BEINÞYNNING
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 6.júní 1984. Við fengum leyfi höfundar til að birta hana hér. Það kemur fram í greininni nauðsyn þess að börn drekki mjólk. Við spurðum Jón Óttar hvort kakómjólk og aðrir sykraðir mjólkurdrykkir gætu komið í stað nýmjólkur. Hann taldi þá vera munaðarvöru, ekki æskilega til neyslu daglega vegna sykurinnihalds og þar að auki er oxalsýra i kakói sem dregur úr nýtingu kalks. Því er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrr því a6 mjólkin er heilnæmust ómenguð.
Eitthvert nauðsynlegasta neytendamál um víða veröld er fræðsla um það hvernig fólk geti best hagað lífi sínu til að varðveita eigin heilsu. Því miður vill það gjarnan gleymast að þá þarfað hugsa um beinin ekkert síður en aðra vefi líkamans og sjá til þess að þau fái þá næringu sem þau þurfa. Á þessu hefur oft orðið misbrestur. A árdögum iðnbyltingarinnar var loftmengun t.d. víða slík að D-vítamínskortur vegna sólarleysis var víða landlægur. Þegar D-vítamín vantar nýtist kalk ekki í meltingarvegi og beinin svigna undan líkamsþunganum. Kallast það beinkröm hjá börnum en beinmeyra hjá fullorðnum. Nú heyra þessir sjúkdómar sögunni til á Vesturlöndum. En þá hefur „nýr“ sjúkdómur skotið upp kollinum og er orðinn faraldur um allan hinn vestræna heim.
Hvað er beinþynning?
Beinþynning eða úrkölkun heitir á alþjóðamáli ,,oseoporosis“ og merkir bókstaflega froðukennd bein. Sjúkdómurinn stafar af því að beinin tapa meira en 40% af kalkinu og verða stökk og viðkvæm. Þarf þá oft lítið til að þau springi eða hrökkvi í sundur. Fyrstu einkennin eru oft bakverkir, aflögun beinanna (t.d. bogið bak), sprungur eða brot. Vegna ástands beinanna gróa slík brot oft seint eða alls ekki. Sjúkdómurinn á rætur að rekja til þess að beinin eins og aðrir líkamsvefir eru í stöðugri endurnýjun þar sem úrkölkun og kölkun eiga sér stað samtímis.
Er talið að sjúkdómurinn stafi af því að á fimmtugsaldrinum hægir mjög á kölkun beinanna og eftir það verður það úrkölkunin sem nær smám saman undirtökunum. Rýrnun beinanna er að jafnaði helmingi hraðari hjá konum en körlum sem aftur veldur því að sjúkdómurinn er frá 4 upp í 8 sinnum algengari meðal kvenna en karla. Talið er að níu af hverjum tíu konum fái einhver einkenni um sjúkdóminn og a.m.k. fjórða hver kona yfir 65 ára aldri sé kornin með sjúkdóminn á háu stigi. Algengustu brotin eru á framhandleggsbeinum, lærhálsinum og liðbolum hryggjarins. Af þeim konum sem lærbrotna deyja venjulega 15 – 30% afvöldum sjúkdómsins.
Orsakir
Talið er að orsakaþættir beinþynningar séu fyrst og fremst þrír: (1) Skortur á kynhormónum (sérstaklega eftir tíðahvörf hjá konum), (2) Kalkskortur og (3) kyrrsetur. Meginorsök virðist vera skortur á kalki í fæði á þeim tíma þegar kölkun beinanna er hvað hröðust samfara skorti á nægilegri líkamlegri áreynslu. Þar með er ekki sagt að kalkneysla sé óþörf síðar á ævinni, öðru nær, því allt bendir til að kalkgjöf geti tafið framrás sjúkdómsins. (Innskot Hh: sjá grein um Magnesíum eftir Martein Skaftfells). Aðrir þættir sem eru taldir stuðla að úrkölkun eru lágt hlutfall kalks/hvítu, lágt hlutfall kalks/fosfórs og skortur á D- vítamíni og flúor í fæði.
Varnir gegn úrkölkun
Það er ekki skemmtileg tilhugsun í landi þar sem fljúgandi hálka, rok og lélegt skyggni eru landlæg fyrirbrigði að sitja uppi með bein sem brotna við minnsta hnjask. Sem betur fer eru til tvö góð ráð við þessum hörmulega sjúkdómi: nægilegt kalk á degi hverjum og nægileg hreyfing árið um kring frá vöggu til grafar. Ráðlagður dagskammtur (RDS) af kalki fyrir fullorðna er talinn vera 800 mg. Fyrir konur eftir tíðahvörf og á meðgöngutíma er þörfin talin allt að 1200-1500 mg. Þrátt fyrir mjólkurþamb Íslendinga (70% afkalkinu í fæðunni kemur úr mjólkurmat) er meðalneysla íslenskra kvenna á þessum aldri ekki nema 800-900 mg á dag. Það er því afar mikilvægt að sérhver einstaklingur drekki í það minnsta tvö glös af mjólkurdrykk á degi hverjum ævilangt (um 500-600 mg af kalki).
Ættu börn og unglingar að halda sig við mjólk, en fullorðnir einungis við léttmjólk, undanrennu og mysu. Afgang kalksins fáum við svo úr öðrum mjólkurmat, grænmeti o.fl. Hinn aðalþátturinn sem ávallt verður að huga að er nægileg hreyfing, sérstaklega hreyfing sem nær til allra hluta líkamans, t.d. göngur á ósléttu landi, sund, dans og leikfimi. Að öðru leyti skiptir mestu að hver og einn finni þá aðferð sem hentar honum. Og þótt konurnar þurfi að gæta sín sérstaklega gilda sömu reglur að sjálfsögðu um karlkynið.
Bein sem er illa farið af völdum beinþynningar (stór hluti af kalkinu og fleiri steinefnum hefur skolast burt).
Höfundur: Dr. Jón Óttar Ragnarsson
Flokkar:Líkaminn