Dr. Grace Halloran á Íslandi. – Að vinna bug á augnsjúkdómum

Erindi flutt á aðalfundi Heilsuhringsins árið 1990

Aðdragandi þess að dr. Grace Halloran kom til Íslands má rekja til viðleitni nokkurra einstaklinga hér á landi til að vinna bug á augnsjúkdómum er þeir þjáðust af. Einn þessara einstaklinga er Páll V. Daníelsson sem varð 1986 var við verulegar sjóntruflanir hjá sér. Við læknisskoðun reyndist um að ræða kölkun í augnbotnum. Páli var sagt að við þessu væri engin þekkt lækning. Hætta væri á að lessjón gæti horfið en ekki yrði um alblindu að ræða þar sem hliðarsjón myndi haldast. Páll var ekki sáttur við að bíða og gera ekki neitt og ákvað að gera tilraun með breytt mataræði.

Hann ræddi við Þuríði Hermannsdóttur, sem sérhæft hefur sig í makróbíótísku mataræði, og gaf hún honum ýmsar leiðbeiningar. Hún sagði honum líka frá Þórarni Pálssyni á Egilsstöðum, sem um árabil væri búinn að leita sér lækninga við augnsjúkdómi sínum og byggi yfir miklum upplýsingum í því sambandi. Páll hafði samband við Þórarinn og frétti þá að Þórarinn væri kominn í samband við dr. Grace Halloran. Það var svo í janúar 1988 sem dr. Halloran kom og hélt 14 daga námskeið fyrir 6 einstaklinga er áttu við augnsjúkdóma að stríða.

Þegar líða tók á námskeiðið fór árangur að koma í ljós. Sumir merktu það strax á námskeiðinu að sjónin hefði batnað. Að námskeiðinu loknu héldu þau áfram æfingum hvert fyrir sig auk þess sem þau hittust einu sinni í viku og æfðu saman og styrktu þannig hvert annað í baráttunni fyrir betri augnheilsu.Allir í hópnum hafa fengið nokkrum árangur, sumir verulegan, en það sem á skyggði var aðaugnveiki þess manns sem átti kraftinn og dugnaðinn í því að fá dr. Halloran til landsins, Þórarinn Pálsson, náði ekki árangri. Þau sem þátttóku í augnæfingarmeðferðinni eru þó í engum vafa um að hægt sé í flestum tilvikum með eljusemi og þolinmæði að vernda og bæta sjónina með þjálfunaraðferð dr. Halloran.

Fólkið í þessum hópi er með mismunandi augnsjúkdóma svo að þjálfunaraðferðin virðist bæta almenna augnheilsu þótt hún dugi ekki við öllum sjúkdómum. Aðferð dr. Halloran er einföld og byggist á því að lifa við heilbrigt mataræði, forðast neysluóhollra efna („eiturefna“) eins og koffíns (kaffi), nikótíns (sígarettur, vindlar) og alkóhóls (áfengi).Þá er mikilvægt að anda rétt og djúpt til að blóðið verði sem súrefnaríkast, stunda líkamsæfingar sem auka blóðsteymi til augnanna, og þrýsta á vissa punkta er tengjast augunum. Hugafar fólks þarf líka að vera jákvætt og fólk þarf að hafa vilja til að virkja eigin líkamsorku til að vernda og bæta augnheilsuna. Þau sem starfað hafa í þessum hópi eru reiðubúin að kynna þjálfunaraðferð dr. Halloran nánar hafi fólk áhuga á slíku og mun Heilsuhringurinn hafa milligöngu þar um ef óskað er. Þeir sem vilja komast í augnæfingahóp getahringt á skrifstofu Heilsuhringsins í síma 689933 miðvikudaga og fimmtudaga milli kl. 9 og 12.

Hver er dr. Grace Halloran?
Grace Halloran er Bandaríkjamaður. Þegar hún var 24 ára hafði hún góða stöðu hjá verðbréfafyrirtæki þar sem hún vann við tölvur. Um það leyti fór hún að taka eftir því að hún vann störf sín ekki eins vel og áður. Höfuðverkur, svimi og ljósdeplar fóru að há henni. Dag einn ók hún bíl sínum út af og velti honum og sama gerðist með reiðhjólið sem hún missti stjórn á. Halloran leitaði til lækna og gekkst undir fjölda rannsókna. Niðurstaðan var sú að hún væri að verða blind vegna ólæknandi nethimnusjúkdóms, RP (Retinitis pigmentosa).

Sjónsvið hennar væri að þrengjast og hefði trúlega verið að því allt frá barnæsku þótt hún hefði ekki veitt því athygli. Henni var sagt að hún myndi líklega glata sjóninni að fullu innan fárra mánaða eða í besta falli innan fárra ára. Halloran missti fljótlega vinnu sína eftir þetta.Hún fékk örorkubætur og fór að aðlaga líf sitt skertri sjón. Þannig varð hún að skila ökuskírteini sínu og læra að nota blindrastaf. Halloran hélt þó ennþá í vonina um að henni myndi batna og fékk sér vinnu hjá trúarsamtökum sem m.a. beittu sér fyrir auknum réttindum kvenfanga.

Hún hélt áfram að leita til lækna en enginn árangur varð af þeim heimsóknum. Það virtist því blasa við að hún myndi missa sjónina. Um þetta leyti varð hún ófrísk og hlaut fyrir það ávítur lækna sem bentu á að augnsjúkdómur hennar væri arfgengur og því yrði barn hennar líklega orðið blint áður en það næði fullorðins aldri. Halloran lét þó ekki bugast. Hún ákvað að eignast barnið og hét sér því að hvorki hún né það skyldu þurfa að búa við blindu. Þar með hófst áralöng barátta hennar fyrir eigin sjón, sjón sonar hennar og margra annarra.

Halloran fór fyrst til japansks sérfræðings í nálastungulækningum og lærði hjá honum um þrýstipunkta augans og síðan viðaði hún að sér margþættum upplýsingum, einkum austurlenskum, um augnsjúkdóma og meðferð þeirra. Hún þróaði síðan eigið lækningakerfi sem hún hefur stöðugt endurbætt með því að nýta sér það besta úr þeim fjölmörgu og ólíku læknisaðferðum sem hún hefur kynnt sér á umliðnum árum.Halloran náði miklum árangri með þjálfunar aðferð sinni og hefur sá árangur vakið undrun og áhuga margra augnlækna. Hún var komin í 5% sjón en tókst að ná henni upp í að verða 80%.

Það fór því svo að hún fékk ökuskírteinið sitt aftur. Sonur hennar, sem nú er 18 ára að aldri, hefur gengið í gegnum allt þjálfunarkerfið og hefur góða sjón. Móðir hennar og þrjár systur sem hlutu sama sjúkdóm hafa einnig hlotið verulegan bata undir hennar handleiðslu.Eftir að Halloran hafði náð þessum mikla árangri í meðferð hins ,,ólæknandi“ RP-sjúkdóms fór hún að halda námskeið fyrir fólk sem þjáðist af slíkum sjúkdómi sem og aðra sem áttu við annarskonar augnsjúkdóma að stríða.

Árangurinn af meðferð hennar hefur verið góður og hafa flestir fengið einhvern bata og margir verulegan og liggja fyrir um það yfirlýsingar lækna. Halloran leggur reyndar mikla áherslu á að eiga gott samstarf við lækna og að þeir fylgist með meðferðinni og vill helst að sjúklingar séu skoðaðir af augnlækni fyrir og eftir meðferð. Orðstír Halloran hefur breiðst víða út og hefur hún m.a. verið með námskeið í Englandi, Svíþjóð og á Íslandi. Hún hlaut doktorsgráðu í heildrænni heilsufræði (holistichealth science) fyrir meðferðarkerfi sitt frá Columbia Pacific University í San Rafel í Kalifomíu.

Dr. Grace

Þetta er hópur sem tók þátt í augnæfingum dr.Grace Halloran.  Frá Hægri:  Páll V. Daníelsson, Þórarinn Þórarinsson, Þuriður Hermannsdóttir, Ólafur Þór Jónsson og Sigríður Jónsdóttir.

 

 

 



Flokkar:Líkaminn

%d bloggers like this: