Skortur á C-vítamíni og ófrjósemi

Úr greinaflokknum ,,Úr einu í annað“ eftir Ævar Jóhannesson árið 1993

 Undanfarna áratugi hefur barnlausum hjónaböndum fjölgað í flestum þróuðum löndum. Í mörgum tilfellum er þetta mikið böl fyrir viðkomandi einstaklinga, sem oft á tíðum grípa til allra ráða sem þeim getur hugkvæmst til að eignast barn. Stundum getur svokölluð glasafrjógun leyst úr vandanum en stundum má sennilega ná árangri með einfaldari og ódýrari hætti, ef mark má taka á frásögn í kanadíska tímaritinu „Health and Nutrition Update“ frá síðastliðnu sumri.

Þar segir að vitað hafi verið frá árinu 1941 að mjög mikið af C-vítamíni sé í eistum karlmanna. Einnig er vitað

að hjá ófrjóum mönnum er til muna minna af C-vítamíni í eistunum en eðlilegt geti talist. Þá er og vitað að ef sæðið er límkennt getur það valdið ófrjósemi og sé hægt að gera það minna límkennt aukast líkur á frjóvgun. Aukið C-vítamín í sæðinu gerir það minna límkennt og þar að auki eykur það magn þess, fjölda sæðisfruma og hreyfanleika. Það minnkar auk þess fjölda óeðlilegra eða gallaðra sæðisfruma. Gerð varð tilraun til að athuga hvort aukið C-vítamín í fæðu gæti hjálpað hjónum í barnlausum hjónaböndum, þar sem ekki hafði fundist nein læknisfræðileg ástæða fyrir ófrjóseminni. Tuttugu hjón tóku þátt í tilrauninni.

Karlmennirnir voru látnir taka eitt gramm af C-vítamíni daglega í tvo mánuði. Til samanburðar voru tuttugu önnur hjón, sem eins var ástatt fyrir, en þar fengu mennirnir ekkert C-vítamín. Að tveim mánuðum liðnum voru hóparnir bornir saman. Allar konurnar í C-vítamínhópnum reyndust vera með barni en engin í samanburðarhópnum.

 

Heilbrigðari börn
Ekki er eftirsóknarvert að eignast börn ef þau fæðast veikburða eða vansköpuð. Í sömu heimild segir að rannsóknir sýni að karlmenn sem fá gnægð C-vítamíns í fæðu myndi heilbrigðara sæði en þeir karlmenn sem ekki fá nægilegt C- vítamín. Það kemur m.a. fram í því að erfðaefnið DNA í sæðisfrumunum verður frekar fyrir skemmdum sem valda stökkbreytingum. Það getur m.a. komið fram sem erfðagallar eða vanskapnaður á afkvæminu. Í rannsókn sem fór fram í Buenos Aires var sæði frá 24 mönnum rannsakað með tilliti til C-vítamíninnihalds og skemmda á erfðaefni. Þá kom í ljós að í sýnunum með minnsta C-vítamínsinnihaldinu (samsvarandi minna en 50-60 mg C-vítamíns notkun á dag) vorum skemmdir á erfðaefninu, DNA til muna algengari en í hinum sýnunum. Í sýnunum með færri erfðagalla jafngilti C-vítamínmagnið því að notaðar væru daglega tvær máltíðir sem innihéldu ávexti og þrjár máltíðir með grænmeti. Hversu margir Íslendingar skyldu uppfylla þetta skilyrði?

´Hér má finna alla greinina ,, Úr einu í annað“ frá 11.apríl 1993.    https://heilsuhringurinn.is/1993/04/11/ur-einu-i-annae-4/

Höfundur: Ævar Jóhanneson 11. apríl 1993



Flokkar:Næring

Flokkar/Tögg, ,

%d