Rafóþol leiðir til vitundarvakningar

Barátta við kerfið og réttindaleysi gagnvart því að vera útsett fyrir skaðlegri geislun veitir innsýn í valda fáfræði innan íslenska kerfisins og víðar.

Haustið 2008 var ég í mastersnámi sem var bæði staðarnám og fjarnám – með vinnu sem grunnskólakennari. Mér hafði gengið vel og var ánægð með framfarirnar og lífið. Ég kenndi 2. bekk og var ánægð með árangurinn og starfsandann í skólanum.

Það var í byrjun október sem ég verð vör við að það eru menn uppi á þaki að vinna, ég spyr út í hvað þeir séu að gera þar. Mér er sagt að þeir séu að setja upp farsímasendi. Þó ég vissi ekki mikið um þá geislun sem fylgir slíkum sendum þá, varð ég nokkuð undrandi á að það væri verið að setja slíkan sendi á grunnskóla.

Ég held áfram mínu starfi og námi, en um mánuði seinna er ég komin með undarleg einkenni, eyrnasuð (hátíðnihljóð í höfði), ógleði, svefntruflanir, minnisleysi, einbeitingarskort og háan blóðþrýsting sem ég hafði aldrei haft. Einnig var eins og ég fengi stundum rafstuð eftir sinunum án þess að hafa komið við nokkurn hlut og fann fyrir mikilli spennu í sinum í hálsi.

Ég leita til míns heimilislæknis sem telur að þetta getir verið einkenni vegna vírussmits og segir mér að koma aftur eftir 4 vikur ef þetta hefur ekki lagast. Þetta lagaðist ekki og ég fór aftur til hans og hann vísar mér til eyrnalæknis. Hann svo úrskurðar þetta sem tinnitus, en hefur engar skýringar á öðrum einkennum eða lækningu við þessu ástandi. Telur það vera vegna heyrnartaps. Kom í ljós að ég heyrði ekki hátíðnihljóð, en þau eru samt stöðugt í höfðinu á mér og ég heyri þau – og heyri annars vel.

Eitthvað segir mér að athuga hvort þetta tengist sendinum eða rafmengun yfir höfuð og fæ Geislavarnir ríkisins til að mæla geislun frá sendinum. Það kemur maður og mælir og segir allt vera innan viðmiðunarmarka. Ég eigi ekkert að finna fyrir geisluninni.

Ég fékk mann til að mæla rafsegulsviðið heima hjá mér sem benti mér á margvíslegt efni á netinu sem tengist þessum málum og ýmis ráð til að minnka geislun og rafmengun heima hjá mér. Ég fer að kynna mér málin og sá að þau einkenni sem ég var með kallaðist ,,Electro Hyper Sensitivity, Electro Sensitivity“ eða ,,Radio Sickness“ og að vaxandi fjöldi fólks var að þjást af þessu um allan heim í kjölfar vaxandi notkunar á þráðlausum búnaði. Ég hef kallað þetta rafóþol eða rafsegulóþol. Ég komst að því að það könnuðust fáir við þetta heilkenni og ég mætti fáfræði og hleypidómum hvar sem ég nefndi þetta. Þó svo að fólk víða um heim væri að finna fyrir þessum óþægindum var það sama upp á teningnum hjá því með undantekningum þó. Kerfið og stjórnvöld kusu að hundsa þessar kvartanir og gerðu lítið úr þessum einkennum.

Nú veit ég að þetta óþol er skilgreint undir stuðlinum ,,2018 ICD-10-CM Diagnosis Code W90.0XXA: Exposure to radiofrequency“. „Rafóþol“ eða „Microwave Sickness“ í Bandaríkjunum. Norðurlandaráð hefur líka gefið út stuðul til greiningar rafóþoli eða ,,Electrosensitivity” (2000: ICD-10. R68.8) þar sem sjá má í ,,APPENDIX IV“ bls. 50 um „Electromagnetic intolerance“, eða „rafóþol“ að almenn einkenni eru þreyta, ógleði, minnisleysi og erfiðleikar með einbeitingu o.s.frv..

Það er því ömurlegt að það sé enn lítil sem engin þekking hér á landi, hvort sem þekkingarleysið er valið eða ekki, og að fólk með þessi einkenni fái ekki viðhlítandi þjónustu og mæti fordómum. Hvað skyldu vera margir sem þjást af þessum einkennum án þess að fá viðeigandi ráðgjöf, allt vegna þess að það eru embættismenn sem af óskiljanlegum ástæðum ákveða að standa frekar með hagsmunum iðnaðarins eftir því sem ég best sé.

Þremur mánuðum eftir að sendirinn var settur upp á skólann var ég orðin þannig að ég mundi ekki hvað ég hafði verið að lesa og átti í basli með að koma því yfir í verkefnið sem ég var að vinna. Athyglisbresturinn var orðinn mjög alvarlegur, ég var orðin yfirspennt og ofvirk, óáttuð og átti orðið mjög erfitt með svefn og var gífurlega þreytt. Sem sagt mjög ólík sjálfri mér.

Álagið við að finna leiðir og reka sig alls staðar á veggi var gífurlegt. Ég fékk lítinn skilning og mætti allskonar fordómum. Ég endaði með að fara í veikindafrí og að lokum gerði ég starfslokasamning við skólann, þar sem engin áform voru uppi með að láta fjarlægja sendinn.

Sum einkenni vegna öbylgjugeislunar frá þráðlausum búnaði – RF og EMF   greind af ,,US Naval Medical Research Institute 1972“


Þessi einkenni ollu mér miklu öryggisleysi varðandi hvar ég gæti unnið, hvort ég gæti unnið, hvar ég gæti búið og hvernig ég gæti framfleytt mér. Eftir því sem heilsan batnaði með því að forðast geislun frá þráðlausum búnaði eins og ég gat og gera ýmsar ráðstafanir til að minnka rafmengun og langa og erfiða baráttu til að koma mér og umhverfi mínu í lag, náði ég að finna leiðir til bata. Ég hef náð að minnka einkennin og þær afleiðingar sem mikil geislun hefur fyrir mig. Ég er hins vegar áfram með þetta óþol, og á mjög erfitt að vera nema í stuttan tíma í menguðu umhverfi. Ég get minnkað áreitið heima fyrir en ég get ekki forðast þráðlaust net og geislun frá sendum almennt á vinnustað og á ferð minni um bæinn og landið. Nú eru geislunin að aukast verulega og ég finn fyrir vaxandi einkennum. Á meðan ég leita réttar míns til að lifa án manngerðrar geislunar mæti ég þekkingarleysi, blekkingum og ótrúlegum hroka yfirvalda, sem vilja ekki kannast við að geislun geti haft heilsufarslegar afleiðingar þó tugir þúsunda rannsókna óháðra aðila sýni fram á margvíslegar alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks og skaða fyrir lífríkið.

Ég veit betur. Það getur enginn blekkt mig hvað þetta varðar því ég hef ég sannreynt afleiðingarnar á eigin skinni og bætt heilsu mína með því að minnka mengunina í kringum mig.

Það hefur verið erfitt að horfa upp á hvernig upplýsingum er haldið frá almenningi og hreinlega virðist vera reynt að blekkja fólk og halda að því röngum upplýsingum, yfirleitt án nokkurra tilvitnana og rökstuðnings. Þannig virðist mér að stórfyrirtækin sem standa að baki þessari tækni njóti meiri friðhelgi en ég og að hagsmunir þeirra séu ríkari lýðheilsu. Það hryggir mig og hefur grafið undan öllu því trausti sem ég bar til yfirvalda.

Í sumar stóð ég að því ásamt nokkrum aðilum og félaginu Geislabjörg að kæra úthlutun Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðnisendingum sem tilheyra 5G til símafyrirtækja. Ekki var leitað eftir þeim gögnum sem við væntum að yrði spurt eftir um skaðsemi þessarar geislunar sem við höfum undir höndum, heldur gefið í skyn að við byggðum andspyrnu okkar á falsfréttum. Hagsmunir okkar og almennings voru ekki virtir og aðild okkar að slíkri kæru hafnað. Réttur fólks til að neita því að vera útsett fyrir skaðlega geislun er ekki virtur.

Niðurstöður óháðra vísindamanna (þ.e. þeirra vísindamanna sem eru ekki kostaðir af iðnaðinum) eru sniðgengnar af Póst- og fjarskiptastofnun og Geislavörnum ríkisins, sem virðast reiða sig á álit nefndar sem er langt frá því að vera óháð iðnaðinum, ICNIRP, sem neitar því alfarið að setja viðmiðunarmörk geislunar í samræmi við þá vísindalegu þekkingu sem liggur fyrir um líffræðilegar afleiðingar slíkrar geislunar, heldur halda sig við tuttugu ára viðmiðunarmörk sem miðast eingöngu við að forða fólki frá því að brenna sig. Það dregur svo sannarlega úr áreiðanleika þessara stofnana í mínum huga.

Það er erfitt að kyngja því að eiga ekki rétt á að kæra þessa gjörð, að fyrirtækjum sé úthlutað leyfum til að geisla mitt umhverfi í bak og fyrir og að lítið sé gert úr þeim skaða sem það veldur.  Það er ömurlegt að yfirvöld standi ekki vörð um hagsmuni einstaklinga og almennings, taki ekki mið af rannsóknum sem sýna fram á margvíslegt heilsutjón af völdum þráðlausra sendinga, brjóti alþjóðlega samninga og sáttmála eins og Helsinki-sáttmálann og Nuernberg-ákvæðið og taki ekki mið af varúðarreglunni.

Ekki er heldur tekið mið af ályktunar Evrópusambandsins, Resulution 1815 frá árinu 2011 (sjá Doc. 12608). Þar segir m.a. í lið 5:

„Hvað varðar viðmiðunarmörk varðandi geislun eða sendingar rafsegulsviðs af öllum gerðum og tíðnum, mælir Þingið með að ALARA grundvallarreglan (Eins lág og mögulegt er) sé lögð til grundvallar, og taki mið af bæði hitaáhrifum sem og líffræðilegum afleiðingum sem verða án hitaáhrifa örbylgjusendinga eða geislunar. Enn fremur ætti Varúðarreglan að gilda þegar vísindalegt mat nær ekki að gera hættu á skaða fyllilega ljósa. Í ljósi þess að almenningur er í vaxandi mæli útsettur fyrir stöðugt meiri geislun, gætu afleiðingarnar orðið mjög dýrkeyptar, sérstaklega hvað varðar ungt fólk og börn, ef fyrstu aðvörunarmerki eru hundsuð.“

Enn fremur segir í lið 8:
,,Í ljósi málsatvika sem getið er hér að ofan, mælir Þingið með að aðildarríki Evrópusambandsins geri eftirfarandi ráðstafanir:
8.1. Almennt
8.1.1. geri skynsamlegar ráðstafanir til að minnka útsetningu almennings fyrir rafsegulsviði, sérstaklega útvarpsbylgjum frá farsímum, og sérstaklega börn og unglinga sem virðast vera í mestri hættu á að fá heilaæxli.
8.1.2. endurmeti núverandi viðmiðunarmörk á útsetningu almennings fyrir rafsegulsvið sem the International Commission on Non-Ionising Radiation Protection hafa sett, sem hafa alvarlega annmarka, og gangi út frá grundvallarreglum ALARA, sem taka mið af bæði hita áhrifum og líffræðilegum afleiðingu geislunar rafsegulsendinga sem gerast án hitaáhrifa.
8.1.3. setji af stað upplýsinga herferð til að vekja meðvitund fólks um mögulega hættu á langtímaáhrifum geislunar af þessu tagi á umhverfi og heilsu manna, sérstakleg á börn, unglinga og fólk á barneignaraldri.
8.1.4. gæti sérstaklega hagsmuna þeirra sem þjást af „rafóþoli“, fólks sem þjáist af einkennum sem lýsa sér sem óþol fyrir rafsegulsviði og grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda það, þar á meðal að skapa svæði sem eru án geislunar og eru ekki þakin þráðlausum netum.“

Það er því alveg óskiljanlegt að forstjóri Geislavarna ríkisins, Sigurður M. Magnússon, skuli endalaust halda sig við réttmæti viðmiðunarmarka ICNIRP sem margir hafa bent á að eru ekki nógu lág til að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar. Nefndin er langt í frá að vera óháð iðnaðinum- sem og að hann skuli gera lítið úr þeim vísindamönnum sem hafa komist að því að geislun er langt undir þessum viðmiðunarmörkum sem eru skaðleg heilsu manna og lífi almennt. Eins er það óafsakanlegt fyrir mann í hans stöðu að virða ekki ,,Resulution 1815“ og láta sem afleiðingar ójónandi geislunar séu engar þegar mörgþúsund ritrýndar rannsóknir sýna fram á hið gagnstæða.

Ég upplifi framkomu og skeytingarleysi yfirvalda sem lítilsvirðingu gagnvart mínum rétti til að lifa án geislunar sem margir vísindamenn sýna fram á að er skaðleg. Eins er ámælisvert að almenningur skuli ekki vera upplýstur um þessa hættu.
Stöðugt fleiri eiga við vanda að stríða vegna rafmengunar. Enn fleiri eiga eftir að þjást vegna uppsetningar 5G ef yfirvöld hér hundsa allar viðvörunarbjöllur. Það er óskiljanlegt þegar Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að það séu gerðar ráðstafanir til að vernda þá sem við rafóþol stríða (samkv. lið 8.1.4. í Resulution 1815). Enn fremur er það algjörlega óásættanlegt að hagsmuna barna sé ekki gætt, eins og bent er á í lið 8.3.2. þar sem segir: „fyrir börn almennt, og sérstaklega í skólum og kennslustofum, er betra að hafa snúrutengt net, og setja strangar reglur varðandi farsímanotkun skólabarna í skólanum.“

Það eiga að vera sjálfsögð mannréttindi að fá að lifa án skaðlegrar geislunar. Það á að gera þá kröfu til yfirvalda að þau kynni sér óháðar rannsóknir og að þau láti ekki stórfyrirtæki ráða hér lögum og lofum. Það á líka að gera þá kröfu til Landlæknisembættisins að almenningur sé fræddur um þær niðurstöður óháðra vísindamanna sem sýna fram á hættu á heilsutjóni af völdum þessarar geislunar. Það er siðlaust og slæmt að stórfyrirtæki hafi öll völd og taki ákvarðanir byggðar á eigin hagsmunum en ekki hagsmunum almennings

Áróðurstækni nýtt til að skapa óöryggi
Baráttan við að fá viðurkenndan þann skaða á heilsu manna og lífríkisins sem þráðlaus tækni veldur, minnir mjög svo á baráttuna við að fá skaðsemi tóbaksreykinga viðurkennda. Þegar ritrýndar vísindaniðurstöður fóru að berast um skaðsemi reykinga, fór tóbaksiðnaðurinn að nýta áróðurstæknina og áhrif sín á umfjöllunina til að gera lítið úr rannsóknarniðurstöðunum frá byrjun sjötta áratugarins. Áróðurstæknin fólst í því að skapa óöryggi með því að beita aðferðum sem sköpuðu hagsmunaárekstra iðnaðar og akademíu. Þessi aðferðarfræði, að skapa vísindalega óvissu, dró úr lýðheilsutilburðum til að skapa regluverk sem var til þess fallið að draga úr skaðsemi reykinga. Fjöldi iðnfyrirtækja hefur nú tekið upp þessa nálgun að trufla eðlilega framþróun vísindalegrar nálgunar. Staðhæfingar um vísindalega óvissu, skort á sönnunum leiða einnig til þess að það er sett á ábyrgð og mat einstaklingsins að meta áhættuna á heilsutjóni af völdum iðnaðarframleiðslu.

Það má margt læra af því hvernig tóbaksiðnaðurinn nýtti sér til að skapa hagsmunaárekstra, sá efasemdum og kaupa sér aðgang að rannsóknarteymum og hafa þannig áhrif á framgang mála varðandi lýðheilsu. Sá langi tími sem það tók að fá afleiðingar reykinga viðurkenndar kostaði mörg mannslíf. Iðnaðinum tókst einnig að gera þann sem ánetjaðist tóbaksfíkninni ábyrgan á eigin heilsu og þannig fyrra sig sjálf allri ábyrgð. Síðan hafa iðnfyrirtæki nýtt sér þessa leið til að hafa áhrif innan vísindageirans, skapa óvissu og stuðla að efasemdum, hafa áhrif á reglugerðir stjórnvalda og verja sig gegn málsóknum þó svo þau séu að framleiða vörur sem vitað er að eru skaðlegar heilsu almennings. Sjá nánar ,,Inventing Conflicts of Interest: A History of Tobacco Industry Tactics” eftir Allan M. Brandt, PhD; https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3490543/.

Því miður virðist sem almenningur og stjórnvöld annað hvort geri sér ekki grein fyrir hvernig þessi stórfyrirtæki (eins og þau sem eru að markaðssetja þráðlausa tækni) vinna eða velji að láta sérstanda á sama. Mín skoðun er að margir séu svo háðir þráðlausum búnaði að þeir velji afneitun og þekkingarleysi. Þar sem ég finn skaðann á ég erfitt með að velja þá leið. Ég hef líka kynnt mér fjöldann allan af rannsóknarniðurstöðum sem sýna fram á margar mismunandi afleiðingar geislunar. Það gerir mig áhyggjufulla varðandi framtíð barna og barnabarna – ekki bara minna – heldur allra. Það er þungbært að reka sig á að flestir velji að vita ekki, stingi höfðinu í sandinn og voni hið besta.

Ég vona líka hið besta, en sé því miður afleiðingarnar allt of víða. Vegna þekkingarleysis gera sér fæstir grein fyrir orsökinni á sinni líðan og gera þar af leiðandi ekki ráðstafanir til að minnka áreitið frá þráðlausri tækni. Fólk virðist mjög ginnkeypt fyrir þessari nýju tækni og vitneskja um skaðsemi hennar hefur ekki átt upp á pallborðið. Afneitun getur virst góð leið í upphafi, en getur kostað skert lífsgæði þegar fram í sækir.

Ég bið því fólk að kynna sér þessi mál vel frá öllum hliðum. Ekki láta mata ykkur. Ekki trúa öllu sem valdamenn segja ykkur. Þið eruð með lífið, börnin og framtíðina í ykkar höndum. Kynnið ykkur rannsóknarniðurstöður. Ég er tilbúin að senda ykkur efni ef þið viljið. Ef þið eruð með eitthvað af þeim einkennum sem hér er lýst að ofan – gerið ráðstafanir til að minnka geislaálagið. Beintengið tækin ykkar. Athugið hvort þið getið ekki minnkað einkennin með því að minnka áreitið frá öllu sem er þráðlaust. Margir sem hafa búið nálægt mastri eða veikst vegna snjallmæla, hafa t.d. flutt.

Tilgangur þessarar greinar er að:
1. að mótmæla þeirri skerðingu á mannréttindum sem ég og aðrir sem vilja ekki lifa við þessa geislamengun búa við,
2. að vara aðra við afleiðingum hennar,
3. að kalla eftir aðgerðum stjórnvalda til að standa vörð um líf og heilsu almennings,
4. að hvetja almenning til að lesa ritrýndar vísindagreinar óháðra vísindamanna og reiða sig ekki á stofnanir sem eru að gæta hagsmuna iðnaðarins.
Rafóþolið varð að láni í óláni í mínu tilfelli, ég er ekki blind, ég veit að þessi geislun er skaðleg. Ég vona að þið þurfið ekki að fá slíka viðvörun.

Höfundur: Andrína Guðrún Jónsdóttir, kennari og listamaður. Netfang: andrina_2@msn.com

 

Slóðir á athyglisverðar greinar:

,,The BioInitative“ hópurinn er með nýlega samantekt og úttekt á niðurstöðum á https://bioinitiative.org/

,,The Environmental Health Trust“ er líka heimasíða með mjög miklum upplýsingum: https://ehtrust.org/

Hér er heimasíða vísindamanna sem hafa verið að senda stórnvöldum ákall um að hætta uppsetningu 5G: https://www.5gspaceappeal.org/

Og hér er samantekt á þeim áköllum sem vísndamann og læknar hafa verið að senda í gegnum árin: https://mdsafetech.org/resolutions/

Heimasíða hóps sem kallar sig Physicians for safe Technology og er líka með góðar heimildir á heimasíðu sinni: https://mdsafetech.org/

Svo er kanadískur professor sem er með mjög gagnlegar upplýsingar á sinni síðu – eldri rannsóknir og nýjustu fréttir af þeim vísindamönnum sem eru að leggja sig fram um að koma réttum upplýsingum á framfæri:
https://magdahavas.com/

og svo þessi sem ég fann um daginn: http://oscillatorium.com/

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC7139347/

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC6685799/

https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/26474271/

Það er víst hægt að haldaendalaust áfram – en hætti hér. Stjórnvöldum víða um heim hafa verið sendar ályktanir og varnaðarorð vísindamanna í áraraðir en einhverra hluta vegan skella þau skollaeyrum við og upplýsingar frá Alþjóðastofnunum eins og t.d. WHO virðast mjög hliðhollar iðnaðinum – enda hefur verið bent á að einstaklingar sem þar hafa verið settirinn séu handbendi iðnaðarins. Spillingin á vonandi eftir að koma betur í ljós:
https://seriouslysensitivetopollution.org/2015/09/09/scientists-to-who-recognize-mcs-and-ehs/

 



Flokkar:Rafmagn, Umhverfið

Flokkar/Tögg