Kerfill

Frú Þórunn Jóna Þórðardóttir hafði samband við okkur (1989) og kvaðst hún undrandi á því að hafa ekki séð neitt skrifað um kerfil hér í blaðinu en hann vex víða í görðum og er auðræktaður. Hún á í fórum sínum uppskrift að seyði sem hún hefur notað við nýrnasteinum og til hressingar fyrir sjúklinga, með góðum árangri: Taka skal fræið af jurtinni meðan það er enn mjúkt og ekki farið að dökkna og sjóða í vatni við hægan hita í 20 mín. Drekka síðan 3-4 bolla á dag. Við kunnum Þórunni bestu þakkir fyrir uppskriftina. Í útlendum grasalækningabókum má sjá að blöð af kerfli hafa verið notuð öldum saman til lækninga.

Til innvortis notkunar eru þau sett út í sjóðandi vatn og látið trekkja í 10 mínútur. Seyðið örvar blóðrás og þvagrennsli og auðveldar meltingu. Það er einnig sagt gott við minnisleysi, þunglyndi og taugaveiklun. Þegar nota á kerfil útvortis er hann settur í vatn og suðan látin koma upp og látið trekkja í hálftíma. Þetta er notað í bakstra á bólgin augu og til að fríska upp á húðina í andlitinu. Það er tekið fram að það þurfi að nota jurtina nýtínda því þurrkun eyðileggi lækningamáttinn. Ráðlagt er að nota blöðin fersk út í salat eða saxa þau út í súpu sem oftast á sumri n. Að lokum er hér uppskrift frá Frakklandi:

Sjóðið afhýddar kartöflur með örlitlum hvítlauk, sigtið þær eða stappið og setjið aftur út í vatnið sem þær voru soðnar í, bærið 1-2 msk.rjóma, hitið aftur upp smástund. Setjið síðan handfylli af fínsöxuðum kerfli út í rétt áður en borið er á borð. E.V.Flokkar:Jurtir

%d bloggers like this: