Háþrýstisúrefnislækningar

Rætt við Einar Sindrason, lœkni árið 1991
Víða erlendis hafa háþrýstilækningar veríð stundaðar í áratugi, þó að þær séu lítt þekktar hérlendis og hafi aðeins verið notaðar í örfáum köfunarveiki tilfellum. Heilsuhringurinn frétti að Einar Sindrason, læknir, beitti sér fyrir því að fá þœr teknar upp hérlendis. Við heimsóttum Einar og spurðum hann hvað hafi vakið áhuga hans á þessari lœkningarmeðferð.

Einar: Upphafleg kynni mín af háþrýstilækningum voru er við hjónin fórum á læknaráðstefnu, sem haldin var á Norður Ítalíu árið 1989. Þar hittust háls-, nef- og eyrnasérfræðingar frá ýmsum löndum. Á þessari ráðstefnu kynntist ég tveimur ítölskum læknum. Annar þeirra heitir Calcedonio Gonzales. Auk þess að vera sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnasjúkdómum er hann einnig lærður svæfingar- og köfunarlæknir. En háþrýstilækningar eru kenndar sem undirgrein í svæfingarlækningum. Hann er yfirlæknir köfunarlækninga á Sikiley og ritari í stjórn samtaka köfunarlækna á Ítalíu og hann vinnur að því að fá þessar lækningar kenndar sem sérgrein en ekki sem undirgrein í svæfingarlækningum eins og núna er.

Fór aftur til Ítalíu.
Í september síðastliðnum heimsótti ég háþrýstilækningadeild AE-SIO sjúkrahússins í Róm. Í þeirri ferð voru einnig læknarnir, Ástráður B. Hreiðarsson, sérfræðingur í innkirtlasjúkdómum, Magni Jónsson, sérfræðingur í lungnasjúkdómum og Tryggvi Þorsteinsson, skurðlæknir. Þar er háþrýstiklefi sem tekur 10 manns í sæti. Hann er í notkun allan sólarhringinn ef þörf krefur. Þar er tekið á móti bráðatilfellum og allar deildir sjúkrahússins eiga aðgang að klefanum.

Frá Róm fór ég til Sikileyjar og eyjunnar Ustica þar sem ég fylgdist í tvo daga með og tók þátt í háþrýstilækningum. Þar er mikið um kafaraveiki vegna þess að á þessum slóðum er köfun stunduð sem sport yfir sumarleyfistímann. Aftur á móti er ekki um þannig tilfelli að ræða á AE-SIO sjúkrahúsinu heldur er þar aðallega meðhöndlað fólk eftir slys og eitranir af völdum kolmonoxid gass. Á þeim slóðum er notað gas til upphitunar húsa. Auk þess er alltaf nokkuð um sjálfsmorðstilraunir út frá gasi og einnig frá útblæstri bíla.

Fékk sjálfur bata.
Um fimm vikum áður en ég fór í þessa ferð, varð ég fyrir því óhappi að vöðvi slitnaði í fætinum á mér. Við það slys kom blæðing og bjúgur á fótinn og ég varð mjög slæmur til gangs. Háþrýstisúrefnismeðferð gefst vel í slíkum tilfellum og er vanalega meðhöndlað þrisvar til fjórum sinnum og þá miðað við 18 metra háþrýstidýpi. En vegna þess hve tíminn var naumur komst ég bara í eitt skipti. Í mínu tilfelli var miðað við 22ja metra dýpi. Ótrúlega mikill bati kom í ljós eftir þessa einu meðferð.

Háþrýstimeðferð.
Meðferðin byggist á því að þegar andað er að sér súrefni undir háþrýstingi eykst súrefnisflæði um alla líkamshluta. Rannsóknir hafa sýnt að vefir njóta þessarar súrefnisburðargetu margfalt fram yfir einfalda súrefnisnotkun. Gróandinn verður svo umfram það sem venjulega gerist. Þegar sest er inn í klefann setur sjúklingurinn upp súrefnisgrímu. Eftir tuttugu mínútur er gríman tekin niður í þrjár mínútur til að forðast að viðkomandi fái krampa. Við svona mikinn þrýsting myndast gífurleg hella fyrir eyrum, en til þess að varna því (að fá hellu) er nauðsynlegt að kunna að blása út í kokhlustina. Miðeyrað er eina loftfyllta líffærið í öllum líkamanum þar sem allt er lokað. Þar ræður sama lögmál og annarsstaðar í líkamanum, rauðu blóðkomin taka til sín það súrefni sem þau ná í.

Til þess að verjast hellu þarf kokhlustin að starfa eðlilega eins og hún gerir þegar við kyngjum, geispum eða göpum, þá jafnast þrýstingurinn út eðlilega og við finnum ekki fyrir því að það er alltaf að myndast smá hella inni í miðeyranu. Ef einhverra hluta vegna viðkomandi nær ekki að blása út í kokhlustina þarf að setja rör í eyrað og jafna þrýstinginn í innra eyranu til að koma í veg fyrir að hljóðhimnan springi og af hljótist varanleg heyrnardeyfð. Fyrir meðferðina er sjúklingurinn athugaður vandlega og gengið úr skugga um að hjarta og lungu séu í góðu ásigkomulagi og honum kennt að blása út í eyrun.

Reynsla og rannsóknir.
Með tilliti til rannsókna og árangurs af háþrýstilækningum, má skipta sjúkdómum í þrjá flokka. Í fyrsta lagi þá sem ,,geta læknast“ með háþrýstimeðferð t.d. hefur verið gerð stór könnun á blindu afvöldum sykursýki og æðakölkunar. Þó að endanlegar niðurstöður liggi ekki fyrir bendir allt til þess að úr þannig blindu megi draga verulega. Sama er að segja um skyndiblindu af völdum æðastíflu í aðalæð til augans, sem hefur verið hægt að bjarga, í þeim tilfellum sem hafa komið innan 24 klukkutíma.

Köfunarveikitilfelli þurfa að komast í meðferð innan klukkutíma ef ekki á að hljótast verulegur skaði af. Meðferðin hefur gagnast vel við herpes (sjaldgæfur sjúkdómur í hornhimnu augans) vírussjúkdómi sem er algengt að valdi sjóndepru og jafnvel blindu. Nokkuð hefur verið um bráða tilfelli eftir hjartaaðgerðir, þar sem komið hefur upp stífla vegna lofts í lungnaslagæð (blóðtappi myndaður af lofti).

Með því að setja þessi tilfelli í háþrýstiklefa hefur blóðtappinn horfið og þannig verið hægt að bjarga fólki frá sjúkdómum og jafnvel dauða. Svo má nefna allskyns eitranir, drep í útlimum, sérstaklega eftir sykursýki og skemmdir eftir röntgenmeðhöndlanir. Í öðru lagi eru sjúkdómar sem meðferð getur hjálpað til við og flýtt fyrir bata, hvort sem um er að ræða lyflæknisfræðilegan eða handlæknisfræðilegan bata. Þar má nefna allskyns þarmabólgur, sérstaklega eftir geislanir vegna illkynja sjúkdóma, beinbrot sem af einni eða annarri orsök gróa illa, krónískar eða bráðabeinabólgur, sáramyndanir, sem stafa af æðatruflunum og allskyns æðavandamál þ.e.a.s. þegar slagæðar ná ekki nægilega til líffæra, hvort sem það er af völdum sjúkdóma eða slysa. Í þriðja lagi eru sjúkdómar sem ekki hefur náðst öruggur árangur með. Þar má nefna heila og mænusigg (M.S), þar sem ekki er hægt að sanna að meðferð auki framtíðarbata, þó sjúklingar tali um betri líðan meðan á meðferð stendur.

Hefur kynnt þetta meðal lækna hérlendis.
Að mínu frumkvæði komu hingað þessir ítölsku læknar, sem ég minntist á í upphafi og héldu fyrirlestur um þessa meðferð á Borgarspítalanum. Þeir hafa mikla reynslu í þessum lækningum. Einnig kom hingað Roy Myers læknir og hélt fyrirlestur, en hann er sérfræðingur á slysaskurðdeild á sjúkrahúsi í Maryland í Bandaríkjunum. Þar kemur aðeins fólk, sem hefur lent í stórslysum og er mikið lemstrað. Hann sagði frá því hvernig oft væri hægt með háþrýstilækningum, að bjarga mikið lemstruðum útlimum sem annars hefði þurft að taka af.

Ég er í sambandi við ítalskan enskumælandi lækni, sem býðst til að koma hingað í tvær til þrjár vikur og hjálpa okkur við að koma þessum lækningum af stað hér. Hann fer ekki fram á laun, heldur aðeins að greiddar séu fyrir hann ferðir og uppihald. Það má segja að það vanti ekki annað en að hrinda þessu í framkvæmd. En sú framkvæmd veltur auðvitað á skilningi heilbrigðisyfirvalda á þörfinni fyrir þetta hér og að kostnaður við það verði ekki of mikill.

Klefinn er til í landinu.
Eftir það að hafa kynnst því hversu mikið gagn er hægt að hafa af svona háþrýstisúrefnislækningum, hef ég ákveðið að reyna að beita mér fyrir því að þær verið teknar upp hérlendis.

H.h. Er mikill kostnaður því samfara ?
Einar:  Það sem er dýrast við þessar lækningar er klefinn. En það vill svo vel til að Landhelgisgæslan á klefa. Síðan er það kostnaður við laun tæknimanna, sem þurfa að vera tveir. Annar til að stjórna inní klefanum og hinn fyrir utan. En tveir Íslendingar hafa nú þegar lært og fengið þjálfun í meðferð klefans. Svo vitum við að súrefnið er dýrt, og það kostar líka peninga að þjálfa fólk til að sinna þessum lækningum. En það er ennþá dýrara t.d. að missa útlim, sem hefði e.t.v. verið hægt að bjarga. Ég get sagt þér eina sögu úr fjölskyldunni minni. Frænka konunnar minnar fékk bólgu í annan fótinn eftir geislameðferð og það endaði með því að það varð að taka hann af. Einmitt í svona tilfelli hefði súrefnismeðferð e.t.v. getað komið að gagni og bjargað fætinum. En við höfum bara ekki vitað það fyrr en núna, að þessi leið sé fær.

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir  árið 1991

 



Flokkar:Greinar og viðtöl

%d