Rannsóknir á mikilvægi mataræðis í kransæðasjúkdómum gætu innan fárra ára leitt til nýrrar gerbreyttrar stefnu í manneldismálum vestrænna landa. (Grein skrifuð 1991)
Rannsókn dr. Dean Ornish
Í tímaritinu ,,Newsweek“ hafa á undanförnum tveim árum verið birtar greinar um nýjar byltingarkenndar hugmyndir um mataræði og lífsstíl og áhrif þessara atriða á alvarlega sjúkdóma, sér í lagi hjarta- og æðasjúkdóma, sem nú leggja í gröfina hartnær annan hvern einstakling sem deyr á Vesturlöndum. Í grein sem birtist 30. júlí 1990, undir nafninu ,,Nýr marseðill sem læknar hjartað“, er vitnað í rannsókn sem skýrt var frá í læknatímaritinu ,,The Lancet“ á árinu 1990. Hópur karlmanna frá San Fransisco, samtals 48 menn, tóku þátt í rannsókninni.
Mennirnir þjáðust allir af mismunandi miklum þrengingum í kransæðum hjartans. Þeim var skipt í tvo hópa með tilviljanakenndu úrtaki. Annar hópurinn fékk þá fæðu sem Hjarta- og æðaverndarfélag Bandaríkjanna mælir með að kransæðasjúklingar nærist á. Þessi fæða er sennilega nokkuð lík þeirri sem íslenskir læknar og manneldisfræðingar mæla með að æskilegt sé að stefnt sé að hér á landi í framtíðinni. Hún samanstendur af 30% fitu, af heildar orkugildi fæðunnar. Þetta er um það bil 10% minni fita en almennt er neytt á Vesturlöndum.
Auk þess var dregið nokkuð úr kólesterólneyslu, en fæðan var að öðru leyti venjulegur bandarískur matur. Hinn hópurinn var settur á fæðu sem nefna mætti „náttúrulækningafæði“. Fæðan var næstum því eingöngu úr jurtaríkinu, aðeins örlítið af fitusnauðum mjólkurafurðum og hvítu úr eggjum. Engin fita var notuð, ekki heldur jurtaolíur. Eina fitan var náttúrleg fita úr kornvörum, baunum og hnetum. Heildarorkugildi fitu í þessu fæði var nálægt 10% og allt í upprunalegu formi. Unnin matvara og margskonar tilbúinn pakkamatur var ekki leyfður.
Ekki heldur sykur eða ónáttúruleg sætindi. Flókin kolvetni voru meginuppistaðan í fæðinu og nálega allt prótein (eggjahvíta) kom frá jurtaríkinu úr kornvörum, belgjurtum, hnetum og grænmeti. Dálítið af ýmiskonar ávöxtum var notað, en meginuppistaða fæðunnar var þó grænmeti, rótarávextir, belgjurtir og kornvara. Auk fæðisbreytingarinnar voru sjúklingarnir látnir stunda reglubundnar líkamsæfingar og æfingar til að draga úr streitu. Það var gert með því að þeir stunduðu hugleiðslu og slökunaræfingar. Tilraunin stóð í eitt ár og var fylgst vandlega með heilsufari mannanna meðan á henni stóð með ýmiskonar rannsóknum og prófunum þegar ástæða þótti til.
Niðurstöðurnar komu á óvart
Náttúrulækningafólk hefur lengi haldið því fram, að flesta menningarsjúkdóma megi rekja til rangra lifnaðarhátta, sér í lagi rangs mataræðis. Sumir úr þeirra röðum hafa jafnvel staðhæft að lækna megi alvarlega sjúkdóma, t.d. hjartasjúkdóma og krabbamein, með breyttu og betra mataræði. Flestir ,,ábyrgir“ vísindamenn hafa aftur á móti dregið þetta í efa og segja að slíkar fullyrðingar styðjist ekki við vísindalegar sannanir og sumir hafa ásakað náttúrulækningamenn fyrir ,,óvísindaleg vinnubrögð“ og jafnvel hættu legar öfgar eða vísvitandi blekkingar.
Því var rannsóknin sem sagt var frá í The Lancet mjög kærkomin öllum þeim sem hafa vildu það sem sannara reyndist, hvaða skoðun sem þeir annars höfðu á málinu. Þessi rannsókn er að sögn Newsweek, sú eina sinnar tegundar, þar sem fullkomlega vísindaleg vinnubrögð eru viðhöfð. Niðurstaðan ætti því að skera endanlega úr um áratuga deilur milli náttúrulækningafólks og þeirra sem styðja hefðbundin viðhorf í manneldismálum. Þegar unnið hafði verið úr öllum gögnum frá rannsókninni lágu niðurstöður hennar fyrir svo að allir máttu sjá sem vildu.Þeim sem fengu hefðbundna fæðið hafði öllum hrakað eitthvað og sumum mikið.
Þetta kom reyndar ekki svo mjög á óvart, því að þeir fengu sama fæði og kransæðasjúklingar í Bandaríkjunum fá almennt og vitað er að kransæðasjúkdómar eru algengasta banamein þar í landi. Þegar farið var að athuga hinn hópinn, sem fengið hafði náttúrulækningafæðið, kom hinsvegar í ljós ýmislegt sem gerði vísindamennina forviða. Ástand þeirra sjúklinga allra hafði batnað frá því árið áður. Margir voru orðnir algerlega lausir við öll einkenni sem bentu á þrengsli í kransæðum. Röntgenmyndir og aðrar athuganir sýndu að blóðrennsli um kransæðamar hafði aukist og í sumum tilfellum höfðu þrengsli, sem sáust á röntgenmyndum, horfið fullkomlega. Þetta gengur algerlega í berhögg við hugmyndir flestra sérfræðinga, sem telja að þrengsli, sem einu sinni eru komin í kransæð, hverfi aldrei af sjálfsdáðum.
Er hin viðurkennda stefna röng?
Dr. Dean Omish, læknir, sem að áðurnefndri tilraun stóð og starfar við Háskóla San Fransiscoborgar,hefur ákveðnar skoðanir á orsökum hinna svokölluðu menningarsjúkdóma. Jafnvel á meðan hann ennþá var læknastúdent víð Baylor- læknaskólann í Texas, undraðist hann hversvegna flestir læknar töldu það sjálfsagðan hlut að taka æðar annars staðar úr líkamanum og tengja fram hjá lokuðum æðum í hjartanu, frekar en að komast fyrir orsakir þess að æðamar lokuðust. Oft á tíðum lokast ígræddu æðamar fljótt og sjúklingurinn er í engu betur settur en áður. Líkt má segja um þá aðgerð að blása upp lítinn belg, sem komið er fyrir inni í hálflokaðri æð, og víkka þannig æðina út innan frá.
Ýmsir hafa áður bent á að breytingar á lífsstíl væru það sem mestu máli skipti í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma. Þetta á trúlega einnig við um flesta aðra sjúkdóma. Dr. Omish áleit að rétt fæði, hæfileg áreynsla og minni streita væru þau atriði sem höfuðmáli skiptu. Engin rannsókn sem áður hafði verið gerð tók til allra þessara atriða. Hann ákvað því að gera slíka tilraun með þá kenningu að leiðarljósi að ef eitt þessara atriða væri gott fyrir sjúklinginn, þá væru tvö ennþá betra og þrjú allra best.
Tilraunin var síðan gerð og nú liggja niðurstöður hennar á borðinu eins og áður var frá skýrt. Þessi tilraun sýnir svo að ekki verður um villst, að hægt er að ná frábærum árangri, án lyfja eða aðgerða sem þarfnast sérþjálfaðra lækna eða hátæknibúnaðar, sem kostar þjóðfélagið og einstaklingana óhemju mikið fé, auk glataðra vinnustunda. Einnig sýnir tilraunin að hin viðurkennda heilbrigðisstefna vestrænna landa er ófær um að skila viðunandi árangri, miðað við þann gífurlega kostnað sem af henni leiðir.
Kólesterólið skiptir ekki höfuðmáli.
Það kom nokkuð á óvart, að enda þótt kólesteról magnið í blóði sjúklinganna lækkaði yfirleitt umtalsvert, þá virtist það í að minnsta kosti sumum tilfellum ekki vera afgerandi atriði varðandi það hvort ástand sjúklinganna batnaði eða ekki.
Einn sjúklinganna t.d., Robert Royall, var með óvenju hátt kólesteról í blóði, sem trúlega hefur stafað af ættgengri veilu. Blóð hans lækkaði úr 360 mg/100 ml niður í 250 mg, þegar hann fór á mataræði dr. Omish. Það var þó ennþá svo hátt að hann var að hugsa um að gefa honum kólesteróllækkandi lyf en hætti við það, þegar hann sá hversu æðar hans höfðu lagast, enda þótt kólesterólið væri ennþá of hátteftir hefðbundinni viðmiðun.
Áður en tilraunin hófst, hafði dr. Omish álitið að kólesterólið í blóði sjúklinga þyrfti að fara niður í 180 mg/100 ml eða neðar, ef einhver von ætti að vera að takast mætti að hreinsa kólesteról innan úr æðum sem orðnar væru hálflokaðar. Dæmi Robert Royalls sýndi svo að ekki var um villst að þessi skoðun var röng. Enda þótt lágt kólesteról sé vafalaust mikilvægt til að verjast kransæðasjúkdómum, er þó augljóst að fleira skiptir máli. Á meðan sjúklingarnir héldu sig við meðferðarferli dr. Omish, héldu æðar þeirra áfram að lagast og það enda þótt kólesterólið í blóði þeirra væri í sumum tilfellum hærra en almennt hefur verið talið æskilegt.
Fengu lífið aftur
Læknar hafa tekið þessum upplýsingum með ýmsu móti. Margir hafa fallist á hugmyndir dr. Ornish og tekið þeim með fögnuði. Aðrir eru efagjarnir. Læknastéttin sem heild, er í eðli sínu íhaldssöm og margir læknar halda að sér höndum og bíða frekari rannsókna.
Á sama tíma njóta sjúklingarnir þess að hafa á einu ári verið hrifsaðir úr greipum dauðans og fengið tækifæri til að njóta lífsins aftur. Þeim ber saman um að líðan þeirra batnaði næstum því samstundis og þeir hófu að ástunda þennan nýja lífsstíl. Nú er líðan þeirra allra ,,stórkostleg“ að eigin mati og borin saman við ástand þeirra fyrir ári. ,,Með þeirri þekkingu sem við nú höfum, þá held ég að hægt sé að koma í veg fyrir hjarta- sjúkdóma hjá megin þorra bandarísku þjóðarinnar, án nokkurra nýrra lyfja eða annarra óþekktra nýjunga“, segir dr. Omish. Helsti gallinn við meðferðarferli dr. Omish er, að mati ýmissa bandaríkjamanna, hversu mataræðið er ,,óamerískt“.
Fæðan er að mestu grænmeti, kornvörur, rótarávextir og lítilsháttar af ávöxtum en mjög snauð afpróteinum og fitu úr dýraríkinu, sem nú er aðal uppistaðan í bandarísku fæði. (Þetta á einnig við um fæðu flestra annarra vestrænna þjóða.) Þannig fæða er einkum notuð í þriðja heiminum og fjarlægustu Austurlöndum, t.d. Kína og Japan. Einmitt í þeim löndum eru hjartasjúkdómar mjög sjaldgæfir. Getum við e.t.v. lært eitthvað af þeim samanburði?
Gerbreytt viðhorf
Í Newsweek 27. maí 1991 er löng grein sem tekur til meðferðar þau nýju viðhorf í manneldismálum sem nú virðast vera að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum í framhaldi af rannsóknum dr. Omish og fleiri vísindamanna. Greinilegt er að höfundur telur fulla ástæðu til að staldra við og huga að því hvað við getum lært af niðurstöðu þessarar rannsóknar og öðrum hliðstæðum, sem gerðar hafa verið eða koma til með að verða gerðar á komandi árum. Ekki er víst að heilbrigt fólk þurfi í öllum atriðum að breyta lífsstíl sínum eins mikið og sjúklingar dr. Omish gerðu til að öðlast heilsuna á ný.
Ef til vill má þar finna einhvern meðalveg. Margir ímynda sér að heilbrigður lífsstíll sé eitthvað leiðinlegt, eitthvað sem fólk verði að láta á móti sér. Hollur matur hljóti að vera slæmur á bragðið og að öll ánægja af að njóta góðrar máltíðar hverfi um leið og hætt sé að gæða sér á steikum eða rjómatertum. Að stunda líkamsrækt sé e.t.v. ágætt fyrir ungt fólk en henti ekki miðaldra eða öldruðum einstaklingum.Margir tengja hugleiðslu við austurlensk trúarbrögð, búddhisma eða hindúisma og halda að sá sem hugleiðir sitji með krosslagða fætur og horfi á naflann á sér og bíði eftir að komast í nirvana.
Allt þetta er á meiri eða minni misskilningi byggt. Flestir þeir sem tekið hafa upp fæði sem líkist fæði dr. Ornish eru mjög ánægðir með breytinguna og segjast nú njóta máltíðanna síst minna en áður. Athyglisvert er að enda þótt fólk borði yfír sig af þannig fæðu líður því ekki illa eftir máltíðina, eins og oft á sér stað eftir kjöt máltíð. Svo er annað sem einnig skiptir máli, að minnsta kosti fyrir suma. Mjög ólíklegt er að þannig fæða valdi offitu. Og síðast en ekki síst, þegar fólk er búið að vera á þannig fæðu í nokkurn tíma fer því að líða betur.Stundum lagast einhverjir kvillar eða sjúkdómar, en stundum kemur það aðeins fram í bættri almennri líðan. Fólk verður hressara á morgnanna, sefur betur og þreytist minna.
Í rauninni finnst mér að varla ætti að þurfa að rökstyðja gagnsemi hóflegrar hreyfingar fyrir kyrrsetufólk, svo margt má telja henni til gildis. Hreyfingin eykur blóðstreymið um líkamann, víkkar út æðar og verkar þannig lækkandi á blóðþrýsting. Hún er talin lækka kólesteról og tríglyceríð í blóði og draga úr myndun streituhormóna, auk þess að styrkja vöðva og bein. Þá eykur hún súrefnisupptökuna í lungunum og sé hún framkvæmd undir beru lofti, án gleraugna, fá augun sinn skammt af dagsbirtu sem nýlegar rannsóknin benda til að sé, fyrir suma að minnsta kosti, næstum því eins mikilvæg og matur og drykkur.
Þetta og margt fleira gerir hæfilega hreyfingu undir beru lofti að sannkölluðum heilsubrunni. Hugleiðsla er af mörgum talin trúarleg iðkun og sér í lagi vera tengd austrænum trúarbrögðum. Þetta er að sumu leyti rétt en að öðru leyti rangt. Hugleiðsla getur að vísu verið með ýmsu móti en eins og ég skil hana er hún viðleitni einstaklingsins til að tengjast sínum innri veruleika. Sumir kunna að nefna þennan veruleika einhverjum nöfnum, t.d. Guð, Krist eða Búddha. Aðrir nefna hann Tómið eða Tao eða vilja ekki kalla hann neitt.
Það skiptir ekki höfuðmáli. Það sem skiptir máli er að nái einstaklingurinn að tengjast þessum æðri veruleika, fylgir því ólýsanlegur innri friður og djúp slökun. Þetta er óháð trúarbrögðum í venjulegum skilningi. Náskyld hugleiðslunni er bænin. Trúuðu fólki er sennilegra oft eðlilegra að biðja en að stunda hugleiðslu, þó að það geti auðveldlega farið saman. Þar verður hver og einn að fara eftir eigin tilfinningu. Trúin er máttug. „Sá getur allt sem trúna hefur“, stendur í helgri bók. Enginn skyldi vanmeta þau orð þó að okkur flest skorti þá trú sem þar er átt við.
Með trú á ég ekki einvörðungu við trúna á Guð eða æðri máttarvöld. Þar á ég einnig við trúna á bata. Bjargföst trú á bata er sennilega eitthvert besta veganesti sem sjúklingur getur búið sig út með. Þetta er ekki aðeins einhver óskhyggja sem slegið hefur verið fram. Vísindalegar rannsóknir víða um heim benda eindregið til þess að þeim sjúklingum farnist yfirleitt mun betur, sem trúa á bata heldur en hinum sem trúa ekki. Svo að aftur sé snúið að mataræðinu og hvað við Íslendingar getum í þeim efnum lært af rannsókn dr. Dean Omish, finnst mér rétt að það komi fram, að sennilega er óþarfi að hætta allri fiskneyslu fyrir kransæða-sjúklinga.
Þvert á móti er ýmislegt sem bendir til þess að fiskfita sé hjartanu holl, að minnsta kosti í einhverjum mæli (sjá grein eftir Sigm. Guðbjarnason í Hh 1.-2. tbl. 1991). Einnig tel ég líklegt að flestir mættu nota eitthvað afmögrum mjólkurafurðum, t.d. skyr og undanrennu, hafi þeir ekki ofnæmi eða óþol fyrir mjólkurvörum, sem er því miður miklu algengara en marga grunar. Fituneyslu, sérstaklega harðfeiti, þarf þó örugglega að skera mikið niður. Bandaríska könnunin sýndi að 30% af heildarorkugildi fæðunnar er allt of mikið til að snúa við þróuninni hjá þeim sem fengið hafa þrengingar í kransæðar (Nú mun fituneyslan vera nálægt 40% og markmið manneldisráðs 30%). Önnur hliðstæð könnun og sú sem dr. Omish gerði, þar sem hluti fitunnar sem sjúklingarnir neyta væri fenginn úr fiskmeti, væri mjög fróðleg.
Þangað til sú tilraun verður gerð er tæplega hægt að segja neitt afgerandi um hversu mikils sjávarfangs rétt er að mæla með að kransæðasjúklingar neyti, þó að ýmislegt bendi til þess að fiskneysla í hófi sé fremur til góðs en ills. Rannsókn dr. Ornish hefur fengið ýmsa til að líta mataræði vestrænna þjóða nýjum og gagnrýnum augum. Þetta gæti, að sumra dómi, leitt til þess að innan fárra ára yrðu tekin upp ný langtíma markmið í manneldismálum Bandaríkjanna, þar sem prótein- og fituneysla yrði stórlega skert. Þetta er einmitt í anda heilsubótarhreyfingarinnar og eitt það helsta sem hún hefur barist fyrir frá upphafi. Hvenær þetta verður er erfitt að segja, en það boðar undir öllum kringumstæðum gerbreytt viðhorf.
Höfundur: Ævar Jóhannesson
Flokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar