Hvað veldur verkjum í hálsi og herðum?

Getur þú breytt einhverju þér til hagsbóta ?
Það mun vera nokkuð algengt að fólk þjáist af verkjum í hálsi og herðum.Orsakir fyrir slíku munu vera eins margar og þeir sem þjást. Hér á eftir er ætlunin að segja frá ýmsu sem hefur hjálpað í slíkum vanda. Fæst af því er vísindalega sannað, því mun hér eiga við gamalt máltæki sem segir „greindur nærri getur en reyndur veit þó betur.“

Er kuldi orsökin ? Oft má rekja vöðvabólgu jafnt í öxlum sem annarsstaðar í líkamanum beint til kulda. Í sumum tilfellum er hægt að kenna um fatnaði úr gerviefnum og má þar oft um bæta með því að nota heldur bómullar og ullarfatnað næst líkamanum. Þeir sem sofa  með berar axlir  kvarta gjarnan um stirðleika og verki í öxlum (þar eru konur í miklum meirihluta vegna úreltrar náttkjólatísku). Mörg dæmi veit ég þess að vöðvabólga hefur minnkað og stundum horfið alveg þegar tekin hefur verið upp sú venja að sofa með axlaskjól úr ull  eða í hlýjum  treyjum úr ull eða bómull. Eitt dæmi þekki ég um mann sem þjáðist í mörg ár af bólgum í baki. Hann var heitfengur og gekk þess vegna gjarnan klæðlítill og fannst það hin mesta forsmán að sofa í náttfötum.

En vegna krankleika síns fór hann að góðra manna ráðum og byrjaði að nota hlý náttföt og ganga í bómullarnærbol. Eftir stuttan tíma varð hann góður í bakinu. Líklegt er að margir geri sér ekki grein fyrir því hve kuldi getur verið lúmskur eins og t.d. það að kuldi á höndum, geti aukið bólgur í herðum. Sá sem er slæmur í öxlum versnar trúlega ef hann kólnar mikið á höndum og líka ef hann er lengi kaldur á fótum. Þeir sem vilja laga bólgukvilla hvort sem er í liðum eða vöðvum ættu að gæta þess vel að láta sér aldrei verða kalt t.d.ekki þvo hendur sínar úr köldu vatni. Ekki ætti að þurfa að leggja áherslu á hversu mikil nauðsyn er fyrir alla að halda hita á hálsi og höfði. Þó að varist sé kulda á herðum með hlýjum klæðnaði getur kuldi á hálsi og höfði valdið því að bólgur í öxlum magnist.

Þess vegna ættu þeir sem kenna eymsla í öxlum aldrei að fara út í kulda án höfuðfats og gera sér að reglu að hafa eitthvað um hálsinn jafnt á nóttu sem degi. Konu veit ég um, sem læknaðist af þrálátum ræskingum þegar hún fór að ganga í “ ljós bláum “ rúllukragabol. Hún segir það vera vegna þess að orkustöðin í hálsinum þurfi bláan lit. Allavega fullyrðir hún að gangi hún um tíma  í öðrum litun næst hálsinum byrji þessar leiðinda ræskingar að þjá hana en hætti eftir nokkra daga fari hún í bláa rúllukragabolinn. Fótabúnaður ungs fólks hefur mikið lagast, þökk sé „hvítri“bómullarsokkatísku, þó að margir eldri gangi ennþá í sínum nælonsokkum. Þeir sem þjást af bólgum í herðum eða annarsstaðar í líkamanum ættu að gera tilraun með að ganga í ullarsokkum, sem fást nú orðið í ýmsum þykktum, gerðum og litum. Hafið þið hugleitt af hverju fleiri konur þjást af vöðvabólgum í öxlum, en karlar? Haldið þið að það sé bara tilviljun ?

Er fæðið athugavert ? Reynsla margra er, að með breyttu mataræði megi draga úr verkjum og bólgum í líkamanum. Í fyrirlestri hjá Tue Gertsen sérfræðingi í makróbíótík, sem birtist í 3-4 tbl. Heilsuhringsins 1984 kom fram að 90% sjúkdóma stafa af slæmri meltingu, sem orsakast oft af því að meira er sett í líkamann en hann getur losað sig við. Til að halda góðri heilsu verður líkaminn að geta losað sig við það sem í hann er látið. Hægðir er nauðsynlegt að hafa minnst einu sinni á dag.

Tue segir að í öxlum séu orkustöðvar sem tengjast ristli. Byrjun sjúkleika í líkama komi því oft fyrst fram í öxlum og bendi til þess að verið sé að ofbjóða ristlinum. Hann ráðleggur að borða mikið af korni og grænmeti, sem sé fæða í jafnvægi. Ekki drekka kaffi, þó segir hann að draga megi úr skaðsemi þess með því að borða mikið af fiski, sem hann segir að ætti að vera daglega á borðum Íslendinga yfir vetrarmánuðina. En kaffi og súkkulaði segir hann að megi líkja við eitur, sérstaklega fyrir konur.

Tue telur að forðast beri að borða mjög heitt og mjög kalt, t.d. ráðleggur hann fólki alfarið frá því að borða ís. Í bók D.C. Jarvis “ Gigtarsjúkdómar & heilsufræði alþýðunnar “ er tekið í sama streng. Þar er sagt að best sé að borða lítið af kjöti og sleppa sítrusávöxtum, og leggja áherslu á að sýrustig líkamans raskist ekki. Þetta á ekki við um sítrónurnar sjálfar.

Ertu of súr ? Sennilega liggur vandi margra Íslendinga í því að þeir eru of „súrir.“ Nútíma daglegt fæði margra Íslendinga mun gefa tilefni til slíks. Einnig mun lítil hreyfing hjálpa til. Misjafnt er hvað eykur sýru í mannslíkama þó er mér kunnugt um að margir verði að stilla í hóf neyslu ávaxta , kjöts, sykurs, kaffis og brauðs til að forða sér frá verkjum og vanlíðan. Sumir borða súrmjólk eða aðra súra mjólkurvöru á hverjum degi. Ef þeir eiga vanda til vöðvabólgu væri þeim sjálfsagt óhætt að breyta í eitthvað sýruminna um stundarsakir og sjá til hvort ekki yrði breyting á líðan..

Kaffi og brauð veldur sýru hjá afar mörgum, einnig venjulegt te og brauð. Marga þekki ég sem hafa týnt vöðvabólgunni um leið og þeir breyttu yfir í hafragraut á morgnana.  Júlía Völdan ráðlagði að borða kartöflur á morgnana til að draga úr sýru. Hægt er t.d. að skera niður hráar kartöflur að kvöldi og láta liggja í vatni yfir nótt og drekka síðan löginn af þeim að morgni. Júlía Völdan ráðlagði líka fólki að borða eina hráa gulrót 15 mínútum fyrir hverja máltíð til að bæði draga úr sýru og auðvelda ristli og þörmum sitt verk.

Þekktir manneldisfrömuðir hafa bent á að vilji fólk  halda góðri heilsu þurfi það að borða rétt hlutföll sýru- og lútargæfrar fæðu. Dr. Ragnar Berg sem er frumherji í þeim kenningum mælir með 5-7 sinnum meiri neyslu á grænmeti og kartöflum heldur en á kjöti og brauði. Prófessor Olov Lindahl bætir við að kannski sé nauðsynlegasta aðferðin til að ná góðri heilsu og einnig réttu holdafari sú að sneiða hjá því sem sannanlega sé óhollt, sem hann telur vera vín, tóbak, kaffi, salt, sykur, feitan mat, mikið meðhöndlaðan mat og mat sem bætt hefur verið í rotvarnar-og litarefnum.

Ég vil bæta því við upptalninguna á óhollu næringunni að mörgum myndi líða betur um jólin, ef notað væri smjör í stað smjörlíkis í bakstur. Sumir nota olíur í bakstur, sem er í mörgum tilfellum jafn slæmt og smjörlíki vegna þess að mjög margar matarolíur breytast til hins verra við hita. Talið er að vínberjaolía þoli mestan hita og því næst komi ólívuolía.

Græn ólívuolía er sögð mjög góð fyrir þá sem þjást af hægðatregðu. Ráðlagt er að taka inn 1 msk af grænni ólívuolíu á fastandi maga og setja í hana örlítið af cayenne pipar.  Hjá ungum manni sem þjáðist  af hægðatregðu kom að gagni að taka ólívuolíu inn með mat ásamt einni skeið af möluðu hörfræi.

Þó að hér í byrjun væri bent á að ofneysla súrmjólkur geti aukið verki, hefur mér verið sagt að sumu fólki sé nóg að borða AB mjólk daglega til að halda meltingunni í lagi. Nýlega kynntist ég efni sem heitir ,,Coloncare“  (fæst í apótekum og víðar) sem er sérstaklega gert til að lagfæra þarmaflóruna og hefur reynst vel bæði við hægðatregðu og niðurgangi.

Ertu of sætur? Ofneysla sætinda mun líklega valda ýmsu fólki þjáningum. Margir þola illa sætindi. Í sumum tilfellum er sama um hvernig sætindi er að ræða. Þess vegan ætti fólk að athuga mjög vel hvort það hefur neytt sætinda daginn áður en það fær verki, sérstaklega ef um verki í hálsi era ð ræða. Marga veit ég um, sem algjörlega umturnast af stirðleika og verkjum í hálsi daginn eftir að þeir borða sætindi, en því miður er það ekki bundið við hálsinn einan.

Kunningi minn einn lýsti fyrir mér líðan sinni daginn eftir sætindaneyslu: ,,Ég fyllist vonleysi, á hugann sækja hryllilegar hugsanir og ég fæ mikla verki í bakið.“ Fleiri hafa sagt mér svipaðar sögur. Þó að fólk haldi stundum að slíkri andlegri vanlíðan megi halda niðri með því að punda í sig B -vítamíni er það algjör misskilningur. Ekkert virðist halda þeirri vanlíðan frá nema afneitun sykurs. Ekki má gleyma því að áfengi hefur sömu áhrif á líkamann.og sykur. Makróbótíski séfræðingurinn Tue Gertsen segir að maltextrakt (byggsæta) sé best til að sæta með enda séu í því efni sem líkaminn eigi auðvelt með að nýta .

Mikil sætinda- og vínlöngun getur tengst sveppasýking , um það var skrifað í greininni: Ný viðhorf til sveppasýkingar  í Heilsuhringinn árið 1984 og má finna á síðunni.

Vantar þig fæðubót ? Nútíma fæði er oft vítamínsnautt og ætti hver sá sem vill halda frá sér verkjum eða krankleika að huga að því hvort dagleg neysla vítamína,steinefna og snefilefna sé næg. Mikið er talað um það þessa dagana að konur eigi í vök að verjast vegna beinþynningar eftir miðjan aldur. Ég vil benda á vítamín sem heitir „Okholms ældre tabler“ (fæst í lyfsölum ) það er talið auka upptöku líkamans á kalki og mér er kunnugt um að það hefur reynst vel bæði ungum og þeim sem eldri eru. Nú mun vera hægt að láta mæla það hérlendis hvort hörgull er á einstökum vítamínum.

Er það satt sem sagt er um mjólk ? Okkur er talin trú um að mjólk sé góð og trúi ég að svo sé fáum við hana ómeðhöndlaða. Margir sem þjást af bólgum þola ekki fitusprengda mjólk en líður ágætlega af undanrennu og rjóma. Venjulegur rjómi er ekki fitusprengdur vegna þess að þá þeytist hann ekki. Hægt er að blanda saman undanrennu og rjóma. Til að fá svipað feita blöndu og nýmjólk er hafður 1dl rjómi á móti 9 dl af undanrennu. (Kaffirjómi er fitusprengdur).

Hefur þú lent í aftanákeyrslu ? Kona nokkur varð fyrir því að keyrt var aftan á bíl sem hún var í . Fyrst í stað komu fram eymsli í hálsi, hnakka og hægri handlegg, hún átti einnig í erfiðleikum með að líta til hægri hliðar. Af þeim sökum fór hún að vinna verk sín til vinstri, sem hún hafði áður gert til  beggja hliða. Fljótlega fór hún að finna fyrir þrautum neðarlega í bakinu sem ágerðust með tímanum. Mikill dofi sótti líka í hendurnar og með árunum skekktist hægri  öxlin vegna rangrar vinnustöðu. Þrátt fyrir heimsóknir til lækna fékk hún ekki bót meina sinna.

Myndir voru teknar og glöggur læknir  sá að teygst hafði á hálsliðum. Að hans sögn hafði réttst úr beygju sem að öllu eðlilegu á þar að vera. Hann kvað slíkan áverka nefnast Wiplas á læknamáli og væri algeng afleiðing aftanákeyrslu. Hann ráðlagði henni að ganga með hálskraga og sofa ekki  á kodda, síðan sendi hann hana í nudd og lét einnig strekkja hálsinn. Þegar strekkt var á hálsliðunum jókst dofinn í höndunum og henni gekk illa að vinna með hálskragann vegna þess að þegar ekki var hægt að beygja höfuðið eðlilega niður  kom röng  hreyfing á augun.

Ráð sem komu að gagni. Í Englandi hitti hún lækni sem hafði unnið á bráðamóttöku í Bandaríkjunum og meðhöndlað hundruð manna með hálsmeiðsli. Þegar honum var sagt frá áður nefndum meiðslum á hálsi sagði hann. ,,Þá munu vera  verkir neðst í bakinu líka.“ Kvað hann það ávallt fylgifisk slíkra meiðsla vegna þess að þegar tognun ætti sér stað í hálsliðum færi alltaf á sama veg neðst í bakinu.

Taldi hann vera hægt að breyta stöðu hálsliðanna til hins betra sérstaklega hjá ungu fólki með æfingum, sem gerðar væru að staðaldri. Hann taldi gott að leita til kírópraktora vegna þess að þeir gætu oft breytt setu hálsliðanna ef réttst hefði úr beygju þeirri sem þar ætti að vera og komið hálsinum í samt lag aftur ef gerðar væru æfingar samhliða. Sagði hann slíka meðferð þekkta í Bandaríkjunum.

Einnig lagði læknirinn mikla áherslu á að sofið væri með hálskraga úr svampi og sagði að það eitt gæti hjálpað umtalsvert. Kraginn má ekki vera of harður  því að ekki má taka af hálsvöðvunum hlutverk þeirra. Hæfilega mjúkur kragi veitir hálsvöðvunum stuðning og hjálpar til meðan verið er að endurhæfa þá og styrkja. Ekki er ráðlegt að nota kodda , þó að hægt sé að hafa þunnan svæfil sem brjóta má saman og hafa undir vanga ef legið er á hliðinni.

Gera má æfingar. Brjóta saman lítið handklæði og rúlla upp. Koma því fyrir undir hálsinum þegar lagst er fyrir. En nauðsyn er að hafa svampkraga þegar sofið er vegna hreyfinga í svefni. Einnig heldur kraginn hita á hálsinum sem er mjög veigamikið. ( Hálskragar fást hjá gervilimasmiðum)

Æfing 1. Haldið er undir hökuna og síðan reynt að þrýsta höfðinu niður.
Æfing 2. Tekið er báðum höndum um hnakkann og ýtt niður á meðan streist er á móti og reynt að lyfta höfðinu. Þessa æfingu má líka gera með því að setja lítinn sandpoka á hnakkann og lyfta svo höfðinu.
Æfing 3. Stiðja hönd á vanga og höfði til hliðar.

Einnig sagði hann nauðsyn að gera æfingar fyrir bakið en taldi best að þar hefðu sjúkraþjálfarar hönd í bagga, þó að mikið væri hægt að gera fyrir bakið með einföldum æfingum eins og legglyftum og t.d. að liggja á maganum, lyfta fótum og höfði upp, með hendur á hnakka og vega síðan salt fram og aftur á maganum. Í 3-4 tbl. Heilsuhringsins 1989 var viðtal við Guðna Gunnarsson íþróttaþjálfara. Sagði hann að fólk hefði náð ótrúlegum árangri í bakþjálfun með því að gera æfingar með þar tilgerðum böndum. (Nú nefnt Rope joga.)

Tímaritið Journal of Spinal Disorders birti grein árið 1991 um rannsókn sem gerð var af fjórum sérfræðingum á bæklunarskurðdeild og sjúkdómsgreiningar-geislalæknisfræðideild Háskólasjúkrahússins í Uppsölum og réttarlæknisfræðideild í Umea í Svíþjóð undir nafninu Duldir hálshryggjaáverkar fórnarlamba bifreiðaslysa með höfuðkúpubrot. Í þeirri grein kemur fram að meirihluti sjúklinga, sem hljóta áverka í bifreiðaslysum, styrðna og fá eymsli  í háls og ekki ósjaldan leiðsluverk. Þessi sjúkdómseinkenni kunna að versna síðar og þá stundum eftir einkennalaust tímabil. Fjöldi þessara áverka leiðir til kostnaðarsamra málaferla vegna vátryggingabóta.

Margvísleg sjúkdómseinkenni frá því er virðist óksildum líffærakerfum, svo sem verkur milli herðablaða og verkur í hnakka og svimi hafa sést sem afleiðing af hálstognun. Það er talið stafa af slitum á djúpvöðvum og tognun á aukataug og semjutaugum sem umlykja slagæðar hryggjar. Einnig kom fram að venjulegar röntgenmyndir sýna ekki mörg brot og nær engin mjúkvefjameiðsli. En meirihluti meiðslanna er á mjúkvefjum. Auk venjulegra röntgenmynda ætti að beita tölvusneiðmyndun vegna þess að minniháttar beinafrifur og litlar skekkjur kunna að vera einu merkin um alvarlega þófa- og liðbandaáverka. Einn íslenskur læknir Halldór Jónson ( starfar á bæklunardeild Landsspítalans) átti hlut að þessari rannsókn.

Háþrýstisúrefnisdeild Borgarspítalans var með ( 1994) tilraunaverkefni varðandi hálsskaða. það er fyrsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar. Er ætlunin að kanna hvort meðferð í háþrýstisúrefnisklefa getur verið til góðs í meðferð slíkra meiðsla.

Hálshnykking lækkaði blóðþrýsting. Tuttugu og fimm ára gamall maður, var búinn að þjást lengi af of háum blóðþrýstingi (og var búið að rannsaka frá öllum hliðum) lenti af slysni inn til kírópraktors. Án þess að hafa sagt nokkuð um sín veikindi sagði kírópraktorinn, nú þú ert svona og umsvifalaust hnykkti á honum hálsinn. Ekki þarf að orðlengja þessa sögu vegna þess að blóðþrýstingurinn varð eðlilegur og hefur verið það í 25 ár sem liðin eru síðan. Hann gat sleppt öllum lyfjum, sem læknar höfðu verið örlátir á. Maður um áttrætt sagði mér svipaða sögu. Hann hafði tekið blóðþrýstingslyf í nokkur ár og að sögn lækna var það talið eðlilegt vegna þess að hækkun blóðþrýstings er algeng hjá eldra fólki. Hann lenti líka fyrir tilviljun í höndunum á kírópraktor sem hnykkti á honum hálsinn og blóðþrýstingurinn varð eðlilegur á eftir, sem læknirinn sagði mjög fátítt og skildi í rauninni ekkert í.

Þrýstinudd getur hjálpað. Fólk getur auðveldlega dregið mikið úr óþægindum í hálsi og herðum með því að nudda fætur sína. Gæta þarf þess að þrýsta á staðina en ekki nudda. Ef húðin er nudduð er hætta á að hún hitni og við það myndist blöðrur. Sársauki kemur fljótt í ljós ef eitthvað er að og verður að gæta þess að meðhöndla hvert svæði í stuttan tíma í einu. Ekki lengur en í fimm mínútur sérstaklega ef sársauki er mikill. Áhrifaríkt er að nudda hvilftina og neðanverða stórutá ef um hnakka- og hálsverki er að ræða. Oft hefur einnig reynst vel að nudda þetta svæði og stórutána alla ef um höfuðverk er að æða.

Slakað á axlar- og hálsvöðvum. Til að minnka spennu skal þrýsta fast krepptum hnefa að il og samtímis nudda rist. Líka er hægt að nota lítinn „súper“ bolta sem þá er settur undir táberg, stigið á og rist nudduð um leið.Ef losað er um þetta svæði getur það líka minnkað þrautir í mjöðmum.

Oft má hafa góð áhrif á axlir með því að nudda mjaðmir eins má laga mjaðmir með því að nudda axlir. Finnast fljótt aumir blettir á mjöðmum og rassi ef eitthvað amar að í öxlum.

Oft er treg blóðrás í rassvöðvum hjá þeim sem sitja mikið, truflar það orkustreymi í öxlum og veldur oft mjaðmavandamálum. Á síkt má hafa áhrif á með því að sitja á gólfinu, kreppa hnén og taka höndunum um þau og halla sér síðan til beggja hliða. Þörf er þeim sem svo er ástatt um að klæðast hlýjum fötum til að halda hita á þessu svæði. Gamalt orðtæki segir  ,,fátt er kaldara en konurass og hundstrýni.“

 • Æfingar:
  Oft gæti fólk sloppið við verki ef það gerði sér að reglu að gera æfingar. Þær einföldu æfingar  sem nú verða útskýrðar hafa hjálpað mörgum.
  1. Staðið er með bil á milli fóta og þunginn færður á víxl á á sitt hvorn fót, jafnframt eru  hendur réttar út beint frá hliðum og síðan réttar beint fram, þetta endurtekið nokkrum sinnum.
  2. Hendur niður með hliðum slegið fram og  aftur með kröftugri hreyfingu, þunginn færður á sama hátt á sinn hvorn fót eins og í æfingu nr.1.
  3. Höndum slegið í kross og út nokkrum sinnum, síðan handleggjum lyft beinum frá hliðum upp yfir höfuð, endurtekið nokkrum sinnum.
  4. Staðið jafnt í báða fætur. Höndum slegið fram og aftur með hliðum, lófum snúið við hverja hreyfingu fram. Þannig : Fyrst er lófum snúið upp, síðan þumalfingrum, þá handarbökum og að lokum jarka handanna. Æfingin endurtekin eins oft og þurfa þykir.
  5. Einnig er áhrifarík æfing fyrir axlir að standa til hliðar við borð, halla sér fram í vinkilbeygju, styðja  öðrum handleggnum á borðið, láta hinn lafa liður, hreyfa hann fram og aftur og síðan til hliða.

Andlega hliðin. Ekki mun hægt að hrekja það að veikindi eigi líka sínar andlegu ástæður t.d. hækka sýrur við stress og áhyggjur.

Í viðtali sem Heilsuhringurinn átti við Elisabet Carlde heilsuráðgjafa frá Svíþjóð árið 1986 sagði hún að við öll hughrif  hvort heldur væri til gleði eða sorgar, álags eða kvíða eyddust steinefni, sem nauðsyn væri að bæta upp með réttri næringu ef ekki ætti að hljótast skaði af.

Hún sagði að við andlegt álag kæmi röskun á þarmastarfsemina, en eðlileg þarmastarfsemi væri frumskilyrði fyrir heilbrigði yfirleitt.

Í bókinni Hjálpaðu sjálfum þér eftir Louise L. Hay segir að verkir komi af reiði og vilji maður losna við þá, þurfi reiðin að fá útrás, þá geti verið ágætt ráð að berja kodda. Líka sé nauðsynlegt að fyrirgefa og þykja vænt um sjálfan sig. Höfundur segir frá  hvernig hún læknaði sig af krabbameini með breyttu hugarfari. Hún segist vita af persónulegri reynslu að sjúkdóma sé hægt að lækna ef við séum fús að breyta hugsunum okkar og gerðum.

Ert  þú lesandi góður fús til að breyta því sem þarf til að sigrast á krankleila þínum?

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 1994Flokkar:Fjölskylda og börn, Líkaminn

%d bloggers like this: