Margur hefir átt í vandræðum og haft mikil óþægindi af kvilla þeim, sem nefnist gyllinæð, en það er þroti eða bólga sem kemur fram á endaþarmi og æðahnútar sem bæði blæðir úr og valda oft verulegum þjáningum. Í hinu stóra landi Bandaríkjunum má oft sjá í ólíklegustu ritum auglýsingar um ,,patent“ meðul við gyllinæð, sem gefur til kynna að þetta sé mjög algengur kvilli sem hrjái marga, en lækning við þessu vill oft taka tíma og hjá sumum er þetta viðvarandi kvilli, sem illa gengur að losna við, jafnvel með algengum meðulum.
Í bók eftir amerískan lækni, dr. D.C. Jarvis, sem starfaði mikið í landbúnaðarhéruðum Vermount-ríkis í Bandaríkjunum, bæði að heimilislækningum og einnig og ekki síður með bændum að dýralækningum, eri margs konar ráð við ýmsum kvillum sem hrjá mannfólkið almennt, en sem lækna má að hans sögn með einföldum ráðum, sem hann af reynslu sinni segir að oft dugi jafnt fyrir menn og dýr. Bókin er með orðalykli, sem gerir hana hæfa til notkunar sem handbók fyrir fólk sem vill bjarga sér sjálft með einföldum heilsuráðum. Bókin var þýdd á íslensku af Gissuri O. Einarssyni og gefin út af bókaforlaginu Skjaldborg í Reykjavík.
Eitt af því sem læknirinn nefnir í bók sinni, sem er í raun hafsjór af heillaráðum, og ég hefi persónulega reynslu af að eru gulls ígildi í mörgu tilliti, er ráð til að „mýkja gyllinæð“ en það er að bera laxerolíu á endaþarminn. Þegar þennan vanda bar að hjá mér sjálfum fyrir allmörgum árum gerði ég þetta t.d. að kvöldi fyrir svefninn, þar sem þá getur olían að mestu legið á yfir nóttina nokkurn veginn óhreyfð.
Þó þetta gerði allnokkurt gagn, þá fannst mér samt að ekki væri nóg að gert og bati seinn, þótt þetta linaði verstu óþægindin. Svo vildi til að ég hafði fengið reynslu af notkun joðs í sambandi við bólgur og hafði oft reynst ómetanlegt að nota það við ýmis konar eymslum. Til dæmis hafði ég fundið að það læknaði eymsli á hæl eða tám eftir nudd af skóm, nánast á einni nóttu – ef ekki var sár. En ef sár var þá var það hinsvegar eitur – orsakaði nánast óþolandi sviða. Að bera það á viðkvæma staði eins og endaþarm var heldur ekki mögulegt, til þess var það of sterkt og orsakaði sviða.
Mér datt þá í hug hvort ekki væri hægt að lina brenniáhrifin á slímhúðina í endaþarminum með útþynningu. Ég gerði því tilraun og reyndi að blanda venjulegum joðáburði (5%) saman við laxerolíuna sem Dr. Jarvis hafði notað og bent á. – Ég hrærði þetta saman, ca. 1/5 hluta afjoði á móti 4/5 af laxerolíu og það blandaðist vel. Þetta reyndist nógu milt til að valda ekki óþægindum. Ég notaði þetta svo á sama hátt og laxerolíuna eina áður, þ.e.a s. bar þessa blöndu á endaþarminn að kvöldi.
Árangurinn var ótrúlegur. Á 2 – 3 dögum var bólgan farin að mestu og óþægindin sömuleiðis. Eftir 4-6 daga voru bólguhnútarnir að mestu horfnir og stuttu eftir það var hægt að hætta notkun áburðarins.
Ef ég hefi fundið til aðdraganda að gyllinæð síðan, þ.e. að örla færi á eymslum eða bólgu, þá hefi ég haft sömu aðferð. Og ef byrjað er strax og eitthvað fer að bera á slíku, þá hefir mér oftast nægt að bera þennan áburð á eitt eða tvö kvöld til að ná aftur eðlilegu ástandi. Það skal þó tekið fram að ef þetta dugar ekki, þá getur þurft að bera á að kvöldi og aftur að morgni í nokkra daga.
Nauðsynlegt er einnig að láta áburðinn komast inn í endaþarminn líka, því bólgan og eymslin geta náð innfyrir bláendann að utan. Tekið skal fram að áður en áburður er borinn á verður að þvo endaþarminn með volgri tusku með mjög veikri sápublöndu til að hreinsa burt óhreinindi og sviðavaldandi efni og svita, þvo svo aftur að síðustu með hreinu volgu vatni og þurrka áður en áburðurinn er settur á.
Til að joðið fari ekki í buxur og liti þær má nota álímt þunnt hlífðarinnlegg sem fæst í búðum almennt t.d. ,,Carefree Panty Lines“. Mér er efst í huga að sem flestir fái vitneskju um þetta sjálfshjálparráð, þar sem með því getur fólk hjálpað sér sjálft til að fást við þennan leiða kvilla með einföldum ráðum. Þá er heldur ekki úr vegi um leið að undirstrika og vekja sérstaka athygli á gagnsemi joðáburðar til notkunar útvortis, eins og lítillega var drepið á í upphafi, t.d. við eymslum af húðnuddi eða slíku, þegar ekki er komið sár. T.d. var mér sagt í þessu sambandi af gömlum togarasjómanni, að þegar þeir hefðu fengið sinaskeiðabólgu í hendi af vinnu til sjós, þá hefði joðáburður verið mjög algeng lækning og vel þekkt þar á bæ til skjótra úrbóta slíks vanda.
Eins og hér kemur fram er stuðst í þessu við álit þekkts læknis, dr. D.C.Jarvis hvað snertir laxerolíuna og síðan reynslu mín sjálfs og annarra í sambandi við joðáburðinn, og þessu tvennu síðan blandað saman sé um viðkvæma staði að ræða. Um leið er hér jafnframt bent á hvað reynslan segir að varast þurfi svo hagnýti joðsins komi fram með réttu móti. Sumir hafa verið á þeirri skoðun að bera ætti joð í opin sár til sótthreinsunar en reynslan talar gegn slíkri notkun þess, þar sem það brennir þá svo grimmt að undan svíður. En það er auk annars gætt þessum ómetanlegu eiginleikum til nota útvortis þótt reynslan segi að ekki sé hægt að koma notkun þess við allsstaðar og viðhafa verði aðgát og skynsemi þar eins og annarsstaðar.
Höfundur: Sveinn Ólafsson, greinin skrifuð árið 1994
Flokkar:Meðferðir