Vísindin staðfesta lækningarmátt Lúpínuseyðisins

Raunvísindastofnun Háskóla Íslands hefur nú birt niðurstöður úr rannsóknum á lúpínuseyði því er Ævar Jóhannesson hefur árum saman gefið krabbameinssjúkum. Á undanförnum árum hafa leitað til hans á milli 4 og 5 þúsund manns og margir þeirra telja sig eiga lúpínuseyðinu betri heilsu að þakka og jafnvel líf að launa. Hér verður birtur úrdráttur úr viðtali við dr. Sigmund Guðbjarnarson prófessor, sem umsjón hefur með rannsóknunum. Það var flutt í Dægurmálaútvarpi Ríkisútvarpsins 2. apríl s.l. Sigmundur sagði að jurtir hefðu sennilega verið notaðar til lækninga frá upphafi Íslandsbyggðar. En vegna þess að rannsóknir hafi skort til að staðfesta virkni þeirra, hafi margir talið þetta hindurvitni. Þó að aðrir teldu sig finna áhrifin á sjálfum sér. Rannsóknir hafa þó verið gerðar hér á fjallagrösum af Kristínu Ingólfsdóttur. Hefur það leitt til þess að afurðir úr þeim eru komnar á markað. Í byrjun rannsókna á lúpínuseyðinu voru læknar fengnir til samstarfs. Fyrsti áfangi verkefnisins var unnin af Rannsóknarstofu Hjartaverndar og Rannsóknarstofu Háskólans í ónæmisfræði.

Rannsóknirnar voru framkvæmdar á heilbrigðum einstaklingum, sem Hjartavernd valdi. Það sýndi sig að hjá þeim er neyttu lúpínuseyðisins örvaðist beinmergurinn, en þar eru blóðfrumur og frumur ónæmiskerfisins framleiddar. Sýni úr sama fólki voru síðan athuguð hjá Rannsóknarstofu í ónæmisfræði. Þar kom á daginn að það voru ákveðnar tegundir af frumum, T drápsfrumum svokölluðum, sem jukust í þeim einstaklingum sem lítið höfðu af þessum frumum fyrir. Drápsfrumur eru mikilvægar fyrir varnir líkamans og í baráttunni við ýmis konar æxli. Þegar hér var komið sögu þótti Raunvísindastofnun ástæða til að kanna hvaða efni væru hér á ferðinni. Tveir ungir menn á Raunvísindastofnun hafa unnið verkið; Steinþór Sigurðsson, líffræðingur og Hans Tómas Björnsson, læknanemi. Leitað hefur verið að virkum efnum í fleiri íslenskum lækningajurtum en í lúpínuseyði. Segja má að við séum að ganga í skóla náttúrunnar og læra af plöntum hvaða efnavopn þær hafa þróað í baráttunni við veirur, sveppi, sýkla og skorkvikindi. Og hvernig við getum notað þessi efni í eigin þágu.

Þó að lyfjaiðnaðurinn hafi gert ýmsar rannsóknir hefur það lítið snert íslenskar jurtir. Við erum fyrst og fremst að leita að jurtum sem auðvelt er að rækta, til að hægt sé að framleiða heilsubótaefni og setja á markað. Fyrir þeim er ört vaxandi markaður í Bandaríkjunum, Japan og ekki síst í Evrópu. Ýmsar af þeim jurtum sem við höfum verið að skoða og eru auðræktanlegar hafa mjög virk efni. Við erum núna að skoða efni sem við teljum að geti heft æxlisvöxt, hugsanlega krabbamein. Virknina mælum við í saltrækjulirfum, en þær vaxa mjög hratt þegar þær klekjast út úr eggjum. Með því getum við mjög fljótt séð hvort efnin eru virk og hvort þau drepa þessar lirfur. Í kjölfar þessara athugana munum við væntanlega taka upp samstarf við Krabbameinsfélagið. Hinsvegar eru svo efni sem greinilega örva ónæmiskerfið. Það eru efni af allt öðrum toga, svokallaðar fjölsykrur. Fjölsykrur sem eru í lúpínurót valda marktækri ónæmissvörun og örva ónæmiskerfið. Slíkt höfum við ekki fundið í öðrum íslenskum lækningajurtum. Að lokum nefndi Sigmundur þá aðila sem styrkja þessar rannsóknir, en þeir eru: Rannsóknarráð, Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Nýsköpunarsjóður námsmanna.Flokkar:Annarra Skrif

%d bloggers like this: