Nýjar leiðir í krabbameinslækningum vor 1990

Í greinum þeim sem ég hef skrifað undir þessu nafni hefur aðallega verið fjallað um ýmiskonar óhefðbundnar lækningar og lækningar sem ekki eru þróaðar eftir þeim leiðum sem alvanalegast er að hefðbundnar lækningar séu fengnar. Þær eru m.ö.o. valkostur til hliðar við hefðbundnar lækningar. Það segir þó ekki að slíkir valkostir séu síður „vísindalegir “ eða séu grundvallaðir á lakari heimildum eða rannsóknum heldur en hefðbundnu lækningar.

Munurinn felst einkum í því að óhefðbundnu lækningarnar fara oft nýjar leiðir sem ekki hafa ennþá hlotið viðurkenningu hjá þeim sem telja sig vita hvað sé rétt og hvað rangt í þessum efnum. Í þessu blaði mun ég bregða út af vananum og segja frá merkum nýjungum sem eru að gerast innan hefðbundinnar læknisfræði. Þar eru einmitt nú að verða meiri háttar þáttaskil í sambandi við lækningar og meðferð krabbameinssjúkdóma. Full ástæða er til þess að fylgjast vel með því sem þar er að gerast því að margt bendir til þess að innan nokkurra ára muni e.t.v. ný og áhrifarík lyf koma í stað þeirra lyfja, geislalækninga og skurðaðgerða sem nú eru því alls ráðandi í krabbameinslækningum. Hér á eftir mun ég segja frá því helsta sem á fjörur mínar hefur rekið i þeim efnum.

Nýtt krabbameinslyf
Vísindamenn við Sloan-Kettering stofnunina í New York hafa s.l. tólf ár unnið við rannsóknir og prófanir á algerlega nýju og óvanalegu krabbameinslyfi. Þrír menn eiga einkum heiðurinn af þessum rannsóknum, en þeir eru dr. Paul Marks, forstöðumaður stofnunarinnar, dr. Richard Rifkind, sem unnið hefur með honum og Ron Breslow, prófessor. Þessir þrír vísindamenn telja sig hafa uppgötvað nýtt krabbameinslyf sem grundvallist á algerlega nýjum hugmyndum. Þetta er efnafræðilega samsett lyf, búið til á rannsóknarstofu, til þess að gera einföld sameind, sem auðvelt er að búa til. Sameindin var fyrst búin til við Efnafræðideild Columbia háskólans í New York.

Lyfið er ekki frumueitur eins og flest önnur krabbameinslyf. Það drepur engar krabbameinsfrumur og heldur ekki heilbrigðar. Svo virðist sem lyfið sé á einhvern hátt fært um að breyta krabbameinsfrumum í heilbrigðar. Þetta byrjaði á því að fyrir átján árum var það uppgötvað að afbrigðilegar blóðfrumur gátu orðið eðlilegar á ný ef þær urðu fyrir áhrifum frá sérstöku efni, dimethyl sulfoxid. Þær urðu þá að heilbrigðum rauðum blóðfrumum með eðlilegum blóðrauða, sem þær áður höfðu ekki. Þessi uppgötvun var gerð af tilviljun á rannsóknarstofu af rannsóknarkonunni Charlotte Friend.

Hún veitti þessu athygli og ræddi það við Paul Marks og bauð honum samstarf við að reyna að finna ástæðuna fyrir þessu undarlega fyrirbæri. Svo kaldhæðnislegt sem það er, þá lést Charlotte úr krabbameini áður en hún sá ávöxt uppgötvunar sinnar, en Marks og félagar hans héldu rannsóknunum áfram. Gallinn við dimethyl sulfoxid var að mjög mikið þurfti af efninu svo að það verkaði. Vísindamönnum datt því í hug að e.t.v. mætti breyta sameindinni þannig að hún yrði virkari og minna þyrfti af efninu. Svo löng saga sé stytt, þá tókst þetta. Nýja efnið var nefnt hexamethylen bisacetamid og var fyrst búið til fyrir tíu árum.

Eftir að búið var að prófa efnið í tilraunaglösum fékkst leyfi til að reyna það á dauðvona sjúklingi með lungnakrabba. Eftir fyrstu sex mánuðina sást lítil breyting, nema að meinsemdin hætti að breiðast úr. Næstu sex mánuðir juku á bjartsýni vísindamannanna og eftir tvö ár var augljóst að mikil breyting til batnaðar hafði orðið. Fleiri dauðveikir krabbameinssjúklingar fengu nú að prófa nýja lyfið sem nefnt var HMBA til styttingar. Fjórir af sjö sjúklingum sem fengu það fyrst sýndu athyglisverð batamerki, enda þótt ekki reyndist unnt að bjarga lífi þeirra allra veikustu.

Þegar slíkar tilraunir eru gerðar fá aðeins þeir einir að taka þátt í þeim, sem enga von hafa um bata með öðrum meira viðurkenndum aðferðum. Því eru öll batamerki, hversu lítil sem þau eru, talin merki um gagnsemi lyfsins, og því til tekna. Einn þessara sjúklinga var verkfræðingur frá Long Island. Hann fékk illkynjaðan blóðsjúkdóm eftir að hafa verið í meðferð við annarri tegund krabbameins. Þannig sjúklingar lifa venjulega ekki lengi því að hvítu blóðfrumumar eru ófærar um að verja líkamann gegn jafnvel meinlausum sjúkdómum og því deyja slíkir sjúklingar venjulega úr einhverri þessháttar sýkingu innan skamms tíma. Þessi sjúklingur sýndi mjög snögg viðbrögð til hins betra.

Á sjö dögum fjölgaði hvítum blóðfrumum í blóði hans úr 2200 upp í 4500 og auk þess voru þetta aðallega heilbrigðar frumur. Nú er þessi sjúklingur einkennalaus og virðist albata. Þrátt fyrri þennan árangur eru vísindamennirnir ekki fullkomlega ánægðir. Þeim finnst að enn þurfi að nota of mikið af lyfinu og því fylgja einnig nokkrar óæskilegar aukaverkanir. Því fóru Breslow og félagar hans að reyna að breyta því og búa til afleiður sem væru öflugara krabbameinslyf, mætti nota í smærri skömmtum og hefði færri hliðarverkanir.

Í hvert sinn þegar þeim félögum hefur tekist að setja saman efnasamband sem verkar gegn æxlisfrumum reyna þeir að breyta því svo að það verði ennþá betra. Þannig er starf vísindamanna og á endanum vona þeir að þeim takist að búa til lyf sem hefur alla þá kosti sem þeir eru að leita að. E.t.v. hefur það þegar tekist. Besta efnasambandið sem þeir telja sig hafa sett saman þegar þetta er skrifað, er allt að því fjögurhundruð sinnum öflugara en HMBA. Það er því freistandi að leggja árar í bát og einbeita sér að því að prófa þetta nýja efnasamband það sem ennþá hefur aðeins verið notað í tilraunaglösum.

Vel gæti þó verið að hægt væri að búa til ennþá öflugara krabbameinslyf ef nokkrum mánuðum eða árum væri varið í áframhaldandi leit að nýjum afbrigðum af lyfinu. En einhversstaðar verður að láta staðar numið og einbeita sér að því að prófa það efnasamband sem álitlegast er. Það tekur nokkur ár, því að reglur um prófum nýrra lyfja eru mjög strangar. Fyrst verður að þrautprófa lyfið í tilraunaglösum og á dýrum. Þá fyrst má reyna það á sjúklingum þar sem önnur læknismeðferð hefur ekki borðið árangur. Þá gæti það tafið málið að lyfjaframleiðendur hafa lítilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta lyf, því að það var fundið upp og þróað við Sloan-Kettering stofnunina, sem ekki er í tengslum við neina lyfjaframleiðendur.

Þeir vilja miklu frekar leggja fé í lyf sem þeir sjálfir hafa fundið upp og tekið einkaleyfi á, heldur en lyf sem aðrir hafa hagsmuni af. Erfitt er að gera nauðsynlegar prófanir á lyfjum án aðstoðar lyfjafyrirtækja og þegar að framleiðslu kemur þarf að semja við lyfjafyrirtæki um framleiðslurétt og greiðslu leyfisgjalda til þeirra sem fundu lyfið upp. Allt þetta veldur ákveðnum erfiðleikum, þegar ný lyf sem ekki eru þróuð af lyfjafyrirtækjum, eru þróuð eða undirbúin til framleiðslu. Vísindamennirnir þrír, sem áður eru nefndir telja þó að takast muni að yfirstíga þessa örðugleika og að ef allt gangi að óskum muni nýja lyfið verða komið á markaðinn að nokkrum árum liðnum, í síðasta lagi fyrir aldamót.
Heimild: Sjónvarpsmynd „Towards A Cure for Cancer“ sýnd í íslenska sjónvarpinu snemma árs 1990.

Peptíð sem lækna
16. desember s.l. vetur kom gein eftir Jesse Jaynes í vísindatímaritinu „New Scientist“ um nýuppgötvaðan eiginleika sérhæfðra peptíða sem myndast i svo ólíkum lífverum sem tólffótungum og froskum. Tímaritið „Þjóðlíf“ birti í2. tbl. 1990 dálítið stytta þýðingu af greininni. Hér á eftir kemur greinin í þessari styttu útgáfu, sem Þjóðlíf leyfði okkur góðfúslega að nota. Við þökkum Þjóðlífi og þýðanda og hér kemur greinin.

Uppgötvun pensillíns olli byltingu í læknavísindum. Það er myndað af tilteknum sveppategundum. Frá uppgötvun pensillíns um miðbik þessarar aldar hafa menn fundið aragrúa annarra efnasambanda sem sveppir mynda og drepa gerla. Þetta em svokölluð sýklalyf. Þessi lyf duga vel gegn meginþorra gerla sem valda sjúkdómum en enn eru aðeins fá efni þekkt sem duga gegn sveppa- og frumdýrasýkingum. Nýlega uppgötvaðist hópur efna sem gæti valdið nýrri byltingu í lyflækningum. Þessi efni hafa fundist í dýraríkinu, m.a. í fiðrildum og froskum.

Hér er um að ræða flokk peptíða (stutt prótín) sem myndast í sumum dýrum. Komið hefur í ljós að þau gata himnur sem umlykja gerla. Vatn streymir inn í gerilfrumumar gegnum götin og þær springa. Vitað er að silkifiðrildið myndar slík peptíð þegar það sýkist af gerli og þau valda rofi og þar með dauða gerlanna. Hópur lífefnafræðinga við háskólann í Lousiana í Bandaríkjunum kannaði hvort efnasambönd af þessu tagi dræpu aðrar frumur en gerla. Þeir bjuggu til sín eigin skordýrapeptíð og áður óþekktar afleiður af þeim. Í ljós kom að þau drápu allar tegundir gerla.

Þau rjúfa gat á frumuhimnuna, fruman getur þá ekki stjórnað vatnsmagninu og hún springur. Rafeindasmásjármyndir sýndu stór og greinileg göt í himnunni. Menn veltu því fyrir sér hvort peptíðin gætu líka valdið rofi einfaldra kjarnafruma, t.d. sveppa og frumdýra, en fiðrildi og fleiri dýr, sem mynda peptíð af þessari gerð, þurfa jafnframt að verjast sýkingu annarra lífvera. Meginmunurinn á kjarnafrumum og gerlafrumum er sá að auk frumuhimnunnar eru inni í frumunni ýmis frumulíffæri hjúpuð himnum, þ.á.m. kjarninn. Rofpeptíðin reyndust drepa gersveppi, mýraköldusýkilinn (Plasmodium falciparum) og annað frumdýr (Trypanosoma cruzi) er veldur svokallaðri chagasveiki, sem er náskyld höfgasótt.

Tilraunir þessar gáfu til kynna að rofpeptíðin sem reynd voru gætu drepið sýkla sem vaxa og þroskast innan vefja mannslíkamans. Slíkir sýklar eru oft einstaklega illviðráðanlegir þar sem þeir leynast innan í okkar eigin frumum. Peptíðin virðast á einhvern hátt geta leitað sýklana uppi og drepið þá. Til að komast að því hvernig þau verka bjó hópurinn til gjörbreytta og nýja gerð af rofpeptíðum með því að breyta amínósýruröð þekkts peptíðs (sekrópíns B). Yfir helmingur amínósýranna var breyttur en þá á þann hátt að nýju amínósýrurnar höfðu svipaða eðlis- og efnafræðilega eiginleika og þær sem voru fjarlægðar. Þetta tilbúna peptíð reyndist enn öflugri rofvaldur en hið náttúrulega efni. Í framtíðinni verður eftirvill unnt að búa til peptíð sem rjúfa einungis tilteknar frumugerðir með því að breyta amínósýruröð þeirra.

Hví skyldu heilbrigðar spendýrsfrumur vera ónæmar fyrir þessum efnum? Skýringin liggur að öllum líkindum í innri stoðgrind þessara fruma. Í frumunni liggja fíngerðar pípur og trefjar sem halda henni saman. Þær tengjast frumuhimnunni hér og þar. Þótt gat komi á frumuhimnuna sjálfa getur stoðgrindin komið í veg fyrir að innstreymi vatns verði svo mikið að fruman rofni. Til að kanna þessa tilgátu voru spendýrsfrumur látnar í lausn með efnum sem eyðilögðu frumugrindina. Síðan var rofpeptíðum bætt út í og frumumar sprungu. Ljóst er því að frumugrindin er afar mikilvægi í þessu tilliti. Frumur sem hafa gallaða eða skaddaða frumugrind, ættu samkvæmt þessu að vera viðkvæmari fyrir rofpeptíðum. Í þessum hópi eru margar gerðir krabbameinsfruma. Þegar rofpeptíð voru reynd á krabbameinsfrumum í svo litlu magni að það hafði engin áhrif á eðlilegar frumur drápust flestar krabbafrumanna. Hugsanlega koma þessi efni að notum sem krabbameinslyf í framtíðinni.

Frumur sem eru sýktar afveirum eru líklega einnig næmari fyrir rofpeptíðum en heilbrigðar frumur. Sýktar frumur renna gjarnan saman og mynda samfrumung en um leið og það á sér stað breytist frumugrind hverrar einstakrar frumu. Tilraunir á frumum sýktum af ýmsum veirutegundum, þ.á.m. veiru sem veldur kynfærafrunsum (Herpes simples II) og eyðniveiru, leiddu í ljós að peptíðin ollu rofi þeirra. Rofpeptíð í litlum skömmtum virðast þar að auki örva frumuskiptingu. Þessi áhrif hafa m.a. komið fram á húðfrumum og frumum ónæmiskerfisins. Möguleiki er því fyrir hendi að búa til lyf sem örva ónæmiskerfið til dáða og flýta gróanda sára. Ekki er enn vitað hvernig peptíðin framkalla þessi áhrif. Líklega er að annaðhvort stuðli þau að auknu gegndræpi næringarefna og örvi þar með vöxt frumunnar eða þau líkist vaxtarþáttum líkamans sem örva vöxt og skiptingu frumunnar. Það er greinilegt að möguleikarnir sýnast margir og þeir lofa vissulega góðu. Næstu ár skera úr um það, hvort þeir eru raunhæfir.

Höfundur: Ævar jóhannesson vor 1990



Flokkar:Krabbamein

%d bloggers like this: