Ræktun garðperlu

Í skammdeginum er lítið um að verslanir hafi innlent grænmeti á boðstólum. Eina grænmetistegund má þó nefna sem auðvelt er að rækta inni í stofu strax og dag fer að lengja. Það er GARÐPERLA, sem einnig er nefnd KARSI eða KRISTSKÁL. Þegar garðperla er ræktuð að vetrarlagi má nota til þess 2-5 sm grunna kassa, potta eða flókaþerripappír. Nota þarffínmulda garðmold. Fræið er stórt og skal því dreifsáð allþétt og þrýsta niður í moldina, en ekki skal dreifa mold yfir. Síðan er vökvað, blað breitt yfir og geymt við stofuhita. Fræið spírar jafnt eftir 3-4 daga og þá yfirbreiðslan tekin ofan af og eru þá plöntunar fluttar á svalari stað í glugga á móti birtunni. Þegar komin eru 2-4 blöð og plönturnar orðnar 4-6 sm á hæð er kominn tími til að skera blöðin af.

Til þess að hafa nýja garðperlu að staðaldri er hæfilegt að sá með tveggja vikna millibili. Sé flókaþerripappír notaður er fræinu sáð mjög þétt, pappírnum haldið rökum og dagblað breitt yfir. Gott er að setja eina teskeið af blómaáburði í vatnið. Strax og fræið byrjar að spíra er yfirbreiðslan fjarlægð og plöntunar látnar í birtu. Nauðsynlegt er að úða vatni yfir plöntunar einu sinni til þrisvar á dag. Garðperla er vítamínrík planta. Hún er notuð sem álegg á brauð, einnig til þess að skreyta kalt borð og steikur, hrærð í eggjaköku, tómatsalat og kartöflusalat. Þá er garðperla notuð í ýmsar sósur, ásamt steinselju og matlauk. Ekki má sjóða garðperlu, því við suðuna hverfur hið ljúffenga og hressandi bragð, heldur skal strá henni hrárri niðursaxaðri út í sósuna eða á brauðsneiðina.

Höfundur: Einar I. SigurðssonFlokkar:Jurtir

%d bloggers like this: