Hreyfing er nauðsynleg eftir hjartaaðgerð

Á seinni árum hafa hjartaaðgerðir orðið æ tíðari. Misjafnt hefur verið hve fljótt fólk hefur náð sér eftir slíkar aðgerðir.

Hér fer á eftir viðtal frá árinu 1991 við Kristin Sigurjónsson prentara sem var ótrúlega fljótur að jafna sig eftir hjartaaðgerð og koma lagi á blóðþrýsting og blóðfitu. Batann þakkar hann göngum, réttu fæði og fæðubótarefnum. H.h. bað Kristin að segja frá reynslu sinni ef ske kynni að það gæti komið öðrum að gagni.

Kristinn: Ég var 56 ára þegar bróðir minn, sjö árum eldri, lést snögglega úr kransæðastíflu sem ekki hafði verið tekin nógu alvarlega til að eitthvað væri gert í því. Þetta varð til þess að ég fór í rannsókn sem leiddi í ljós að ég var með of háan blóðþrýsting og mikla blóðfitu. Áframhaldandi rannsóknir sem fóru fram á næstu tveimur árum leiddu í ljós að mikið var farið að setjast í þrjár kransæðar. En eftir að þrengsli myndast í þessum æðum er oft ekki langur tími þar til þær stíflast. Ég var settur í hjartaþræðingu og læknar töldu sýnt að hjá uppskurði yrði ekki komist og að ég myndi þurfa blóðþrýstingslyf það sem ég ætti ólifað. En þessi lyf fóru illa í mig þó ég reyndi margar tegundir af þeim.

Breytti um lífsstíl
Ég fór strax að hugsa um hvað ég gæti gert til að hjálpa mér sjálfur. Í rannsóknunum var mér ráðlagt að breyta um mataræði og fékk ég lista yfir það frá Landsspítalanum. Fæðið bætti ég svo upp með ýmsum fæðubótarefnum eins og t.d. hvítlauk, lesitíni, vítamíni og fjölvítamíni með snefilefnum. Eftir þessa breytingu lét blóðfitan brátt undan síga og blóðþrýstingurinn fór minnkandi.

Hjartaaðgerðin
Aðgerðin var gerð í Cleveland Clinic í Bandaríkjunum og gekk vel Ég var útskrifaður á áttunda degi og fór heim tveimur dögum seinna. Á sjúkrahúsinu fékk ég fyrirmæli um hvernig ég ætti að haga mér þegar heim kæmi. Það voru einföld ráð en hafa reynst mér áhrifarík. Til að byrja með mátti ég ekki reyna á mig að neinu öðru leyti en að ganga. Fara hægt af stað, aldrei að pína mig en auka gönguna jafnt og þétt þangað til ég væri orðinn vel heitur. Þeir sögðu að það væri betra að ganga hratt í fimmtán mínútur og hitna vel, heldur en að ganga í klukkutíma og hreyfast lítið. Til að hjartavöðvinn fái þá þjálfun sem hann þarf er nauðsynlegt að ganga sér til hita. Í hvíldarstöðu átti ég að liggja, ekki sitja og alls ekki krossleggja fætur. Ég fór alveg eftir þessum ráðleggingum þó að ég væri aumur og slappur eftir skurðinn og var fljótur að ná mér. Ég byrjaði að vinna mánuði eftir heimkomuna.

h.h: Fórstu ekki í þjálfunina á Reykjalundi?
Kristinn: Nei, ég mátti ekki einu sinni keyra bíl í tvo mánuði eftir aðgerðina vegna þess að þeir sögðu það vera óæskilega hreyfingu fyrir brjóstvöðvana.

Losnaði við lyfin
Skömmu eftir aðgerðina gat ég hætt að taka inn blóðþrýstingslyfin og þakka ég það mest þessum breytta lífsmáta. Síðan eru liðin tíu ár. Í dag tek ég engin lyf og er vel á mig kominn.

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 1991Flokkar:Reynslusögur

%d bloggers like this: