Erindi flutt af Steinþóri Sigurðssyni á haustfundi Heilsuhringsins 1997
Skipta má rannsóknum á seyði Ævars Jóhannessonar í þrennt: Í fyrsta lagi kannanir á líffræðilegri virkni þess, sem gerðar voru í Bandaríjkunum 1994. Um er að ræða staðlaðar mælingar, sem taka til ýmissa þátta, sem flestir tengjast áhrifum á krabbamein með einum eða öðrum hætti. Um var að ræða m.a. mælingar á áhrifum á boðkerfi frumunnar (prótein kínasa C og cAMP), áhrifum á stökkbreytingar, sérhæfingu fruma og frumueituráhrif.
Skemmst er frá að segja, að ekkert markvert kom fram í þessum rannsóknum; ekki mældist nein virkni sem leitað var eftir. Þá fór fram rannsókn hér á landi árið 1995. Prófessor Sigmundur Guðbjarnason var ábyrgðarmaður hennar, en Hjartavernd og Rannsóknarstofa í ónæmisfræði sáu um framkvæmdina. Hún fólst í því, að fólki, heilbrigðum einstaklingum með nokkuð hátt kólesteról, var gefið seyðið um nokkurn tíma. Viðmiðunarhópi var gefin lyfleysa (placebo), þ.e. annað jurtaseyði án virkni, svo vitað sé. Þátttakendur vissu ekki hvors kyns var.
Að ákveðnum tíma liðnum var svo skipt: þeir sem áður höfðu fengið seyðið fengu nú lyfleysuna, en þeir sem hana höfðu fengið fengu nú seyðið. Áður en meðferð hófst voru tekin blóðsýni, í lok hennar, og meðan á meðferð stóð, alls 10 sýni úr hverjum einstaklingi. Ýmsir blóðþættir voru kannaðir, s.s. blóðfita, blóðsykur og þvagsýra í blóði. Í flestum tilfellum var ekki um marktækan mun að ræða eftir því hvors seyðisins þátttakendur neyttu hverju sinni. Ein undantekning var þó frá því: hemóglóbín í blóði hækkaði hjá þeim sem tóku seyðið.
Einnig virðist rauðum blóðkornum fjölga, en munurinn var ekki marktækur. Einnig voru könnuð áhrif á ónæmiskerfið. Kannaður var fjöldi og samsetning eitilfruma, en þær eru stór þáttur í ónæmisvörnum líkamans. Þar sýndi sig, að hjá þeim einstaklingum sem höfðu lítið magn af ræstum T-drápsfrumum (þeir voru þó allir innan eðlilegra marka) jókst magnið talsvert á tímabilinu sem þeir tóku seyðið. T-drápsfrumur eru þær frumur ónæmiskerfisins sem m.a. bregðast með sértækum hætti við veirusýkingum og æxlismyndun af völdum veira. Í þriðja stað ber að telja þær rannsóknir sem greinarhöfundur hefur unnið að á Raunvísindastofnun undir stjórn Sigmundar Guðbjarnasonar.
Hans Björnsson læknanemi hefur einnig unnið við rannsóknirnar, og dr. Sigríður Jónsdóttir hefur séð um NMR-mælingar (til þess að bera kennsl á óþekkt efni) og túlkun þeirra. Rannsóknirnar á seyðinu hafa verið samofnar rannsóknum á virkni lækningajurta í íslenskri náttúru; lúpína þar með talin. Við byrjuðum á að koma okkur niður á fljótlega aðferð til þess að skima eftir líffræðilegri virkni. Aðferðin byggir á því, að ýmis konar líffræðileg virkni efna lýsir sér sem eiturvirkni, þegar virka efnið er í miklu magni.
Til þess að mæla slíka virkni náttúruefna, höfum við notað saltrækjulirfur, oftast talað um artemíur, af því tagi sem gæludýraverslanir selja sem fiskafóður. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt fram á góða samsvörun milli áhrifa efna á lirfur þessar og krabbameinsfrumur, og kann að hafa nokkuð að segja, að lirfurnar líkjast krabbameini að sumu leyti: frumur þeirra fjölga sér ört, og sérhæfast. Rækjurnar eru látnar klekjast út, og að því búnu eru þær settar í lausn sem inniheldur meira eða minna magn efnisins sem prófa skal, eða blöndu plöntuefna.
Eftir sólarhring er aðgætt hvernig þeim hefur reitt af: ef þær deyja, margar eða allar, er það haft til marks um að í sýninu sé eitthvað sem vert sé að skoða nánar. Þegar við reyndum prófið, byrjuðum við á því að gera sýni af margs konar plöntuefni. Plönturnar voru soðnar í ólíkum leysum, og einnig í vatni. Það kom fljótt á daginn, að prófið gaf skýr svör og ákveðin. Í flestum tilfellum var um enga mælanlega virkni að ræða, en í nokkrum tilfellum var virknin mikil. Við prófuðum seyðið fljótt, en þar var enga virkni að finna. Sem hefði kannski verið skrítið, í ljósi þess að það kom neikvætt út úr öllum prófunum í Bandaríkjunum.
Hins vegar voru geithvannarfræ og ætihvannarfræ, sem eru meðal helstu þátta seyðisins, meðal þeirra örfáu plöntusýna sem komu jákvætt út úr prófinu. Reyndar ekki bara fræin, heldur einnig blöð hvanna og rót. Það þyrfti kannski engan að undra. Það er ekki nóg með að ætihvönnin sé í hásæti meðal þeirra 80-100 lækningajurta sem hafa verið notaðar hér á landi: í Kína er talað um u.þ.b 1300 lækningajurtir, og er hvönn (kínahvönn, Angelica sinensis) þar gjarna sett í annað sæti, næst á eftir ginseng. Ætihvönn er virt og mikið rannsökuð lækningajurt, en geithvönn minna. Veldur því eflaust að hún stendur ætihvönn langt að baki í því sem mest er áberandi: hún er mun rýrari í ilmolíum, og því engan veginn eins ilmprúð og ætihvönnin.
Íslenskir grasalæknar hafa hins vegar lengi talið geithvönn gagnlegri lækningajurt en ætihvönn, sérstaklega þegar krabbamein er annars vegar. Annað sem athygli vakti, var að virkni var alltaf mest í þeim sýnum, sem fengust með því að sjóða í óskautuðustu, þ.e. fituleysanlegustu leysunum, s.s. hexani. En seyðið sem hér er til umfjöllunar, svo og flest náttúrulækningalyf, byggja á vatnslausnum. Efnasamsetning vatnsseyða er mjög frábrugðin seyðum af óskautuðum leysum.
Þá prófuðum við tvennt: annars vegar tókum við seyðið og hristum það saman við klóróform, en klóróform hentar afar vel til þess að leysa fituleysanleg eða óskautuð efni. Klóróform og vatn blandast ekki, en þau efni í seyðinu sem leysast betur í klóróformi en vatni, ef þau hafa nokkuð val, fara yfir í klóróform-fasann. Með þessu móti höfðum við nú óskautuðu eða fituleysanlegu efnin úr seyðinu í miklu meiri styrk en þau voru í upphaflega seyðinu. Eftir að hafa þurrkað burt klóróformið settum við þessi efni í artemíu-prófið.
Þar sýndu þau talsverða virkni. Þau reyndust af ýmsum efnaflokkum. Meðal þeirra sem við höfum borið kennsl á voru einkum kúmarín, en það er mikið af þeim í báðum hvannategundum, en einnig beiskjuefni, eða alkalóíð, en mikið er af þeim í lúpínu. Hins vegar prófuðum við að sjóða hvannarfræin ein sér í vatni, og prófuðum þau seyði í artemíuprófinu. Þau sýndu greinilega virkni, en ekki eins mikla og fituleysanlegu sýnin. Frekari kannanir á virku sýnunum úr hvönnum og seyðinu, gefa til kynna að virku efnin geti verið kúmarínefni, en þau eru þekkt að ýmis konar líffræðilegri virkni.
Hvannir, sérstaklega ætihvönn, eru einnig þekktar að ilmolíum; í íslenskri hvönn er t.d. mjög mikið límónín, en það er nú í klínískum rannsóknum sem krabbameinslyf. Rannsóknir okkar hafa hins vegar staðfest það sem vænta mátti, að í seyðinu er lítið sem ekkert af ilmolíum; það er soðið of lengi. Við frekari einangrun á virku efnunum, eða öllu heldur virkninni, því að það er hún sem við verðum að styðjast við í einangrunarferlinu meðan ekki er ljóst nákvæmlega um hvað er að ræða, má segja að beiskjuefni lúpínunnar hafi dottið úr leik.
Virknin lenti í einu sýni, beiskjuefnin í öðru. Hins vegar eru kúmarín mjög áberandi í virka sýninu, eftir því sem meira er einangrað. Um 30-40 ólík kúmarínefni eru í greinanlegu magni í seyðinu, nokkur eiga uppruna sinn í báðum hvannartegundum, sum aðeins í annarri. Samsetning kúmarína er allt önnur í seyðinu en í jurtunum, vegna ólíkrar vatnsleysni efnanna. Sex fúranókúmarínefni hafa verið greind í seyðinu og prófuð í artemíuprófi. Þau eru bergapten, psoralen, imperatorin, isoimperatorin, phellopterin og xanthotoxin.
Í seyðinu er mest af bergapten og xanthotoxin, og er það síðarnefnda langsamlega virkast í artemíuprófinu. Þau eru hins vegar öll þekkt sem virk efni í lækningajurtum, sjá mynd. Frekari rannsóknir á virkum efnum úr geithvönn, hafa leitt til einangrunar efnis sem er meira en 10 sinnum virkara en virkasta kúmarínefnið sem við höfum greint. Enn hefur ekki tekist að skera úr um efnafræðilega gerð þess, en þar sem það hefur verið einangrað í talsverðu magni er líklegtað það takist innan skamms. Ljóst virðist, að ekki sé um kúmarínefni að ræða, þótt það hegði sér svipað í einangrunarferlinu. Hvert svo sem efnið er, hefur verið sýnt fram á að mikið er af því í seyði Ævars Jóhannessonar.
Við höfum einnig notað annars konar próf til þess að meta líffræðilega virkni seyða af jurtum. Þar eru mæld áhrif á ónæmiskerfið, nánar tiltekið komplement-kerfið. Af ýmsum ástæðum höfðum við áhuga á að kanna hugsanleg ónæmisáhrif seyðisins. Þar má nefna rannsóknina hjá Rannsóknarstofu í ónæmisfræði, sem gaf til kynna örvandi áhrif á T-drápsfrumur. Þá má nefna, að meðal þess sem krabbameinssjúklingar sem taka seyðið greina frá, er betri líðan meðan á lyfja- eða geislameðferð stendur. En bæling ónæmiskerfisins er meðal alvarlegri aukaverkana af slíkri meðferð. Loks má nefna, að ef virkni seyðisins byggist einkum á ónæmisáhrifum, væri það í góðu samræmi við niðurstöður bandarísku rannsóknanna, því þær tóku ekki til þess konar virkni. Komplement-kerfið samanstendur af próteinum í blóðinu, sem eyða framandi frumum, bakteríum eða veirum.
Prófið er einfalt: plöntusýnið er hrært saman við blóðvökva, látið standa við líkamshita í hálftíma, og að því búnu er komplement-virknin mæld og borin saman við blóðvökva sem blandaður var vatni í stað sýnis. Þegar komplementvirknin hefur minnkað, gefur það til kynna áhrif sýnisins á komplement-kerfið. Það má reyndar túlka á tvo vegu, bælingu eða hindrun annars vegar – eitthvað í sýninu hreinlega komi í veg fyrir að komplement-ræsing geti átt sér stað, eða þvert á móti sem örvun: eitthvað í sýninu hafi hleypt virkninni af stað, og hún gengið til þurrðar.
Einnig í þessu tilfelli fengum við nokkuð skýrar niðurstöður þegar í upphafi. Seyði af lúpínurót og litunarmosa sýna mikla virkni, þ.e. lítið magn af seyði af þeim þarf til þess að kalla fram viðbragð. Aðrar jurtir sem við prófuðum, þ.á.m. hvannirnar, njóli og blóðberg sýna ekki virkni, nema mun meira magn sé notað af þeim. Tilraunir til þess að einangra virka þáttinn úr lúpínurót benda eindregið til þess, að þar sé um fjölsykru að ræða. Fjölsykrur í plöntum, þær sem ekki eru fyrst og fremst orkuforði, þ.e. sterkja, gegna fyrst og fremst hlutverki í frumuveggjum o.þ.h. Oftast reynist um fjölsykrur að ræða, þegar ónæmisvirkni af þessu tagi er lýst í plöntum.
Niðurstöður rannsókna á seyði Ævars Jóhannessonar eru því í stuttu máli þessar: neysla seyðisins veldur marktækri aukningu hemóglóbíns í blóði heilbrigðra einstaklinga og næstum marktækri fjölgun rauðra blóðkorna. Vísbendingar eru um fjölgun ræstra T-fruma, ef þær eru fáar þegar byrjað er að taka seyðið. Mælingar á frumueituráhrifum hafa leitt til einangrunar tveggja mjög virkra efna, sem bæði eru í umtalsverðu magni í seyðinu. Annað er úr ætihvönn og hitt úr geithvönn. Hið fyrrnefnda, xanthotoxin, hefur verið greint, og er vel þekkt úr lækningajurtum.
Hið síðarnefnda hefur enn ekki verið greint. Mælingar á ónæmisáhrifum benda til þess að í seyðinu séu ónæmisvirk efni, líklega fjölsykrur, sem eiga uppruna sinn í lúpínurót og litunarmosa. Smám saman hefur fjölgað vísbendingum um virkni seyðisins. Mjög margt er þó á huldu, t.d. hvort seyðið hefur öðru vísi áhrif á krabbameinssjúklinga en heilbrigða einstaklinga, hvort í seyðinu eru virkir þættir sem ekki mælast með þeim aðferðum sem beitt hefur verið, og hvort, og þá með hvaða hætti, virku efnin sem fundist hafa virka á fólk. Úr því fæst aðeins skorið með frekari rannsóknum.
Höf: Steinþór Sigurðsson
Flokkar:Annarra Skrif