Fiskneysla – hjarta- og æðasjúkdómar

Erindi flutt af Sigmundi Guðbjarnasyni prófessor á haustfundi Heilsuhringsins 1990

Faraldsfræðilegar rannsóknir gefa til kynna að dánartíðnin af völdum kransæða sjúkdóma minnki með vaxandi fiskneyslu eða neyslu á ómega-fitusýrum (1). Jákvæð áhrif ómega-3 fitusýra á heilsufar geta verið margvísleg, geta þær t.d. dregið úr myndun blóðtappa og æðakölkun. Leitað er frekari þekkingar og skilnings á hlutverki ómega-3 fitusýra í frumuhimnum eða við myndum prostaglandina og skyldra efna.

Í þessari grein er kannað hvort samband sé á milli fiskneyslu og dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á Norðurlöndum. Jafnframt er kannað hvort þessir þættir tengist magni arachidon-sýru í blóði manna, en arachidon-sýra er mikilvægasta ómega-6 fitusýran og er ummynduð í prostaglandin-efni og fjölda annarra mikilvægra stjórnunarefna. Loks er fjallað lítillega um áhrif þessara fjölómettuðu ómega-3 og ómega-6 fitusýra á frumuhimnur og hormóna-viðtaka í hjartanu. Dánartíðni aldraðra á Íslandi afvöldum hjarta- og æðasjúkdóma er lægri en annars staðar á Norðurlöndum.Dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, hjá 75 ára og eldri, lækkar með vaxandi fiskneyslu þjóðanna (kg á mann á ári) (2,3).

Slíkt samband fiskneyslu og dánartíðni er ekki fyrir hendi hjá yngri aldurshópum og athygli vekur að Finnar fylgja ekki öðrum Norðurlandaþjóðum enda erfðafræðilega af öðrum uppruna. – Dánartíðni aldraðra (75 ára) á Norðurlöndum vex með auknu magni arachidon-sýru í plasma fosfolipidum (fosfolipidum í blóðvökva) hjá þessum þjóðum. Þessar upplýsingar benda til þess að fiskneysla og magn arachidon-sýru í blóði hafi andstæð áhrif á æðakölkun og hjarta- og æðasjúkdóma.

Magn arachidon-sýru í blóði minnkar í beinu hlutfalli við vaxandi fiskneyslu þessara þjóða. Stafar það væntanlega af því að ómega-3 fitusýrur í fiskmeti koma í stað ómega-6 fitusýra svo sem arachidon sýru. Virðist hátt hlutfall ómega-6 fitusýru miðað við ómega-3 fitusýru vera samfara aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum en ekki er fyllilega ljóst hvernig á því gæti staðið. Áhrif ómega-3 fitusýra á blóðflögur er nokkuð vel þekkt en þá veldur aukið framboð af EPA, þ.e. ómega-3 fitusýru, því að samloðun á blóðflögum minnkar en við það dregur úr hættu á myndum blóðtappa.

Áhrif ómega-3 fitusýra áhjartavöðvann sjálfan eru lítið þekkt. Aukin neysla á ómega-3 fitusýrum, t.d. fiski eða þorskalýsi, eykur magn þessara fitusýra í frumuhimnum í hjartanu og minnkar þá magn ómega-6 fitusýra, einkum arachidonsýru (4). Athyglisvert er að við mikið streituástand þá vex bæði magn langra ómega-3 og ómega-6 fitusýra ákostnað styttri fitusýra og virðist jafnvægi þessara ómega-3 og ómega-6 fitusýra þýðingarmikið við streituaðlögun (5)(6). Rannsóknir okkar í

Raunvísindastofnun Háskólans beinast að því að kanna hvort og þá hvernig ómega-3 og ómega-6 fitusýrur geta haft áhrif á streituþol í tilraunadýrum. Tilraunadýrin eru rottur sem aldar eru á fóðri sem inniheldur ýmist 10% kornolíu (til að auka ómega-6 fitusýrur), 10% smjör (sem viðmiðun) eða 10% þorskalýsi (til að auka ómega-3 fitusýrur). Eru rottur aldar á slíku fóðri frá tveggja mánaða aldri til tveggja ára aldurs. Streituþol þessara dýra var kannað með því að sprauta þau með litlu magni aförvandi efni (isoproterenol, 1 mg/kg undir húð).

Þetta streituvaldandi efni örvar hjartslátt og eykur álag á hjartað en getur jafnframt valdið hjartatitringi (ventricular fíbrillatrin) og skyndilegum hjartadauða. Í ljós kom að rottur aldar á fóðri með þorskalýsi höfðu lægstu dánartíðni en rottur aldar á kornolíuríku fóðri höfðu hæsta dánartíðni af völdum þessa streituástands. Frekari rannsóknir á því hvernig fæðufita getur haft áhrif á streituþol beinast að hormóna-viðtökum í frumuhimnum í hjarta þessara tilraunadýra.

Viðtakar þessir binda hormón, t.d. streituhormónið adrenalín, og flytja boðin sem hormónið ber til frumunnar áfram í gegnum frumuhimnuna inn í frumuna og örvar þar margvíslega starfsemi. Mælingar á fjölda og bindieiginleikum eða virkni slíkra viðtaka voru gerðar á yngri og eldri rottum sem fengið höfðu mismunandi fóður. Minnkaði fjöldi hormónaviðtaka í frumuhimnum með aldri og mest hjá þeim dýrum sem voru alin á kornolíuríku fóðri en minnst hjá þeim sem alin voru á fóðri með þorskalýsi. Hjá eldri dýrum var virkni eða bindihæfni viðtaka sem binda adrenalín mest hjá dýrum sem fengu kornolíuríkt fóður en helmingi minni hjá þeim sem fengu þorskalýsi. Kannað verður nánar hvort eiginleikar hormónaviðtaka séu beinlínis háðir fituefnasamsetningu frumuhimnu í nánasta umhverfi viðtakanna eða hvort fæðufita hefur óbein áhrif, bæði hjá yngri sem eldri dýrum.

Helstu niðurstöður:
1. Dánartíðni aldraðra af völdum hjarta- og Æðasjúkdóma á Norðurlöndum er lægri hjá þjóðum með meiri fiskneyslu.
2. Tegund feitmetis hefur mikil áhrif á efnasamsetningu hjartans og streituviðbrögð. Ómega-3 fitusýrur í fiski og lýsi auka streituþol hjartans og minnkar tíðni hjartadauða í tilraunadýrum í samanburði við tilraunadýr alin á kornolíuríku fóðri.
3. Jafnvægi milli ómega-6 fitusýra (í jurtaolíum) og ómega-3 fitusýra (í fiskmeti) í frumum virðist hafa áhrif á virkni streituhormóna-viðtaka í hjarta og stjórna þannig viðbrögðum við streitu í eldri tilraunadýrum.

Tilvitnanir:
1. Kromhout: n-3 fatty acids and coronary heart disease: Epidemiology from Eskimos to Westem populations. J. Int. Med. 1989:225:47-51.* 2. Yearbook ofNordic Statistics, 1986;25. *3. FAO Fishery Statistics, Rome, 1988.* 4. V.E. Benediktsdóttir og S. Guðbjarnason: Modification of the fatty acid composition of rat heart sarcolemma with dietary cod liver oil, com oil or butter. J. Mol. Cell. Cardiol. 1988:20:141-147.* 5. A. Emilsson og S. Guðbjarnason: Reversible alterations in fatty acid profile of glycerophospholipids in rat heart muscle by repeated norepinephrine administration. Biochim. Biophys. Acta 1983:730:1-6.*6. V.E. Benediktsdóttir og S. Guðbjarnason: Reversible alterations in fatty acid composition of heart muscle membrane phospholipids induced by epinephrine in rats fed different diets. J. Lipid Res. 1988:29:765.



Flokkar:Næring

%d bloggers like this: