Lífræn ræktun ,,Biodynamisk“

Allt frá upphafi matjurtaræktunar fyrir mörg þúsund árum og fram á þessa öld hafa menn hagnýtt sér náttúrulega frjósemi jarðvegsins, aukið hana og bætt með lífrænum áburði, aðallega frá húsdýrum, til að auka uppskeru þeirra jurta sem menn rækta. Það er fyrst á þessari öld sem almennt er farið að nota tilbúinn áburð, þ. e. ólífræn verksmiðjuframleidd efni sem örva vöxt og þroska matjurta.

Ýmsir ókostir hafa smám saman verið að koma í ljós vegna einhliða notkunar ólífrænna áburðarefna, svo sem mengun jarðvegs og grunnvatns, jafnvel er ástandið nú orðið svo alvarlegt t. d. í Danmörku að ákveðið hefur verið af stjórnvöldum þar að minnka notkun á tilbúnum áburði um helming á næstu árum. Þá er notkun sterkra lyfja gegn jurtasjúkdómum og sníkjudýrum ekki síður varasöm. Einhliða notkun tilbúins áburðar getur vissulega aukið magn uppskerunnar um tíma, en veldur því jafnframt að mótstöðuafl gegn sjúkdómum og sníkjudýrum minnkar og það kallar síðan á aukna notkun varnarlyfja.

Einnig dregur þetta úr næringargildi jurtanna, minnkar geymsluþol þeirra og oft eru leifar skordýraeiturs og áburðarefna eftir í matvælunum, þótt það sé innan „leyfilegra marka“. Þetta er sú hlið sem snýr beint að neytandanum, en þarna leynist einnig önnur hlið og hún er hvaða langtímaáhrif slík ræktun hefur á jarðveginn. Það dregur úr áunninni frjósemi hans, eiturefni safnast fyrir, með þeim afleiðingum að jarðvegur sem einu sinni gaf ríkulegan ávöxt með lífrænum áburði eingöngu, eða e. t. v. með örlitlum viðbótarskammti af tilbúnum áburði, gefur nú aðeins brot af því magni sem hann gaf áður, þrátt fyrir mikla áburðarnotkun, og þá um leið af mun lakari vöru.

En hvað er til ráða? Á hvern hátt getum við spyrnt við fótum? Getum við treyst því að þau vísindi sem lagt hafa grunninn að nútíma ræktunartækni með framangreindum afleiðingum, hafi einhverja lausn í sjónmáli, eða sú hagfræði sem miðar að því að fá sem mestan hagnað með sem minnstum tilkostnaði, án þess að hafa áhyggjur af framtíðinni, sé tilbúin til að snúa við blaðinu, og hverfa frá skammtíma gróðasjónarmiðum?

Vissulega getum við stuðlað að breytingu, með því að draga úr notkun afurða slíkrar framleiðslu eða hætta því alveg. Hin einhliða ræktun eyðileggur áunna frjósemi gróðurmoldarinnar og gerir hana háða utanaðkomandi áburðarefnum. Hvað er hægt að gera til að byggja upp á ný frjósemi jarðvegsins? Þetta varðar okkur öll, ekki aðeins bændur og garðyrkjumenn, heldur og neytendur alla. Hin lífræna ræktunaraðferð bendir á færa leið, þar sem framleiðendur og neytendur geta sameiginlega fundið svör við þessum vanda. Hún byggir auk þess á traustum grunni áratuga tilrauna og rann sókna og hefur náð einna mestri útbreiðslu á okkar tímum.

Upphaf hennar má rekja til þess er allmargir bændur og garðyrkjumenn í Evrópu snéru sér til austurríska náttúruvísinda mannsins og heimspekingsins  Rudolfs Steiner og báðu hann um leiðbeiningar á sviði landbúnaðar. Hann varð við ósk þeirra og flutti 8 fyrirlestra um landbúnað, en áður höfðu farið fram umfangsmiklar rannsóknir og tilraunir í Dornach í Sviss um árabil. Þetta var árið 1924 og hefur þessi ræktunaraðferð síðan breiðst út um allan heim. Sú þekking sem lífræn ræktun byggir á nær ekki aðeins til landbúnaðar og hvernig rækta megi fram gæðavörur. Hún byggir á þekkingu á ríki náttúrunnar og sambandinu milli mannsins og náttúrunnar, ábyrgð mannsins á jörðinni og einnig þá félagslegu ábyrgð er við höfum gagnvart samfélaginu. Þannig er lífræn ræktun nokkuð annað og meira en aðeins ræktun, því að hún býður upp á nýtt viðhorf til jarðarinnar, samfélagsins og þessa félagslega samhengis sem við erum hluti af.

Þessi ræktunaraðferð sýnir að fjölbreytni og frjósemi eru nátengd. Hún er alhliða búskapur þar sem reynt er að skapa jafnvægi milli hinna ýmsu greina landbúnaðar. Engin auðleyst tilbúin áburðarefni eru notuð, engin eitruð jurtalyf né heldur hormónalyf gegn illgresi. Við fullvinnslu afurðanna eru t. d. notaðar steinkvarnir til að mala kornið. Engin geymsluþolsefni, litar eða bragðefni eru notuð við niðursuðu eða aðra framleiðslu. Höfuðmarkmið ræktunarinnar svo og úr vinnsla matvælanna er að framleiða hágæðavörur. Allir þættir landbúnaðarins beinast að því að fá fram sem mest gæði, allt frá hirðingu húsdýranna, ræktun landsins, meðhöndlun húsdýraáburðarins, sáðskipti o. fl., snúast um að styrkja og auka frjósemi gróðurmoldarinnar og þar með einnig gæðin og framleiðnina. Þetta er ekki afturhvarf til náttúr unnar, heldur skref til framtíðarinnar. og í því sambandi gegna hinir lífrænu hvatar stóru hlutverki og gefa þessari ræktunaraðferð meiri möguleika til að rækta gæðavöru.

Ekki aðeins matvæli sem eru laus við skaðleg efni, heldur matvörur sem geta þjónað okkur sem fullnægjandi næring nú á tímum, aðferð sem verkar uppbyggjandi, einnig á náttúruna og allt umhverfi okkar. Hin fjölbreytta ræktun þarfnast vissulega meira vinnuafls, en hin sérhæfða gerir. En bæði rannsóknir síðari tíma, svo og reynslan sýna, að með því að láta gæðin sitja í fyrirrúmi í öllu starfi við ræktun og landbúnaðarframleiðslu, þá náum við ekki aðeins betri vöru, heldur höfum við möguleikann að skila næstu kynslóðum frjósamari jörð en hin hefðbundni landbúnaður gerir. Markmið lífrænnar ræktunar ,(biodynamiskrar) er þríþætt: Í fyrsta lagi: að varðveita frjósemi jarðvegsins fyrir okkur sjálf og framtíðina. Í öðru lagi: að auka með réttum ræktunaraðferðum mótstöðuafl plantnanna gegn sjúkdómum og sníkjudýrum, svo að notkun sterkra varnarlyfja verði ónauðsynleg. Í þriðja lagi: að framleiða fæðu í hæsta gæðaflokki. Áburðurinn á að þjóna þeim tilgangi að lífga jarðveginn.

Lifandi jarðvegur þýðir frjósamur jarðvegur og hann hefur hæfileikann til mikillar framleiðni. Frjósemi jarðvegsins er hægt að auka með réttri jarðvinnslu, með notkun húsdýraáburðar og annarra lífrænna efna og með notkun sérframleiddra temprandi efna, sem eru að mestu leyti unnin úr þekktum lækningajurtum, svonefndir hvatar. Aðaláburðurinn er að sjálfsögðu húsdýraáburður, einnig er hægt að nota fiskimjöl, kjöt og beinamjöl, þangmjöl, jurtaleifar og steinefni, svo sem kalk. Húsdýraáburðurinn þarf að fá rétta meðferð áður en hann er borinn í garðlandið. Best er að gera úr honum aflangan haug, um 2 metra breiðan og eins ,háan og kostur er, lengdin fer svo eftir magni hráefnisins. Nauðsynlegt er að blanda mómold, heyi eða moði saman við, svo og öðrum þeim lífrænu áburðarefnum sem notuð eru. Magnið af fiskimjöli, eða kjötmjöli ætti þó ekki að vera meira en sem svarar um 5% af heildarmagninu. Þess sé  einnig gætt að haugurinn standi þar sem þurrt  er undir og vatn rennur frá í vætutíð.

Þá er nauðsynlegt að þekja hauginn með þunnu lagi af mold og yst með heyi, moði eða hálmi, til þess að hitastigið inni í honum verði sem  jafnast. Í þennan haug er síðan settur einn skammtur af áðurnefndum hvötum, en þeir hafa áhrif á allá þá starfsemi sem fram fer í haugnum og stýra henni að vissu marki. Eftir  um 3 mánuði ætti haugurinn að vera tilbúinn og er þá hægt að bera hann í garðinn. Nýting næringarefna þeirra sem jurtirnar þurfa er miklum mun betri, sé húsdýraáburðurinn þannig meðhöndlaður en ef hann er notaður nýr, og hann stuðlar miklu meir að upp-byggingu varanlegrar frjósemi jarðvegsins.

Einnig er gott að gera sérstakan haug úr jurtaleifum. Illgresi og jafnvel matarafgangar frá eldhúsinu eru góðir í slíkan haug. Í hann þarf auk þess sem talið er upp í fyrra dæminu að blanda nokkru af kalki, til að umsetning hinna lífrænu efna gangi örar fyrir sig, og til að haugurinn verði ekki of súr. Sé slíkur safnhaugaáburður notaður, þá er hættan á sjúkdómum og sníkjudýrum mun minni en ella, auk þess sem næringarefni þau sem jurtirnar þurfa að fá eru í því formi sem jurtirnar geta best nýtt sér. Hvatar þeir sem nefndir eru verka ekki aðeins í safnhaugnum og jarðveginum heldur einnig í jurtunum sjálfum og auka bæði bragðgæði þeirra, mótstöðu gegn sjúkdómum og sníkjudýrum svo og geymsluþol. Engin tök eru á að gera svo viðamiklu efni  tæmandi skil í stuttu greinarkorni sem þessu; aðeins hægt að geta þess helsta, en vonandi gefst tækifæri síðar til að gera hlutunum betri  skil.

Höfundur Guðfinnur Jakobosson árið 1987.



Flokkar:Umhverfið

Flokkar/Tögg,

%d bloggers like this: