Skarfakál (Cochleraria officinalis)

Skarfakál er jurt sem ætti að vera í hvers manns garði, jafngóð, gagnleg og auðveld í ræktun sem hún er. Það er alkunna að skarfakál var notað til lækninga á skyrbjúg löngu áður en vítamín voru þekkt. Síðan hefur komið í ljós að það er mjög auðugt af C-vítamínum, en C-vítamínið hefur’sífellt hækkað í einkunnastiga næringarfræðinnar svo að æ fleiri spekingar og áhrifamenn á því sviði finna þar uppsprettu alls konar heilsubóta, skilst manni. Skarfakálið vex víða villt við sjó fram og eyjum svo að auðvelt er að ná í plöntur og setja í garðana. Þar þrífst það prýðilega og gefur ár eftir ár góða uppskeru af dökkgrænum, bragðsterkum blöðum sem eru ágæt t. d.  á smurt brauð, í ýmis salöt, söxuð með rúsínum, út í skyr o. s. frv. eftir hugkvæmni hverrar húsmóður.

Auk C-vítamíns eru í skarfakáli ýmis næringarefni; þar er að finna eggjahvítuefni og alkalistsölt, einnig sterk bragðefni svo það kryddar sig sjálft. Í danskri jurtalækningabók segir svo meðal annars um ágæti skarfakálsins og lækningamátt: „Skarfakál notist sem te við skyrbjúgi, gigt, slímrennsli,  ennfremur við hjarta-, tauga- og efnaskiptasjúkdómum, steinmyndunum og fl. Teið á þá að búa til á þann hátt að 2 tesk. (af þurrkaðri jurtinni) setjist í 1/4 lítra af sjóðandi vatni og trekkist í 10 mínútur. Drekka tvo bolla daglega. Þetta te er líka gott sem gúlgruvatn við háls- og munnbólgu.“ Þannig segir þar. Best og masminnst finnst mér að borða blöðin hrá með öðrum mat og fljótlegt er að klippa þau niður ef ég vil smækka þau. Eins þarf að gæta við ræktun skarfakáls eigi það að koma til góðra nota og haldast fjölært:

Það blómstrar mikið á vorin og þá þarf að ganga um brúskana og slíta öll blómin af. Sé þeim leyft að vera á plöntunni og hún nái að eyða orku sinni í fræmyndun fer oft svo að hún blómstrar sig í hel og lifir ekki af næsta vetur í garðinum. Ef hún aftur á móti er losuð við blómin strax á vorin lifir hún og gefur góðan afrakstur svo að segja allt árið. Jurtin er sígræn og hægt að sækja blöð af henni í garðinn ef á annað borð næst í jörð fyrir snjó og gaddi. Skarfakáli má fjölga bæði með sáningu og skiptingu og dökkgrænn litur þess er fallegur svo það sómir sér vel á sínum stað hvort sem það er ræktað í garði eða prýðir eyjar, sker og fjörur.

Höfundur: Ebba Valvesdóttir 1988



Flokkar:Jurtir