Læknum bakverk

Umsögn um bókina Healing Back Pain
Á blaðsíðu 128 í bókinni Lækningarmáttur líkamans, eftir hinn þekkta ameríska lækni Andrew Weil segir frá manni sem læknaðist af slæmum bakverkjum og slapp við uppskurð, með því að fara að ráðum læknis í New York að nafni John Sarno. Dr. Sarno hefur skrifað bók um kenningar sínar sem eru þess efnis að bakverkur stafi oftast af afskiptasemi hugans af eðlilegri starfsemi tauga og blóðrásar í vöðvum. Hann kallar það „spennu-vöðvabólgu-einkenni“.

Hér fer á eftir umsögn Þorsteins Njálssonar læknis um bók dr. Sarnos. Bókin heitir Healing Back Pain, etir John E. Sarno, M.D.. Útg. Warner Books. Þorsteinn telur bókina mjög athyglisverða og segir: Dr Sarno er einn af þeim læknum sem hefur áttað sig á tengslum hugar og líkama og það sem meira er hann starfar eftir þeim hugmyndum, sem gera ráð fyrir þessum tengslum. Hann leggur fram þau rök í þessari bók sinni að verkir eins og bakverkir stafi af álagi eða spennu, undirmeðvitundin vinni síðan úr þessari spennu á þann máta að það koma fram stoðkerfisverkir hér og þar í líkamanum og þar á meðal í bakinu.

Hann fullyrðir að það eina sem einstaklingur með verki þurfi að gera sé að átta sig á samhenginu í hvert sinn og þá hverfi verkirnir. Hann segir það vera áberandi að einstaklingar sem séu dugandi og drífandi, sem standi sig vel og virðast alltaf ráða við flestar aðstæður fái svona stoðkerfisverki frekar en aðrir.

Fólkið sem stendur sig áberandi vel í lífinu. Þessir einstaklingar ráði svo vel við hlutina ef svo má segja að þeir setja áhyggjur, mótlæti, spennu til hliðar, síðan vinna þeir ekkert úr þessu og fara að fá alls konar stoðkerfisverki þegar fram í sækir og þar á meðal bakverki. Dr. Sarno leggur líka mikla áherslu á hlutverkaleik, sem við, sem einstaklingar leikum.

Það að fá í bakið leiðir til þess að ég þarf ekki að vinna, taka þátt í heimilisstörfum, taka ábyrgð á börnum og svo framvegis. Eða þá á annan hátt að þú átt að passa þig á að gera þetta og hitt ekki til að fá ekki í bakið, sem þýðir á annan máta að þú fáir í bakið við að brjóta reglurnar, skilyrðing. Þér er sagt að þú sért með slit í baki eða brjósklos, þú verður þá fyrst veikur, þá ,,veistu“ að þú þarft aðgerð, því allir fara í aðgerð.

Eða þú lendir í bílslysi og færð hálshnykk og þú ,,veist“ að flestir fá verki á eftir. Hann leggur mjög mikla áherslu á þessa skilyrðingu og eyðir miklum tíma í að útskýra hana og herða okkur upp í því að brjóta upp ,,reglurnar“ og læra að tala við okkur sjálf og hugann okkar og sjá hvað gerist. Dr. Sarno kallar stoðkerfiseinkennin sem hann er að útskýra hér TMS, eða tensio myositis syndrome, spennu-vöðva-einkenni, þar sem hann segir að truflun á blóðrás og taugaviðbrögðum í vöðva, sin eða festu, stafi af skilaboðum frá undirmeðvitundinni og þegar einstaklingur átti sig á því þá fari verkurinn.

Hann minnir okkur á að að það eru engin rök fyrir því vísindalega að slit í baki til dæmis hafi einhverja fylgni við verki í baki. Röntgenrannsóknir af baki hjá heilbrigðu fólki borið saman við bak hjá bakveikum hafi sýnt að það sé enginn munur á slitbreytingum né öðru sem við sjáum á þessum myndum. Með öðrum orðum þú þarft ekki að hafa bakverki þó þú sért með slit, brjósklos eða aðrar breytingar í baki. Slíkt skýrir ekki bakverki.

Brjósklos í baki finnst t.d. við tilviljun stundum þegar verið er að rannsaka einstaklinga vegna annarra orsaka. Dr. Sarno ráðleggur flestum að hlífa sér fyrst þegar verkurinn í bakinu sé sem verstur en fara að hreyfa sig eins mikið og hægt sé um leið og hægt sé. Hann ráðleggur öllum að hætta sjúkraþjálfun, hniki og öðrum bakmeðferðum og einbeita sér að því að lifa eðlilegu lífi og uppræta spennu, ótta, áhyggjur, gamlar eða nýjar, til að lækna sjálfan sig. Áhugaverð bók sem er þess virði fyrir okkur öll að lesa og íhuga.

Þorsteinn Njálsson læknir tók saman árið 1998Flokkar:Líkaminn

%d bloggers like this: