Piparmyntuna er ekki að finna í „Ferðaflóru“ Áskels Löve. Enda telst hún ekki til íslenskra jurta. En hér við hús undirtaðs, og sjálfsagt víðar, hefur hún verið ræktuð í mörg ár, og þrifist vel. Við getum því boðið hana velkomna í flóru Íslands. Og fólk, sem hefur einhverja garðholu, ætti að rækta myntuna og afla sér hollrar tejurtar, á kostnað kaffisins, sem talið er auka kólesteról blóðsins, og flýtir því fyrir kransæðastíflu, auk þess sem það rænir okkur B-l vítamíni.
En það stuðlar að nýtingu kolvetna í daglegri fæðu, og er jafnframt mikilvægt taugavítamín. Í erlendum fræðiritum um lækningagildi jurta, líklega flestum, er myntunnar getið. Hún var þekkt um árþúsundir fyrir okkar tímatal, austur í Kína, og síðar í Japan. Og lengi hefur hún verið kunn í Egyptalandi, því að fundist hefur hún í smyrðlingum (múmíum) konunga. Myntan hefur því verið mikils metin í æðstu stéttum.
Í einni heimild um myntuna segir, að hún fylli arabíska markaði ilmi sínum, borin af smávöxnum ösnum. Þannig voru, og kannski enn, matvörur markaðsins varðar flugum, sem fælast piparmyntuna. Frá höll og hreysi leggur myntuilm. Og að veita myntute, er í senn helg athöfn og hyggindi, því að piparmyntan er sýklaeyðandi og vinnur gegn farsóttum. Karl mikli (742-814) dreifði myntinni um Evrópu. Hann hafði ávallt með sér 6 tegundir myntu, og lét gróðursetja við bæi sína og borgir.
Hann hefur því vel kunnað að meta ilm hennar, og sennilega þekkt heilnæmi hennar. Piparmyntan mun vera ein þeirra jurta, sem notuð er í ílestum löndum heims, og á ýmsa vegu, og henni eignaðir margir góðir eiginleikar, t.d. gegn gallsteinum, nýrnakvillum, höfuðverk, meltingarsleppu, holl lifur, hjarta, taugum, kirtla starfsemi. Og fyrrum og kannski einhvers staðar enn, var myntunni blandað í ástardrykki.
Hvenær piparmyntan barst hingað til lands, veit ég ekki. En öðru hvoru megin við 30 ár, hefur hún verið hér á markaðnum, meðal margra annarra hollra tejurta. Og svo mun sennilega verða áfram um aldir, því að bragð og ilmur hugnast flestum.
Og hinn kunni þýski, dr. med og grasafræðingur R.F. Weiss, segir myntuna vera eina af okkar bestu lækningajurtum, hafi góð áhrif á lifur og gall. En eins og allar lækningajurtir, eigi ekki að drekka hana, nema meðan þess er þörf, en ekki daglega yfir lengri tíma, þá dragi úr áhrifum hennar. Það er því rétt að ,,hvíla“ allar lækningajurtir öðru hvoru. En auðvitað megum við drekka þær, þótt við séum ekki haldin þeim kvillum, sem þær vinna gegn
Höfundur Marteinn Skaftfells árið 1981
Flokkar:Jurtir