Heildrænar lækningar

Í nóvember árið 1996 tók greinarhöfundur þátt í námskeiði hjá spænska lækninum Irene Del Olmo og indverska heilaranum og matargerðarmanninum Mark Mahindra, sem voru hér á landi með námskeið á vegum ferðaskrifstofunnar Suðurgarðs og Gesthúsa á Selfossi. Irene Del Olmo útskrifaðist sem læknir frá Universidad Autonoma de Madrid árið 1980, en er nú skólastjóri Clinica Quies of Stress Reduction í Madrid.

Heilsuhringur Erena, Mark_NEW_0002

Irene segist hafa orðið mjög vonsvikin þegar hún komst að því hve úrræði almennra lækninga gegn sjúkdómum voru fá og þess í stað mikið lagt upp úr rannsóknum. Á námsárum hennar á Spáni var t.d. aðallega notaður kortisón hormón gegn húðsjúkdómum, sama hver niðurstaða rannsóknanna var. Hún spurði sjálfa sig hvers vegna verið væri að eyða öllum þessum tíma í rannsóknir ef ekki væri hægt að lækna sjúkdóma, heldur aðeins halda þeim niðri.

Eftir það hóf hún leit að áhrifaríkri læknismeðferð, sem gæti læknað sem flesta sjúkdóma í stað þess að eyða tíma í allar þessar sjúkdómsgreiningar. Samhliða læknisnáminu lærði hún einnig nálastungulækningar, jurtalækningar og indverskar smáskammtalækningar (homeopathy). Irene hefur að baki fjölbreytt nám í austurlenskum fræðum þ.á.m. tíbetskum lækningum, sem hún lærði í Nepal og á Ítalíu. Einnig má nefna öndunartækni, slökun, hugrækt, ayurvedafræði, geðleik (psychodrama), Gurdjieff dansa o.fl.

Smáskammtalækningar (hómópatalækningar)

Með árunum hefur álit Irene á máskammtalækningum sífellt aukist og eru þær nú stór þáttur í lækningum hennar. Slíkar lækningar taka mið af mannverunni í heild sinni, tilfinningum, huga, líkama, umhverfi, lifnaðarháttum og bæta þannig bæði líkama og sál. Smáskammtalækningar hafa verið kenndar á Spáni í árafjölda og má kannski þakka þeim að lækningar þar eru að verða mannlegri en áður var. Sífellt fleiri læknar byrja nú meðferð sína á því að spyrja sjúklingana að því hvað hafi komið fyrir þá síðustu mánuði fyrir veikindin, t.d. hvort þeir hafi orðið fyrir andlegu áfalli og hvernig þeir lifi lífinu. Á Spáni er greiður aðgangur að öllum náttúrulyfjum. Smáskammtalyf eru framleidd þar, en eru þó að mestu flutt inn frá Þýskalandi og Frakklandi.

Streita orsakar sjúkdóma

Á 16 ára starfsferli sínum sem læknir hefur hún komist að því að streita er orsök margra sjúkdóma. Vestræn vísindi eru nú farin að viðurkenna samtengingu líkama og sálar. Þau verða æ meira sammála gömlum spekingum og andlegum meisturum um það að streita hafi mikil áhrif á gerðir okkar og andlegt heilsufar. Ekki sé nóg að hugsa eingöngu vel um líkamann vegna þess hve streita, tilfinningar og andleg mál breyti miklu um ástand hans. Streita er náttúruleg og stundum nauðsynleg til að komast af í lífinu, þar gildir sama um dýr og menn. Þegar staðið er frammi fyrir hættu er það streitan sem gefur þor til að takast á við hættuna eða kraft til að flýja. Hún er eðlilegt viðbragð bæði hjá mönnum og dýrum og hana má ekki hindra.

Ef slíkt er gert veldur það spennu sem hefur áhrif á líkamann fyrr eða síðar og getur komið fram í ýmsu eins og spenntum vöðvum, höfuðverk, háum blóðþrýstingi og jafnvel hjartaáfalli. Spenna og streita trufla andardráttinn og sé ekki tekist á við slíkt ferli endar það með því að hraður andardráttur verður viðvarandi og heldur spennunni við. Ástæðan fyrir spennu er sú að mannveran vill berjast, en í siðmenntuðu þjóðfélagi á slíkt ekki við. Vegna kurteisi gerum við það ekki og í stað þess að flýja reynum við að takast á við vandamálin án, þess að kunna það.

Öndunin er undirstaðan

Öndunin hefur afar mikið að segja um líðan okkar og er því stór þáttur í allri slökun. Besta aðferðin til að losa um spennu er að læra að anda á réttan hátt, það er undirstöðuatriði. Tilfinningar og hugsanir hafa áhrif á andardráttinn. Ef við verðum hrædd höldum við niðri í okkur andanum og við getum orðið móð af reiði svo eitthvað sé nefnt. Til þess að ná góðu valdi á slökun þarf að losa um andardráttinn og læra að anda eðlilega. Við þurfum að læra að takast á við aðstæður sem valda okkur ótta og nota hugsunina, þannig að við hættum að líta á þær sem hótanir. Við verðum að læra að vinna úr tilfinningum okkar, hætta að bæla þær niður og afneita þeim. Í stað þess verðum við að gangast við því að við höfum tilfinningar sem stjórna okkur meira eða minna og læra að fást við þær og segja frá þeim. Margir eru hræddir við að láta tilfinningar sínar í ljós, þeir halda jafnvel að á þá verði litið sem hræðilegt fólk og að það sé kurteisi að leyna þeim. Til að losa um spennu er oft nauðsynlegt að tjá sig um tilfinningar sínar og segja frá þeim.

Líkaminn er ekki heimskur

Enginn er eins þolinmóður við okkur og líkaminn. Hann er sannarlega okkar besti vinur, musteri sálar okkar og tekst á við taugatrekkjandi aðstæður hvernig sem hann er á sig kominn og fer með okkur hvert sem við viljum, hvenær sem við viljum. Ef við líkjum líkamanum við bíl, hvað haldið þið þá að bíllinn væri oft búinn að stoppa vegna eldsneytisskorts eða bila vegna viðhaldsleysis, með sömu umönnun og líkami okkar fær? Eða þekkið þið kannski ekki dæmi þess að hunsa þarfir líkamans um næringu og segja bara bíddu, bíddu ég ætla að klára þetta áður en þú færð eitthvað. Bíllinn stoppar sé hann eldsneytislaus, en líkaminn heldur áfram jafnvel þó að sett sé á hann rangt eldsneyti. Hann getur gengið áfram þó hann sé veikur t.d. með flensu eða skemmd líffæri. Við verðum að hlusta á líkamann, hann færir okkur mörg nauðsynleg skilaboð. Ef við gerum það ekki og hugsum illa um hann, hefnist okkur í sjúkdómum. „Líkaminn er þolinmóður en hann er ekki heimskur.“

Að koma jafnvægi á heilahvelin

Vinstri hluti heilans stjórnar hjá flestum tækni, málakunnáttu og reikningi, þ.e. rökhugsun. Hægri hlutinn ræður meiru um tilfinningar og hvernig við skynjum umhverfið og veröldina. Algengt er að annað heilahvelið sé meira ráðandi, en það getur valdið bæði andlegum og líkamlegum vanda. Mjög gott er að hafa hæfni til að nota bæði heilahvelin jafnt. Á námskeiðinu var bent á nokkur ráð til að auka jafnvægi heilahvelanna t.d. mjög einfaldar fingrahreyfingar; vísifingrunum er beint hvorum gegn öðrum, síðan er öðrum snúið réttsælis en hinum samtímis rangsælis. Dr. Doman, læknir einn í Fíladelfíu hefur notað sérstaka skriðæfingu í sama tilgangi.

Hann hefur náð miklum árangri hjá heilasködduðum börnum. Irene sagðist sjálf hafa fylgst með einu slíku dæmi. Sonur vinahjóna hennar varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu. Í fyrstu var haldið að hann yrði ekki eins og önnur börn, vegna þess að þriggja ára hljóðaði hann og æpti í stað þess að tala og hafði mjög truflaðar hreyfingar. Þá kynntust foreldrar hans kenningum dr. Domans og faðirinn tók sér ársleyfi frá störfum til að einbeita sér að þjálfun barnsins, sem fólst mest í því að skríða frá morgni til kvölds, 10 kílómetra á dag, ásamt fleiri æfingum.

Nú er þetta barn orðið sjö ára, hraust og eðlilegt og komið í skóla með eðlilega námsgetu. Að skríða á fjórum fótum er gott fyrir lítil börn, en „hermanna skriðæfing“ er árangursríkari fyrir þá sem eldri eru. Slíkar æfingar hafa hjálpað fólki eftir heilablóðfall, slys og heilaskemmdir, stundum með undraverðum árangri. Það hefur dr. Doman sannað á meðferðarstofnun sinni í Fíladelfíu. Það sem átt er við með hermannaskriði er að skriðið er á maganum og líkaminn dreginn áfram. Gæta verður þess í skriðinu að krosshreyfing verði á útlimum. Hægri hönd og vinstri fótur, vinstri hönd og hægri fótur. Gagn er einnig að gera skriðæfingu liggjandi á bakinu og bæta þá við höfuðhreyfingu með því að horfa á eftir þeirri hönd sem lyft er upp.

Dans losar um spennu

Í byrjun aldarinnar var Rússi að nafni Gurdjieff búsettur í Bandaríkjunum. Hann kynnti sér dansa ólíkra menningarhópa og komst að því að í slíkum danshreyfingum fólst mikill lækningarmáttur. Gurdjieff þróaði síðan sína eigin dansa, sem eru vegna fjölbreytileika síns og áhrifa á hin flóknustu vandamál víða notaðir í hinum ýmsu mannræktarmeðferðum. Þeir gefa mikla slökun, auka jafnvægi heilahvela og reynast vel við ýmsa tilfinningavinnu, sem Gurdjieff lagði mikla áherslu á í sínu starfi. Hann sagði tilfinningar, huga og líkama vera eina heild og líkti þessari þrenningu við hest, kerru og ekil. Kerran væri líkaminn, hesturinn tilfinningarnar og ekillinn hugurinn, sem stjórnaði öllum þremur þáttunum. Gurdjieff-dansar eru kjörnir til að losa um spennu því að vissar hreyfingar í þeim hjálpa til að losa um innibyrgðar tilfinningar. Afrískir dansar eru mjög einfaldir og líkja einkum eftir vinnuhreyfingum fólksins. Þeir byrja með lítilli fíngerðri hreyfingu sem þróast upp í að verða ýktari og ýktari, hreyfingarnar velur hver fyrir sig og gerir eftir eigin tilfinningu. Slík getur verið fjarskalega spennulosandi og ákjósanlegt slökunarform sé, hægt að koma því við. Munnleg tjáning er líka mjög þörf og oft nauðsynleg til að slökun náist. Hægt er að losa um spennu með því að ryðja úr sér orðum um reiði, vonbrigði, sorg eða hverju því sem íþyngir.

Nauðsynlegt að kunna að segja nei

Það er mikils virði að kunna að segja nei, svo að við söfnum ekki upp gremju og reiði sem hindrar eðlilegt orkuflæði. Orkan er í rauninni bara ein og þegar við þorum ekki að segja nei erum við að þvinga orkuna og þá er engin orka til að skapa. Ef við erum ekki megnug þess að segja nei höfum við ekki heldur orku til að segja já. Oft er ástæðan sprottin úr uppeldi okkar. Það er látlaust verið að kenna okkur að þóknast öðrum og vera kurteis við óviðkomandi. Bein afleiðing af þessari fáguðu framkomu sem við neyðum okkur til að sýna útávið verður stundum sú að slæma hliðin snýr að okkar nánustu sem okkur þykir vænst um og viljum síst særa. Þó að mjög góð streitueyðandi aðferð snúist um það að vera góður við sjálfan sig og geri mikið gagn ef hún er skemmtileg, er það nauðsynlegt og slakandi að geta tjáð sig um þann kærleika sem okkur býr í brjósti.

Til að kenna að segja nei, voru notaðar hreyfingar og tónlist og fólki sagt að þylja upp og tauta fyrir munni sér þá hluti sem það vildi neita. Tekið var fram að oft væri þörf á að neita aðstæðum eða ástandi í lífinu, ekki síður en að geta sagt nei við fólk. Það var lögð áhersla á að nauðsyn væri, að gera það að jákvæðri aðgerð að segja nei, því að sumir þyrftu að fyllast reiði til að geta sagt það og upplifðu því alltaf nei sem neikvæða aðgerð. Slíka afstöðu þyrfti að uppræta því að reiði væri spennuaukandi og orkueyðandi tilfinning. Það gefur fólki kraft og styrk að geta sagt nei, ekki einungis við fólk heldur einnig við aðstæðum sem eru okkur til ama.

Teygja innanfrá

Irene sagðist hafa komist að því að margir Íslendingar þjáðust af vöðvaverkjum. Í slíkum vanda reyndust teygjuæfingar oft vel, en teygjur yrði að gera af varfærni og mýkt, ættu þær ekki að gera illt verra. Verki í herðum mætti lina með því að teygja handleggi innanfrá; fyrst er andað djúpt inn nokkrum sinnum og slakað á, síðan er handleggjum haldið beinum útfrá herðum og hugsað að þeir lengist í það óendanlega. Einnig má nota einfaldar slökunaræfingar, en Irene sagði að margir sjúklinga sinna segðu í byrjun; „ég get ekki slakað á, sérstaklega ekki á þessum vöðva, hann er svo stífur og veldur mér svo miklum þjáningum.“ Það kæmi svo á daginn að viðkomandi gæti kreppt umræddan vöðva saman þegar hann væri beðinn um það. Ef haldið væri áfram og sagt; „geturðu aðeins meira?“ já, þá gæti hann það. Þegar hann svo sleppti átakinu slaknaði á vöðvanum og hann kæmist að því að það væri algjör misskilningur að hann gæti ekki slakað á, allir gætu lært að slaka á, meira að segja með lítilli fyrirhöfn.

Heilun


Heilsuhringur Erena, Mark_NEW

Mark Mahindra kenndi heilun og sagði m.a. að allir hefðu heilunarorku, sumir gætu meira að segja séð hana, hún væri nefnd ára. Hann kvað vanan heilara og næma einstaklinga geta fundið orkusvið fólks, t.d. væri hægt að finna muninn á orku heilbrigðra og vanheilla svæða líkamans. Hlutverk heilarans er að leiða alheimsorkuna í gegnum sig, en í reynd væri það ekki á valdi eins né neins að lækna annan. Heilara má líkja við útvarp með móttakara og sendi, það fer svo eftir persónunni sem á að heila, hvort hún vill og getur tekið við þessari orku og læknað sig sjálf. Misjafnar aðferðir eru notaðar við heilun en tilgangurinn er alltaf sá sami; að framkalla vellíðan.

Ef við lærum að nýta okkur orkuna og náum lagi á að veita henni á orkulitla staði líkamans getum við lært að lækna okkur sjálf. Þegar við þörfnumst hjálpar leitum við til vina, en gleymum því að besti ráðgjafinn og læknirinn erum við sjálf. Gerðar hafa verið vísindalegar rannsóknir á tveimur sjúkrahúsum um hvort snerting og faðmlög hefðu áhrif á bata barna. Niðurstöður voru þær að þeim börnum sem nutu snertingar batnaði fyrr en hinum og þau þrifust betur. Mörg vandamál berum við með okkur frá barnæsku og fyrir þeim geta verið ýmsar orsakir. Mark sagðist hafa heyrt marga kvarta undan því að þeir hafi ekki verið faðmaðir á barnsaldri og þeir skynjuðu það sem ástleysi foreldra sinna. Andleg vanlíðan á barnsaldri kemur niður á líkamanum fyrr eða síðar.

Irene Del Ohmo, læknir, og Mark Mahindra, heilari.Heilsuhringur Erena, Mark_NEW_0001

Á Spáni og Indlandi t.d. faðmast fólk meira en hér á Íslandi. Þar eru allir á höttunum eftir snertingu við aðra. Við verðum að læra að virða og elska okkur sjálf og þar með líkama okkar. Við elskum foreldra okkar, bræður, systur, maka o.s.fv. En hvað lítur þú oft í spegilinn og segir við sjálfan þig; „ég elska þig“. Það er þýðingarmikið að elska sjálfan sig og mikil þörf á að læra að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum. Að fyrirgefa er það sama og að sleppa. Margir spyrja hvernig á ég að fara að því að sleppa. Hafðu ekki áhyggjur af því, segir Mark, þú þarft bara að vilja fyrirgefa og sleppa, þá sér alheimurinn um fyrirgefninguna.

Í lokin

Margt fleira kom fram á þessu ágæta námskeiði, t.d. var farið í margar hugleiðsluaðferðir, þar á meðal andað í orkustöðvarnar, tónað í orkustöðvarnar, litir orkustöðvanna útskýrðir og sýnt hvernig mætti örva eða stilla frumefni líkamans. Ekki gefst pláss til að fara nánar út í það hér. Þátttakendur voru allir sem einn mjög ánægðir og innan hópsins myndaðist mikil eining. Þess má geta að búist er við að Irene og Mark haldi fleiri námskeið hér á landi.

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir skrifað árið 1997



Flokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: