Rafmagnað líf

Vor 1997
Hægt og bítandi færumst við nær sannleikanum um rafsegulóþol, orsök og afleiðingar. Við skulum hafa það hugfast að þegar talað er um rafsegulsvið er verið að tala um riðstraumsrafsegulsvið. Það þýðir að segulsviðið skiptir um stefnu oft á sekúndu. Til dæmis skiptir 50 riða bylgja (húsarafmagn) um segulpólun fimmtíu sinnum á sekúndu. Yfirleitt er talið að stöðugt segulsvið sé ekki hættulegt, t.d. segulsvið jarðar. Per-Arne Öckerman prófessor og yfirlæknir lyflækningadeildar við háskólann í Lundi ásamt prófessor Christer Tageson hafa fundið aðferð til að mæla skaða af völdum rafsegulsviðs hjá sjúklingum með rafsegulóþol.

Mælingin byggist á greiningu á þvagi og saur. Þeir segja að greinilega megi merkja að frumur sjúklinga með rafsegulóþol skaddist, bæði himnan og DNA kjarninn. Gerðar voru tilraunir með sextán einstaklinga sem greinst hafa með rafsegulóþol. Ljóst var að áhrifa frá rafsegulsviði gætti í upp undir tíu daga eftir að viðkomandi einstaklingar voru settir í rafsegulsvið, svipað og gerist á vinnustöðum. Engin viðbrögð voru finnanleg hjá viðmiðunarhópnum. Engin skýring hefur fundist, en sennilegasta kenningin er sú að um sé að ræða sinduráhrif stakrafeinda sem valda súrefnisskorti í frumunum með ofangreindum áhrifum.

Við rannsóknir á sjúklingum með rafsegulóþol hefur jafnframt komið í ljós greinileg svörun í ónæmiskerfinu gagnvart rafsegulsviði. Vaknað hafa grunsemdir um að orsök rafsegulóþols sé hægt að rekja til eldvarnarefna í plasti. Talið er að lítið magn geti losnað úr plastinu meðan það er nýtt, eins og t.d. úr tölvum. Kassi tölvuskjáa er oftast úr plasti og rafeindakubbar eru úr epoxy sem inniheldur svipuð efni. Hér beinast augu manna aðallega að efninu TBBA (Tetra Bromid bis-phenol A) en einnig efni eins og PBDE sem líkist mjög efninu PCB. Öll þessi efni eru baneitruð. Í líkamanum brotna þau mjög hægt niður og safnast þau upp í fituvefjum. Þessi efni hafa fundist í blóði einstaklinga með rafsegulóþol.

Rannsóknir dr. Olle Johansson aðstoðarprófessors í Neuroscience í Karolinska Institutet í Stokkhólmi á rafsegulóþoli eru einnig athyglisverðar.  Hann og samstarfsmenn hans hafa rannsakað efri lög húðarinnar á 15 einstaklingum með rafsegulóþol. Hann segir að mjög líklegt sé að rafsegulóþol sé staðreynd. Viðteknar skoðanir segja að rafsvið (ekki rafsegulsvið) nái ekki nægjanlega langt inn í húðina til að geta valdið skaða. Dr. Johansson hefur komist að því að taugaendar liggja 20 – 40 micron undir yfirborði húðarinnar, sem er nær yfirborðinu en áður hefur verið talið. Þar sé hugsanlega komin leið fyrir rafgeislun inn í líkamann.

Rafsegulsvið
Þrjár rannsóknir í Ameríku slá því föstu að samband sé á milli rafsegulsviðs og krabbameins. EPRI í Bandaríkjunum hefur látið fara fram yfir 29 rannsóknir í atvinnugreinum tengdum rafmagni og hefur sú athugun leitt í ljós samband – þó lítið sé – milli krabbameins og rafsegulsviðs. Nefna þeir að um 20% meiri hætta sé á að fá krabbamein ef rafsegulsvið er  umhverfinu. Niðurstöður þessar voru birtar í tímaritinu Journal of Occupational and Environmental Medicine.

Ekki sýndist vera beint samhengi á milli styrkleika rafsegulsviðs og tíðni krabbameina. Verið er að rannsaka í Svíþjóð hvort hitakassar fyrir nýbura séu hugsanlega hættulegir. Þráfaldlega hefur komið fram svörun á barnahvítblæði og búsetu við raflínur og því ástæða til að huga nánar að umhverfi nýbura. Töluvert mikið rafsegulsvið mælist í hitakössum, aðallega vegna blástursmótora og rafmagnstækja tengdum þeim.

Örbylgjur frá farsímum
Sífellt ber meira á umræðu um hættur af völdum farsíma. Þá er verið að tala um farsíma sem hafa loftnetið í tólinu sjálfu. Þar er helst að nefna GSM síma. Mikið hefur heyrst af kvörtunum vegna notkunar þessara síma. Þeim hefur verið kennt um vanlíðan í höfði, augum og lélegt skammtímaminni.

Spurningin er:
Er þetta bara vanlíðan eða er meiri hætta á ferðum en við gerum okkur grein fyrir?

Rannsóknir gerðar á rottum sýna að örbylgjur geta rofið hlekki í DNA sameindum. Amerískar og indverskar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta. Dr. Henry Lai og dr. Narendra Singh í háskólanum í Washington, Seattle, rannsökuðu áhrif örbylgna á rottur. Tilraunin fór fram með því móti að rottur voru settar í örbylgjusvið á tíðninni 2,4 GHz, sem er nákvæmlega sama tíðni og flestir örbylgjuofnar hafa.

Tilraunadýrið var haft í örbylgjugeisla í tvo tíma og var styrkleikinn 2mW/cm2 (tveir þúsundustu úr watti) sem er innan viðurkenndra hættumarka. (samsvarar 1,2 W/kg SAR eða specific absorbtion rate). Niðurstaðan var sú að þessi styrkleiki dugði til að orsaka skemmd á DNA sameind. Önnur rannsókn var gerð af dr. Soma Sarkar í Institute of Nuclear Medicine and Allied Sciences í Nýju Delhí á Indlandi. Hún var samhljóma fyrri rannsókninni og hafa þessir vísindamenn ályktað að breyta verði stöðlum fyrir hámarks leyfilega geislun örbylgna vegna hugsanlegra stökkbreytinga á DNA sameindum.

Slík breyting gæti haft í för með sér myndun æxlis, jafnvel illkynja. Það vekur óhug þessara vísindamanna að GSM símar gefa frá sér sterkar púlsaðar örbylgjur á tíðninni rétt undir 1 GHz. Dr. Niels Kuster hjá tæknirannsóknarstofnun Svissneska ríkisins í Zurich greindi frá rannsókn á farsímum árið 1994. Við verstu skilyrði mælir dr. Kuster rafgleypni (SAR) 5,3 W/kg sem er töluvert meira en tilgreint hámark. Það hefur umtalsverð áhrif hvernig haldið er á símanum, hvernig loftnetið hallar og hversu fast símanum er þrýst upp að eyranu. Það er nú viðurkennt að höfuð fullorðins karlmanns drekkur í sig upp undir helminginn af útsendri orku GSM farsíma.

Ennfremur að höfuð barna og kvenna drekka í sig meira og ganga bylgjurnar lengra inn í höfuðið. Það er rétt að geta þess að þessar rannsóknir miða við 0,6W sendiorku, en farsímar á Íslandi eru með 2W sendiorku eða rúmlega þrisvar sinnum sterkari. Nýjar staðaltillögur frá EC (European Commission) og CENELEC segja að hámarks geislun fyrir almenning eigi að vera 0,08W/kg (SAR). Opinberar tölur frá EC samþykkja 3,4W/kg hámark fyrir GSM farsíma á 900MHz sem er 42 sinnum hærri en hinar nýju tillögur um 0,08W/kg.

Lengi hefur verið vitað að örbylgjur geta haft óæskileg áhrif á líkamann. Til dæmis er vitað að örbylgjur geta orsakað sérstaka tegund gláku. Sú kenning hefur heyrst að feður, sem vinna við kröftuga örbylgjugeislun t.d. frá radar, eiga meira en aðrir á hættu að eignast börn með Down’s Syndrome sjúkdóm. Örbylgjur geta jafnframt eyðilagt einangrandi lag utan um taugar og orsakað veiki sem líkist heila- og mænusiggi, M.S. Önnur áhrif sem farsímar hafa og þá sérstaklega GSM símar eru að trufla önnur rafeindatæki. Snemma lék grunur á að farsímar trufluðu sérhæfðan rafeindabúnað sjúkrahúsa með hættulegum afleiðingum.

Sögur hafa gengið um truflanir eftirlitstækja á gjörgæsludeildum og tæki eins og rafeindastýrðir hjólastólar hafa fengið sjálfstæðan vilja. Nokkrir spítalar erlendis hafa bannað notkun farsíma nálægt gjörgæsludeildum. Einnig hafa sjónvarpsstöðvar bannað þá vegna truflanahættu. Einnig er mjög varasamt fyrir fólk með hjartagangráð að nota GSM síma, því að þeir geta truflað gangráðinn. Það vandamál hefur hinsvegar tekist að leysa. Rétt er að benda á – af gefnu tilefni: forðist að hafa GSM síma nálægt ungviði.

Leki
Nefnd sem skipuð var til að fjalla um rannsóknir á hættum vegna rafsegulsviðs NCRP (National Council on Radiation Protection) mun vera með skýrslu í burðarliðnum sem boðar byltingu. Í skýrslunni er mælt með miklum breytingum á stöðlum til lækkunar á raf- og rafsegulsviði í umhverfinu. Þar segir að í skólum og leikskólum barna eigi strax að setja mörkin við 200 nT (2 mG).

Hús eigi ekki að byggja það nálægt háspennulínum að rafsegulsvið geti orðið hærra en 200 nT nema að hámarki í tvo tíma. Jafnframt að rafsvið sé ekki hærra en 10V/m. Þessar breytingar eiga að gerast á tíu árum. Nefndarformaðurinn, prófessor Ross Adey, á Veterans Administration Hospital í Loma Linda, Kaliforníu lét hafa eftir sér að nú séu komnar svo kröftugar sannanir fyrir því að langtíma áhrif af rafsegulsviði á lágum styrk geti haft áhrif á heilsuna, að ekki sé hægt að horfa fram hjá því. Það á hinsvegar eftir að koma í ljós hvort þessar tillögur verða lagðar fram opinberlega, en það er víst að það hefði gríðarlegan kostnað í för með sér. Ef setja ætti svipaðar reglur hér á landi þyrfti annaðhvort að minnka leikskólalóðir og girða af húshluta eða rafmagnsveitur þyrftu að færa jarðkapla og þá má spyrja: Hvert?

Að ýmsu er að hyggja
Útreikningar á eigin tíðni stálteina í brjóstahöldum sýna að þeir geta virkað sem móttakarar fyrir tíðnisvið allt frá nokkur hundruð Hz og upp í 3 GHz. Það tíðnisvið spannar t.d. farsíma, tölvuskjái, örbylgjuofna og flestar sjónvarpsog útvarpsstöðvar. Anne Silk, opthalmologist hefur stundað rannsóknir á hættum af völdum rafsegulsviðs. Hún heldur því fram að þarna geti hugsanlega verið hlekkur sem skýrir fjölda krabbameina í brjóstum kvenna. Rannsóknir í Noregi hafa t.d. sýnt að konur sem vinna við radíósendingar (telegrafister) eiga tvöfalt meira á hættu að fá krabbamein í brjóst en konur í öðrum starfsstéttum.

Spænskur nærfataframleiðandi „Intima Cherry“ hefur kynnt nýja tegund brjóstahalda og nærbuxna sem er framleitt úr efni sem kallast Nega-Stat og fullyrða þeir að það efni eyði rafsegulsviði og minnki þannig streituáhrif rafbylgna og minnki hættu á brjóstakrabba. Skemmtilegri kenningu hefur verið varpað fram um tölvu og sjónvarpsfíkn. Hún er sú að viðvera við sjónvarp hafi áhrif á hormónaframleiðslu líkamans. Þannig geti myndast dauft líkamleg samband við sjónvarpskjá og jafnvel fíkn. Rannsóknir hafa beinst að morfínefnum líkamans. Ekki kemur fram hvort um er að  ræða plús-jóna áhrif eða rafbylgjur. En eitt er víst, þetta gæti skýrt hversvegna léleg sjónvarpsdagskrá fer illa í skapið á mörgum. Í stað þess að slökkva og lesa góða bók er setið við skjáinn í fýlu og bölvað.

Umræðan
Erlendis er mikið rætt um áhrif rafsegulsviðs og þá sérstaklega vanda þeirra sem þola illa að vera nálægt slíku sviði. Rannsóknir sem hafa verið gerðar eru misvísandi. Stundum kemur fram greinilegt samband t.d. milli barnahvítblæðis og búsetu í nágrenni við háspennulínur og stundum ekki. Hvað veldur þessari misvísun er ekki vitað. Hinsvegar eru rannsóknir misvandaðar og sýnist stundum eins og hagsmunir geti ráðið niðurstöðu. Nýlega voru birtar niðurstöður finnskrar faraldsfræðirannsóknar sem er ein hin umfangsmesta sinnar tegundar sem gerð hefur verið. Hún átti að sýna það í eitt skipti fyrir öll að ekkert samhengi væri milli krabbameins og búsetu í nálægð við háspennulínur.

Fjölmiðlar höfðu mikinn áhuga á þessu enda hafa þeir eingöngu áhuga á annarri hlið þessara mála. Þegar forsendur þessarar rannsóknar eru skoðaðar kemur í ljós að miðað var við búsetu í allt að 500 metra fjarlægð frá háspennulínu. Hingað til hefur verið álitið að neðstu mörk hugsanlegrar hættu af völdum rafsegulsviðs sé um 2 mG. Styrkleiki umfram þetta er yfirleitt horfinn í 200 metra fjarlægð frá raflínum og allir utan hans teljast því ekki vera í áhættuhópi. Það virðist því vísvitandi verið að minnka hugsanlega svörun við sjúkdómum á borð við hvítblæði. Þó að svörunin hafi hingað til verið dauf, réttlætir það ekki að horft sé fram hjá henni. Þessi rannsókn var styrkt af tveimur raforkuframleiðendum.

Hér á landi virðist umræðunni um rafmengun vísvitandi verið haldið á lágu plani. Umræðan einkennist af fáfræði og stundum bulli sem hræðir almenning upp úr skónum. Fjölmiðlar hér virðast hafa meiri áhuga á bullinu en vitrænni umræðu. Þó brá svo við að Rafiðnaðarsamband Íslands reið á vaðið og birti merkilega grein í desemberhefti Rafiðnaðarblaðsins 1996 þar sem m.a. var skýrt frá efninu CD45 í frumum sem virkar eins og móttakari fyrir rafsegulsvið. Fyrir einum þremur árum skilaði nefnd á vegum sænska rafmagnseftirlitsins skýrslu og áliti um hættur vegna tengsla barnahvítblæðis við búsetu við háspennulínur. Þeir mæltu með ákveðnum ráðstöfunum vegna þessa.

Vegna áhuga míns á þessum málum fannst mér ástæða til að taka þetta alvarlega. Hafði ég samband við ónefnt morgunblað og talaði þar við einn fréttastjórann. Ég sagði honum frá þessari skýrslu og innihaldi hennar í stórum dráttum. Hann sýndi þessu áhuga og bað um að fá að hugsa málið. Tveimur dögum seinna birtist frétt á baksíðu sama blaðs með fyrrisögninni: „Rafsegulsvið hættulaust“. Þar var ekki minnst einu orði á rannsóknir, heldur gagnrýnislaust lapið upp eftir forsvarsmönnum rafmagnsveitna að rafsegulsvið væri með öllu hættulaust. – Púnktur og basta.

Fréttir sem fólk fær af þessum málum eru í formi kjaftasagna, oftast tröllasögur og ekki er óalgengt að heyra að rafsegulsviði hafi verið eytt með því að setja upp eitthvern hlut eins og stein eða grafa víravirki í blómapott. Rétt skal vera rétt, hlutir eins og víravirki, steinar eða hvað það nú er hafa engin áhrif á rafsegulsvið eða rafsvið til eða frá. Svo er einnig með margt annað sem notað er í sama tilgangi. Fjölmiðlar bera nokkra ábyrgð á þessu. Þeir þegja þunnu hljóði þegar það hentar ekki hagsmunaaðilum að vakin sé athygli á þessum málum. Vonandi kemst umræðan á hærra plan þannig að hægt verði að taka á þessu með skynsemi og í samráði við yfirvöld. Það er súrt fyrir fólk sem þjáist jafnvel af völdum rafmagnsáhrifa að þurfa að lifa í fáfræði. Einn kunningi minn segir oft: Það er betra að kveikja á einu kerti en að bölva myrkrinu.

Höfundur er rafeindavirkjameistari og áhugamaður um hollustu og umhverfismál. Valdemar Gísli Valdemarsson Netfang: vgv@isholf.is



Flokkar:Rafmagn, Umhverfið

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: