru óæskilegir. Skoða þarf fæturna reglulega, gott er að nota spegil. Varist að fara í of heitt fótabað, þurrkið vel á milli tánna og notið púður ef með þarf. Notið gott krem á fæturna, það ver húðina fyrir núningi. Munið að nota aldrei krem á milli tánna.

Góð regla er að hvolfa úr skóm áður en farið í þá, því lítill aðskotahlutur, sem hinn sykursjúki finnur jafnvel ekki fyrir vegna taugaboðabilana, getur myndað sár, með fyrrgreindum afleiðingum. Starf mitt sem löggildur fótaaðgerðafræðingur felst í að koma í veg fyrir ýmsa ótímabæra fylgikvilla. Almennar fótaaðgerðir felast m.a. að þynna þykkar neglur, fjarlægja harða húð, meðhöndla líkþorn, sveppi og vörtur. setja spangir á niðurgrónar neglur, hlífðarmeðferðir og sinna almennri ráðgjöf.

Ég ráðlegg mörgum af mínum viðskiptavinum að nota stuðningssokka. Sokkarnir örva bláæðarennsli blóðsins til hjartans og koma í veg fyrir vökvasöfnun í fótum. Þeir draga úr myndun æðahnúta og þreytu í fótum. Þeir sem þurfa að nota stuðningssokka eru t.d. kyrrsetufólk, kyrrstöðufólk, þungaðar konur og þeir sem ekki hreyfa sig nægjanlega. Karlar þurfa ekki síður að nota stuðningssokka en konur.

Sokkarnir styðja sérstaklega vel við ökklann og minnka líkur á að fólk misstigi sig, sem getur leitt til fótbrots. Ef þú skekkir skó, hefur þreytuverki í fótum, ökklum, hnjám, mjöðm eða mjóbaki, þá er full ástæða til að fara í göngugreiningu og láta jafnvel athuga hvort það sé mismunur á lengd fótanna. Lausnin gæti verið innlegg í skóna þína. Flestir eiga ástvini sem vegna heilsubrests geta ekki fyllilega borið ábyrgð á eigin heilsu.

Þegar heilsunni hrakar þá fara fæturnir oft að gefa sig. Ég vil biðja þig lesandi góður, ef málið er þér skylt, að fylgjast vel og reglulega með fótum viðkomandi. Aukinn aldur og ýmiss lyf getur haft þau áhrif að húðin verður þurr, þunn, jafnvel rauð og aum.

Bjúgsöfnun eykst, skórnir fara að særa, líkþorn og þykkildi myndast. Ef blóðstreymi er lélegt er meiri hætta á þykkum nöglum, sem erfitt er að klippa sjálfur. Fótamein geta verið margvísleg. Það gengur enginn um brosandi með veikar og aumar fætur, það vita allir sem það hafa reynt. Kær kveðja, Ella Sigga. Greinarhöfundur er löggildur fótaaðgerðafræðingur og rekur eigin stofu.

Höfundur: Sigríður Elín Júlíusdóttir skrifað árið 1999



Flokkar:Líkaminn

%d