Uppvaxtarskilyrði íslenskra barna

Steinunn Helgs Lárusdóttir skólastjóri Æfingardeildar Kennaraskólans flutti erindi  á haustfundinum: Börnin okkar Næring – Hreyfing – Umhyggja  á vegum  Heilsuhringsins  árið 1992 og deildi skoðunum sínum, reynslu og viðhorfum varðandi uppvaxtarskilyrði íslenskra barna, sem hún sagðist ekki draga neinn dul á að væru slæm.

,,Við búum í stærri og glæsilegri húsakynnum en flestir aðrir, þó við höfum engan tíma til að dvelja þar, étum hin reiðinnar ósköp, eigum heimsmet í sykuráti, íslenska þjóðin er betur klædd en flestar þjóðir og annað eftir því. Síðan kemur í ljós að við kjósum yfir okkur valdhafa sem afmiklu metnaðarleysi vinna ötullega að því að skera niður alla félagslega þjónustu,uppeldi,kennslu, umönnun og heilsugæslu. Þessir sömu valdhafar leggja síðan metnað sinn í að reisa rándýr lúxusmannvirki en fyrir andvirðið væri hægt að byggja nokkur hundruð leikskóla og dagheimili.

Þessir sömu ráðamenn tala á hátíðarstundum um fjölskylduna sem hornstein samfélagsins en einhversstaðar virðast þeir fara í gegnum skilvindu, þannig að heiðarleiki og mannúð virðist liggja utan veggjar. Steinunn benti á að 100% vinnufærra karla og 80% vinnufærra kvenna vinni utan heimilis og hver á þá að hugsa um börnin? Auðvitað er barnið gleðigjafi en því fylgir margvísleg vinna, margháttaðar áhyggjur og fjölbreyttar skyldur. Börnin taka tíma, það þarf að hugsa um þau veita þeim athygli og kærleik, sækja þau o.s.frv. Börnin kosta líka peninga, þau þurfa húsnæði mat og gæslu.

Langur vinnudagur foreldra ásamt skorti á uppeldisúrræðum hefur veruleg áhrif á uppvaxtarskilyrði íslenskra barna. Börnin eru afskipt og agalaus, þau alast upp án uppeldis. Enginn setur þeim mörk, enginn gefur þeim tíma eða viðmiðanir svo þau geti notið samvista við annað fólk. Þau vantar fyrirmyndir og framtíðarsýn og sjá mörg hver ekki tilgang með lífinu eins og vaxandi fjöldi sjálfsvíga sýnir.

Við þessi skilyrði missa þau mörg fótfestu, fyllast óöryggi, spennu og kvíða sem fær svo útrás í óæskilegri hegðun. Fjöldi aðila vinnur svo við að sinna þessum ógæfusömu börnum, geðdeild, Krísuvíkursamtök, kirkjan , lögreglan Útideild, Rauðakrosshús o.fl.. Innan grunnskólans er vaxandi fjöldi þessara barna en þau eru skylduð til að vera í skóla samkv. lögum. Starfsmenn skólans eiga æ erfiðara með að sinna starfi sínu vegna þessara barna sem eru þarna nauðug og láta það óspart í ljós með hegðun sinni. Starf skólans getur farið úr skorðum þegar æ fleiri einstaklingar með alvarlegar hegðunartruflanir koma inn í skólann.

Gera má ráð fyrir að í 500 barna skóla séu um 20-30 einstaklingar eða u.þ,b. ein bekkjardeild sem eiga við alvarleg félagsleg og tilfinningaleg vandamál að stríða. Vandamál sem gera það að verkum að nemandanum nýtist ekki skólavistin og truflar auk þess skólastarf meira eða minna. Síðan sagði Steinunn fundarmönnum ferilssögu þriggja nemenda úr jafnmörgum skólum máli sínu til stuðnings. Hún varpaði því síðan fram þeirri tilgátu að um væri að ræða forgangsröð bæði hjá foreldrum og valdhöfum og meðan valdhöfum fyndist flest annað mikilvægara en manneskjan þá væri ekki að vænta að úrræðum samfélagsins fjölgi fyrir börn og unglinga“.

Ræðumaður: Steinunn Helga Lárusdóttir skólastjóri við Æfingardeild Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur kennt í mörg ár við grunnskóla einnig starfað á leikskólum og dagheimilumFlokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , , , ,

%d