Úr einu í annað árið 1982

Hættuleg auglýsing
Undanfarið hafa sjónvarpsáhorfendur mátt horfa og hlusta á auglýsingu frá þekktum tannkremsframleiðanda, þar sem sýnd eru falleg börn vera að bursta tennurnar með nýjustu framleiðslu fyrirtækisins, sem sagt er að innihaldi, auk tveggja mismunandi „góðra“ flúortegunda, einstök og frábær bragðefni, sem geri tannkremið að sannkölluðu sælgæti. Auglýsingin leggur aðaláhersluna á bragðgæðin og börnin eru látin smjatta á tannkreminu framan í áhorfendur. Hér verður ekki farið að karpa um það, hvort flúor í örlitlu magni, 0.5 – 1 mg á dag, bæti tannheilsu barna eða ekki. Hitt eru allir sammála um, að flúor í til þess að gera stórum skömmtum, 4 mg eða meira á dag, sé skaðlegur heilsu allra, bæði barna og fullorðinna. Tannkrem þessa framleiðanda inniheldur samkvæmt öðrum heimildum nálægt 0.8% vatnsuppleysanlegra flúorsalta. Augljóst ætti að vera að ekki muni heilsusamlegt að nota efni sem inniheldur svo mikinn flúor sem sælgæti. Láti barn t.d. 1 gramm af þessu tannkremi á tannburstann og borði það í stað þess að skyrpa því í vaskinn að notkun lokinni, fær það úr því um 8 mg af flúorsöltum. Allir eru sammála um að þetta er allt ofhár dagskammtur.

Í eitt skipti væri þessi skammtur þó e.t.v. ekki mjög hættulegur, en við daglega endurtekningu hlýtur slíkur skammtur að leiða til flúoreitrunar. Einnig má benda á það, að fari barn á annað borð að nota tannkrem sem sælgæti, er eins líklegt að það neyti miklum mun meira magns en eins gramms. Heyrst hefur um barn, sem komst í tannkrem og hætti ekki fyrr en það hafði lokið úr túbunni. Þó að eitthvað af innihaldinu hafi vafalaust farið á klæði barnsins, hendur og andlit, er þó lítill vafi á því að meiri hlutinn hefur farið ofan í það. Rétt er að vekja athygli á því að í einni tannkremstúpu er nægilegt magn flúorsalta til að valda banvænni eitrun, jafnvel í fullorðinni manneskju, hvað þá heldur í barni, sé innihalds túbunnar neytt í einu lagi. Að réttu ætti að merkja flúortannkrem með “ Varúð, geymist þar sem börn ná ekki til“, ásamt hauskúpunni og leggjunum, enda mundi 0.8% flúorlausn sem seld væri í apótekum vera merkt þannig. Athygli landlæknis og Eiturefnanefndar er hér vakin á þessu, sem raunar ætti þó að vera óþarft, því að flúor er hér á landi skráður sem eiturefni, í sama flokki og blásýra og arsenik. Hér þarf því aðeins að fara eftir reglugerð sem er í fullu gildi, en hefur ekki verið framfylgt. Þessi reglugerð er sú sama og notuð er til þess að banna innflutning þeirra steinefna sem áður var getið. Augljóst er því að ekki er ávallt farið eftir reglugerðinni, þó að svo sé látið í veðri vaka,’þegar verið er að hefta innflutning fæðubótaefna.

Klofinn hryggur og skortur á fólinsýru
Nú mun nokkurn veginn fullsannað, að sá fæðingargalli sem nefndur hefur verið  „klofinn hryggur“ stafar afskorti móðurinnar á fólinsýru um meðgöngutímann. Að minnsta kosti tvær greinar um þetta efni hafa birst í tímaritinu „Nature“. Þar er aðallega vitnað í rannsóknir á Írlandi. Að þessu sinni verður ekki farið nánar út í að greina frá þeim rannsóknum, en þessi smáklausa aðeins birt hér til að benda verðandi mæðrum á, sem áður hafa eignast barn með þennan fæðingargalla, að írsku rannsóknirnar benda til þess að slíkum konum sé mun hættara en öðrum að fæða aftur barn með klofinn hrygg. Með því að nota fólínsýru á meðgöngutímanum, má að mestu koma í veg fyrir að  slíkt slys endurtaki sig. Sumir telja gott og aukaöryggi í því að fleiri vítamín en fólínsýra, m.a. önnur vítamín úr B flokknum  séu einnig notuð um meðgöngutímann.

Blómafræflar, frjóduft, pollen
Síðastliðið vor kom á markaðinn nýtt „náttúrlegt undraefni“ sem  seljendur nefndu „Blómafræfla“. Á ensku nefnist þetta efni „Honey Bee Pollen“. Eins og enska nafnið ber með sér er hér á ferðinni ný tegund af „pollen“, sem nefnt hefur verið „frjóduft“ eða „blómduft“ á íslensku. Rétt þýðing á enska nafninu væri því „Býflugna-pollen eða -blómduft“ eða eitthvað í þeim dúr. Erfitt er að giska á hvers vegna innflytjendur völdu þá leið að fara að kalla frjóduft blómafræfla, því að eins og flestir vita eru blómafræflar nafn á allt öðrum hlut en frjódufti. Frjóduftið verður til í fræflunum, en er ekki fræflarnir sjálfir fremur en spenarnir á kúnni eru mjólkin sem úr þeim kemur. Engin býfluga gæti borið fræflana með sér heim í býflugnabúið, en hún ber með sér frjóduftið affræflunum. „Blómafræflarnir“ eru mjög dýrir miðað við annað frjóduft á markaðinum. Margir hafa vafalaust keypt þá þrátt fyrir það, vegna þess að þeir hafa haldið að hér væri eitthvað nýtt og annað á ferðinni en gamaldags pollen eða frjóduft, sem fengist hefur hér í heilsufæðubúðum í fjölda ára. Hér er ekki verið að leggja neinn dóm á gæði „Blómafræflanna“. Vel má vera að þeir séu besta frjóduft á markaðinum. Það veit sjálfsagt enginn með fullri vissu. Hlutlausum áhorfanda finnst aðeins að selja ætti þessa vöru undir réttu nafni, en ekki að gefa í skyn með villandi heiti að verið sé að selja eitthvað allt annað en það raunverulega er.

Heilkornsbrauð, brauð úr nýmöluðu korni
Þegar korn er malað blandast öll þau efni sem í því eru saman. Í frækíminu eru samankomin flest mikilvægustu næringarefni kornsins, þar á meðal kímolían, sem að mestum hluta er úr fjölómettuðum fitusýrum, línól- og línólensýrum. Fjölómettaðar olíur ganga mjög auðveldlega í sambönd við súrefni andrúmsloftsins, þ.e. oxast. Í daglegu máli er þá sagt að olían þráni. Fjölómettaðar olíur eru taldar mjög hollar og raunar lífsnauðsynlegar. Jurtaolíur sem orðnar eru þráar eru þó síður en svo nein hollustufæða. Auk þess að hafa ógeðfellda lykt og bragð eru þær taldar geta valdið ýmiskonar vandamálum í líkamsstarfseminni, sé þeirra neytt í nokkrum teljandi mæli. M.a. hefur verið talað um þær sem hugsanlega sjúkdómsvalda, því að í þeim myndast ýmiskonar eitruð efnasambönd og eru sum þeirra talin líklegir krabbameinsvaldar, t.d. efnasambandið malon aldehyd sem sagt er frá í grein í Hollefni og heilsurækt, sept. 1979.

Meðan fræið er ómalað og lifandi kemst súrefni loftsins ekki í samband við kímolíurnar og þær haldast því ferskar. Ennfremur eru í kíminu náttúrleg efni sem hindra oxun, aðallega tokoferol, þ.e. E-vítamín, sem verja olíurnar fyrir súrefni loftsins meðan fræið er ómalað og lifandi. Um leið og fræið er malað blandast kímolían öðrum efnum kornsins. Við það kemst hún í mjög nána snertingu við andrúmsloftið og á skömmum tíma eyðist hið súrefnisverjandi E-vítamín og olían tekur að þrána. Nýmalað mjölið sem ilmar, fær nú óþægilega lykt, og brauð úr slíku mjöli verða ekki aðeins bragð- og lyktarverri, heldur einnig ekki nærri því eins heilsusamleg eins og brauð úr nýmöluðu komi.

Heilmjöl sem geymt hefur verið mánuðum saman eftir mölun er því stórgölluð vara og varla hæft til matar. Sama er að segja um hveitikím, sem geymt hefur verið í illa loftþéttum umbúðum í langan tíma. Enda þótt hveitikím sé einhver fullkomnasta næring sem völ er á, er þessi dásamlega fæða, frá náttúrunnar hendi, oft á tíðum orðinn daunillur óþverri, þegar það er komið á borð neytandans. Geymið því hveitikím ætíð í loftþéttum umbúðum og helst í kæli. Eigi heilmjöl að halda sínum góðu eiginleikum, má ekki mala það fyrr en rétt áður en bakað er úr því. Einnig verður að tryggja það að ekki myndist ónauðsynlegur hiti í því við mölunina, en hiti ílýtir mjög fyrir eyðileggingu kímolíunnar. Best er að nota hæggengar steinkvarnir, eins og notaðar voru hér á landi og annars staðar fram að síðustu aldamótum.

Mölun í þannig kvörnum tryggir besta hugsanlegt mjöl og úr því má baka fyrsta flokks brauð, sem inniheldur flest þau næringarefni sem finnast í góðu korni. Á seinni árum hefur orðið bylting í brauðgerð á Íslandi. Á því er auðsætt að íslenskir bakarar eru allir afvilja gerðir að framleiða góða vöru. Nú þyrftu brauðgerðarhús að fullkomna það verk, sem þegar er hafið, með því að eignast hvert fyrir sig sína eigin litlu kornmyllu og mala daglega úr heilkorni það heilmjöl, sem notað er þann daginn. Þá fyrst geta þau tryggt viðskiptavinum sínum ilmandi fyrsta flokks heilkornsbrauð, sannkölluð heilsubrauð. Aukinn kostnaður vegna þessara framkvæmda kemur áreiðanlega margfaldur aftur í meiri sölu og ánægðari viðskiptavinum.

 „U-serían“ og mongólíðabörn
Greinin um mongólíðabörnin og ,,U-seríu“ meðferðina hefur auðsæilega vakið verulega athygli. Nokkrir einstaklingar hafa haft samband við blaðið og spurst fyrir um ýmislegt í sambandi við þetta mál. Í síðasta hefti norska tímaritsins Vi og várt er skýrt frá því að margar fyrirspurnir hafi komið frá Íslandi, eftir að grein um þetta efni hafi birst í íslensku heilsutímariti. Í sömu grein í Vi og várt er viðtal við Phyllis Nyquist, sem er formaður samtaka foreldra mongólíðabarna í Noregi og nefnast „Interessegruppe for alternativ behandling-IFAB. Phyllis á sjálf mongólíðadreng, sem nú er á tíunda ári. Hann hefur verið á U-seríu-meðferð í rösklega ár. Áður hafði hann fengið ýmiskonar vítamín og stein efni, sem sennilega hafa haldið í honum lífinu, því að læknar töldu þegar hann fæddist að hann myndi tæplega lifa lengur en í nokkrar vikur. Síðan hann byrjaði á U-seríunni, hefur ástand hans stöðugt farið batnandi og móðir hans notar oft orðið „ótrúlegt“, þegar hún er að lýsa framförum sonar síns. A nokkrum mánuðum óx t.d. nefbeinið á honum, þannig að nú er hann með fullkomlega eðlilegt nef og augnsvip. Einnig eru vitsmunalegar framfarir hans ekki síður merkilegar. Áður lauk hann sjaldan við setningu sem hann hafði byrjað á. Nú lýkur hann við allar setningar. Hann er orðinn læs og byrjaður að læra á hljóðfæri. Í Japan fá nú öll mongólíðabörn sem fæðast U-seríu-meðferð frá fæðingu. Einnig er hún notuð í stórum stíl í Sovétríkjunum nú síðustu árin. Í Noregi eru nú meira en sextíu mongólíðabörn komin á meðferð og fjölgar stöðugt. Efnin fyrir U-seríu-meðferðina eru nú seld í Danmörku og má panta þau þaðan beint.

Vottorð frá lækni þarf að fylgja pöntun, ásamt helstu upplýsingum um barnið og heilsufar þess. Læknisvottorð má t.d. orða eitthvað á þessa leið: I undersigned dr. hereby confirm that patient with my knowledge is being treated with „U-series“ for treatment of Down’s Syndrome.    Dags. Undirskrift læknis.

Beiðnin sendist til:MEDIGEN APS C/0 S. ISAAK, HJÖRNAGERVEJ 20 DK-2650 HVIDOVRE, DANMARK. -U-seríu-meðferð kostar frá 115 – 150 bandaríkja dali á mánuði eftir aldri barnsins. Nánari upplýsingar er hægt að fá frá: IFAB – INTERESSEGRUPPE FOR ALTERNATIV BEHANDLING, C/0 VI OG VÁRT, POSTBOX 901, SENTRUM, OSLO, NORGE. – Athuga að þessi grein er skrifuð árið 1983



Flokkar:Úr einu í annað

%d bloggers like this: