Talið er að 50% manna um fimmtugt, 60% manna um sextugt og 70% manna um sjötugt séu haldnir sjúkdómum í blöðruhálskirtli. Það er staðreynd að hér á landi er algengasta krabbamein hjá körlum í blöðruhálskirtli og er það önnur algengasta dánarorsök íslenskra karlmann. Í bókinni Karla fræðarinn, eftir Kenneth Purvis (Mál og menning 1994) segir að menn og hundar séu einu verurnar sem vitað sé um að hafi blöðruhálskirtil sem stækkar með aldrinum.
Ég er þeirrar skoðunar að bólgu í blöðruhálskirtli sé oft á tíðum hægt að draga úr með breytingu á næringu og lifnaðarháttum, þrátt fyrir þessa aldurstengdu stækkun sem Kenneth Purvis vísar til. Í framhaldi mun ég varpa ljósi á tilvik, sem hafa styrkt þessa skoðun mína.
Feimni
Lengst af hefur það verið feimnismál að tala um sjúkdóma í kynfærum hvort sem þau hafa tilheyrt karli eða konu. Sjálfsagt er það á undanhaldi að fólk geti ekki nefnt þessi líffæri réttum nöfnum, þó heyrist það enn að fólk tali um líffærin „á milli hnés og kviðar“ eða ,,að neðan.“ Það var ekki til siðs áður fyrr að nefna þessi líffæri upphátt réttum nöfnum. Mér er ekki örgrannt um að ennþá eimi eitthvað eftir að þessari viðkvæmni og feimni þegar menn þjást af bólgum í blöðruhálskirtli og af þeim sökum leiti sumir of seint til læknis, sem stundum verður til þess að lítið vandamál vex þar til ekki er við ráðið. Í bókinni Hjálpaðu sjálfum þér eftir Louise L. Hay segir að sjálf berum við alla ábyrgð á reynslu okkar og líðan, vegna þess að allt sem við hugsum móti framtíð okkar.
Þar segir líka að óþægindi í blöðru, endaþarmi, blöðruhálskirtli og leggöngum stafi af rangsnúnum hugmyndum um líkama okkar og hlutverk líffæranna og að mikilvægt sé að afmá heimskulegar og úreltar hugmyndir um þessi mikilhæfu líffæri, sem gegna jafn nauðsynlegu hlutverki og þau er sjá um öndum og móttöku næringar. Höfundur bókarinnar segir að óþægindi karla í tengslum við blöðruhálskirtil tengist iðulega lélegu sjálfsmati og þeirri trú manna að karlmennskan dvíni með aldrinum. Getuleysi auki ótta hjá mönnum, en stundum geti ástæða fyrir því orsakast af óhamingjusömu ástarsambandi. Allavega séu sjúkdómar af þessu tagi fátíðir hjá þeim sem lifi heilbrigðu, hamingjusömu og áhyggjulausu kynlífi.
Kuldi er skaðlegur
Fyrir u.þ.b. 30 árum átti maður sem ég þekki í leyndardómsfullum sjúkdómi, sem lýsti sér meðal annars í þunglyndi. Hann gekk til læknis langa hríð án þess að fá bót meina sinna. Dag einn kom hann til mín og tjáði mér hvers kyns var, þetta snerti kynfærin og að læknirinn hefði útskrifað hann með þeim orðum að hann myndi eiga lengi í þessu. Það fyrsta sem kom í huga minn var að læknirinn hefði komist að því að hér væri um krabbamein að ræða og of seint að hamla á móti því. Þessi umræddi maður var þá innan við fertugt og fannst mér nauðsyn að fá álit annars læknis. Hann fór að mínum ráðum og leitaði til annars þvagfærasérfræðings. Sá læknir sagði honum eftir skoðun á stofu, að það sem angraði hann væri bólga í blöðruhálskirtli.
Hann gaf honum lyf og sagði að nauðsynlegt væri að ganga í síðum ullarnærbuxum. Einnig sagði hann að næstu fjórar vikur yrði hann að fara í heitt bað (kerlaug) tvisvar á dag og sitja í því drjúga stund í hvert sinn, eftir það einu sinni á hverjum degi þangað til að hann fyndi ekki fyrir þessu lengur. Maðurinn fór að ráðum læknisins og bráð batnaði. Þunglyndið hvarf og ég hef ekki heyrt hann minnast á bólgu í blöðruhálskirtli síðan. En ég held að hann gangi enn í prjónabrókinni! Fótakuldi og kuldi á lærum innanverðum getur komið af stað bólgu í blöðru og blöðruhálskirtli. Það er því afar nauðsynlegt að verjast slíkum kulda, sem best verður forðast með því að ganga í síðum nærbuxum og hlýjum sokkum. En kuldi á fótum getur líka orsakast af röngu mataræði og stressi. Um það má lesa í bókinni Fullkomið heilbrigði eftir lækninn Deepak Chopra, sem kom út árið 1994.
Soðið vatn bætir
Það er vitað að kaffi, svart te og áfengi geta verið örlagavaldar bæði varðandi blöðru-, nýrna- og blöðruhálskirtilssjúkdóma. Nýlegt dæmi hef ég þar um. Tvítugur piltur, sem stundum drekkur bjór og áfengi, leitaði sér ráða vegna erfiðleika við þvaglát, hann lýsti því sem þvagteppu fyrst í stað og síðan að rennslið væri lítið þegar það loksins færi af stað. Honum var ráðlagt að hætta við bjórinn og áfengið og drekka vatn í staðinn, sem hann gerði og endurheimti þá fyrra heilbrigði. Maður um áttrætt, sem farinn var að finna fyrir sjúkdómi í blöðruhálskirtli hafði það þokkalegt ef hann sleppti því að drekka kaffi og áfengi. Þegar hann smakkaði áfengi fylgdi í kjölfarið algjör þvagteppa og blæðing. Það þurfti lækni til að tappa af honum í þau skipti sem hann smakkaði það, en slíka aðgerð sagði hann afar sársaukafulla. Hann snéri sér því að soðnu vatni og lét vel yfir líðan sinni eftir það.
Næring og nudd
Þörf næringarefna er mjög einstaklings bundin og þess vegna er erfitt að alhæfa þar um. Í bókinni Alexandria terapy eftir Kurt Nielsen er lögð áhersla á inntöku bætiefna til að ráða niðurlögum á bólgu í blöðruhálskirtli. Þar er bent á að taka inn C vítamín, lesitín, hvítlauk, A og D vítamím (lýsi) og 12 stk. daglega af Scanalka steinefnatöflum
Í bókinni Let’s get well eftir Adelle Davis er lögð áhersla á inntöku C vítamíns og nefnd dæmi um ágæti þess þegar um bólgur í blöðruhálskirtli er að ræða. Víða hefur komið fram að nauðsyn sé að taka inn snefilefnið sink og ráðlagt að borða graskerjafræ, sem talin eru innihalda sink meðal annarra efna. Þunglyndi fylgir stundum sjúkdómi í blöðruhálskirtli, sem oft má rekja til skorts á vítamínum og steinefnum.
Ég veit til þess að vítamínið ,,Melbrosia formen“ hefur mörgum reynst vel. Það er talið hafajákvæð áhrif á hormónastarfsemina. Árið 1993 birtist viðtal við Hugo Rasmussen í danska blaðinu Hus & Have Avisen. Hann sagðist halda niðri blöðruhálskirtilsveiki með því að taka inn sænska blómafræfla að nafni Cermtol. Blómafræflana fór hann að taka inn eftir að vera búinn að nota sýklalyf og fá meðferð sem felst í því að nudda kirtilinn. Slíkt nudd er framkvæmt í gegnum endaþarminn. Kvað hann nuddið óskaplega sársaukafullt, en það hefði oftast skilað betri líðan á eftir. Mér kunnugir menn segja að sænsku blómafræflarnir Pollitabs teknir inn með dönsku steinefnatöflunum Scanalka geri svipað gagn og Cemitol.
Nútíma næring ungs fólks, þá er átt við hamborgara, pylsur, pitsur, gosdrykki og aðra álíka fæðu, sem auðug er af aukefnum, fitu, sykri o.s.frv., en snauð af vítamínum og steinefnum, mun ekki vera holl fyrir blöðruhálskirtil frekar en önnur líffæri. Ákjósanlegra er að borða magrari og minna meðhöndlaðan mat. Best er að forðast að steikja og brasa,draga úr brauðáti, en auka soðna kornvöru og grænmeti. Forðast allan reyktan mat og súra mjólkurvöru, einnig súra ávexti og ávaxtasafa. En drekka mikið af soðnu vatni. Gleymið því ekki að næringarþörf er einstaklingsbundin.
Hitameðferð
Nýverið barst mér í hendur eintak af norska tímaritinu Bedre Heilsi frá árinu 1993. Þar er birt grein um hitameðferð sem sögð er bylting í meðferð blöðruhálskirtilssjúkdóma. Rætt er við Ove Kr. Mjölenröd yfirlækni við Region sjúkrahúsið í Þrándheimi sem segir að nú velji 40% manna með sjúkdóm í blöðruhálskirtli þessa meðferð. Aðferðinni er lýst þannig að læknirinn setur þvaglegg upp í blöðruna og með hjálp örbylgja er kirtillinn hitaður upp í allt að 50 gráður. Við það gufar vatnið í frumunum upp og þær deyja, kirtillinn skreppur saman og þvagstreymið verður aftur eðlilegt.
Meðferðin tekur eina og hálfa klukkustund og er framkvæmd á göngudeild, þannig að sjúklingar sleppa við innlögn. Burt séð frá smá óþægindum hjá sumum eftir aðgerðina, eru engar aukaverkanir að henni lokinni. Það er tekið skýrt fram að þessi aðgerð henti ekki öllum, einungis þeim sem eru með stækkun í blöðruhálskirtli án flókinna þátta. Hafi kirtillinn fengið að stækka svo mikið að þvagrásin stöðvist alveg kemur hitameðferð ekki að gagni. Þess vegna er mjög mikilvægt að leita til læknis um leið og einkenni um stækkun gera vart við sig.
Ýmsar meðferðir
Nýverið átti ég tal við mann, sem hefur lært kristalameðferð. Hann tjáði mér að oft væri hægt að hafa ótrúlega mikil áhrif á bólgu í blöðruhálskirtli með því að ganga með ákveðna steina á sér. Steinar gefa frá sér orku sem örvar orkubrautir líkamanns og benti hann á að þeir sem eiga best við þessi veikindi hétu Karneól (Camelian) og Sitrín (Citrine) (þeir fást hjá versluninni Betra lífi). Steinanna má hafa í vasa að deginum til, en hann benti einnig á að litir á fatnaði gætu haft áhrif á líðan fólks bæði í þessu sambandi, sem og öðru. Hann ráðlagði gult og rauðgult fyrir þá sem ættu í einhverjum vanda með blöðruhálskirtilinn og sagði að litur þess fatnaðar sem verið væri í næst sér skipti mestu máli.
Það var fleira sem þessi maður fræddi mig um, hann sagðist hafa átt í vanda með þvaglát um árabil. Í mörg ár hafði honum verið sköffuð sýklalyf af þeim læknum sem hann leitaði til. En slík lyf hafi aðeins hjálpað í stuttan tíma með því að vinna á bólgum og sýklum um stundarsakir. Hins vegar hafði hann fengið lyf hjá lækni fyrir tveimur árum sem heitir Proscar og hafi áhrif meðal annars á hormónakerfi líkamans. Það hafi hjálpað honum ásamt kristalameðferð og nú sé þetta vandamál úr sögunni. Í bókinni Touch for health eftir John F. Thie, DC, er fjallað um hvernig opna megi orkurásir líkamans með því að þrýsta á ákveðna punkta.
Þá er notað svipað punktakerfi og við nálastungu. Til að hjálpa mönnum með sjúkdóma í blöðruhálskirtli er lögð áhersla á að opna blöðru- og nýrnabraut með þeim hætti að þrýsta á orkupunktana sem tilheyra umræddum brautum og halda þrýstingnum nokkra stund. Mér er kunnugt um að þannig meðferð hefur hjálpað mörgum, ekki einungis við að bæta líðan í blöðruhálskirtli, heldur einnig við að lækna verk í baki. Því miður munu ekki vera margir aðilar hérlendis sem kunna og veita slíka meðferð. Fótanudd eða svokölluð svæðameðferð hefur líka oft komið að góðum notum. Árangursríkast er að þrýsta undir ökklabeinið og yfir ökklann þegar meðhöndlað er vegna veiki í blöðruhálskirtli. Hentugt getur verið að nota tímann meðan horft er á sjónvarpið til slíkra hluta.
Að tæma vel
Maðurinn sem ég minntist á í síðasta kafla telur það nauðsynlegt að brýna fyrir þeim sem eiga í vanda vegna tregrar þvagrásar að gæta sérstaklega vel að því að tæma blöðruna eins vel og unnt er. Sé blaðran ekki tæmd vel, sé hætta á sýkingu. Hann segir marga menn gjarna á að halda í sér þvagi, jafnvel af því að þeir nenni ekki á salernið og aðrir gefi sér oft ekki tíma til að tæma blöðruna fyllilega. Hann segist ráðleggja þeim sem séu í þessum vanda að setjast frekar en að standa meðan þeir kasta af sér þvagi og gefa sér tíma til þess.
Lokaorð
Eftir að hafa fylgst með mörgum mönnum, sem hafa þjáðst af sjúkdómum í blöðruhálskirtli og heyrt frásögn þeirra af sársaukanum sem fylgir þeim, ákvað ég að gera þessa samantekt, með von um að hún kæmi einhverjum að notum. Hafið það alltaf hugfast að öll veikindi eru persónubundin og því er eins misjafnt og mennirnir eru margir hvaða aðferð kemur að gagni. Í haustblaði Heilsuhringsins 1994 birtist greinin Breytingaskeið karla og kvenna, eftir Kolbrúnu Björnsdóttur.
Höfundur: Ingibjörg Sigfúsóttir
Flokkar:Greinar og viðtöl