Var álitin áfengissjúklingur – orsökin- of lágur blóðsykur! 

Þýtt úr PRAXIS, Sigurður Herlufsen
Ásamt manni sínum rak Esther Raabe stórt fyrirtæki. Vinnuvikan var löng og erfið og þörf að huga að mörgum skyldum viðvíkjandi starfinu, ásamt ferðalögum. Allt þetta nær Esther Raabe að gera á auðveldan og léttan hátt, en þannig var það ekki fyrir aðeins fáeinum árum. „Ég hef alltaf verið mjög framtakssöm og opin fyrir umhverfinu og getað komið heilmiklu í verk,“ segir Esther Raabe. „Fyrir fimmtán árum, þegar ég átti von á yngsta barninu okkar, lá við að ég missti fóstur, þegar ég var komin á sjötta mánuð og þá var ég lögð á sjúkrahús. Mér var gefin fjöldinn allur af sterkum lyfjum, en barninu hélt ég og stuttu eftir fæðinguna fór ég aftur að vinna. Um þetta leyti var ég ritari í skóla fyrir fötluð börn. Þá var það að raunir mínar byrjuðu, sem á næstu árum gerðu líf mitt að langri píslargöngu.

Eftir ráðstefnu í skólanum komu læknar, félagsráðgjafar, skólastjóri og fleiri saman á skrifstofu minni til að fá sér kaffisopa, en slíkar ráðstefnur voru tíðar. Skyndilega fór ég að skjálfta, og fékk heiftarlegan hjartslátt og fannst sem ég væri að kafna. Ég varð mjög óttaslegin en lét lítið á því bera og reyndi að leyna því fyrir fólkinu, og það tókst mér fullkomlega. Hins vegar endurtók sig sama sagan næsta dag og þá náði ég sambandi við lækni minn, og taldi hann að ég væri ofkeyrð af vinnu og lét mig fá eitthvað róandi. Þessi undarlegu köst héldu áfram og þegar ég hafði reynt þrjár gerðir af róandi töflum, sem gerðu mig sljóa, en gerðu að öðru leyti ekkert gagn, gafst ég upp á þeim og henti í burtu. Nú fór ég einnig að finna til verkja í hjartagrófinni, átti erfitt með svefn og fékk ýmis önnur óþægileg einkenni, svo ég bað lækni minn um allsherjar skoðun og fékk hana. Svar hans að skoðun lokinni hljóðaði á þá leið að ég væri hress og heilbrigð og þyrfti engar áhyggjur að hafa. Til að halda mér í góðu formi hjólaði ég til og frá vinnu.

Dag einn, þegar ég var á heimleið, leið mér mjög illa, en komst þó alla leið heim. Fyrir tilviljun opnaði ég kæliskápinn, en þar inni var öl í flösku. Ég var ekki mikið fyrir öl og drakk það mjög sjaldan. Þennan dag drakk ég þó úr einni flösku og leið straks betur á eftir. Þetta undraði mig töluvert. Smátt og smátt fór svo, að þegar ég fékk eitt þessara kasta, fékk ég mér eitt glas. Ég drakk ekki mikið, eitt glas eða tvö var nóg til þess að mér liði betur. Auðvitað var ég alveg með það á hreinu að þetta væri engin lausn þegar til lengri tíma væri litið, enda urðu köstin tíðari, og ég fór að fá slæmt samviskubit. Hins vegar þurfti ég að ljúka minni daglegu vinnu, og hafði að auki fengið að vita að heilsa mín væri í fullkomnu lagi, svo mér var algjörlega hulið hvar ég ætti að leita eftir hjálp. Alitin áfengissjúklingur Mér leið verr með hverjum deginum og áfengisnotkun mín jókst að sama skapi.

Alveg var mér ljóst að þetta gat ekki gengið þannig, svo að ég fór til áfengisráðgjafa,
og sætti mig við að reyna antabuskúr.Einnig hellti ég mér út í fjöldann allan af áhugamálum til að gleyma vandræðum mínum og volæði. Sunnudag einn fékk ég aftur þessi undarlegu köst og í þetta sinn drakk ég svolítið romm, en við það varð ég aðeins enn veikari og fór í rúmið. Um miðja nótt vaknaði ég og var þá kornin á sjúkrahús. Maðurinn minn hafði fundið mig með krampa og látið leggja mig inn samstundis. Ég hafði sem sagt drukkið romm, sem líklega hefur verið hægt að merkja og ef til vill einnig verið hægt að greina í blóði mínu.

Maðurinn minn sagði frá því að ég væri í antabus meðhöndlun, og næsta dag þegar stofugangur fór fram, stansaði læknirinn við rúm mitt og sagði: ,Já þessi kona á aðeins að fá „gulrætur (antabus)“ Þetta sveið mér. Hinir sjúklingarnir störðu á mig og mér fannst mér mjög misboðið. Nú var ég stimpluð sem áfengissjúklingur! Ég hélt áfram antabus meðhöndlun í eitt ár, en þoldi hana illa, og leið verr og verr. Maðurinn minn útvegaði mér heimilisaðstoð, til að létta á mér við húsverkin, en ekkert hjálpaði, og að því korn að ég varð að segja upp starfi mínu sem skólaritari.

Nú komu nokkur ár þar sem ég var lögð reglubundið inn á geðveikisdeild, þegar ég fékk þessi svokölluðu „black outs“, eða óminni. Ég aðstoðaði mann minn í fyrirtæki okkar, og þurfti að ferðast nokkuð og koma fram fyrir hönd þess. Að lokum varð ég þó að hætta því starfi. Á þessum árum reyndi ég fjöldann allan af aðferðum til að losna úr þessu óþolandi ástandi mínu. Ég var um tíma á Ringgárden sem er staður fyrir áfengissjúklinga. Einnig sótti ég heim ýmis konar sérfræðinga, reyndi hormónalyf, tók inn vítamín og steinefni og reyndi að lifa heilbrigðu lífi. Ég var tilbúin að reyna hvað sem var, en ekkert af þessu kom mér að haldi. Þá varð ég mjög smámunasöm og fór að valda umhverfi mínu erfiðleikum. Og enn hafði ég við áfengisvandamál að stríða.

Ég afþakkaði öll heimboð og reyndi að leyna ástandi mínu fyrir vinum og vandamönnum. Eitt sinn lögðu bæði læknir og sálfræðingur til að ég færi fram á skilnað, því þeir töldu að ef til vill væri undirrótin hjónabandserfiðleikar, en hvorki ég né maðurinn minn vorum trúuð á þá lausn, þó svo að auðvitað hafi ástand mitt orðið mikil raun fyrir hjónaband okkar. Hins vegar hefur maðurinn minn verið alveg einstakur öll þessi ár og hefur ætíð neitað að viðurkenna að ég væri „bara áfengissjúklingur“. Líkamlegur sjúkdómur. Eftir því sem lengra leið varð sjálfstraust mitt minna og minna. Hugsunin um að leita til náttúrulæknis var mér frekar fjarlæg, en það var mín síðasta tilraun, en einmitt þar fékk ég í fyrsta skipti að vita, að ég væri sjúk, líkamlega sjúk.

Sjúkdómsgreiningin hljóðaði: Of lágur blóðsykur!  Ég fór í strangan matarkúr, fékk ýmisskonar fjörefni og eftir aðeins eina viku hélt fjölskylda mín því fram að ég væri orðin önnur manneskja. Eftir átta vikna kúr leið mér sem nýrri manneskju og gat farið að vinna á ný. Nú er næstum komið ár síðan þetta skeði. Enn er ég mjög vandlát á hvað og hvernig ég borða. Ég borða margar litlar máltíðir yfir daginn og borða rétt fæði, en nú get ég aftur tekið þátt í viðskiptaferðum og sinnt ábyrgðarstarfi, og get þegar svo ber undir drukkið glas af víni og borðað máltíð með vinum mínum.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa sloppið út úr þessari martröð, sem hefur eyðilagt líf mitt í svo mörg ár. Nú verð ég svolítið döpur við tilhugsunina um þau ár sem hafa farið til spillis, bæði fyrir mig og fjölskyldu mína, en hefðu ekki tapast ef ég hefði fengið rétta sjúkdómsgreiningu og meðhöndlun Frá byrjun. Ég tel að margir áfengissjúklingar og aðrir sjúkir á geði,gætu ef til vill þjáðst af lágum blóðsykri, og ég vildi óska þess að bæði sjúklingum, og læknum sem meðhöndla þessa sjúklinga, verði bent á þennan sjúkdóm, sem getur valdið svo miklum vandræðum. Þá fengju fleiri rétta meðhöndlun og færri kveldust að óþörfu.“ Með þessum orðum lýkur Esther Raabe frásögn sinni um leið og hún þýtur af stað í vinnuna.

Þýðandi og höfundur Sigurður HerlufsenFlokkar:Reynslusögur

%d bloggers like this: