Te úr íslenskum jurtum

Hér fer á eftir viðtal við Unu Pétursdóttur um íslenskar nytjajurtir, sem komin er á tíræðisaldur (skrifað árið 1987). Hún lærði á unga aldri að nota íslensku jurtirnar sér til heilsubótar. Móðir hennar var mikil grasakona sem hafði lært af föður sínum. Langafi hennar var einnig þekktur grasalæknir.

H.h.: Spurði Unu fyrst að því hvort hún færi enn að tína grös þrátt fyrir háan aldur.
Una:
Ég fór síðast að tína grös fyrir tveimur árum. En sumt rækta ég í garðinum mínum.

H.h.: Hvernig notar þú jurtirnar ?
Una:
Ég nota þær mikið í te.

H.h: Hvaða jurtir notar þú helst í te ?
Una
: Mér finnst best að nota margar jurtir saman, vegna þess að hver jurt fyrir sig hefur sérstakan eiginleika. Þær sem ég reyni að hafa alltaf saman eru:

Blóðberg, öll jurtin.
Rjúpnalauf, blöð og leggir.
Gulmaðra, blöð og blóm.
Silfurmura, blöð.
Ljónslappi og Maríustakkur, blöð og blóm.
Beitilyng, blómstrandi greinar.
Vallhumall, blóm og blöð.
Jarðarberja- eða hrútaberjalauf.
Sólberjalauf, stjúpmæður, fjólur, blöð og blóm.
Piparmynta, blöð.
Hybenrós eða hjónarós.
Kúmenfræ.

H.h: A hvaða tírna er best að tína jurtirnar?
Una:
Blóðbergið er best að tína um mitt sumar, þegar það er blómstrandi. Rjúpnalaufið ekki fyrr en seinnipart sumars. Það sést illa fyrripartinn. Blómið af rjúpnalaufi (holtasóley) er ekki notað. Gulmaðra er tekin blómstrandi. Hún er vond á bragðið, ég nota lítið af henni. En það er eina jurtin sem ég veit að reynist vel við niðurfallssýki og sinadrætti. Silfurmuru er hægt að taka hvenær sem er. Ljónslappa og maríustakk er gott að taka um mitt sumar. Maríustakkur er sagður hafa hormóna.  Beitilyng er bara tínt á haustin. Vallhumall er tekinn á haustin hann blómstrar ekki fyrr. Jarðarberja- og hrútaberjalauf má tína hvenær sem er. Stjúpmæður, fjólur og morgunfrúr eru tíndar á haustin eftir blómgun. Einnig piparmyntan. Rósirnar blómstra ekki fyrr en seinnipart sumars, þá eru blómin tínd.

H.h: Hvernig er best að þurrka jurtirnar ?
Una:
Það verður að tína þær í þurru veðri. Ég byrja á að setja þær í grisju eða legg þær á eldhúspappír á miðstöðvarofn. Það verður að hafa örlítinn hita fyrst vegna þess, að ef þær þorna ekki fljótt fyrst, getur hitnað í þeim eins og hitnar í heyi. En svo má hengja þær upp þegar þær hafa tekið sig. Leggir og stönglar eru hengdir upp strax. Arfa er erfitt að þurrka en hann er mjög góður í bakstra. Arfinn var notaður hér áður fyrr til að lækna heilahimnubólgu. Dæmi veit ég þess að læknir var búinn að gefast upp við að hjálpa barni með heilahimnubólgu. Þá var móðurinni ráðlagt að setja arfabakstra við höfuðið á barninu. Hún fór og tíndi ferskan arfa og vafði bakstrinum um höfuðið á barninu. Það var endurtekið í nokkra daga og barninu batnaði. Einu sinni fékk ég slæmsku í hnén og átti erfitt með gang. Þá tók ég það til bragðs að vefja um þau arfabökstrum á kvöldin og þá batnaði mér.

H.h: Heldur þú að arfinn lækni líka innvortis bólgur ?
Una:
Já, það veit ég að hann gerir. Ég get líka sagt þér dæmi um það. Maðurinn minn var búinn að vera veill í maga í mörg ár. Um 1950 var hann orðinn svo slæmur að hann fór í myndatöku á spítala í Reykjavík. Læknirinn vildi láta hann leggjast inn í kúr, en honum fannst hann ekki hafa tíma til þess, atvinnu sinnar vegna. Því varð það úr, að við fórum til Jónasar Kristjánssonar, læknis, sem var bæði ættingi og fjölskylduvinur. Þegar við sýndum honum myndirnar sagði hann: „Ég held það þýði ekkert annað en að skera þetta“. En svo snéri hann sér að mér og sagði: „Ef þú vilt reyna, þá skaltu taka stórt vaskafat  eða bala fullan af arfa og annað minna fat með  fíflablöðum og vallhumli til helminga. Þetta skalt þú hakka vel og blanda það svo til helminga með ógerilsneyddri nýmjólk, alls ekki gerilsneydd“. Við bjuggum austur í Flóa þegar þetta var og þess vegna var auðvelt að framkvæma þetta.

Ég fór algjörlega að ráðum Jónasar, hakkaði jurtirnar og pressaði úr þeim safann. Úr öllu þessu kom ekki nema einn pottur ( 1 lítri) af safa sem ég blandaði svo með 1 potti af nýmjólk. Í tólf daga fékk hann ekkert annað en þessa blöndu, sem útbúin var á hverjum morgni handa honum. Þegar tólf dagarnir voru liðnir mátti hann byrja að borða hrátt grænmeti. Skilyrði var að hann tyggði vel, alveg í mauk. Að tyggja vel er mikil nauðsyn fyrir alla. Eftir 6 vikur fór hann aftur í myndatöku á spítalann. Þegar læknirinn þar fékk nýju myndirnar sagði hann: „Var ekki sár hér ? Jú, það var sár minnir mig“. Síðan fór hann og sótti gömlu myndirnar og sagði alveg undrandi: „Jú, það var, en það er gróið“.

Stuttu eftir þetta fluttum við í Selvoginn vegna atvinnu mannsins míns. Þar var auðvelt að halda þessu fæði áfram, því þar var nóg af grösum. En vegna þess að hann var málarameistari þurfti hann oft að vinna fjarri heimilinu og um haustið fór hann að vinna uppi í Hreppum og var þar meiripartinn af vetrinum. Þá var ekki um það að ræða að fá eins fæði og hann hafði heima, þannig að seinnipart vetrar var sárið komið aftur. En vegna árstíðar þá var ekki auðvelt að endurtaka kúrinn, þannig að það endaði með því að hann var skorinn upp. Þess má geta til gamans að þegar hann var lagður inn á spítalann, búinn að vera með uppköst lengi, var fyrsti maturinn sem honum var borinn á spítalanum, saltfiskur: Það virðist ekki vera hugsað mikið um mataræði á spítölum.

H.h: Hefur þú alltaf verið hraust ?
Una:
Nei, ég fékk spænsku-veikina og hef eiginlega aldrei náð mér fullkomlega eftir það. En jurtirnar hafa hjálpað mér mikið, og það var líka læknir sem hjálpaði mér. Ég var slöpp eftir veikindin og kvartaði um það við lækninn. Þá lét hann mig á joð- kúr, sem var þannig: Hann lét mig setja 3 dropa af joði í einn pott af mjólk fyrsta daginn. Síðan auka um einn dropa daglega, þar til þeir voru orðnir sextíu alltaf í potti af mjólk, síðan minnka um einn dropa daglega aftur. Mér fannst þetta hjálpa mikið og ég hresstist. Meðan við bjuggum í Selvoginum tíndum við mikið af sölum. Samtíða okkur þar var kona sem var veik í skjaldkirtli. Stækkunin á kirtlinum var á stærð við hnefa. Hún borðaði mikið af sölum og batnaði alveg.

H.h: Fékk hún ekki nein meðöl ?
Una
: Nei, hún bara borðaði mikið af sölum, ákaflega mikið. Það er mikið af joði í sölum. Joðskortur getur valdið óróleika hjá börnum. Það þyrfti að gefa því meiri gaum þegar sífellt er verið að kvarta yfir eirðarleysi og óróleika t.d. í skólunum.

H.h: Hefur þú ekki fjallagrös í teinu þínu ?
Una:
Þau sýð ég nú helst í mjólk, annars var alltaf soðin fjallagrös með kandíssykri og haft við kvefi þegar ég var barn. Einnig veit ég að seyði af fjallagrösum, elftingu, ljónslappa og blóðbergi hefur reynst mjög vel við kvefi.

Við þökkum Unu kærlega fyrir allan fróðleikinn. En hún kvaddi okkur með þessari vísu sem hún sagði vera gamlan húsgang:.

Helluhnoðri og hænubit, (rjúpnalauf)
hrafnaklukkan rauða,
vallhumall og vatnafit, (horblaðka),
varna meinum dauða.

Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði árið 1987Flokkar:Jurtir

%d bloggers like this: