Hvað er heilbrigði?

Kenningar Tue Gertsen ráðgjafa í makróbíótík . Viðtal frá árinu 1985

  • Þegar líkami og sál eru í jafnvægi er maðurinn heilbrigður.
  • Hvað er þá sjúkdómur?
  • Þegar líkami og sál eru í ójafnvægi.
  • Hvernig getum við haldið þessu mikilvæga jafnvægi?
  • Og hvernig getum við náð jafnvægi ef við höfum misst það?

Dagana 4. og 5. maí 1985 var haldið námskeið að Laugabakka í Mosfellssveit á vegum Hildar Einarsdóttur og Þuríðar Hermannsdóttur. Fyrirlesari var Tue Gertsen ráðgjafi í Macrobiotic og sjúkdómsgreiningu, hann hefur starfað við það undanfarin 15 ár. Að eigin sögn vinnur hann með fæðuna sem lyf. Hann styðst við aldagamlar austurlenskar alþýðulækningar sem byggjast á því að lesa út úr útliti fólks hvað amar að, og síðan ráðleggja viðkomandi rétt mataræði og jafnvel breyttan lífsstíl, þannig að viðkomandi geti ráðið fram úr veikindum sínum. Norðurlandabúar þurfa að ýmsu leyti aðra fæðu en austurlandabúar vegna kaldari veðráttu. Ef heilbrigði á að haldast þarf að aðlaga bæði innri og ytri aðstæður. Ýmsu þarf að breyta við árstíðaskipti.

A vorin og haustin eru hreinsunartímabil hjá líkamanum (má vitna í haustkvefið sem hrjáir marga í ýmsum myndum), og segir Tue að það komi vegna þess að líkaminn sé að hreinsa út vökvann sem við í óhófi drukkum yfir sumarið. Þessi mikli vökvi sem sumir þamba sest fyrir í lungunum, það verður að losa sig við þetta á einhvern hátt og er þá nefið auðveldasta útgönguleiðin. Tue ráðleggur því fólki að drekka aðeins þegar það þyrstir. Misskilingur sé að fólk þurfi að drekka mikið, slíkt auki bara álagið á lungu og nýru. Heilbrigði segir Tue að sé til staðar þegar þrír megin þættir eru í lagi: Melting, taugakerfi, hjarta og blóðrás. Um 90% sjúkdóma stafa af slæmri meltingu. Ef eitt kerfi bilar fara hin úr skorðum. Ef taugakerfið er sterkt og í góð lagi getur eðlisávísunin sagt okkur til á hverju við eigum að nærast.

En hvað veldur sjúkdómum? Í fyrsta lagi: Líkaminn tekur meira inn en hann losar sig við. Til að halda góðri heilsu verður líkaminn að geta losað sig-við það sem í hann er látið. Nauðsynlegt er að hafa hægðir einu sinni á sólarhring og er eðlilegt að það eigi sér stað milli klukkan 7 til 9 á morgnana, því að á þeim tíma sólarhringsins er ristillin virkastur. Í öðru lagi: Líkaminn fær ekki næga hreyfingu. Alhliða hreyfing er nauðsynleg. Í nútíma fæðu er mikið af efnum sem setjast fyrir í líkamanum, t.d. er stór þáttur litarefni, geymsluefni og bragðefni, sem bætt er í við vinnslu ár mat. Talið er að það séu um 60 þúsund gerðir af aukaefnum sem hafa fundist í matvöru en ekki hafa verið rannsakaðar nema um helmingur þeirra.

Auðvelt er að sjá hvernig mörg þessi efni koma út í hegðun unglinga, sérstaklega litarefni, sem framkalla þörf hjá ungu fólki til að tjá sig í skrítnum litum og undarlegri hegðun. Slíkt sést greinilega á „Pönkurum“, þeir neyta mikilla litarefna. Þegar Tue byrjaði að sjúkdómsgreina fyrir 15 árum var lítið um krabbameinstilfelli. Nú er fjórði hver sem til hans kemur með krabbamein og töluvert af börnum er þar á meðal. Þessa aukningu krabbameins vill hann tengja hinum mjög svo mikið meðhöndlaða mat og aukaefnum sem bætt er í hann, til að auka geymsluþol og fegra útlit.

Andstæð öfl – Yin og Yang
Yin og Yang hefur verið þýtt á íslensku sem útvíkkandi og samandragandi eða veikt og sterkt.

Yang-jafnvægi…………………….  Yin
Samandragandi …………………..Útvíkkandi
Sterkt …………………………………….Veikt
(Fer niður á við)…………………….(Fer upp á við)

Nokkrar fæðutegundir skilgreindar eftir yin og yang aðferðinni:
Kjöt: er samandragandi. Við mikla kjötneyslu eykst þörf fyrir útvíkkandi fæðu til að líkaminn geti haldi jafnvægi. Kemur það oft fram í ásókn í sykur, vegna þess að sykur er útvíkkanda. Slíkt þýðir að þegar við neytum sætuefni fara þau í efri hluta líkamans. Súkkulaði: er t.d. eitt versta sætuefni sem við borðum. Fer það fyrst upp í líkamann en fellur síðan niður og sest fyrir í neðri hluta hans og orsakar móðurlífssjúkdóma. Súkkulaði er líka þekkt fyrir að valda höfuðverk (mígreni).Hunang hefur sörnu áhrif og sykur og er ráðlegra að nota maltextrakt eða byggmalt fyrir sætugjafa. Steinefni og salt: eru samandragandi og fara fyrst inn í líkamann en síðan falla þau niður í neðri hluta hans.

Kaffi: er útvíkkandi og fer framan í heilann og örvar hugsun en er afar slæmt fyrir nýrnahettur og nýru. Verra þó fyrir konur en karla því að það orsakar móðurlífssjúkdóma. Hægt er að minnka áhrif coffeins með því að borða mikinn fisk. Kaffi og  súkkulaði saman er eitur fyrir konur. Tue taldi það besta kornkaffið, jannho,sem framleitt er úr adukebaunum og hrísgrjónum. Ef kaffineyslu er hætt er algengt að fólk fái höfuðverk meðan líkaminn er að hreinsa út eiturefnin, líkja má því við timburmenn.
Mjólk :er útvíkkandi og sest fyrir í höfði og brjósti.
Ostur: sest fyrir í neðri hluta líkamans og orsakir feit læri hjá konum en blöðruhálskirtils vandamál hjá körlum. Mjúkir ostar eru skárri en fastir.
Skyr: er besta mjólkurafurðin og sú eina sem Tue mælir með til neyslu. Hann segir suma Kaupmannahafnarbúa fá 75% fæðu sinnar úr mjólkurvöru og að það sé fólkið sem fyrst fái krabbamein.
Brauð: Hart brauð er vont fyrir lungu eins og ristað brauð og hrökkbrauð. Best er súrdeigsbrauð, hitað yfir gufu og búið til úr nýmöluðu korni (malað um leið og bakað er), því að sum efni í korni skemmast innan 24ra klukkustunda.
Ávextir: eru útvíkkandi, sérstaklega safamiklir ávextir og því ekki ákjósanlegir fyrir okkar veðráttu. Best fyrir okkur taldi Tue vera að nota epli og aðra ávexti sem vaxa í svipaðri veðráttu og okkar, t.d. eru mandarínur betri en appelsínur. Það kom fram spurning um vín. Þau eru útvíkkandi.Létt vín eru verri í kaldri veðráttu en heitri og mjög slæm séu þau drukkin með mat. Sterku vínin eru skárri í kaldri veðráttu en þá ætti að drekka þau volg og ekki meira en eitt staup á dag.

Heitt og kalt

Varast skal að borða mjög heitt og mjög kalt. Ís er afar slæmur, mjög útvíkkandi.

Veðrátta: Ef við búum í kaldri veðráttu (sem er útvíkkandi) þurfum við samandragandi fæði.

Fæða sem er í jafnvægi: Korn og grænmeti er í jafnvægi, á því getum við lifað árum saman ef við höfum vatn og salt til viðbótar. Tue telur þetta æskilegustu fæðuna, að viðbættu því öðru sem vex í landinu sjálfu. Nauðsynlegt er að aðlaga sig veðráttu og því landi sem búið er í. Ekki er óalgengt að fólk sem flytur í annað loftslag en heldur sig við sama fæði og það hafði áður í heimalandi sínu, uppskeri sjúkdóma. Í köldu loftslagi telur hann henta vel bókhveiti, bygg, hirsi, maís og hafrar, fremur en hrísgrjón, en þau vaxa í heitara loftslagi.

Fiskur ætti að vera á hverjum degi á borðum yfir veturinn. Hann er samandragandi og því má borða með honum kartöflur, en þær eru mjög útvíkkandi og ekki æskilegar í miklum mæli, og ekki í grænmetisfæði. Sé máltíðin í jafnvægi, það er að segja, jafn mikið af samandragandi og útvíkkandi fæðu, þá líður okkur vel á eftir. Ofát er útvíkkandi og reynir mikið á lifur og gallblöðru. Líkaminn er stórkostlegur, hann reynir alltaf að fínna jafnvægi. En allt ruslið sem í hann er látið og hann getur ekki losað sig við, safnast saman í kringum líffærin og verður að fitu og slími.

Sjúkdómsgreining
Fyrstu einkenni veikinda eru: Andleg og líkamleg þreyta, einnig slappleiki sem orsakast af lélegri meltingu, oft af ofneyslu kjöts og mjólkurafurða. Þarmar slappast af kjötneyslu. Næstu einkenni eru verkir og eymsli en um 75% Dana kvarta um verki í öxlum. Í öxlum er enda orkustöð ristilsins. Því er það ábending um slæma meltingu, ef verkir eru í öxlum. Síðan koma verkir í fótleggi, en þeir stafa frá smáþörmum. A því stigi fara flestir til læknis og fá lyf og svæfa þar með aðvaranir líkamans, þannig að veikindin vefja upp á sig og ofan á bætast blóðsjúkdómar, því nýrun hætta að anna sínu hreinsunarhlutverki og afleiðing þess eru húðsjúkdómar. Lokastigið er krabbamein. Því segir Tue: „Lærum að hlusta og taka eftir aðvörunarmerkjum líkamans og athuga hvað þau þýða“.

Innri líffæri endurspeglast í því ytra.
Þegar Tue sjúkdómsgreinir les hann mest út úr andliti (sjá teikningu). En í byrjun skoðar hann manneskjuna í heild, athugar hvort húðin er þurr eða rök, skoðar hendur og handtak, einnig skriftina. Athugar hvort ýmsir punktar eru aumir, og skoðar augu vandlega. Það munu vera til 25 aðferðir sem notaðar eru við sjúkdómsgreiningu á þennan hátt. Þó munu flestir skoða andlitið. Á síðustu fimmtíu árum hafa neysluvenjur breyst mjög mikið, einkanlega vegna eiturefna sem bætt er í við vinnslu. Oft er því erfitt að átta sig á hvað hefur valdið sjúkdómnum í byrjun.

En það fyrsta sem þarf að finna út er, hvað er hin upprunalega orsök veikindanna og hvað þarf að hreinsa út. Þá er komið að andlega þættinum. 90% af lækningunni er andlegs eðlis. Japanir hafa læknað milli 25-50% krabbameinstilfella með breyttu hugarfari, án þess að skipta um fæði, en þeir eru auðvitað mikið lengra komnir í andlegum iðkunum en Vesturlandabúar. Tue sagði að erfiðast af öllu sem hann fengist við væri krabbamein. Þá dygði oft ekki að breyta fæðinu, það yrði stundum að breyta öllum lífsvenjunum líka.

Erfðasjúkdómar stafa oft afmatarvenjum sem haldast í ættum í marga ættliði og framkalla því sömu sjúkdóma mann fram af manni. Rétt mataræði fyrstu 20 ár ævinnar skiptir mestu máli, og mataræði móður á meðgöngutímanum er afar mikilvægt.

Líkamsbygging segir til um hve harðger við erum frá náttúrunnar hendi. Stutt breiðvaxið fólk er sterkbyggðast, en háir og mjóir eru veikbyggðir. (Yin = veikt -Yang = sterkt). En verða þá grannir og háir frekar veikir en hinir stuttu og þreknu? Nei, það fólk er veikbyggt frá upphafi og þarf því betur að gæta heilsu sinnar. Aftur á móti hættir þeim sterku og hraustu við því að gá ekki að sér í tíma og misbjóða því líkamanum, ýmist með röngu mataræði, eða of mikilli vinnu. Slíkt fólk fer því oft illa út úr veikindum.

Andlitsdrættir. Þar á sama regla einnig við, að breiðlaga neðra andlit, breið haka, og stór eyru, tákna hreysti. Hökuskarð er mikið hraustleikamerki. Tue gat þess að mjög harðir stjórnmálamenn hefðu flestir hökuskarð, og að stjórnmálamenn með breiða höku og breitt andlit væru miklu þrautseigari en hinir sem hefðu grannt og mjóslegið andlit. Hann bætti því við að þessi hópur, sem sat námskeiðið hjá honum, væri yfirleitt með stærri  eyru en algengt væri að sjá á Kaupmannahafnarbúum og það taldi hann hreystimerki Íslendinga.

Augun lýsa mörgu, til dæmis eru svartir blettir í hvítunni undir augnasteinunum merki um nýrnasteina. Gulir blettir á sama stað benda á æxli í móðurlífi o.s.fr.v. Bólgin augnalok benda á að lifur og gall séu í ólagi. Af lifrar- og gallsjúkdómum getur leitt augnvandamál, einnig mikilreiðiköst. Sterk lifur og gall þýða reiðilaust (friðsælt) líf. Við þessum vanda, sem oft er mestur á vorin, er gott að borða baunaspírur, súrkál og annan súran mat. Mjög dökkir baugar undir augum segja að eitthvað sé að nýrnahettum og nýrum. Nýrnaveikindum fylgir oft kuldi og andlegt ójafnvægi, þar á meðal hræðsla.

Kinnarnar segja til um ástand lungna. Óhrein húð á kinnum og mjög rauðar kinnar, tákna veik lungu. Aftur á móti bendir það til að blóðrásin í lungum sé í lagi ef fólk roðnar oft. Kvef er úthreinsun frá lungum eins og áður hefur komið fram. Lungnasjúkdómar koma fram í gráti og þunglyndi. Nef sem er bólótt, glansandi og rautt, bendir á kransæðastíflu, að of mikið kólesteról sé í blóði og blóðrásin treg.

Varir sem eru eldrauðar sýna ristilbólgu, en hvítar sýna blóðleysi. Bólgin eða þykk og hrukkótt neðri vör er líka aðvörun um vandamál í ristli, en eins útlítandi efri vör segir til um vandamál í maga. Best er að vera varaþunnur og smámynntur, það er talið hraustleikamerki. Til forna höfðu Kínverjar það að leiðarljósi þegar þeir völdu sér konur, að þær konur væru hraustari og þyldu betur mótlæti sem höfðu lítinn munn!

Hér hefur verið stiklað á stóru, en þó dregin fram aðalatriði þessa forvitnilega námskeiðs.

Viðtalið skrifaði  Ingibjörg Sigfúsdóttir árið 1985



Flokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: