Hafið þið ekki oft leitt hugann að því hve einkennilegt það er að sumt fólk virðist ekki eldast neitt. Það er beinlínis alltaf eins. Hafið þið ekki líka tekið eftir því að sumir um sextugt líta út fyrir að vera fimmtugir eða jafnvel yngri. Aðrir eru þrjátíu og átta ára og líta út fyrir að vera fimmtugir. Hvað veldur? Stundum er þetta innan sömu fjölskyldunnar. Bræður eru fæddir með nokkurra ára millibili. Annar er alltaf unglegur en hinn virðist vera gamall frá unga aldri. Sérfræðingar rekja þetta núorðið að miklu leyti til hugarfarsins. Margar frægar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu. Ein þeirra sem vakti athygli mína var gerð á eftirfarandi hátt í Kaliforníu.
Fólk sem komið var á öldrunarheimili, og sumir rúmliggjandi, var fengið til að taka þátt í rann-sókninni. Fólkið var á aldrinum 75 ára til níræðs, af báðum kynjum. Rannsóknin stóð yfir í mánuð. Fengið var til umráða gamalt hótel sem átti að rífa. Það var lagfært og gert upp í sinni upprunalegu mynd frá 1930. Öll herbergi voru í þessum stíl, og ekki aðeins þjónustufólkið (rannsóknaraðilarnir) var klætt samkvæmt þeirri tísku, hárgreiðslu og förðun sem þá ríkti, heldur var matur og tónlist einnig í samræmi.
Hljómsveitir og hljómlistarmenn voru fengnir til að leika þau lög sem þá voru vinsælust. Dagblöðin voru frá þessu tímabili og auðvitað var ekkert sjón-varp. Fengnir voru leikarar sem lásu sögur fólkinu til gamans og það var dansað. Já dansað. Þeir ,,sjúklingar” sem höfðu verið rúmliggjandi höfðu eftir aðeins nokkra daga fengið svo mikla uppörvun frá umhverfinu að hugarfarið breyttist. Þeir hreinlega fóru framúr, stóðu upp úr hjóla-stólunum og hentu frá sér hækjunum. Fólkið hreinlega lifði sig inn í ungdóm sinn aftur. Með tónlistinni, umhverfinu og hugarfarinu. Það varð ungt í annað sinn. Að minnsta kosti í anda. Allt var þetta vegna breytts umhverfis. Allt hjálpaði til. Umhverfi okkar hefur mjög mikil áhrif á líðan okkar og afstöðu.
Nýjustu rannsóknir staðfesta það sem margir sérfræðingar hafa lengi vitað, að í heilbrigðu fólki minnkar hugsunarkraftur mjög lítið með aldrinum. Sumir einstaklingar eru mjög ernir fram yfir nírætt segir John Morris prófessor við Washington háskólann í St. Louis í Bandaríkjunum. Morris stóð fyrir könnun sem stóð yfir í 16 ár á 25 einstaklingum á aldrinum 75-95 ára. Þar gerði hann samanburð á heilastarfsemi þeirra sem höfðu Alzheimersjúkdóm og annarra sem viðhéldu skýrri hugsun. Niðurstaðan var þessi: Ef heilastarfsemin ruglast er það vegna veikinda en ekki öldrunar.
Staðreyndir sýna að einstaklingar geta tekið meiri ábyrgð á líkamlegri og andlegri heilsu sinni með því að lifa lífinu lifandi í frjóu umhverfi. Hver sá sem er tiltölulega hraustur getur aukið vellíðan sína og bætt heilsuna. Heilabúið er eins og hver annar vöðvi í líkamanum, það þarf að þjálfa hugann jafnt og aðra vöðva líkamans, annars skreppur hann hreinlega saman.
Dr. Marion Dimond við Kaliforníuháskóla gerði sérstaka rannsókn á rottum. Þeim var skipt í tvo hópa og þeir settir í sitt hvort hólfið. Rotturnar voru allar af sömu tegund. Í öðru hólfinu voru rotturnar látnar hafa það mjög náðugt, þær fengu matinn sinn alltaf á sama tíma og á sama stað í hólfinu. Þær lifðu í „vellystingum“. Þær voru alltaf í fríi og þurftu ekkert að hafa fyrir lífinu. Hinn hópurinn lifði við aðrar aðstæður. Rotturnar fengu matinn aldrei á sama tíma og þær þurftu að hafa fyrir því að finna hann. Þær þurftu að ýta á takka, fara í gegnum rör upp stiga eða upp á palla og þær þurftu að reyna á sig á hverjum degi að finna matinn sinn til að geta lifað. Síðan kannaði Dr. Marion heilabúið í rottunum sem lifðu í vellystingum og sá að það var mjög lítið, en í hinu sem voru á þönum að leita og finna sér viðurværi var heilabúið mun stærra. Til þess að kanna málið nánar hélt hún rannsókninni áfram og setti nú nokkrar af rottunum sem höfðu verið í fríi yfir í erfiðisvinnuna og þær sem höfðu verið í erfiðisvinnunni yfir í vellystingarnar. Rotturnar fengu nokkurn tíma til að aðlagast breyttu líferni.
Nú þurftu þær sem aldrei höfðu þurft að leita sér að mat að fara af stað í ætisleit og hinar sem vanar voru að vera á þönum þurftu nú ekki lengur að hafa fyrir lífinu. Að þessu loknu rannsakaði Dr. Marion heilabúið í rottunum og komst að raun um að heilinn í þeim sem höfðu verið færðar frá vellystingum í vinnu hafði stækkað, og hinum sem voru nú í fríi, hafði heilinn skroppið saman. Þó að við mannfólkið séum ekki með heilabú eins og rottur þá sýnir þessi rannsókn Dr. Marion fram á að heilabúið þarf að þjálfa. Skemmtileg rannsókn.
Önnur rannsókn sýnir að hluti heilans sér um minnið og á aldrinum milli tvítugs og sjötugs minnkar það aðeins um 10%. Okkur hefur verið talin trú um að við verðum gleymin með aldrinum og það þýði ekkert fyrir okkur að læra. Í New York Times er sagt frá rannsókn í grein um minnistap hjá fólki á aldrinum 60-90 ára.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að á þessum aldri taki það lengri tíma að muna og ráða fram úr flóknum vanda en krafturinn til þess að hugsa og minnið eru fyrir hendi. Einnig sýndi þessi rannsókn fram á að eldra fólk á auðveldara með að muna eftir andlitum. Eldra fólk notar aðra hluta heilans segir í rannsókninni.
Hugsið vel um heilsuna bæði andlega og líkamlega.Þjálfið ykkur líkamlega, farið í gönguferðir og andið að ykkur heilnæmu frísku lofti. Sund er líka gott.Borðið ekki mikla fitu eða hvítan sykur. Sykurinn veldur liðaverkjum og er sagður valda harðsperrum hjá ungu fólki. Borðið meira grænmeti, borðið hægt, tyggið miklu lengur og sitjið kyrr við matarborðið í þrjár mínútur eftir matinn. Takið ábyrgð og minnkið streitu í lífinu. Þegar við erum ábyrg og yfirveguð í lífinu, þegar við finnum jafnvægi hjálpum við heilabúinu að eldast betur. Verið innan um jákvætt fólk. Fólk sem þið hafið gaman að umgangast og haldið huganum uppteknum við eitthvað sem þið hafið áhuga á. Lesið góðar uppbyggjandi bækur, hlustið á uppbyggjandi þætti í útvarpi eða sjónvarpi, en veljið þættina eins og þegar þið veljið góða bók. Lítið á lífið sem lífstíðarlærdóm.
Höfundur:Fanný Jónmunddóttir leiðbeinandi árið 1997
Flokkar:Hugur og sál